Úrskurður yfirskattanefndar

  • Aðflutningsgjöld
  • Endursending vöru til landsins

Úrskurður nr. 110/2017

Lög nr. 88/2005, 6. gr. 1. mgr. 6. tölul.   Reglugerð nr. 630/2008, 54. gr.  

Kærandi, sem var verktakafyrirtæki, sendi ýmsan búnað frá Íslandi til Færeyja árið 2012 vegna byggingarverkefnis systurfélags kæranda þar í landi. Að loknum framkvæmdum á árinu 2016 flutti kærandi búnaðinn aftur hingað til lands. Í úrskurði yfirskattanefndar var gerð grein fyrir forsögu tollfrelsisákvæðis vegna vöru sem endursend væri hingað til lands og m.a. bent á að skilyrði um tímafrest til endursendingar vöru án greiðslu aðflutningsgjalda ætti sér langa sögu í tollalöggjöf. Var talið að málefnaleg rök byggju að baki ákvæði í reglugerð um tímafrest fyrir tollfrelsi og að það hefði verið innan valdheimilda ráðherra að setja reglugerðarákvæðið. Þá væri enginn greinarmunur gerður í reglugerðinni á vörum eftir því hvort þær væru forgengilegar eða þeim ætlaður langur notkunartími. Var talið að ákvæði reglugerðarinnar um ársfrest til endursendingar vöru yrði allt að því marklaust ef því yrði beitt með þeim hætti sem kærandi hélt fram. Var kröfum kæranda hafnað.

Ár 2017, miðvikudaginn 28. júní, er tekið fyrir mál nr. 235/2016; kæra A ehf., dags. 12. desember 2016, vegna ákvörðunar aðflutningsgjalda. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Kristinn Gestsson. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Kæra í máli þessu, dags. 12. desember 2016, varðar kæruúrskurð tollstjóra, dags. 25. nóvember 2016, um ákvörðun aðflutningsgjalda vegna innflutnings kæranda á tækjum og búnaði til byggingarframkvæmda, sbr. aðflutningsskýrslu, dags. 12. október 2016, en búnað þennan hafði kærandi sent til Færeyja árið 2012 til nota við framkvæmdir á vegum systurfélags síns.

Með úrskurðinum synjaði tollstjóri kröfu kæranda um niðurfellingu aðflutningsgjalda af hinni innfluttu vöru. Í kæru til yfirskattanefndar er þess krafist að úrskurður tollstjóra verði felldur úr gildi.

II.

Kærandi er verktakafyrirtæki á sviði mannvirkjagerðar. Á árinu 2012 sendi kærandi ýmsan búnað til byggingaframkvæmda, þar á meðal byggingakrana, steypumót, vinnupalla og vinnustaðagáma, frá Íslandi til Færeyja vegna byggingarverkefnis í Þórshöfn á vegum færeysks systurfélags kæranda. Að loknum þeim framkvæmdum á árinu 2016 flutti kærandi búnaðinn aftur hingað til lands. Aðflutningsskýrsla kæranda mun hafa borist tollstjóra 12. október 2016. Næsta dag gerði tollstjóri athugasemd við skýrsluna þar sem fram kom að greiða bæri aðflutningsgjöld af hluta sendingarinnar. Því til stuðnings vísaði tollstjóri til 54. gr. reglugerðar nr. 630/2008, um ýmis tollfríðindi, þar sem kveðið væri á um ársfrest vegna endursendra vara.

Með kæru, dags. 26. október 2016, fór kærandi fram á að félaginu yrði heimilað að flytja umræddar vörur aftur til Íslands án greiðslu aðflutningsgjalda, sbr. heimild í 54. gr. reglugerðar nr. 630/2008. Í kærunni var gerð grein fyrir helstu málsatvikum og tekið fram að kærandi hefði á sínum tíma greitt gjöld og skatta af vörunum.

Tollstjóri hafnaði kröfu kæranda með kæruúrskurði, dags. 25. nóvember 2016. Í úrskurðinum var rakið að meginregla tollalaga nr. 88/2005 væri að greiða skyldi aðflutningsgjöld af öllum vörum sem fluttar væru til landsins. Undantekningar frá toll- og skattskyldu bæri að túlka þröngt og yrði því að gera ríkar kröfur um að skilyrðum þeirra væri fullnægt. Slíka undantekningu væri m.a. að finna í 54. gr. reglugerðar nr. 630/2008, en samkvæmt því ákvæði væru vörur, sem endursendar væru hingað til lands, undanþegnar aðflutningsgjöldum að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, þar á meðal að vara væri flutt á ný til landsins innan árs talið frá útflutningsdegi hennar. Tollstjóra væri heimilt að veita lengri frest. Við mat á því hvort það skyldi gert bæri embættinu að byggja á málefnalegum sjónarmiðum og gæta að jafnræði borgaranna. Að áliti tollstjóra væri markmið umrædds ákvæðis að veita heimild til endursendinga á vörum sem færu tímabundið úr landi en hefðu hlotið tollmeðferð hér á landi áður. Eðlilegt hefði talist að miða slíkt tímabil við eitt ár frá útflutningsdegi og tollverð væri með sambærilegum hætti og við útflutning. Með 2. tölul. 54. gr. reglugerðar nr. 630/2008 hefði framkvæmdavaldið metið eitt ár hæfilegan tíma. Yrði lengri frestur aðeins veittur ef sérstaklega stæði á og aðstæður væru slíkar að töf eða óviðráðanlegar aðstæður vörnuðu innflytjanda að flytja vöruna aftur inn innan tilskilins frests. Gæti aukinn frestur þó ekki farið óhóflega fram úr þeim viðmiðunum sem væru í ákvæðinu. Fjögur ár væru liðin frá útflutningsdegi í tilviki kæranda og engar sérstakar ástæður tilgreindar fyrir því að vörurnar hefðu verið fluttar á ný til landsins utan frests ákvæðisins. Teldi tollstjóri því ekki hægt að fallast á að endursending umrædds búnaðar af hálfu kæranda gæti fallið undir undantekningu 1. mgr. 54. gr. reglugerðar nr. 630/2008.

III.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar, dags. 12. desember 2016, er krafist ógildingar á kæruúrskurði tollstjóra. Er atvikum málsins lýst þannig að kærandi sé umfangsmikill verktaki sem helst starfi við umfangsmikla mannvirkjagerð bæði hér heima og erlendis. Árið 2011 hafi systurfyrirtæki kæranda, [...], samið um byggingarframkvæmd þar í landi sem verið hafi talsvert stærra en fyrirtækið hefði áður unnið. Því hafi verið óhjákvæmilegt annað hvort að kaupa mikið af búnaði eða fá tæki kæranda send til Færeyja. Mikill verkefnaskortur hafi verið í byggingariðnaði hér heima og því legið beint við að senda öll tæki til Færeyja sem ekki hafi verið í notkun á Íslandi. Um hafi verið að ræða vinnustaðagáma, vinnustaðagirðingar, byggingarkrana, steypumót, undirsláttarefni, vinnupalla og vinnulyftur auk alls kyns annarra smærri tækja og tóla. Umrædd tæki séu öll töluverð fjárfesting og hafi langan líftíma sé viðhaldi sinnt. Nú sé verkinu lokið og hafi tækin því verið flutt aftur til Íslands. Kærandi hafi greitt öll gjöld og skatta af tækjunum við upprunalegan innflutning til Íslands og ekki fengið endurgreitt þegar tækin hafi farið til Færeyja. Hafi kærandi því gert ráð fyrir að gjöld vegna tækjanna yrðu ekki lögð á í annað sinn þegar þau yrðu flutt til Íslands.

Til stuðnings kröfu kæranda er í kærunni fjallað almennt um lögmætisregluna í íslenskum rétti og m.a. tekið fram í því samhengi að lögmætisreglan stuðli að réttaröryggi borgaranna og sé stjórnunartæki löggjafans gagnvart framkvæmdarvaldinu. Þá er í kærunni fjallað um 6. tölul. 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005 og tekið fram að ákvæðið sé afdráttarlaust um tollfrelsi endursendra vara. Engin tímamörk séu í lögunum né takmarki þau þennan rétt á annan hátt. Umrædd regla sé eðlileg og sjálfsögð, enda ætlað að koma í veg fyrir tvísköttun sem sé andstæð meginreglum um gjaldtöku í íslenskum rétti. Fyrirliggjandi og óumdeilt sé að tæki, sem í málinu greini, hafi verið flutt frá landinu. Því séu öll skilyrði þessa gjaldfrelsis uppfyllt og geti stjórnvaldið því ekkert annað gert en að fallast á kröfu kæranda.

Þá er í kærunni fjallað um rétthæð réttarheimilda og gerð grein fyrir ákvæðum stjórnarskrárinnar um skatta, sbr. 40. gr. og 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar. Kærandi telji að takmörkunin á eftirgjöf gjalda í 54. gr. reglugerðar nr. 630/2008 gangi lengra en samrýmist geti kröfum 40. og 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar. Fjármálaráðherra hafi í reglugerðinni sett skilyrði fyrir lækkun skatta sem ekki finnist heimild fyrir í settum lögum. Hafi stjórnvaldið þannig tekið sér vald sem samkvæmt skýlausum ákvæðum stjórnarskrár sé einungis á hendi löggjafans. Umræddar kröfur reglugerðarinnar séu því ólögmætar og ekki á þeim byggjandi. Hin umdeilda stjórnvaldsákvörðun tollstjóra sé því ógild. Reglugerðarákvæði geti einfaldlega ekki vikið til hliðar ákvæði laga. Verði stjórnvaldið að virða lögmætisregluna og fara að fyrirmælum löggjafans en ekki hinum ólögmætu fyrirmælum framkvæmdarvaldsins.

Þá kemur fram í kærunni að verði ekki fallist á framangreind rök sé byggt á því að ákvæði 2. tölul. 1. mgr. 54. reglugerðar nr. 630/2008 hafi verið beitt með röngum hætti. Ákvæðið sé almennt og eigi við allar tegundir af vörum, hvort sem þær séu ferskvörur og aðrar neysluvörur eða fastafjármunir sem nýttir séu um langa hríð. Tækjum kæranda sé ætlaður langur endingartími og séu þau notuð við verkframkvæmdir sem geti varað um árabil. Taka beri tillit til þessa við beitingu ákvæðisins. Vissulega sé um að ræða nokkuð frávik frá meginreglunni, en sanngjarnt og eðlilegt sé að líta til þess að verkið í Færeyjum hafi einfaldlega tekið nokkur ár. Sé gjaldfrjáls endurinnflutningur ekki leyfður í slíku tilfelli séu tækifæri íslenskra verktakafyrirtækja til að taka þátt í framkvæmdum erlendis verulega takmörkuð. Slík skerðing samkeppnisgrundvallar sé þvert á markmið umræddra ákvæða.

IV.

Með bréfi, dags. 26. janúar 2017, hefur tollstjóri lagt fram umsögn í málinu. Er þess krafist af hálfu tollstjóra að niðurstaða hins kærða úrskurðar verði staðfest. Fram kemur í umsögninni að ákvæði 6. gr. tollalaga nr. 88/2005 feli í sér undantekningar frá almennri toll- og skattskyldu sem túlka beri þröngt og séu gerðar ríkar kröfur um að öll skilyrði undantekninga séu uppfyllt. Ákvæði 2. mgr. 6. gr. tollalaga leggi þá skyldu á herðar ráðherra að kveða í reglugerð á um nánari skilyrði tollfrelsis samkvæmt greininni. Lengi hafi tíðkast að útfæra takmarkanir í reglugerðum til að kveða nánar á um efnisleg atriði í tilteknum skatta- og tollamálum, svo sem í skattmatsreglum ríkisskattstjóra og undanþágureglum tollalaga, sbr. úrskurð ríkistollanefndar nr. 5/2013. Því hafni tollstjóri rökum kæranda um að umrætt ákvæði í 54. gr. reglugerðar nr. 630/2008, um ýmis tollfríðindi, eigi sér ekki stoð í lögum eða sé í andstöðu við lögmætisregluna.

Vegna sjónarmiða kæranda um að tollstjóri hafi beitt framangreindu reglugerðarákvæði með röngum hætti eru ítrekuð rök embættisins í hinum kærða úrskurði. Vegna athugasemdar í kæru um áhrif ákvörðunar tollstjóra á möguleika íslenskra fyrirtækja erlendis er í umsögninni tekið fram að embættinu sé ekki heimilt að mismuna á grundvelli atvinnu né annarra sjónarmiða þegar tekin sé matskennd ákvörðun á grundvelli laga og reglna.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 31. janúar 2017, var kæranda send umsögn tollstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum af því tilefni. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

V.

Kæra í máli þessu varðar ákvörðun aðflutningsgjalda vegna tækja og búnaðar til notkunar við byggingarframkvæmdir sem kærandi flutti til landsins í október 2016 frá Færeyjum, sbr. kæruúrskurð tollstjóra, dags. 25. nóvember 2016. Fram er komið að tæki þessi og búnaður var sendur til Færeyja á vegum kæranda á árinu 2012 og notaður þar við byggingarframkvæmdir á vegum systurfélags kæranda. Með úrskurði sínum hafnaði tollstjóri því að hluti hinnar innfluttu vöru væri tollfrjáls á grundvelli 6. tölul. 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005 í ljósi þess tíma sem liðinn væri frá útflutningi búnaðarins, sbr. 1. mgr. 54. gr. reglugerðar nr. 630/2008, um ýmis tollfríðindi. Samkvæmt aðflutningsskýrslu vegna sendingarinnar verður ráðið að tollstjóri hafi fallist á að hluti sendingarinnar, þ.e. vara sem felld var í tollskrárnúmer 7308.4000, nyti undanþágu og nam niðurfelldur tollur 7.970 kr. og virðisaukaskattur 40.167 kr. Vara, sem tollstjóri taldi ekki njóta tollfrelsis, var felld í tollskrárnúmer 6810.9100, 7308.9002, 7326.9019 og 8609.0000. Álögð aðflutningsgjöld námu samtals 1.528.157 kr., þar af almennur tollur 308.631 kr., úrvinnslugjald 521 kr. og virðisaukaskattur 1.219.005 kr.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. tollalaga nr. 88/2005 er hver sá tollskyldur sem flytur vöru til landsins til endursölu, afhendingar án endurgjalds eða eigin nota eða verður ábyrgur fyrir greiðslu tolla samkvæmt ákvæðum laganna, sbr. þó 4. gr. laganna um takmarkaða tollskyldu aðila sem þar eru tilgreindir. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. skal greiða toll af þeim vörum sem fluttar eru inn á tollsvæði ríkisins, en í 6. gr. laganna er mælt fyrir um vissar vörur sem skuli vera tollfrjálsar. Kemur þar fram í 6. tölul. 1. mgr. að tollfrelsi taki til vara „sem endursendar eru hingað frá útlöndum vegna þess að þær seldust ekki þar eða endursendar eru hingað frá útlöndum af öðrum orsökum og færðar séu að mati tollyfirvalds fullnægjandi sönnur fyrir því að um sé að ræða vörur útfluttar héðan“. Í 2. mgr. 6. gr. segir að ráðherra skuli með reglugerð kveða nánar á um skilyrði tollfrelsis samkvæmt lagagreininni. Í 1. mgr. 54. gr. reglugerðar nr. 630/2008, um ýmis tollfríðindi, er nánar kveðið á um almenn skilyrði tollfrelsis vegna endursendra vara. Þar kemur fram að vörur, þar með talið umbúðir, sem endursendar séu hingað til lands frá útlöndum skuli vera undanþegnar aðflutningsgjöldum að uppfylltum skilyrðum í tveimur töluliðum málsgreinarinnar.

Annars vegar kemur fram það skilyrði í 1. tölul. að aðflutningsgjöld hafi ekki verið endurgreidd við útflutning varanna. Hins vegar kemur fram í 2. tölul. það skilyrði að vara sé flutt á ný til landsins innan árs talið frá útflutningsdegi hennar, nema tollstjóri heimili lengri frest. Í 2. mgr. 54. gr. reglugerðarinnar segir að beiðni um undanþágu samkvæmt 1. mgr. skuli látin tollstjóra í té innan sex mánaða frá komu flutningsfars til landsins.

Tollfrelsisákvæðið í 6. tölul. 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005 mun eiga rætur allt til tollalaga árið 1914. Orðalag ákvæðisins var fært í hliðstætt horf og nú gildir með breytingu á j-lið 2. gr. laga nr. 62/1939, um tollskrá o.fl., sem gerð var með 2. gr. laga nr. 71/1947. Var þá fellt niður það skilyrði í áður gildandi lögum að hinar endursendu vörur skyldu koma í sömu umbúðum og þær fóru frá Íslandi. Í athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum nr. 71/1947 kemur fram að ákvæðið í j-lið 2. gr. laga nr. 62/1939 hafi verið sett í tollalög árið 1914 vegna saltfisks sem endursendur væri frá útlöndum. Oftast hafi reynst ókleift að fullnægja því skilyrði að hinar endursendu vörur, t.d. skinn og vefnaðarvara, kæmu í sömu umbúðum og þær fóru í héðan, enda væru vörur þessar oftast skoðaðar og umpakkaðar erlendis, þótt öðru máli gegndi um saltfisk. Þætti rétt að bæta um ákvæðið í samræmi við fengna reynslu.

Hvað snertir skilyrði um tímafrest vegna tollfrelsis á framangreindum grundvelli er þess að geta að með lögum nr. 71/1947 var kveðið á um að endursendar vörur skyldu koma hingað til lands innan árs frá því þær færu héðan. Það nýmæli kom til sögu með lögum nr. 7/1963, um tollskrá o.fl., að fjármálaráðuneytið mætti víkja frá þessu skilyrði, ef sérstaklega stæði á. Ekki er að sjá umfjöllun um þessa breytingu í lögskýringargögnum. Sú breyting varð á regluverki tollamála með tollalögum nr. 55/1987, sem tóku gildi 1. september 1997, að skilyrði um tímafrest vegna undanþágu sem hér um ræðir var ekki að finna í lögunum, sbr. 9. tölul. 1. mgr. 5. gr. laganna. Á hinn bóginn var kveðið á um almenna heimild til ráðherra til setningar reglna um tollfrelsi samkvæmt lagagreininni, sbr. 2. mgr. 5. gr. laganna, sem er hliðstæð núgildandi reglugerðarheimild í 2. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005. Heimild til setningar reglna á grundvelli 2. mgr. 5. gr. tollalaga nr. 55/1987 virðist fyrst hafa verið nýtt með reglum nr. 5/1990, um tollfrelsi samkvæmt 9. og 10. tölulið 5. gr. tollalaga nr. 55/1987, með síðari breytingum. Kom þar fram að tollfrjáls innflutningur samkvæmt reglum þessum væri m.a. bundinn því skilyrði að tollafgreiðsla vegna endursendra vara færi fram innan árs talið frá útflutningsdegi þeirra, nema tollstjóri heimilaði lengri frest. Reglur nr. 5/1990 féllu úr gildi við gildistöku reglugerðar nr. 797/2000, um undanþágu aðflutningsgjalda í ýmsum tilvikum, en þar brá svo við að ekki var að finna heimild til fráviks frá eins árs fresti til að flytja endursendar vörur til landsins án greiðslu aðflutningsgjalda, sbr. 10. gr. reglugerðarinnar. Reglugerð nr. 797/2000 var síðan leyst af hólmi með núgildandi reglugerð nr. 630/2008.

Forsaga 6. tölul. 1. mgr. 6. gr. tollalaga þykir frekast benda til þess að ákvæðinu hafi í öndverðu verið ætlað að taka til vöru sem innflytjandi hefði áður flutt út til sölu í atvinnuskyni, sbr. einnig orðan 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. reglna nr. 5/1990 og 1. tölul. 10. gr. reglugerðar nr. 797/2000. Áskilnaður af þessu tagi kemur þó ekki fram í lagaákvæðinu og er ekki að finna í reglugerð nr. 630/2008. Meðferð tollstjóra á aðflutningsskýrslu kæranda, þar sem aðflutningsgjöld voru ekki lögð á hluta hinnar innfluttu vöru, ber og með sér að tollstjóri hefur ekki talið nein tormerki á því að innflutningur kæranda á tækjum og búnaði til byggingarframkvæmda sem í málinu greinir geti notið tollfrelsis samkvæmt fyrrgreindu ákvæði tollalaga, sbr. og 54. gr. reglugerðar nr. 620/2008, svo fremi að fullnægt sé skilyrði um tímafrest samkvæmt reglugerðarákvæðinu. Verður fjallað um ágreiningsefnið á þessum grundvelli.

Af hálfu kæranda er í fyrsta lagi byggt á því að tímatakmörkun 2. tölul. 1. mgr. 54. gr. reglugerðar nr. 630/2008 gangi lengra en samrýmst geti kröfum 40. og 1. mgr. 77. gr. stjórnarskrárinnar. Ekki sé heimild fyrir þessu skilyrði í settum lögum og hafi ráðherra þannig seilst inn á svið löggjafans. Umrætt skilyrði samkvæmt reglugerðinni sé því ólögmætt og breyti engu um það gjaldfrelsi sem kveðið sé á um í tollalögum. Ákvörðun tollstjóra sé því ógild, enda geti reglugerðarákvæði ekki vikið lagaákvæði til hliðar.

Eins og rakið hefur verið hefur skilyrði um að að endursend vara skuli flutt að nýju til landsins innan árs frá útflutningi og heimild stjórnvalda (upphaflega ráðuneytis og síðar tollstjóra) til að víkja frá þeim tímafresti, ef sérstaklega stendur á, verið að finna í tollalöggjöfinni eða reglugerðum, sem settar hafa verið með stoð í tollalögum, allt frá gildistöku laga nr. 7/1963, þó með afbrigði í tíð reglugerðar nr. 797/2000. Fyrir gildistöku laga nr. 7/1963 hafði skilyrði um endursendingu vöru innan eins árs verið í lögum a.m.k. frá árinu 1947. Ákvæði um frest til endursendingar vöru án greiðslu aðflutningsgjalda á sér þannig langa sögu og varð engin grundvallarbreyting á regluverki tollamála að þessu leyti eftir að ýmis skilyrði fyrir undanþágu eða endurgreiðslu aðflutningsgjalda voru felld úr tollalögum og færð í stjórnvaldsreglur á grundvelli lagaheimildar í 2. mgr. 5. gr. tollalaga nr. 55/1987 og síðar 2. mgr. 6. gr. núgildandi tollalaga. Verður að ganga út frá því að málefnaleg rök búi að baki umræddu ákvæði um tímamörk fyrir tollfrelsi endursendrar vöru, en hliðstæð tímaleg skilyrði fyrir undanþágum eða sérreglum um tollmeðferð má víða finna í tollalögum og reglugerðum samkvæmt þeim lögum. Samkvæmt framansögðu verður að byggja á því að það hafi verið innan valdheimilda ráðherra að setja ákvæði þetta í reglugerðina. Málsástæðu kæranda um hið öndverða er því hafnað.

Í kæru er jafnframt byggt á því að tollstjóri hafi beitt umræddu reglugerðarákvæði með röngum hætti. Tiltekur kærandi að ákvæðið eigi jafnt við ferskar og forgengilegar vörur sem fastafjármuni með langan endingartíma. Hvað snerti aðstæður í tilviki kæranda beri að taka tillit til þess að tækjum kæranda sé ætlaður langur endingartími, að þau séu notuð í verkframkvæmdir sem vari árum saman, og að verkið í Færeyjum hafi tekið nokkur ár. Þá er í þessu sambandi tekið fram að sé gjaldfrjáls endurinnflutningur ekki leyfður þegar atvik séu með þeim hætti sem um ræði séu tækifæri íslenskra verktakafyrirtækja til að vinna verk erlendis verulega takmörkuð.

Í máli þessu er um að tefla búnað og tæki vegna byggingarstarfsemi sem kærandi flutti til Íslands fjórum árum eftir að þau voru flutt úr landi til Færeyja. Þessi tími er verulega umfram þau tímamörk (ársfrest) sem tilgreind eru í 2. tölul. 1. mgr. 54. gr. reglugerðar nr. 630/2008. Samkvæmt ákvæðinu er tollstjóra heimilt að veita lengri frest en þar greinir. Ekki kemur fram að sú heimild sé bundin takmörkunum, þar á meðal að sérstaklega skuli standa á, svo sem orðað var í lögum nr. 7/1963, en allt að einu verða almenn jafnræðissjónarmið talin leiða til þess að naumast verði vikið frá ársfrestinum nema sérstök atvik hafi orðið til þess að ekki hafi náðst að senda vöru til baka innan þess tíma. Að virtum skýringum í kæru til yfirskattanefndar verður ekki séð að fyrirhugað hafi verið að flytja umræddan búnað að nýju til landsins innan árs frá því að hann var fluttur út, enda skírskotar kærandi aðallega til þess að eðlilegt sé að byggingarframkvæmdir taki langan tíma. Eins og á er bent í kæru er ekki gerður greinarmunur í 54. gr. reglugerðar nr. 630/2008 á vörum eftir því hvort þær eru forgengilegar eða þeim ætlaður langur notkunartími. Þykir þetta mæla gegn því að tekið verði tillit til þess að sökum eiginleika búnaðar kæranda hafi hann verið notaður um árabil erlendis og því ekki verið fluttur að nýju til landsins fyrr en raunin varð á. Verður raunar að telja að ákvæði um tímafrest væri allt að því marklaust ef því væri beitt með þeim hætti sem felst í kröfugerð kæranda. Rökfærsla kæranda þykir að öðru leyti ekki gefa tilefni til að vikið verði frá tímafresti samkvæmt 54. gr. reglugerðar nr. 630/2008.

Samkvæmt framansögðu er kröfu kæranda um ógildingu úrskurðar tollstjóra hafnað.


Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja