Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 219/1990

Gjaldár 1987

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. 1. mgr. — 30. gr. 1. mgr. A-liður 4. tl. og E-liður 3. tl. — 100. gr. 5. mgr. — 116. gr.   Auglýsing um skattmat ríkisskattstjóra tekjuárið 1986, liðir 2.2.2. og 3.6.0.  

Skattskyldar tekjur — Hlunnindi — Húsnæðishlunnindi — Launatekjur — Íbúðarhúsnæði — Skattmat ríkisskattstjóra — Hlunnindamat ríkisskattstjóra — Matsreglur ríkisskattstjóra — Húsnæðisafnot — Frádráttur frá hlunnindamati húsnæðis — Frádráttarheimild — Húsaleigufrádráttur — Frádráttur vegna greiddrar húsaleigu — Greidd húsaleiga, frádráttur — Afnot íbúðarhúsnæðis í eigu vinnuveitanda — Búsetukvöð — Kröfugerð ríkisskattstjóra — Fasteignarafnot

Málavextir eru þeir, að kærandi, sem starfar við X á vegum A, hafði afnot íbúðarhúsnæðis í eigu vinnuveitanda þar á staðnum. Samkvæmt greiðslumiða, er fylgdi skattframtali kæranda árið 1987, greiddi hann leigu að fjárhæð 21.638 kr. fyrir tímabilið 1. janúar 1986 til 31. desember 1986. Til frádráttar tekjum í reit 70 í skattframtali sínu árið 1987 færði kærandi helming hinnar greiddu húsaleigu eða 10.819 kr., sbr. 3. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Með bréfi, dags. 11. desember 1987, boðaði skattstjóri kæranda tekjufærslu á húsnæðishlunnindum vegna afnota af fyrrnefndu íbúðarhúsnæði í eigu A. Fjárhæð hlunnindanna yrði ákvörðuð þannig, að 2,7% af fasteignamatsverði B við X yrðu reiknuð honum til tekna eða 62.316 kr. og frá þeirri fjárhæð dregin greidd húsaleiga 21.638 kr. þannig að til skattskyldra tekna sem húsnæðishlunnindi yrðu færðar 40.678 kr. Jafnframt boðaði skattstjóri niðurfellingu frádráttar 10.819 kr. vegna greiddrar húsaleigu. Gefinn var 30 daga svarfrestur. Af hálfu kæranda var hinni fyrirhuguðu tekjufærslu mótmælt. Kom fram, að kærandi taldi greidda húsaleigu eðlilegt endurgjald fyrir húsnæðið miðað við staðsetningu, nýtingu á stærð og ástandi. A væri opinbert fyrirtæki, sem hlyti að leigja eignir sínar út á hæstu mögulegri leigu, og því benti allt til þess, að gangverð húsaleigu á þessum stað væri það, sem leigutakar greiddu. Þá yrði í þessu tilfelli að taka mið af aðstæðum fólks á þessum stað. Ekkert val væri um stærð húsnæðis svo sem rakið var nánar.

Með bréfi, dags. 17. maí 1988, tilkynnti skattstjóri kæranda um tekjufærslu húsnæðishlunninda 40.678 kr. og niðurfellingu greiddrar húsaleigu til frádráttar 10.819 kr. og endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda gjaldárið 1987 í því sambandi.

Umboðsmaður kæranda mótmælti breytingum skattstjóra í kæru, dags. 30. maí 1988, með vísan til áður framkominna röksemda.

Með kæruúrskurði, dags. 6. júlí 1989, synjaði skattstjóri kröfu kæranda. Forsendur skattstjóra eru svohljóðandi í hinum kærða úrskurði:

„Í leiðbeiningum ríkisskattstjóra við útfyllingu skattframtals stendur að hafi framteljandi og fjölskylda hans afnot af íbúðarhúsnæði sem vinnuveitandi lætur honum í té endurgjaldslaust skal framteljandi færa sér til tekna 2,7% af gildandi fasteignamati. Ef um endurgjald er að ræða sem er lægra heldur en 2,7% af fasteignamati skal meta mismuninn til tekna hjá launþega. Ljóst er að þér njótið húsnæðishlunninda hjá vinnuveitanda yðar. Greitt gjald fyrir aðstöðu þ.e. húsaleigu, ljós og hita var kr. 21.638 á árinu 1986. Þar sem fram kemur að húsnæðið var 140 fermetrar og 4 í heimili er ekki séð að umrætt húsnæði sé óhóflega stórt miðað við meðalstærð húsnæðis landsmanna og búseta virðist eingöngu vera í umræddu húsnæði. Yður voru reiknuð húsnæðishlunnindi skv. gildandi reglum og þau færð til tekna að frádregnum greiðslum til vinnuveitanda. Ekki var tekin afstaða til hlunninda vegna hita og ljósa og litið svo á að sleppa þeirri tekjufærslu að teknu tilliti til þess að ætla má að kvöð fylgi búsetu yðar í húsnæði vinnuveitanda og er því notuð heimild skattstjóra til lækkunar tekjufærslu á hlunnindamati. Með hliðsjón af ofanrituðu er ekki fallist á niðurfellingu á tekjufærslu vegna húsnæðishlunninda.“

Með kæru, dags. 3. ágúst 1989, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar og mótmælir tekjufærslu húsnæðishlunninda með sömu rökum og fram komu við meðferð málsins hjá skattstjóra.

Með bréfi, dags. 9. nóvember 1989, gerir ríkisskattstjóri svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Í kæru segir að kært sé vegna gjaldársins 1988 en af málsgögnum og efni kæru að öðru leyti verður eigi annað ráðið en að kært sé vegna beggja gjaldára 1987 og 1988 og er við það miðað hér.

Gerð er krafa um að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.“

Í kæru kemur skýrt fram, að kært er vegna skattframtals árið 1987 og tekjuársins 1986. Eiga athugasemdir í kröfugerð ríkisskattstjóra varðandi gjaldárið 1988 því eigi við rök að styðjast og varðar kæruefnið einungis gjaldárið 1987. Á það verður að fallast með skattstjóra, að kæranda beri að telja sér til tekna mismun 2,7% af fasteignamati þess íbúðarhúsnæðis, sem hann hefur til afnota á vegum vinnuveitanda síns, A, og greidds endurgjalds fyrir húsnæðisafnotin, sbr. 1. mgr. 1. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og lið 2.2.2. í skattmati ríkisskattstjóra framtalsárið 1987, útg. 7. janúar 1987. Að virtum málavöxtum verður að telja hlunnindi þessi kæranda til hagsbóta þannig að eigi kemur til álita neinn frádráttur á móti hinni tekjufærðu fjárhæð skv. 4. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. lið 3.6.0. í nefndu skattmati. Með því að greitt endurgjald kæranda fyrir húsnæðisafnotin hefur verið dregið frá við ákvörðun hlunnindafjárhæðar skv. skattmatsreglum ber kæranda eigi frádráttur skv. 3. tl. E-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981. Þann frádráttarlið hefur skattstjóri réttilega fellt niður. Með þessum athugasemdum þykir bera að synja kröfu kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja