Úrskurður yfirskattanefndar

  • Sambýlisfólk
  • Sönnun

Úrskurður nr. 289/2009

Gjaldár 2004, 2005 og 2006

Lög nr. 90/2003, 62. gr. 3. mgr., 68. gr. A- og B-liður.  

Ágreiningur í máli þessu laut að því hvort kærandi hefði verið í sambúð með B á árunum 2003, 2004 og 2005 þannig að reglur um barna- og vaxtabætur sambýlisfólks ættu við í tilviki hennar og B. Kærandi hélt því fram að hún og B hefðu slitið óvígðri sambúð á árinu 2002 og tekið upp sambúð að nýju á árinu 2006. Skattstjóri taldi hins vegar að slit sambúðar kæranda og B hefðu í reynd ekki komið til framkvæmda og vísaði í þeim efnum m.a. til fyrirliggjandi upplýsinga um fasteignakaup kæranda og B á sama tíma og tilkynnt hefði verið um sambúðarslitin og upplýsinga í minningargrein um ömmu kæranda þar sem B var getið sem sambýlismanns kæranda. Yfirskattanefnd taldi ekki hafa verið sýnt fram á að kærandi hefði verið í sambúð með B á umræddum tíma í skilningi 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003. Var því fallist á kröfu kæranda um ógildingu úrskurðar skattstjóra.

I.

Kæruefnið í máli þessu er sú ákvörðun skattstjóra sem hann tók með úrskurði um endurákvörðun, dags. 27. maí 2008, að miða álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárin 2004, 2005 og 2006 við að kærandi hefði verið í sambúð með B, á árunum 2003, 2004 og 2005 og þau uppfyllt að öðru leyti skilyrði til skattlagningar samkvæmt 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, þannig að þau sættu skattlagningu sem sérskattað sambýlisfólk í stað skattlagningar kæranda sem einstæðs foreldris og B sem einhleypings. Leiddi þetta til þess að kæranda og B voru ákvarðaðar barnabætur og vaxtabætur sameiginlega í samræmi við ákvæði 4. og 5. málsl. 1. mgr. A-liðar 68. gr. og 4. og 7. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003. Leiddi ákvörðun skattstjóra til þess að barnabætur kæranda umrædd gjaldár lækkuðu, gjaldárið 2004 úr 619.135 kr. í 102.294 kr. eða um 516.841 kr., gjaldárið 2005 úr 565.629 kr. í 59.704 kr. eða um 505.925 kr. og gjaldárið 2006 úr 639.254 kr. í 64.884 kr. eða um 574.370 kr. Vaxtabætur kæranda gjaldárið 2004 lækkuðu úr 190.521 kr. í 122.493 kr. eða um 68.028 kr., úr 207.139 kr. í 118.611 kr. eða um 88.528 kr. gjaldárið 2005 og úr 218.042 kr. í 140.186 kr. eða um 77.856 kr. gjaldárið 2006. Ákvarðaðar barnabætur og vaxtabætur skiptust til helminga milli kæranda og B.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 27. júní 2008, er þess krafist af hálfu umboðsmanns kæranda að úrskurður skattstjóra um endurákvörðun, dags. 27. maí 2008, verði felldur niður. Þá er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði að mati yfirskattanefndar og í þeim efnum verði tekið tillit til greiðslu virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

II.

Málavextir eru þeir að samkvæmt skattframtölum kæranda árin 2004, 2005 og 2006 var fjölskyldumerking kæranda 2+2+1 í skattframtali árið 2004 og 2+1+2 í skattframtölum árin 2005 og 2006, þ.e. einhleypingur með börn. Á forsíðu skattframtalanna voru forárituð nöfn þriggja barna, þeirra D, F og G. Samkvæmt Þjóðskrá var lögheimili kæranda á greindum tíma að L-götu í Hafnarfirði. Kærandi staðfesti í þar til gerðum reit á forsíðu skattframtalanna að hún væri einstætt foreldri. Við almenna álagningu opinberra gjalda gjaldárin 2004, 2005 og 2006 var álagningu á kæranda hagað í samræmi við þá stöðu.

Með bréfi, dags. 7. mars 2007, beindi skattstjóri þeirri fyrirspurn til kæranda hvort hún væri í sambúð með B og tók fram að fyrir lægju upplýsingar um að kærandi kynni að uppfylla skilyrði samsköttunar vegna þeirrar sambúðar. Rakti skattstjóri orðrétt ákvæði 1. mgr. A-liðar og 1. og 7. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003 og tók fram að samkvæmt þeim ákvæðum skyldi ákvarða vaxtabætur og barnabætur hjá sambúðarfólki, enda þótt það óskaði ekki eftir samsköttun, en uppfyllti eftir sem áður skilyrði 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003. Varðandi þær upplýsingar, sem skattstjóri vísaði til, kom fram í fyrsta lagi að kærandi og B ættu saman íbúðarhúsnæði að L-götu í Hafnarfirði, en kærandi hefði ekki á greiðslumiðum gert grein fyrir leigugreiðslum til B fyrir afnot af eignarhlutdeild hans í íbúðinni í skattframtölum undanfarin ár. Þá lægi fyrir samkvæmt skattframtölum kæranda árin 2003, 2004, 2005 og 2006 að kærandi væri greiðandi af öllum áhvílandi lánum á L-götu, en óskað væri skýringa kæranda á því af hverju hún teldi allar skuldirnar að fullu sínar. Einnig skyldi upplýst af hverju kærandi hefði eignfært íbúðarhúsnæðið að L-götu að fullu í skattframtölum sínum árin 2004 og 2005. Ennfremur lægi fyrir að fram hefði komið í minningargrein um P í Morgunblaðinu hinn ... febrúar 2005 að B væri sambýlismaður kæranda. Auk þess lægi fyrir að kærandi hefði ekki þegið meðlag með börnum sínum frá Tryggingastofnun ríkisins. Þá hefði komið í ljós við athugun skattstjóra að bifreiðin N hefði verið staðsett fyrir utan L-götu í Hafnarfirði dagana 11. febrúar og 2. mars 2007, en fyrir lægi samkvæmt meðfylgjandi skýrslu um bifreiðaeftirlit að B væri umráðamaður bifreiðarinnar „fyrir utan daglegan vinnutíma“, eins og þar sagði. Í ljósi framangreindra upplýsinga væri lagt fyrir kæranda að upplýsa um það hvort hún og B hefðu verið í sambúð frá 1. nóvember 2002 til dagsins í dag.

Með bréfi, dags. 9. mars 2007, bárust svör umboðsmanns kæranda. Þar kom fram að kærandi og B hefðu verið í sambúð frá árinu 1994 og fram í október 2002. Á sambúðartímanum hefðu þau eignast tvö börn, hið fyrra á árinu 1997 og hið síðara á árinu 2002. Í kjölfar fæðingar seinna barnsins hefði kærandi orðið fyrir því óláni að barnið hefði verið sérlega óvært og kærandi af þeim sökum verið vansvefta er valdið hefði þunglyndi. Hefði þetta leitt til sambúðarslita og B flutt út af heimilinu. Hins vegar hefði verið ákveðið að selja ekki að svo stöddu sameiginlegt íbúðarhúsnæði þeirra. Kærandi hefði verið mjög illa haldin af þunglyndinu og ekki haft neina burði til að eignast húsnæði upp á eigin spýtur, en hún hefði eftir sambúðarslitin ein alið upp börnin þrjú. Vegna þessara erfiðleika hefði B endrum og sinnum verið inni á heimilinu, auk þess sem fjölskylda hennar hefði aðstoðað. Rofað hefði til hjá kæranda á árinu 2006 og hefðu þau B þá ákveðið að hefja sambúð að nýju, en gleymst hefði að skrá sambúðina. Sambúðin væri óskráð, en til stæði að bæta úr því. Þá kom fram að B hefði greitt meðlag með börnunum eftir sambúðarslitin og ættu launaseðlar hans að staðfesta það. Tilvitnuð minningargrein hefði verið rituð af móður kæranda, en hún hefði verið mjög viðkvæm fyrir ástandi dóttur sinnar og því að hún væri einstæð móðir með þrjú börn. Varðandi eignfærslu íbúðarinnar hefði hún átt að skiptast til helminga í skattframtölum kæranda og B og sama gilti um skuldir vegna öflunar eignarinnar. B hefði séð um framtalsgerð fyrir þau bæði og stöfuðu mistökin af vankunnáttu hans. Ekki hefði verið eðlilegt að kærandi greiddi leigu til B, enda hefði hann viljað styðja hana og börn þeirra. Ef skattstjóri teldi ástæðu til væri mögulegt að leggja fram staðfestingu læknis á veikindum kæranda.

Með bréfi, dags. 3. janúar 2008, boðaði skattstjóri kæranda endurákvörðun opinberra gjalda hennar gjaldárin 2003, 2004, 2005 og 2006, sbr. 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003. Skattstjóri vísaði til fyrirspurnarbréfs síns, dags. 7. mars 2007, sem hann rakti orðrétt, sbr. þargreindar upplýsingar er bentu til þess að kærandi uppfyllti skilyrði fyrir samsköttun samkvæmt 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003. Skattstjóri reifaði skýringar í svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 9. mars 2007, og tók fram að ekki yrði annað ráðið af bréfi umboðsmannsins en að B hefði verið búsettur að L-götu vegna veikinda kæranda á umræddum árum. Þá teldi skattstjóri skýringar, er vörðuðu minningargrein um ömmu kæranda, ekki geta talist trúverðugar, þ.e. að veita rangar upplýsingar í minningargrein um hjúskaparstöðu. Vísaði skattstjóri síðan til þess að samkvæmt framlögðum launaseðlum B, en sambærilegt mál væri rekið vegna hans, væri hann ávallt skráður með heimili að L-götu, enda þótt hann hefði ekki flutt lögheimili sitt þangað fyrr en 9. mars 2007 eða sama dag og þau hefðu skráð sig í sambúð. Yrði því ekki annað séð en að B hefði búið að L-götu á því tímabili sem um væri að ræða eða frá 1. nóvember 2002. Samkvæmt Þjóðskrá hefðu kærandi og B slitið sambúð hinn 1. nóvember 2002, en fyrir lægi að þau hefðu keypt íbúðina að L-götu hinn 29. október 2002 og hefði hún verið afhent þeim hinn 6. desember s.á. Fyrra íbúðarhúsnæði þeirra að H-götu hefði verið selt hinn 31. júlí 2002, en afhent nýjum kaupendum hinn 15. október s.á. B hefði því haft skráð lögheimili í tæplega fjögur og hálft ár að H-götu, eftir að það húsnæði hefði verið selt. Vísaði skattstjóri síðan til bréfs umboðsmanns B, dags. 16. apríl 2007, þar sem fram hefði komið að B hefði á umræddum tíma búið hjá foreldrum sínum, vinum og kunningjum, en sú skýring þætti skattstjóra ekki trúverðug, sbr. tilgreiningu á launaseðlum B á heimili kæranda sem hún hefði flutt í á sama tíma og meint sambúðarslit hefðu gerst, sbr. tilgreiningar í Þjóðskrá. Þá þættu skýringar um búsetu B í tæplega fjögur og hálft ár frá sambúðarslitum ekki trúverðugar, enda væri viðurkennt að hann hefði af og til verið inni á heimili kæranda. Það að B hefði veitt kæranda fjárhagsstuðning vegna veikinda hennar og verið af og til inni á heimilinu þætti renna stoðum undir það að kærandi hefði ekki verið einstætt foreldri á greindum tíma, auk þess sem kaup kæranda og B á íbúðarhúsnæði að L-götu hinn 29. október 2002 þættu benda til hins sama. Þá vék skattstjóri að þeim skýringum í svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 9. mars 2007, að sambúðinni hefði verið slitið í október 2002 og B flutt brott af heimilinu, en ákveðið að selja ekki að svo stöddu sameiginlega íbúð þeirra. Ekki yrði annað ráðið en hér væri átt við íbúðina að L-götu, þ.e. að B hefði flutt með kæranda í þá íbúð. Hann hefði ekki verið eigandi að íbúðinni að H-götu með kæranda er seld hefði verið í lok júlí 2002. Þá tók skattstjóri fram að í skattframtölum kæranda árin 2003, 2004, 2005 og 2006 hefði íbúðarhúsnæðið að L-götu verið að fullu eignfært og skuldir og vaxtagjöld af þeim hefðu auk þess að fullu verið tilgreindar þar. Þau ár hefði kærandi því fengið ákvarðaðar vaxtabætur sem samrýmdust ekki hennar hlutdeild í skuldum og vaxtagjöldum af húsnæðinu. Fram hefði komið að B hefði séð um framtalsgerð. Í umræddum skattframtölum hefði forskráning hins vegar gert ráð fyrir helmings eignarhlutdeild kæranda. Þessi framtalsháttur þætti benda til þess að B og kærandi hefðu haldið sameiginlegt heimili og að ekki væri fákunnáttu B um að kenna. Í niðurlagi boðunarbréfsins tók skattstjóri fram að með vísan til framangreinds og 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 3. mgr. 63. gr. laga nr. 75/1981, væri fyrirhugað að skattleggja kæranda og B sem sérskattað sambýlisfólk gjaldárin 2003, 2004, 2005 og 2005. Rakti skattstjóri í framhaldinu áhrif þessa á ákvörðun barnabóta og vaxtabóta kæranda og gerði grein fyrir viðeigandi réttarreglum í því sambandi. Varðandi barnabætur vísaði skattstjóri til 4. og 5. málsl. 1. mgr. A-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003 og varðandi vaxtabætur til 7. mgr. B-liðar sömu lagagreinar. Þá tók skattstjóri fram að við ákvörðun barnabóta yrði miðað við samanlagðar tekjur beggja sambúðaraðila sem áhrif hefðu á útreikning bótanna, sbr. 3. og 4. mgr. A-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003 þar sem fram kæmu fjárhæðir óskertra barnabóta og fjárhæðir skerðingarmarka varðandi útreikning á barnabótum ásamt skerðingarhlutfalli er væri mismunandi eftir barnafjölda. Í 7. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003 kæmi fram að skipta bæri vaxtabótum milli hjóna. Hið sama gilti um sambúðarfólk sem uppfyllti í lok tekjuárs skilyrði 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003, enda þótt það óskaði ekki eftir að vera skattlagt eftir þeirri grein. Við ákvörðun vaxtabóta væri miðað við samanlagðar tekjur og eignir beggja sambúðaraðila sem áhrif hefðu á útreikning bótanna. Vísaði skattstjóri þar að lútandi til 3. og 4. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 90/2002 þar sem fram kæmu fjárhæðir hámarks vaxtagjalda ásamt skerðingarhlutfalli og fjárhæðir skerðingarmarka varðandi útreikning á vaxtabótum. Ekki gerði skattstjóri sérstaklega tölulega grein fyrir hinum boðuðu breytingum. Var kæranda veittur 20 daga frestur, miðað við dagsetningu bréfsins, til að andmæla fyrirhuguðum breytingum.

Með bréfi, dags. 22. janúar 2008, andmælti umboðsmaður kæranda hinum boðuðu breytingum skattstjóra og taldi að engin haldbær rök lægju fyrir er réttlættu breytingarnar. Varðandi eignarhald á umræddu íbúðarhúsnæði að L-götu í Hafnarfirði þá mótmælti umboðsmaðurinn því að sameiginlegt eignarhald kæranda og B á húsnæðinu staðfesti að um sambúð hefði verið að ræða. Staðreyndin væri sú að þau hefðu slitið sambúð sinni á árinu 2002 hjá sýslumanni, sbr. meðfylgjandi staðfestingu sýslumanns, dags. 17. desember 2002, á slitum sambúðarinnar. Við fyrirtöku málsins hjá sýslumanni hefði B tilkynnt að heimili hans yrði að K-götu í Reykjavík. Hann hefði hins vegar enga skýringu á því hvers vegna þær upplýsingar hefðu ekki ratað í Þjóðskrá, eins og hefði mátt vænta. Kærandi og B hefðu átt tvö börn saman við sambúðarslitin, en þau hefðu ákveðið að B hyrfi af heimilinu þar sem sambúðin hefði þá ekki gengið, meðal annars vegna veikinda kæranda, sem skattstjóra hefði verið gerð grein fyrir. Varðandi upplýsingar um sambúð í minningargrein um ömmu kæranda tók umboðsmaðurinn fram að ítrekað væri að móðir hennar hefði ritað greinina og gætu kærandi og B ekki borið ábyrgð á skrifum hennar eða stjórnað þeim, enda hefðu þau ekkert haft um það að segja hvert efni greinarinnar yrði. Vegna tilvísunar skattstjóra til staðsetningar á vinnubifreið í umráðum B við L-götu tilgreinda daga í febrúar og mars 2007 kom fram af hálfu umboðsmannsins að sú röksemd væri óskiljanleg, enda hefði komið fram í svarbréfi, dags. 9. mars 2007, að þau B hefðu tekið aftur upp sambúð vorið 2006. Sú sambúð hefði hins vegar ekki verið skráð fyrr en síðar. Umboðsmaður kæranda vísaði til þess að í boðunarbréfi skattstjóra, dags. 3. janúar 2008, hefði verið lagt fyrir kæranda að upplýsa hvort þau B hefðu verið í sambúð tímabilið 1. nóvember 2002 til ársloka 2005. Því væri til að svara að sambúðinni hefði verið slitið í desember 2002, sbr. greinda staðfestingu sýslumanns. Þá benti umboðsmaðurinn á að samkvæmt 62. gr. laga nr. 90/2003 væri einungis um heimild að ræða fyrir sambúðarfólk til að vera skattlagt saman, en engin skylda í þá veru. Þá væri ekki að finna í lögum neina skyldu fyrir eigendur fasteigna „til nokkurra aðgerða vegna þinglýsingar“, eins og þar sagði. Það hefði því algerlega verið í þeirra valdi að ákveða hvenær breytingar yrðu gerðar á þinglýstri eignarheimild vegna L-götu.

Með úrskurði um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda, dags. 27. maí 2008, hratt skattstjóri hinum boðuðu breytingum í framkvæmd, sbr. 5. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, þó þannig að skattstjóri féll frá boðaðri endurákvörðun opinberra gjalda gjaldárið 2003. Leiddu breytingar skattstjóra af þeirri niðurstöðu hans að telja yrði að kærandi og B hefðu verið í sambúð á greindum tíma sem uppfyllti skilyrði 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003. Af þeim sökum yrði skattmeðferð kæranda gjaldárin 2004, 2005 og 2006 ekki hagað eftir reglum um einstætt foreldri og B sem einhleypings, heldur samkvæmt reglum um sérskattað sambýlisfólk. Af því leiddi að áður ákvörðuðum barnabótum og vaxtabótum kæranda var breytt. Samkvæmt því voru kæranda og B ákvarðaðar barnabætur og vaxtabætur sameiginlega í samræmi við ákvæði 4. og 5. málsl. 1. mgr. A-liðar 68. gr. og 4. og 7. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003. Leiddi ákvörðun skattstjóra til þess að barnabætur kæranda umrædd gjaldár lækkuðu, gjaldárið 2004 úr 619.135 kr. í 102.294 kr. eða um 516.841 kr., gjaldárið 2005 úr 565.629 kr. í 59.704 kr. eða um 505.925 kr. og gjaldárið 2006 úr 639.254 kr. í 64.884 kr. eða um 574.370 kr. Vaxtabætur kæranda gjaldárið 2004 lækkuðu úr 190.521 kr. í 122.493 kr. eða um 68.028 kr., úr 207.139 kr. í 118.611 kr. eða um 88.528 kr. gjaldárið 2005 og úr 218.042 kr. í 140.186 kr. eða um 77.856 kr. gjaldárið 2006. Ákvarðaðar barnabætur og vaxtabætur skiptust til helminga milli kæranda og B.

Skattstjóri rakti gang málsins og bréfaskipti í því í úrskurði sínum. Tók hann boðunarbréf sitt, dags. 3. janúar 2008, orðrétt upp í úrskurðinum. Þá fjallaði skattstjóri um andmælabréf umboðsmanns kæranda, dags. 22. janúar 2008, og vék að athugasemdum umboðsmannsins við einstök atriði í röksemdum skattstjóra. Vegna andmæla umboðsmannsins tók skattstjóri fram að því væri ekki haldið fram að aðilar gætu ekki átt saman íbúð án þess að vera í sambúð. Eins og fram kæmi í boðunarbréfi þættu sameiginleg kaup á fasteigninni að L-götu hinn 29. október 2002 ekki bera með sér að sambúðarslitum hefði verið fyrir að fara í sama mánuði. Í tilviki kæranda væri málum hins vegar þannig farið að þau B hefðu á sama tíma og þau hefðu tilkynnt um sambúðarslit keypt fasteign saman. Þætti þetta benda eindregið til þess að sambúðarslit hefðu ekki komið til framkvæmda þótt tilkynnt hefði verið um þau til sýslumanns, enda væri fram komið að B hefði af og til verið á heimili kæranda. Vegna athugasemda um að B hefði við fyrirtöku sambúðarslitamáls hjá sýslumanni tilkynnt um heimilisfang að K-götu tók skattstjóri fram að B hefði þó mátt vera ljóst að lögheimili hans hefði ekki verið skráð þar, enda hefðu gögn, eins og skattframtöl, álagningarseðlar o.fl., verið send á skráð lögheimili hans að H-götu áður en hann flutti það að L-götu hinn 9. mars 2007. Hefði B tæpast látið óátalið að fá sendan póst að H-götu ef hann hefði í raun verið búsettur að K-götu. Varðandi athugasemdir um að kærandi og B gætu ekki borið ábyrgð á upplýsingum, sem móðir kæranda hefði sett í minningargrein um ömmu hennar, tók skattstjóri fram að almennt þætti mega gera ráð fyrir því að náinn ættingi gæfi réttar upplýsingar þegar svo háttaði til, þrátt fyrir að kærandi bæri ekki ábyrgð á eða stjórnaði skrifunum. Þá rakti skattstjóri staðsetningu bifreiðar í umráðum B við heimili kæranda tilgreinda daga í febrúar og mars 2007 og athugasemdir umboðsmanns kæranda varðandi það atriði. Er ekki ástæða til að rekja þá umfjöllun frekar þar sem hún hefur ekki þýðingu við úrlausn málsins. Skattstjóri tók fram að það væri rétt hjá umboðsmanni kæranda að ekki væri um skyldu að ræða fyrir sambýlisfólk að vera skattlagt saman samkvæmt 62. gr. laga nr. 90/2003. Ef sambýlisfólk uppfyllti hins vegar skilyrði samsköttunar í lok tekjuárs hefði það áhrif á barnabætur og vaxtabætur, sbr. tilgreind ákvæði A- og B-liða 68. gr. laga nr. 90/2003. Vegna athugasemda umboðsmanns kæranda varðandi þinglýsingu fasteignar kæranda og B tók skattstjóri fram að röksemdir sínar hvað snerti það atriði byggðust á því að þau hefðu fest kaup á íbúð á sama tíma og þau hefðu tilkynnt um sambúðarslit, en vörðuðu á engan hátt þinglýsingarheimildir samkvæmt lögum nr. 39/1978, um þinglýsingar. Þinglýsing veitti sönnur um eignarheimildir og tilhögun kæranda og B á þinglýstum eignarheimildum vegna L-götu væri aðeins eitt þeirra atriða sem skattstjóri hefði litið til við mat á því hvort sönnun lægi fyrir um sambúð í skilningi greinds ákvæðis skattalaga. Kvaðst skattstjóri telja óyggjandi að kærandi og B hefðu verið í sambúð á umræddum tíma í ljósi fyrirliggjandi upplýsinga og gagna í málinu. Tók skattstjóri fram að umboðsmaður kæranda hefði ekkert vikið að því að heimili B hefði verið tilgreint að L-götu á launaseðlum hans, en það þætti einnig veita vísbendingu í þessum efnum.

III.

Umboðsmaður kæranda hefur með kæru, dags. 27. júní 2008, skotið úrskurði skattstjóra um endurákvörðun, dags. 27. maí 2008, til yfirskattanefndar. Er þess krafist að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi.

Í kærunni gerir umboðsmaður kæranda grein fyrir málavöxtum. Kærandi og B hefðu verið í óvígðri sambúð í 14 ár þegar þau hafi slitið sambúðinni í desember 2002. Þau eigi saman tvö börn, annað fætt árið 1997 og hitt árið 2002. Eftir fæðingu yngra barnsins hafi kærandi þjáðst af fæðingarþunglyndi svo alvarlegu að upp úr sambúðinni hafi slitnað í árslok 2002. Við afgreiðslu sambúðarslitamálsins hjá sýslumanni hafi þeim verið tjáð að upplýsingar um ný heimilisföng og forsjá barnanna yrðu sendar til Þjóðskrár. Kærandi hefði leitað sér lækninga vegna veikinda sinna á árinu 2003, en starfsmaður skattstjóra hefði án skýringa hafnað boði um framlagningu læknisvottorðs. Boðar umboðsmaðurinn að læknisvottorð vegna veikinda kæranda verði lagt fram hjá yfirskattanefnd innan tíðar. Fram kemur að íbúðin að L-götu hafi verið skráð eign kæranda og B að jöfnu, en kærandi hefði tekið að sér að greiða af skuldum þar sem hún hefði búið í íbúðinni eftir sambúðarslitin með börn þeirra beggja. Hefði B ekki talið rétt vegna veikinda kæranda að fara fram á sölu íbúðarinnar. Ítrekar umboðsmaðurinn síðan í aðalatriðum fyrri athugasemdir, sbr. sérstaklega andmælabréf hans, dags. 22. janúar 2008, varðandi eignarhald á íbúðinni, efni umræddrar minningargreinar, staðsetningu bifreiðar í umráðum B að L-götu o.fl. Að auki kemur fram að skattstjóri líti fram hjá þeirri staðreynd að fram komi á launaseðlum og yfirliti frá Innheimtustofnun sveitarfélaga að B hafi greitt meðlag með börnunum allt frá sambúðarslitum á árinu 2002 og þar til sambúð hófst að nýju á árinu 2006. Ennfremur er ítrekað að B hafi algerlega haft það í valdi sínu hvort eða hve háa leigu kærandi greiddi vegna eignarhluta hans í íbúðinni eftir sambúðarslitin. Vegna athugasemda skattstjóra varðandi heimilisfang á launaseðlum B tók umboðsmaðurinn fram að B hefði starfað hjá vinnuveitanda sínum frá því löngu fyrir sambúðarslit og hefði hann einfaldlega ekki athugað að biðja um breytingu á skráningu, enda ekki talið það neinu skipta. Þá hefði þetta ekki skipt vinnuveitandann neinu máli. Umboðsmaður kæranda áréttar að allar röksemdir skattstjóra fyrir ákvörðun sinni séu haldlausar og ekki til þess fallnar að leiða til þeirrar niðurstöðu sem raunin varð á hjá embættinu. Varðandi kröfu um málskostnað tekur umboðsmaðurinn fram að hún sé byggð á ákvæðum laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd. Hafi framgangur málsins hjá skattstjóra verið með þeim hætti að kærandi hafi ekki talið annað fært en að leita aðstoðar lögmanns og tekur umboðsmaðurinn nú fram að þess sé krafist að málskostnaður verði greiddur í samræmi við framlagðan málskostnaðarreikning.

IV.

Með bréfi, dags. 29. ágúst 2008, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Þess er krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 1. september 2008, var kæranda sent ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra í málinu og henni gefinn kostur á að tjá sig um kröfugerðina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

V.

Kæruefnið í máli þessu er sú ákvörðun skattstjóra samkvæmt hinum kærða úrskurði um endurákvörðun, dags. 27. maí 2008, að haga skattlagningu á kæranda gjaldárin 2004, 2005 og 2006 miðað við að kærandi teldist hafa verið í sambúð með B frá 1. nóvember 2002 til loka ársins 2005 er uppfyllti lagaskilyrði til skattlagningar eftir þeim reglum sem um hjón gilda, sbr. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, þannig að þau sættu skattlagningu sem sérskattað sambýlisfólk. Hafnaði skattstjóri því að kærandi hefði haft stöðu einstæðs foreldris á umræddum tíma, eins og hún hefði tilgreint í skattframtölum sínum árin 2004, 2005 og 2006, og B stöðu barnlauss einhleypings. Kærandi og B eiga saman tvö börn, F, sem fædd er árið 1997, og G, sem fædd er árið 2002. Fram kemur í málinu að kærandi og B voru í skráðri sambúð tímabilið frá 15. janúar 1998 til 1. nóvember 2002 samkvæmt skráningu í Þjóðskrá. Þá er fram komið að sambúð þeirra var skráð að nýju í Þjóðskrá hinn 9. mars 2007, en upplýst er af hálfu kæranda að sambúð hafi í raun verið tekin upp að nýju vorið 2006. Í málinu er tekist á um það hvort sambúð hafi í raun verið fyrir að fara umrætt tímabil frá 1. nóvember 2002 til ársloka 2005 þrátt fyrir skráningu um slit sambúðar, sbr. staðfestingu sýslumannsins í Hafnarfirði, dags. 17. desember 2002, er fylgdi andmælabréfi umboðsmanns kæranda, dags. 22. janúar 2008, og liggur fyrir í málinu. Taldi skattstjóri að svo hefði verið. Af hálfu kæranda er þeirri ályktun mótmælt og því haldið fram að rök skattstjóra fyrir niðurstöðu sinni séu haldlaus. Ákvörðun skattstjóra og ágreiningsefni málsins hefur þýðingu varðandi barnabætur og vaxtabætur kæranda, sbr. tilgreiningar í lið 5.2 í skattframtölum kæranda árin 2004, 2005 og 2006 varðandi hinar síðarnefndu bætur. Leiddi ákvörðun skattstjóra til þess að kæranda og B voru ákvarðaðar barnabætur og vaxtabætur sameiginlega í samræmi við ákvæði 4. og 5. málsl. 1. mgr. A-liðar 68. gr. og 4. og 7. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003. Leiddi ákvörðun skattstjóra til þess að barnabætur kæranda umrædd gjaldár lækkuðu, gjaldárið 2004 úr 619.135 kr. í 102.294 kr. eða um 516.841 kr., gjaldárið 2005 úr 565.629 kr. í 59.704 kr. eða um 505.925 kr. og gjaldárið 2006 úr 639.254 kr. í 64.884 kr. eða um 574.370 kr. Vaxtabætur kæranda gjaldárið 2004 lækkuðu úr 190.521 kr. í 122.493 kr. eða um 68.028 kr., úr 207.139 kr. í 118.611 kr. eða um 88.528 kr. gjaldárið 2005 og úr 218.042 kr. í 140.186 kr. eða um 77.856 kr. gjaldárið 2006. Ákvarðaðar barnabætur og vaxtabætur skiptust til helminga milli kæranda og B.

Skattstjóri studdi ákvörðun sína við ýmis atriði, sbr. hinn kærða úrskurð um endurákvörðun, dags. 27. maí 2008. Í fyrsta lagi byggði skattstjóri á því að sameiginleg kaup kæranda og B á íbúðarhúsnæði að L-götu í Hafnarfirði á sama tíma og tilkynnt var um sambúðarslit bentu eindregið til þess að sambúðarslitin hefðu ekki komið til framkvæmda þrátt fyrir tilkynningu um þau til sýslumanns. Í öðru lagi vísaði skattstjóri til þess að kærandi hefði upplýst, sbr. svarbréf, dags. 9. mars 2007, að B hefði af og til verið á heimili kæranda á greindum tíma og veitt kæranda fjárstuðning, þ.e. ekki krafist leigu af kæranda vegna eignarhluta síns í íbúðinni. Í þriðja lagi virðist skattstjóri hafa horft til þess hvernig færslu umrædds íbúðarhúsnæðis og skulda vegna öflunar þess var háttað í skattframtölum kæranda umrædd ár. Í fjórða lagi vísaði skattstjóri til þess að í minningargrein (dánartilkynningu með æviágripi), sem móðir kæranda ritaði um móður sína og ömmu kæranda, er birtist í Morgunblaðinu í febrúar 2005, væri B tilgreindur sambýlismaður kæranda. Í fimmta lagi byggði skattstjóri á því að samkvæmt framlögðum launaseðlum væri B skráður til heimilis að L-götu þótt hann hefði ekki flutt lögheimili sitt þangað fyrr en 9. mars 2007, sbr. Þjóðskrá. Lögheimili B samkvæmt skráningu í Þjóðskrá hefði verið að H-götu í Hafnarfirði á greindum tíma eða í þeirri íbúð sem seld hefði verið í júlílok 2002. Stæðist það engan veginn og ennfremur væri tilgreining heimilisfangs B að K-götu í Reykjavík í fyrrgreindri staðfestingu sýslumanns um sambúðarslit ekki trúverðug. Sama væri að segja um skýringar B sjálfs um búsetu hjá foreldrum, vinum og kunningjum. Í bréfi sínu, dags. 7. mars 2007, vísaði skattstjóri einnig til þess að kærandi hefði ekki fengið meðlagsgreiðslur vegna barnanna. Fyrir liggur að sú ályktun skattstjóra á ekki við rök að styðjast, sbr. gögn málsins, þar á meðal umrædda staðfestingu sýslumanns. Verður ekki séð að skattstjóri hafi byggt á þessu, eins og umboðsmaður kæranda álítur í kæru til yfirskattanefndar. Þá verður ekki séð að staðsetning bifreiðar í umráðum B við L-götu tilgreinda daga í febrúar og mars 2007 hafi skipt neinu máli í ákvörðun skattstjóra svo sem umboðsmaður kæranda álítur í kærunni, enda varðar það ekki það tímabil, sem málið tekur til, auk þess sem viðurkennt er af hálfu kæranda að sambúð hafði verið tekin upp að nýju á þessum tíma. Af hálfu kæranda er því haldið fram að hún hafi haft stöðu einstæðs foreldris á umræddum árum, enda hafi sambúð ekki verið til að dreifa hvað sem líður samskiptum kæranda við B. Er rökum skattstjóra hafnað af hálfu umboðsmanns kæranda og þau talin haldlaus svo sem reifað er nánar í kæru til yfirskattanefndar. Nánar tiltekið er því hafnað að kaup á umræddri fasteign og eignarhald á henni hafi nokkra þýðingu við mat á því hvort sambúð hafi verið fyrir að fara. Þá virðist því haldið fram að heimili B hafi verið að K-götu hvað sem líður vanfærslu í Þjóðskrá. Upplýsingar í dánarfregn með æviágripi hafi mótast af tilfinningalegum ástæðum svo sem nánar er rakið. Þá hafi tilgreining heimilisfangs á launaseðlum enga þýðingu. Láðst hefði að breyta þeirri skráningu, enda varði það vinnuveitandann engu hvað þar sé tilgreint. Skattstjóri hafi því engan veginn sýnt fram á að kærandi hafi verið í sambúð á umræddum tíma. Því sé þess krafist að úrskurði skattstjóra verði hnekkt.

Samkvæmt 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003, eins og ákvæðið hljóðaði fyrir breytingar með 11. gr. laga nr. 65/2006 og 5. gr. laga nr. 76/2007, skulu karl og kona, sem búa saman í óvígðri sambúð og eiga sameiginlegt lögheimili, eiga rétt á að telja fram og vera skattlögð sem hjón sem samvistum eru, ef þau hafa átt barn saman eða konan er þunguð eða sambúðin hefur varað samfleytt í að minnsta kosti eitt ár, enda óski þau þess bæði skriflega við skattyfirvöld. Samkvæmt 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003, eftir breytingar með 11. gr laga nr. 65/2006 og 5. gr. laga nr. 76/2007, skulu karl og kona í óvígðri sambúð eiga rétt á að telja fram og vera skattlögð sem hjón, sem samvistum eru, enda óski þau þess bæði skriflega við skattyfirvöld. Með óvígðri sambúð sé hér átt við sambúð karls og konu sem skráð er eða skrá má í Þjóðskrá samkvæmt 3. mgr. 7. gr. laga um lögheimili, enda eigi þau barn saman eða von á barni saman eða hafi verið samvistum í samfellt eitt ár hið skemmsta. Skattstjóra sé heimilt að leita umsagnar Þjóðskrár þyki vafi leika á um að skráningarskilyrði séu uppfyllt. Sama gildi um sambúð einstaklinga af sama kyni. Samkvæmt 1. mgr. A-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003 skal ríkissjóður greiða barnabætur með hverju barni innan 16 ára aldurs á tekjuárinu, sem heimilisfast er hér á landi og er á framfæri þeirra sem skattskyldir eru samkvæmt 1. gr. laganna. Bæturnar skal greiða til framfæranda barnsins, en framfærandi telst sá aðili sem hefur barnið hjá sér og annast framfærslu þess í lok tekjuársins. Sá er greiðir meðlag með barni telst ekki framfærandi í þessu sambandi. Í 3. mgr. A-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003 er kveðið á um fasta fjárhæð barnabóta með öllum börnum yngri en sjö ára á tekjuárinu. Samkvæmt 4. mgr. stafliðarins skal greiða tekjutengdar barnabætur með hverju barni innan 16 ára aldurs á tekjuárinu og er fjárhæð hinna tekjutengdu barnabóta hærri í tilviki einstæðra foreldra heldur en einstaklinga. Samkvæmt greindu ákvæði 1. mgr. A-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003 skulu hjón, sem skattlögð eru samkvæmt 62. gr. laganna, bæði teljast framfærendur og skal skipta barnabótum milli þeirra til helminga. Sama gildir um sambýlisfólk, sem uppfyllir skilyrði 3. mgr. 62. gr., þótt það óski ekki eftir að vera skattlagt samkvæmt þeirri grein. Með hliðstæðum hætti er gert ráð fyrir því í lögum að fjárhæð vaxtabóta ráðist af fjölskyldustöðu rétthafa með því að hámark bóta ræðst af því hvort um er að ræða einstakling, einstætt foreldri eða hjón eða sambýlisfólk, sbr. 10. málsl. 4. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003. Þá kemur fram í 7. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003 að vaxtabótum hjóna skuli skipt til helminga á milli þeirra og að hið sama gildi um sambýlisfólk, sem uppfyllir skilyrði samsköttunar, sbr. 3. mgr. 62. gr., í lok tekjuárs, enda þótt það óski ekki eftir að vera skattlagt samkvæmt þeirri grein.

Ekki er fyrir að fara almennri og samræmdri skilgreiningu á óvígðri sambúð í íslenskri löggjöf, enda þótt margvísleg réttaráhrif séu bundin við það sambúðarform. Samkvæmt almennum skilningi er með óvígðri sambúð átt við karl og konu, sem búa saman sem hjón, án þess að hafa gengið í hjúskap lögum samkvæmt. Þar sem óvígð sambúð hvílir ekki á formbundnum samningi, eins og hjúskapur, er sönnun fyrir stofnun hennar einatt torveld og sama gildir raunar um slit óvígðrar sambúðar. Með 1. gr. laga nr. 65/2006, um breytingu á lagaákvæðum er varða réttarstöðu samkynhneigðra (sambúð, ættleiðingar, tæknifrjóvgun), er meðal annars breytti 7. gr. laga nr. 21/1990, um lögheimili, var berum orðum kveðið á um heimild fólks í sambúð til að fá hana skráða í Þjóðskrá, en áður var sú heimild ólögfest. Jafnframt voru tekin af tvímæli um að tveir einstaklingar af sama kyni gætu fengið slíka sambúð skráða, en fram til þess hafði Þjóðskrá aðeins skráð sambúð karls og konu. Í 3. mgr. 7. gr. laga nr. 21/1990 er nú mælt svo fyrir, að gerðri umræddri breytingu, að karl og kona, sem eru samvistum og uppfylla, eftir því sem við á skilyrði II. kafla hjúskaparlaga nr. 31/1993, geti fengið sambúð sína skráða í Þjóðskrá. Sama gildi um fólk af sama kyni, sbr. 2. gr. laga um staðfesta samvist nr. 87/1996. Með fyrrgreindum lögum nr. 65/2006, sem breyttu ýmsum lögum, var leitast við að samræma skilgreiningar á óvígðri sambúð í hinum ýmsu lögum, þar á meðal lögum nr. 90/2003, sbr. 11. gr. laga nr. 65/2006, er breytti 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003, er síðar var enn breytt með 5. gr. laga nr. 76/2007 svo sem rakið er hér að framan. Hvað varðar ákvæði laga nr. 90/2003 um óvígða sambúð skiptir nokkuð í tvö horn. Annars vegar er sambúðarfólki veitt heimild, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, til að telja fram og vera skattlagt sem hjón, sbr. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003, og hins vegar ræðst ákvörðun barnabóta og vaxtabóta af því hvort skilyrði síðastgreinds ákvæðis eru uppfyllt, enda þótt viðkomandi óski ekki eftir að vera skattlagt samkvæmt ákvæðinu, sbr. 1. mgr. A-liðar og 4. mgr. B-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003, sbr. hér að framan þar sem þessi ákvæði eru rakin. Ljóst er að það ber undir skattaðila að sýna fram á að skilyrðum 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003 sé fullnægt sé leitað eftir skattalegri meðferð samkvæmt ákvæðinu. Á hinn bóginn verður að álíta að það beri undir skattstjóra að sýna fram á telji hann, gegn tilgreiningum skattaðilans sjálfs á sifjaréttarlegri stöðu sinni, að óvígðri sambúð sé fyrir að fara í skilningi 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003.

Eins og rakið hefur verið í málavaxtalýsingu að framan, sbr. II. kafla, aflaði skattstjóri ýmissa upplýsinga og gagna til að grafast fyrir um það hvort kærandi og B hefðu verið í sambúð á umræddu tímabili frá 1. nóvember 2002 til loka ársins 2005, en fyrir liggur, eins og fram er komið, að kærandi og B voru í skráðri sambúð fram til 1. nóvember 2002 og eins eftir umrætt tímabil, sbr. síðbúna skráningu á sambúð að nýju hinn 9. mars 2007 sem kærandi upplýsir að í raun hafi hafist vorið 2006. Í fyrirspurnarbréfi skattstjóra, dags. 7. mars 2007, sbr. og boðunarbréf hans, dags. 3. janúar 2008, er gerð skilmerkileg grein fyrir þessum gögnum og upplýsingum. Var þar meðal annars um að ræða gögn varðandi kaup kæranda í félagi við B á íbúðarhúsnæði að L-götu, launaseðlar B, útprentun á dánarfregn með æviágripi vegna ömmu kæranda, skýrsla um staðsetningu bifreiðar er B hafði til afnota frá vinnuveitanda sínum, við L-götu tilgreinda daga í febrúar og mars 2007 o.fl. Í svarbréfi, dags. 9. mars 2007, og andmælabréfi, dags. 22. janúar 2008, var nokkur grein gerð fyrir samskiptum kæranda við B. Af fyrirliggjandi gögnum og upplýsingum dró skattstjóri þá ályktun að kærandi hefði verið í sambúð með B á greindum tíma sem uppfyllti skilyrði 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003. Í kæru til yfirskattanefndar er því alfarið mótmælt að sambúð hafi verið fyrir að fara, eins og fyrr getur. Tekið skal fram að telja verður að tilefni hafi verið til þess að skattstjóri kannaði hvort tilgreining kæranda á stöðu sem einstætt foreldri í skattframtölum umrædd ár stæðist, meðal annars sakir þess hvernig tilgreiningu umræddrar fasteignar og skulda vegna öflunar hennar var farið í skattframtölunum. Víkur þá að einstökum atriðum sem skattstjóri byggði ákvörðun sína á. Í kæru kemur fram að umrædd íbúð að L-götu hafi verið keypt skömmu fyrir sambúðarslitin. Hafi kærandi tekið að sér greiðslu á öllum áhvílandi veðskuldum, enda búið í íbúðinni. Vegna heilsufars kæranda hefði B ekki séð sér fært að krefjast sölu á íbúðinni. Þá er fram komið að engin leiga var krafin vegna eignarhluta B og í því hafi falist fjárstuðningur hans vegna sameiginlegra barna hans og kæranda, sbr. svarbréf, dags. 9. mars 2007. Þegar litið er til þessara skýringa, sem ekki er sérstök ástæða til að rengja, verður vart talið að umræddar ráðstafanir varðandi íbúðarhúsnæðið gefi þær vísbendingar um sambúð sem skattstjóri hefur álitið. Sama verður að segja um ranga tilgreiningu eigna og skulda í skattframtölum. Fyrir liggur að í æviágripi P, ömmu kæranda, í dánarfregn, sem birtist í Morgunblaðinu í febrúar 2005, er B tilgreindur sambýlismaður kæranda. Upplýst er af hálfu kæranda að móðir hennar reit æviágrip þetta. Heldur kærandi því fram að með þessari tilgreiningu hafi verið farið á svig við raunveruleikann sökum viðkvæmni ágripsritarans fyrir sifjaréttarlegri stöðu dóttur sinnar, kæranda í máli þessu, sem einstæðs foreldris. Skattstjóri hefur blásið á þessar skýringar með vísan til þess að almennt verði að ganga út frá því að í slíkum samantektum sé rétt farið með staðreyndir, sbr. úrskurð skattstjóra um endurákvörðun, dags. 27. maí 2008. Eðli málsins samkvæmt getur ákvörðun um sifjaréttarlega stöðu ekki ráðist af upplýsingum af þeim toga, sem hér um ræðir, einum saman. Eins og þessi þáttur málsins lá fyrir skattstjóra verður að telja að ástæða hafi verið til þess að skattstjóri, úr því að hann vefengdi skýringar kæranda, aflaði staðfestingar á umræddum upplýsingum í æviágripinu áður en hann ákvað að byggja á þessu gagni. Skráð lögheimili B samkvæmt Þjóðskrá var á greindum tíma að H-götu í Hafnarfirði eða frá 15. janúar 1998 til 9. mars 2007 þegar lögheimilið var flutt að L-götu í Hafnarfirði. Húsnæðið að H-götu var selt í júlí 2002, eins og fram er komið, og því ljóst að tilgreining lögheimilis þar var ekki í samræmi við raunverulega búsetu, enda er því ekki haldið fram. Í kæru til yfirskattanefndar heldur umboðsmaður kæranda því fram að B hafi verið til heimilis að K-götu í Reykjavík á greindum tíma, sbr. tilgreiningu á heimilisfangi hans í umræddri staðfestingu sýslumannsins í Reykjavík, dags. 17. desember 2002, sbr. andmælabréf, dags. 22. janúar 2008, þar sem þessu var haldið fram. Skattstjóri hefur ekki tekið það gilt og fært fram þau rök ein að ef B hefði í raun verið til heimilis að K-götu yrði að gera ráð fyrir að hann hefði gert ráðstafanir til að fá póst sinn þangað í stað H-götu. Af hálfu B kom fram í bréfi til skattstjóra, dags. 16. apríl 2007, í máli hans að hann hefði haft fasta búsetu hjá foreldrum sínum, vinum og kunningjum. Ljóst er að það hefur grundvallarþýðingu við úrlausn málsins að leiða í ljós hvar B hafðist við á umræddum tíma meints sambúðarrofs. Tilgreining á launaseðlum ein og sér þykir ekki geta tekið af skarið um þetta. Eins og fram er komið lá fyrir að skráð lögheimili B á greindum tíma, þ.e. að H-götu, stóðst ekki. Eins og áður getur byggði skattstjóri vefengingu sína á tilgreindu heimilisfangi B að K-götu á því einu að ef svo hefði verið yrði að ætla að B hefði gert ráðstafanir til að beina pósti sínum þangað. Með þessu verður ekki talið að skattstjóri hafi hnekkt framkomnum skýringum varðandi bækistöð B á greindum tíma, sbr. til hliðsjónar ákvæði laga nr. 21/1990, um lögheimili. Að þessu athuguðu og þar sem önnur atriði, sem skattstjóri byggði á, hafa takmarkaða eða enga þýðingu verður ekki talið að skattstjóri hafi sýnt fram á að kærandi hafi verið í sambúð með B á umræddum tíma í skilningi 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003. Samkvæmt því ber að taka kröfu kæranda til greina. Eins og fram er komið er umrætt íbúðarhúsnæði að L-götu í Hafnarfirði í eigu kæranda og B að jöfnu. Þá kom fram í svarbréfi kæranda, dags. 9. mars 2007, að sama gilti um skuldir vegna öflunar eignarinnar. B eignfærði sína hlutdeild í íbúðinni í skattframtölum árin 2005 og 2006, en kærandi eignina að fullu í skattframtölum árin 2004 og 2005 og að hálfu í framtali árið 2006, auk þess sem hún færði skuldir vegna öflunar eignarinnar og vaxtagjöld af þeim að öllu leyti í skattframtölum sínum öll árin. Hefur skattstjóri fundið að þessu. Þykir bera að leiðrétta skattframtöl kæranda árin 2004, 2005 og 2006 í samræmi við framangreint, þannig að eignfærsla íbúðarinnar og skuldir og vaxtagjöld af þeim svari til helmingshlutdeildar.

Umboðsmaður kæranda hefur gert kröfu um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins þykir bera að úrskurða kæranda málskostnað á grundvelli framangreinds lagaákvæðis. Kærandi hefur ekki lagt fram reikninga um útlagðan kostnað sinn við meðferð málsins, en ætla verður þó að um slíkan kostnað hafi verið að ræða. Með vísan til framanritaðs og lagaskilyrða fyrir greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði þykir málskostnaður kæranda hæfilega ákvarðaður 50.000 kr.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfur kæranda eru teknar til greina. Málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði ákveðst 50.000 kr.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja