Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 635/1990

Gjaldár 1988

Lög nr. 74/1986   Lög nr. 88/1987 — 1. gr. — 4. gr. — 5. gr. — 7. gr.  

Sérstakur eignarskattur — Sérstakur skattur á verslunar- og skrifstofuhúsnæði — Verslunar- og skrifstofuhúsnæði — Skrá til sérstaks eignarskatts — Iðnaður — Skósmíði — Skattskylda — Fasteign — Notkun húsnæðis — Verslun — Skóverslun — Andmælareglan — Málsmeðferð áfátt — Álagningarmeðferð skattstjóra — Fyrri skattframkvæmd

Kröfugerð umboðsmanns kæranda fyrir ríkisskattanefnd er svohljóðandi:

„Varðandi álagningu sérstaks skatts á húseign félagsins að X, R, vil ég segja að nánast öll starfsemi félagsins á þessum tíma fólst í skóviðgerðum og smíði á sérstökum skóm vegna fötlunar o.þ.h. Enginn verslunarrekstur fór fram í húsnæðinu á árinu 1987 nema síðustu 2 mánuði ársins var rekin að nafninu til skóverzlun í ca 50 m² plássi á 1. hæð.

Fullyrðing skattstofu að meginstarfi félagsins sé innflutningur og sala á skófatnaði er röng.

Þótt notkun sé skráð eins og getið er um í bréfi frá skattstofu, þá er það allsendis rangt, því eins og að ofan greinir er yfir 90% af starfsemi félagsins smíði á bæklunarskóm og almennar skóviðgerðir.

Í framhaldi af þessu fer ég fram á niðurfellingu áður álagðs sérstaks skatts á skrifstofu- og verzlunarhúsnæði.

Benda má á í lokin að öll sala skattfrjálsrar vöru, sem tilgreind er á söluskattsskýrslum er vegna bæklunarskósmíði.“

Með bréfi, dags. 25. júní 1990, krefst ríkisskattstjóri þess fyrir hönd gjaldkrefjenda, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Af framlögðum gögnum í máli þessu verður séð, að hvorki gjaldárið 1987 né 1988 skilaði kærandi vegna hins umdeilda skatts þeirri skrá, sem um ræðir í lögum þeim, er um hann fjalla viðkomandi ár, sbr. lög nr. 74/1986 og 88/1987. Ekki áætlaði skattstjóri stofn til þessa skatts við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1987, en hins vegar við álagningu gjalda 1988, sem kærumál þetta snýst um. Eins og hér stóð sérstaklega á hefði verið rétt af skattstjóra að krefja kæranda skýringa á starfsemi sinni í árslok 1987 og eftir atvikum að leggja fram gögn, þar á meðal nefnda skrá, áður en hann áætlaði honum stofn til hins kærða skatts, því að eigi varð augljóslega ráðið af gögnum málsins, að hann væri skyldugur til greiðslu hans. Með því að skattstjóri gætti ekki þessarar reglu verður eigi hjá öðru komist en að fella hina kærðu álagningu hans úr gildi. Með hliðsjón af kröfugerð umboðsmanns kæranda fyrir ríkisskattanefnd er skattstjóra rétt að hlutast til um nýja álagningu að lögum.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja