Úrskurður yfirskattanefndar

  • Stimpilgjald, endurgreiðsla

Úrskurður nr. 102/2017

Lög nr. 138/2013, 3. gr., 9. gr. 1. mgr.  

Kærandi í máli þessu, sem var hlutafélag, var ekki talinn hafa sýnt fram á að endurgreiða bæri félaginu stimpilgjald af afsali vegna sölu skips til erlends félags á árinu 2015 þar sem kaupin hefðu gengið til baka og það réttarástand þannig ekki skapast sem hið gjaldskylda skjal ráðgerði.

Ár 2017, miðvikudaginn 7. júní, er tekið fyrir mál nr. 248/2016; kæra A hf., dags. 29. desember 2016, vegna ákvörðunar stimpilgjalds. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Kæra í máli þessu, dags. 29. desember 2016, varðar ákvörðun sýslumanns, dags. 1. október 2016, um stimpilgjald. Með ákvörðun sinni hafnaði sýslumaður kröfu kæranda um endurgreiðslu stimpilgjalds að fjárhæð 4.127.360 kr. vegna skjals er laut að eignaryfirfærslu fiskiskipsins N til erlends félags. Í kæru til yfirskattanefndar er þess krafist að kæranda verði endurgreitt stimpilgjald að fjárhæð 4.127.360 kr. með vöxtum samkvæmt II. kafla laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 15. desember 2015 til 16. júlí 2016 og dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla sömu laga frá 16. júlí til greiðsludags. Þá er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

II.

Málavextir eru þeir að með bréfi til sýslumanns, dags. 16. júní 2016, fór kærandi fram á endurgreiðslu stimpilgjalds að fjárhæð 4.127.360 kr. af skjali vegna afsals fiskiskipsins N til erlends félags, F Ltd. Í bréfinu kom fram að kærandi hefði þann 2. nóvember 2015 gert samning við R Ltd. um sölu á téðu skipi. Hefði R Ltd. verið veittur réttur til að tilnefna annan aðila í sinn stað til að taka við réttindum sínum og skyldum samkvæmt samningnum og hefði félagið tilnefnt F Ltd. í sinn stað fyrir áætlaða afhendingu skipsins í desember 2015. Afsal fyrir skipinu hefði verið útbúið 15. desember 2015 og stimpilgjald að fjárhæð 4.127.360 kr. greitt. Hefði skipið verið tekið af aðalskipaskrá Samgöngustofu tveimur dögum síðar. Ekki hefði hins vegar komið til afhendingar skipsins þar sem fjármögnun F Ltd. hefði ekki gengið eftir. Hefði félagið ítrekað fengið framlengdan frest til að greiða kaupverðið en greiðsla hefði ekki borist. Með viðauka nr. 4 við kaupsamninginn, dags. 15. júní 2016, hefði svo komist á samkomulag um að R Ltd. yrði kaupandi skipsins. Þar sem N hefði ekki verið afsalað til F Ltd. væri krafist endurgreiðslu stimpilgjaldsins. Vísaði kærandi til 9. gr. laga nr. 138/2013, um stimpilgjald, í þessum efnum.

Með ákvörðun, dags. 1. október 2016, hafnaði sýslumaður kröfu kæranda. Fram kom í bréfi sýslumanns að við skýringu á 21. gr. þinglýsingalaga nr. 39/1978 yrði að líta til þess að kaupsamningur fæli í sér skilyrtan eignarrétt og unnt væri að rifta þeim kaupum stæði kaupandi ekki við skyldur sínar. Afsali yrði hins vegar ekki þinglýst sem eignarheimild ef það uppfyllti ekki ákvæði 21. gr. laganna, þ.e. væri það háð öðrum skilyrðum um yfirfærslu eignarréttar en uppgjöri og greiðslu kaupverðs innan tiltekins frests. Vísaði sýslumaður ennfremur til fræðiritsins Þinglýsingalög, skýringarrit, bls. 271, þar sem kæmi fram að ef kaupandi og seljandi yrðu ásáttir um að rifta kaupum og láta þau ganga til baka dygði ekki að seljandi kvittaði á afsalið og fengi því aflýst. Fengi seljandi ekki þinglýsta eignarheimild með þeim hætti heldur yrði kaupandi að gefa út nýtt afsal til seljanda og yrði að þinglýsa því afsali. Umrætt skip væri 1.423,89 brúttótonn og lyti því reglum um fasteignir eftir því sem við væri komið samkvæmt 40. gr. þinglýsingalaga. Stimpilgjald hefði verið greitt af afsalinu á grundvelli 3. gr. laga nr. 138/2013, um stimpilgjald, enda afsalið gefið út hér á landi. Við útgáfu afsals tæki afsalshafi við öllum réttindum og skyldum er vörðuðu skipið og í þessu tilviki hefði skipið verið tekið af skipaskrá. Væri það mat þinglýsingarstjóra að ekki væri hægt að rifta afsali með þeim hætti sem hér um ræddi. Í niðurlagi bréfsins vakti sýslumaður athygli á því að við móttöku riftunarinnar hefði þinglýsingarstjóri átt að krefjast stimpilgjalds að fjárhæð 4.127.360 kr. á grundvelli 3. gr. laga nr. 138/2013 þar sem um eignaryfirfærslu væri að ræða, enda væri kærandi að eignast skipið að nýju. Væri umrætt erindi endursent kæranda þar sem félagið hefði ekki greitt stimpilgjald vegna þess.

III.

Í kafla I hér að framan er greint frá kröfugerð í kæru til yfirskattanefndar, dags. 29. desember 2016. Í kærunni eru málavextir raktir. Af hálfu kæranda er því í fyrsta lagi haldið fram að samkvæmt 1. mgr. 9. gr. laga nr. 138/2013 skuli sýslumaður endurgreiða stimpilgjald þegar ekki verði af því réttarástandi sem hið þinglýsta skjal ráðgerði. Eins og fram væri komið hefði í umræddu afsali verið gert ráð fyrir að við útgáfu afsalsins yrði kaupandi skipsins, F Ltd., óskilyrtur eigandi þess, en af því hafi ekki orðið. Í öðru lagi byggir kærandi á því að ekki sé rétt að líta til ákvæða þinglýsingalaga við skýringu á því hvaða réttindi og skyldur felist í afsali sem um ræðir. Sé ljóst að lögin taki aðeins til þinglýsinga og aflýsingar skjala, en umræddu afsali hafi hvorki verið þinglýst né aflýst hér á landi eða annars staðar. Þá hafi meðferð sýslumanns á skjalinu ekki verið samkvæmt fyrri framkvæmd þar sem erlendur aðili geti ekki þinglýst eign sinni á fiskiskip á Íslandi. Hafi afsalið ennfremur verið einhliða undirritað af seljanda og því ekki tækt til þinglýsingar. Þá hafi ekki verið rétt að þinglýsa afsalinu á skipið í umdæmi sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu þar sem skipið hafi verið með skráða heimahöfn á landsbyggðinni, sbr. 41. gr. þinglýsingalaga. Í þriðja lagi sé ekki rétt að líta svo á að afsalið hafi verið útgefið til kaupanda í skilningi laga þegar lögbókandi hafi undirritað og stimplað skjalið þann 15. desember 2015. Sé á því byggt að afsalið hafi aldrei verið formlega gefið út til hins erlenda kaupanda og því aldrei formlega verið rift, eins og sýslumaður geri ráð fyrir í ákvörðun sinni. Hafi kæranda verið gert að afla afsals og útstrikunarvottorðs til staðfestingar því að skipið hafi verið skráð af skipaskrá hér á landi. Þá hafi kæranda borið að ljúka framangreindum ráðstöfunum fyrir uppgjörsdag samnings. Í samræmi við þetta og fastmótaða venju í viðskiptum með skip hafi kærandi sent afrit af bæði afsalinu og útstrikunarvottorðinu til kaupanda þar sem skýrlega komi fram að það tæki ekki gildi og yrði ekki afhent kaupanda fyrr en kaupverð væri greitt. Sé um ræða algengasta form samninga sem notast sé við í alþjóðlegum viðskiptum með skip innan Evrópu. Í kærunni kemur fram að samkvæmt meðfylgjandi málskostnaðaryfirliti nemi kostnaður kæranda af rekstri málsins 651.527 kr.

IV.

Með bréfi, dags. 22. mars 2017, hefur sýslumaður lagt fram umsögn í málinu. Í umsögninni hafnar sýslumaður kröfum kæranda og vísar til fyrri ákvörðunar í málinu. Er ítrekað að afsal sé endanleg niðurstaða um löggerninga milli aðila er varði yfirfærslu eigna. Samkvæmt lögum um stimpilgjald skuli greiða stimpilgjald af eignaryfirfærslum og sé skjal stimpilskylt þótt því sé ekki þinglýst. Ágreiningur um hvort þetta tilgreinda afsal teljist afsal í sama skilningi og afsal vegna fasteigna heyri undir dómstóla en ekki sýslumann.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 28. mars 2017, var kæranda sent ljósrit af umsögn sýslumanns í málinu og félaginu gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar.

Með bréfi, dags. 30. mars 2017, eru gerðar athugasemdir í tilefni af umsögn sýslumanns og afstaða kæranda áréttuð.

V.

Kæruefnið í máli þessu er sú ákvörðun sýslumanns að synja kæranda um endurgreiðslu stimpilgjalds að fjárhæð 4.127.360 kr. af skjali er varðar eignaryfirfærslu fiskiskipsins N til erlends félags, F Ltd. Af hálfu kæranda er þess krafist að stimpilgjaldið verði endurgreitt, sbr. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 138/2013, um stimpilgjald, enda hafi ekki orðið af sölunni.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 138/2013, um stimpilgjald, skal greiða í ríkissjóð sérstakt gjald, stimpilgjald, af þeim skjölum sem gjaldskyld eru samkvæmt lögunum. Í fyrri málslið 1. mgr. 3. gr. laganna kemur fram að greiða skuli stimpilgjald af skjölum er varða eignaryfirfærslu skipa yfir 5 brúttótonnum sem skrásett eru hér á landi, svo sem afsölum, kaupsamningum og gjafagerningum. Í 9. gr. laganna er kveðið á um að sýslumaður skuli endurgreiða stimpilgjald þegar gjaldskylt skjal er ógilt með öllu að lögum eða ekki verður af því að það réttarástand skapist sem hið gjaldskylda skjal ráðgerði.

Samkvæmt gögnum málsins gerðu kærandi og R Ltd. með sér samning („Memorandum of Agreement“), dags. 2. nóvember 2015, um kaup hins síðarnefnda félags á skipinu N af kæranda. Í 8. gr. samningsins kemur fram að gegn greiðslu kaupverðs skuli seljandi láta kaupanda í té m.a. afsal og svonefnt útstrikunarvottorð. Með viðauka nr. 1 við samninginn var kaupanda veitt heimild til að tilnefna annað félag skráð innan Evrópusambandsins sem nýjan kaupanda samkvæmt samningnum. Með viðauka nr. 2, dags. 8. desember 2015, var kaupanda veitt heimild til að tilnefna félag skráð í Belís sem nýjan kaupanda samkvæmt samningnum. Í viðauka nr. 3 við samninginn, dags. 4. mars 2016, kemur fram að R Ltd. hafi nýtt sér rétt samkvæmt viðaukum nr. 1 og 2 við samninginn og tilnefnt F Ltd. í Belís sem nýjan kaupanda samkvæmt kaupsamningnum. Í viðaukanum kemur fram að kaupanda beri að greiða seljanda viðbótarinnborgun sem nemi 5% af kaupverðinu í síðasta lagi 11. mars 2016 og eftirstöðvar kaupverðsins fyrir 31. mars 2016, ellegar rifti seljandi samningnum. Í viðauka nr. 4 við samninginn, dags. 15. júní 2016, kemur fram að þar sem F Ltd. hafi ekki greitt kaupverð skipsins innan tilskilins frests hafi samningsaðilar komist að samkomulagi um að kaupandi skipsins verði R Ltd. Í viðauka nr. 5 við samninginn eru síðan ákvæði um greiðslufyrirkomulag.

Hið umþrætta afsal („Bill of Sale“) er dagsett 15. desember 2015 og undirritað af J fyrir hönd kæranda. Í afsalinu kemur fram að kærandi, sem sé eigandi skipsins N, lýsi því yfir og staðfesti að hann hafi selt og afhent skipið og fylgifé þess til kaupanda (F Ltd.) gegn greiðslu kaupverðs að fjárhæð 2.000.000 bandaríkjadalir. Til staðfestingar útgáfu afsalsins og undirritunar J, þ.m.t. að hann hafi umboð samkvæmt stöðu sinni til að koma fram fyrir hönd seljanda, er stimpill og undirritun lögbókanda, dags. 15. desember 2015. Samkvæmt 2. gr. laga nr. 86/1989, um lögbókandagerðir, telst lögbókandagerð opinber staðfesting á því sem efni hennar kveður á um. Eftir því sem fram kemur í ákvörðun sýslumanns var skipið tekið af skipaskrá vegna útgáfu afsalsins og staða þess í skipaskrá nú tilgreind óskráð.

Eins og fram er komið skal greiða stimpilgjald af skjölum er varða eignaryfirfærslu skipa yfir 5 brúttótonnum sem skrásett eru hér á landi, svo sem afsölum, kaupsamningum og gjafagerningum, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 138/2013. Í 2. mgr. 3. gr. laganna kemur fram að greiða skuli stimpilgjald vegna eftirrita af dómum, sáttum og lögbókandagerðum er skapa réttindi eða skyldur sem ekki hefur áður verið gert um gjaldskylt skjal, sbr. 1. mgr. Samkvæmt 3. mgr. 3. gr. fer gjaldskylda skjals eftir þeim réttindum er það veitir en ekki nafni þess eða formi. Í 1. mgr. 9. gr. kemur fram að sýslumaður skuli endurgreiða stimpilgjald þegar gjaldskylt skjal er ógilt með öllu að lögum eða ekki verður af því að það réttarástand skapist sem hið gjaldskylda skjal ráðgerði.

Ekki liggja fyrir önnur gögn í málinu um að hin umdeildu viðskipti með N hafi gengið til baka en fyrrgreindur viðauki við kaupsamning kæranda og hins erlenda félags þar sem þess er getið að tilnefndur kaupandi hafi ekki efnt skyldur sínar til greiðslu kaupverðs. Í fyrirliggjandi afsali kæranda, dags. 15. desember 2015, felst hins vegar yfirlýsing félagsins um að kaupandi skipsins hafi efnt skyldur sínar samkvæmt kaupsamningi, eins og jafnan tíðkast í afsalsgerningum. Var skjal þetta því stimpilskylt samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 138/2013, sbr. og 2. mgr. 3. gr. laganna. Tekið skal fram að afsal verður ekki skilyrt með þeim hætti sem kærandi heldur fram, hvað sem líður afhendingu afrits afsalsins til kaupanda með fyrirvara um greiðslu kaupverðs. Þá verður ekki ráðið af kaupsamningi kæranda og R Ltd., dags. 2. nóvember 2015, að gerð hafi verið krafa um afhendingu afsals og útstrikunarvottorðs eða annarra gagna áður en kaupverð skyldi innt af hendi.

Samkvæmt framansögðu þykir kærandi ekki hafa sýnt fram á að endurgeiða beri félaginu hið umdeilda stimpilgjald á grundvelli 1. mgr. 9. gr. laga nr. 138/2013. Að því gættu verður að hafna kröfum kæranda í málinu. Samkvæmt þeim úrslitum málsins eru jafnframt ekki fyrir hendi lagaskilyrði til þess að ákvarða kæranda málskostnað til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með síðari breytingum. Kröfu þess efnis er því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja