Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 624/1990

Gjaldár 1988

Lög nr. 75/1981 — 66. gr. 1. mgr. 1. tl. og 2. mgr. — 68. gr. A-liður — 80. gr. 2. mgr.   Lög nr. 49/1986   Lög nr. 46/1987 — 2. gr. 2. mgr. 2. ml.   Lög nr. 28/1988 — 1. gr.  

Ívilnun — Valdsvið ríkisskattanefndar — Málskot til ríkisskattstjóra — Kæruheimild — Kærufrestur — Kæruúrskurður — Kæruleið — Leiðbeiningar skattyfirvalda um kæruheimild, kærufrest og kæruleið — Rangar leiðbeiningar skattyfirvalda um hvert beina skuli kæru — Eignarskattur — Sérstakur eignarskattur (Þjóðarbókhlöðuskattur) — Eignarskattsauki — Persónuafsláttur — Skattafsláttur — Skattafsláttur til greiðslu eignarskatts — Framsending — Framsending ríkisskattanefndar til ríkisskattstjóra — Leiðbeiningarskylda skattyfirvalda — Kröfugerð ríkisskattstjóra — Frávísun — Frávísun, mál utan valdsviðs — Gildistaka skattalaga — Gildistaka laga um staðgreiðslu opinberra gjalda — Staðgreiðsla opinberra gjalda

Málavextir eru þeir, að kærandi skilaði staðfestu og undirrituðu skattframtali í framtalsfresti árið 1988. Var skattframtalið óbreytt lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda við frumálagningu gjaldárið 1988.

Af hálfu kæranda var álagningunni mótmælt með bréfi, dags. 11. ágúst 1988, og fylgdu því tvö læknisvottorð. Laut bréfið að því, að álagningin gæti ekki staðist í ljósi lágra tekna og heilsubilunar kæranda. Með kæruúrskurði, dags. 4. janúar 1989, tók skattstjóri bréfið til úrlausnar. Segir svo í úrskurðinum: „Álögð gjöld til greiðslu á árinu 1988 eru eignarskattur kr. 84.206.- Með hliðsjón af eignum framteljanda þykir ekki efni til ívilnunar gjalda, og er kæru synjað.“ Í kæruúrskurðinum gat skattstjóri um kærufrest til ríkisskattanefndar.

Með kæru, dags. 2. febrúar 1989, hefur kærandi skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Í kærunni kvartar kærandi yfir álagningunni og gerir grein fyrir högum sínum og heilsufari.

Með bréfi, dags. 30. maí 1990, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Að kærunni verði vísað frá sem tilefnislausri. Ekki verður séð að neitt bagi álagningu skattstjóra.“

Samkvæmt gögnum málsins er tekjuskattsstofn kæranda gjaldárið 1988 0 kr. og útsvarsstofn 3.656 kr. Eignarskattsstofn er 12.497.380 kr. Í samræmi við þetta var á kæranda lagt skv. frumálagningu gjaldárið 1988 eignarskattur að fjárhæð 99.747 kr. og sérstakur eignarskattur 22.480 kr. skv. lögum nr. 49/1986, um þjóðarátak til byggingar þjóðarbókhlöðu, með síðari breytingum. Ónotaður skattafsláttur til greiðslu eignarskatts nam 38.021 kr. eða hámarksfjárhæð þeirri, sem mælt er fyrir um í lögum nr. 28/1988, um breyting á lögum nr. 46/1987, um gildistöku laga um staðgreiðslu opinberra gjalda, með síðari breytingum. Telja verður að bréf kæranda til skattstjóra, dags. 11. ágúst 1988, hafi samkvæmt efni sínu og öllum atvikum eingöngu verið beiðni um lækkun eignarskattsstofns skv. 2. mgr. 80. gr., sbr. 1. tl. 1. mgr. 66. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Með úrskurði, dags. 4. janúar 1989, synjaði skattstjóri kæranda um ívilnun. Hins vegar gat skattstjóri ranglega um kærufrest til ríkisskattanefndar. Um slíkar ívilnanir, sem hér um ræðir, á ríkisskattanefnd eigi úrskurðarvald. Ákvörðunum skattstjóra um þetta efni má á hinn bóginn skjóta til ríkisskattstjóra, sbr. 2. mgr. 66. gr. laga nr. 75/1981. Að þessu virtu, sem hér hefur verið rakið, þykir bera að vísa málinu frá ríkisskattanefnd en senda bréf kæranda, dags. 2. febrúar 1989, til ríkisskattstjóra til meðferðar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja