Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 319/1990

Gjaldár 1987

Lög nr. 75/1981 — 2. gr. 1. mgr. 3. tl. — 52. gr. 3. tl.  

Sameignarfélag — Sjálfstæður skattaðili — Lögaðili — Skattskylda — Skattskylda sameignarfélags — Sjálfstæð skattskylda sameignarfélags — Félagssamningur — Stofnun sameignarfélags — Framlagt fé — Vextir af framlögðu fé — Rekstrarkostnaður — Firmaskrá — Firmatilkynning — Firmaskráning — Málamyndagerningur — Sniðgöngusjónarmið — Sifjalið — Félagsaðilar í sameignarfélagi — Hjón — Aðilaskipti — Útleiga — Atvinnuhúsnæði — Útleiga atvinnuhúsnæðis — Vaxtagjöld — Vaxtatekjur — Kaupsamningur — Afhendingardagur eignar — Lögskiladagur — Tekjuuppgjör — Tekjuuppgjör rekstrar

I.

Málavextir eru þeir, að með bréfi, dags. 29. febrúar 1988, boðaði skattstjóri kæranda, að tekjur og eignir sameignarfélagsins X yrðu skattlagðar hjá henni gjaldárið 1987 samkvæmt innsendum ársreikningi þess félags, enda gæti sameignarfélag þetta ekki talist sjálfstæður skattaðili. Félagssamningurinn þætti sýna, að félagsstofnunin bæri keim af málamyndagerningi, en eigendur væru kærandi og eiginmaður hennar Y, sbr. firmaskrártilkynningu, dags. 28. apríl 1986, en hann lést 1986. Innsendur ársreikningur yrði lagður til grundvallar endurákvörðun. Gefinn var 10 daga svarfrestur. Í svarbréfi, dags. 7. mars 1988, var því mótmælt, að stofnun sameignarfélagsins væri málamyndagerningur. Y hefði andast 1986 og eitt af síðustu verkum hans hefði verið stofnun sameignarfélagsins X með þeim hjónum og uppkomnum börnum þeirra. Hann hefði selt sameignarfélaginu fasteignirnar að A, Reykjavík, sem áður hefðu verið persónulegar eignir hans og kæranda. Ástæðan hefði verið að koma í veg fyrir skipti eignanna vegna erfða eða hjónaskilnaðar. Hann hefði viljað tryggja rétt eiginkonu sinnar til eignanna og að ekki kæmi til þess, að þær eða hluti þeirra yrði seldur vegna kröfu erfingja um búskipti, meðan hún lifði. Þá var þess getið, að skattstjóri hefði vísað til 3. ml. 3. tl. 2. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem tekið væri fram, að hjón gætu ekki ein sér eða með ófjárráða börnum sínum myndað sameignarfélag, er væri sjálfstæður skattaðili. Þar sem skattstjóri virtist telja, að félagið væri stofnað með ófjárráða börnum, þætti rétt að upplýsa að yngsta barn hjónanna yrði 42 ára á árinu.

Með bréfi, dags. 23. mars 1988, krafði skattstjóri kæranda um ljósrit kaupsamnings og afsals um fasteignina A, Reykjavík, svo og skuldabréfa vegna sölu eignarinnar. Ennfremur var óskað eftir upplýsingum um innborgað stofnfé eigenda. Þá segir svo í bréfi þessu: „Athygli skal vakin á því að ljóst var að allir skráðir eigendur félagsins eru fjárráða og því ekki um misskilning að ræða eins og talið er í svarbréfi yðar dags. 7. mars 1988. Fátt þykir benda til þess að ekki sé um málamyndagerning að ræða. Telja verður óeðlilegt að einstaklingar með 1% eignarhluta beri ótakmarkaða ábyrgð á skuldum félagsins. Skattstjóri hefur því í hyggju að skattleggja tekjur og eignir X sf. að öllu leyti hjá aðaleiganda félagsins, B.“ Með bréfi, dags. 8. apríl 1988, sendi umboðsmaður kæranda ljósrit kaupsamnings um eignina dags. 3. janúar 1986. Tekið var fram, að skuldabréf væru enn óútgefin.

Með bréfi, dags. 25. apríl 1988, tilkynnti skattstjóri kæranda, að áður álögð opinber gjöld gjaldárið 1987 hefðu verið endurákvörðuð vegna skattlagningar tekna og eigna X sf. hjá kæranda, sbr. bréf skattstjóra, dags. 29. febrúar 1988 og 23. mars 1988. Skattframtal X sf. væri lagt til grundvallar með þeirri breytingu, að vaxtagjöld 3.073.801 kr. vegna framlagðs fjár kæranda væru felld niður skv. 52. gr. laga nr. 75/1981. Rekstrartekjur X sf. yrðu því 1.338.617 kr. Hrein eign skv. efnahagsreikningi X sf. 4.212.011 kr. væri færð í reit E1 í framtali kæranda. Ekki væru teknar með reiknaðar vaxtatekjur frá X við útreikning á eignarskattsstofni.

Af hálfu umboðsmanns kæranda var breytingum skattstjóra mótmælt í kæru, dags. 24. maí 1988, í fyrsta lagi því, að sameignarfélagið X væri ekki viðurkennt sem sjálfstæður skattaðili og í öðru lagi að vaxtagjöld félagsins skyldu niður felld. Rök skattstjóra varðandi fyrra atriðið væru geðþóttaákvörðun og án stoðar í lögum nr. 75/1981. Mörg fordæmi væru fyrir sambærilegri eignaraðild í sameignarfélögum. Félagið uppfyllti öll skilyrði laga til þess að vera sjálfstæður skattaðili. Vaxtagjöldin væru af skuld vegna kaupa félagsins á fasteign og því ekki um að ræða stofnframlag eða þess háttar eins og um gæti í tilvitnaðri lagagrein í bréfi skattstjóra. Með kæruúrskurði, dags. 3. júní 1988, synjaði skattstjóri kröfu kæranda með skírskotun til þeirra forsendna, er kæmu fram í bréfum hans, dags. 29. febrúar, 23. mars og 25. apríl 1988.

II.

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 1. júlí 1988. Kröfugerðin er svohljóðandi:

„Að úrskurður skattstjórans í Reykjavík á því að sameignafélagið X s.f., geti ekki talist lögaðili samkvæmt 3. málsgr. 2. gr. laga 75/1981, þrátt fyrir að frá 12. maí 1986, hafi félagið uppfyllt öll ákvæði laga um að svo væri, verði ógiltur og að félagið verði skattlagt sem lögaðili frá þeim tíma eins og innsendur ársreikningur og framtalsgögn 1987 báru með sér að óskað var eftir. Með bréfum frá 29/2, 23/3, og 25/4, boðaði skattstjórinn í Reykjavík, að sameignafélagið X gæti ekki talist sjálfstæður skattaðili. Rök skattstjóra eru þau að eignahluti annarra eigenda félagsins en umbjóðanda míns, séu of lítil til að félagið geti talist sjálfstæður skattaðili og því sé um málamyndagerning að ræða. Þessu vil ég mótmæla og bendi á að félagið er lögaðili frá 12. maí 1986. Ég óska því eftir fyrir hönd umbjóðanda míns, að skattframtal X s.f., verði lagt óbreytt til grundvallar skattlagningu á árinu 1987, eins og það barst í hendur skattstjórans í Reykjavík.“

III.

Með bréfi, dags. 12. október 1989, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

IV.

Samkvæmt gögnum málsins, sbr. kaupsamning, dags. 3. janúar 1986, seldi Y X sf. fasteignina A, Reykjavík. Afhendingardagur var tilgreindur 3. janúar 1986. Söluverð var 23.350.000 kr. Engin útborgun fór fram vegna sölu þessarar en allt andvirðið var að láni til 10 ára að undanskildum lánum 1.105.820 kr., er hvíldu á eigninni, og kaupandi tók að sér að greiða. Y lést 1986. Ekkja hans, kærandi í máli þessu, situr í óskiptu búi eftir því sem fram kemur í málsgögnum. Voru útistandandi skuldir vegna sölunnar og vaxtatekjur af þeim færðar í E6 í skattframtali kæranda. Ljósrit félagssamnings fyrrnefnds sameignarfélags liggur fyrir í málinu og er hann dagsettur 15. janúar 1986. Hefur samningur þessi verið móttekinn til skráningar í Firmaskrá Reykjavíkur 12. maí 1986. Stofnendur voru Y og B með 48% eignarhluta hvort og fjögur börn þeirra með 1% eignarhluta hvert um sig. Sameignarfélag þetta var tilkynnt til skráningar í firmaskrána þann 28. apríl 1986, sbr. Lögbirtingablað nr. ..., 1986. Tilgangur félagsins er rekstur fasteigna og skyldur rekstur. Það skyldi vera sjálfstæður skattaðili. Samkvæmt skattframtali því, er lagt var fram fyrir félagið árið 1987, var talið, að rekstur þess hefði byrjað 1. júní 1986 og tók rekstrarreikningur því til tímabilsins 1. júní 1986 til 31. desember 1986. Skattskil vegna sama rekstrar, þ.e. útleigu fasteignarinnar A, Reykjavík, tímabilið 1. janúar 1986 til 31. maí 1986, voru hins vegar gerð hjá kæranda í máli þessu, sbr. skattframtal hennar árið 1987. Ekki féll þetta að ákvæðum nefnds kaupsamnings. Svo sem hér hefur komið fram var sá sami rekstur, þ.e. útleiga nefndrar fasteignar, sem Y hafði með höndum, færður á hendur nefnds sameignarfélags, sem hann stofnaði ásamt sifjaliði sínu, sbr. kaupgerning þann og félagssamning, sem í málinu greinir. Engin breyting varð á rekstrinum við þetta. Þegar virt eru öll atvik að þeirri breytingu á aðild að rekstri þessum, sem hér hafa verið rakin og nánar greinir í málavaxtalýsingu, verður eigi talið, að við þá breytingu, þ.e. títtnefnda félagsstofnun og gerninga í sambandi við hana, hafi neitt það gerst, er skattalega þýðingu hafi fyrir umræddan rekstur frá því sem áður var. Verður skattlagning hans hjá kæranda vegna ársins 1986 að öllu leyti látin óhögguð standa svo sem skattstjóri ákvarðaði hana.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja