Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 526/1990

Gjaldár 1988 og 1989

Lög nr. 75/1981 — 69. gr. C-liður   Lög nr. 92/1987 — Ákvæði til bráðabirgða II   Reglugerð nr. 76/1988 — 2. gr.  

Húsnæðisbætur — Íbúðarhúsnæði — Íbúðareign — Fyrsta íbúðarhúsnæði — Fyrri íbúðareign — Eignarhaldstími — Kröfugerð kæranda — Kæruheimild

Málavextir eru þeir, að í kæru til skattstjóra, dags. 24. ágúst 1989, vegna álagningar gjaldárið 1989 kröfðust kærendur húsnæðisbóta sér til handa með svofelldum rökum:

„Skv. upplýsingum frá A um hverjir séu rétthafar húsnæðisbóta, eru að þeir sem keypt hafa sitt fyrsta húsnæði á árunum 1984-1987 og eiga eignina enn um áramót 87-88, ef ekki, þá má fólk ekki hafa átt íbúð á undan í lengri tíma en 2 ár.

Eins og fram kemur hjá okkur þá keyptum við okkar fyrstu íbúð (skv. kaupsamningi) 21.11.1984 og seldum hana 20.12.1987 (skv. kaupsamningi). Í ljósi þess að aðeins er um að ræða 12 dagar þ.e. ef við hefðum gert kaupsamning þann 01.01.1988 þá hefðum við verið rétthafar húsnæðisbóta óska ég eftir að endurskoðað verði mat ykkar um rétt okkar á bótum.“

Með kæruúrskurði, dags. 28. september 1989, synjaði skattstjóri kröfu kærenda. Tók skattstjóri fram, að upplýst væri, að kærendur hefðu átt sitt fyrsta íbúðarhúsnæði frá 21. nóvember 1984 til 20. desember 1987 eða lengur en 2 ár. Krafa kærenda um húsnæðisbætur væri vegna íbúðar, sem kærendur hefðu eignast 15. janúar 1988. Þar sem eignarhaldstími fyrri íbúðar hefði verið lengri en 2 ár, uppfylltu kærendur ekki skilyrði C-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, og ættu þar af leiðandi ekki rétt á húsnæðisbótum.

Af hálfu kærenda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 29. október 1989, og fara fram á, að þeim verði úrskurðaðar húsnæðisbætur með skírskotun til röksemda í kæru, dags. 24. ágúst 1989, til skattstjóra.

Með bréfi, dags. 27. apríl 1990, krefst ríkisskattstjóri þess í málinu f.h. gjaldkrefjenda, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Samkvæmt því sem upplýst er í málinu seldu kærendur kjallaraíbúð að X, Reykjavík, þann 20. desember 1987. Íbúð þessa höfðu þau eignast 21. nóvember 1984. Eigi er ágreiningur um þennan eignarhaldstíma og að íbúð þessi hafi verið fyrsta íbúðarhúsnæði kærenda. Kærendur keyptu síðan íbúð að Y, Reykjavík, með kaupsamningi, dags. 15. janúar 1988. Svo sem fram hefur komið byggði skattstjóri synjun sína á því, að kærendur uppfylltu eigi skilyrði fyrir húsnæðisbótum vegna íbúðarinnar að Y, Reykjavík, þar sem sú íbúð teldist eigi fyrsta íbúðarhúsnæði þeirra vegna eignarhalds lengur en 2 ár á nefndri kjallaraíbúð á X, Reykjavík, sbr. C-lið 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eins og staflið þessum var breytt með 9. gr. laga nr. 92/1987, og 2. gr. reglugerðar nr. 76/1988, um húsnæðisbætur. Eins og mál þetta liggur fyrir og kröfugerð kærenda er háttað, sbr. kæru til skattstjóra, dags. 24. ágúst 1989, þykir rétt að taka til úrlausnar rétt kærenda til húsnæðisbóta hvort sem sá réttur kynni að byggjast á fyrrnefndum ákvæðum eða á bráðabirgðaákvæði II í lögum nr. 49/1987, sbr. 14. gr. laga nr. 92/1987, þ.e. í síðarnefnda tilvikinu rétt til húsnæðisbóta frá og með álagningarárinu 1988 vegna öflunar íbúðarhúsnæðis í fyrsta sinn á árunum 1984 - 1987. Þegar litið er til þess, sem upplýst er í máli þessu um íbúðarkaup kærenda og eignarhald á íbúðarhúsnæði og annars þess, sem máli þykir skipta varðandi rétt kærenda til húsnæðisbóta, þykir kærendum bera réttur til bóta þessara á grundvelli fyrrnefnds bráðabirgðaákvæðis II í lögum nr. 49/1987, sbr. 14. gr. laga nr. 92/1987, vegna kaupa á nefndri íbúð að X, Reykjavík, á árinu 1984 sem fyrsta íbúðarhúsnæðis síns. Samkvæmt þessu ber að ákvarða kærendum bætur þessar frá og með gjaldárinu 1988. Eftir öllum atvikum og eins og málið liggur fyrir þykir rétt í úrskurði þessum að ákveða kærendum húsnæðisbætur gjaldárið 1988 jafnt sem 1989.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja