Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 733/1990

Gjaldár 1989

Lög nr. 73/1980 — 25. gr. 2. mgr.   Lög nr. 75/1981 — 6. gr. — 7. gr. A-liður 1. tl. — 29. gr. — 30. gr. 1. mgr. C-liður 1. og 2. tl. — 65. gr. 2. mgr. — 67. gr. 2. mgr.   Lög nr. 35/1985 — 8. gr. 2. mgr.  

Barn — Sköttun barns — Launatekjur — Skattskylda — Skattskylda einstaklings — Sjálfstæður skattaðili — Sérsköttun launatekna barns — Sjómannaafsláttur — Sjómannaafsláttur barns — Sjómannsstörf — Lögskráning — Lögskráningardagar — Frádráttarheimild — Sjómannafrádráttur — Lögskýring — Lögskýringargögn — Ráðningarsamningur — Skiprúmssamningur — Sjómaður — Aldurslágmark skipverja

Kærandi, sem var innan 16 ára aldurs á tekjuárinu 1988, hafði tekjur skv. 1. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að fjárhæð 259.398 kr. frá X, er skattlagðar voru sérstaklega, sbr. 6. gr., 2. mgr. 65. gr. og 2. mgr. 67. gr. laga þessara og 2. mgr. 25. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga, með síðari breytingum.

Í kæru til skattstjóra, dags. 3. ágúst 1989, var krafist sjómannaafsláttar til handa kæranda, þar sem hann hefði verið lögskráður á B í 18 daga á tímabilinu 1. janúar til 30. júní 1988 og 77 daga á tímabilinu 1. júlí 1988 til 31. desember 1988. Með kæruúrskurði, dags. 9. nóvember 1989, synjaði skattstjóri kröfu kæranda. Forsendur skattstjóra eru svohljóðandi: „Frádráttur frá skattskyldum tekjum skattaðila er skv. 29. gr. laga nr. 75/1981 því aðeins heimill að hann falli undir frádráttarkafla laganna þ.e. að til hans sé ótvíræð lagaheimild. Frádráttarliður - sá sem um er rætt í kæru þ.e. sjómannaafslætti 36.878 kr. fellur ekki undir 29. gr. laga nr. 75/1981 frádráttarákvæði laganna. Börn innan 16 ára eru ekki lögskráð á skip og er því sjómannaafsláttur ekki frádráttarbær frá tekjum og er kæru því synjað.“

Með kæru, dags. 20. nóvember 1989, hefur úrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar. Kæran er svohljóðandi:

„Eins og kemur fram á meðfylgjandi afriti af svari Skattstofu Reykjavíkur lagði ég inn kæru vegna opinberra gjalda gjaldárið 1989 vegna A, sem vann þá á skipinu B árið 1988 og var hann þá 15 ára.

Úrskurður skattstjóra er að börn innan 16 ára séu ekki lögskráð á skip og af þeirri forsendu var kærunni synjað.

Í sjómannalögunum 2. gr. KAFLA II laga 35/1985 ráðningasamningur o.fl. stendur:

„Eigi má hafa yngri mann, karl eða konu, en 15 ára við vinnu á skipi nema um skólaskip eða æfingaskip sé að ræða“.

Mér er tjáð af sjómannafélag Reykjavíkur að þessi synjun sé ekki rétt og að A hafi verið lögskráður og eigi rétt á sjómannafrádrætti.“

Með bréfi, dags. 13. júní 1990, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Að kröfu kæranda verði hafnað. 67. gr. laga nr. 75/1981 verður ekki skýrð eða skilin svo að heimilt sé að draga sjómannaafslátt frá tekjuskatti barna og verður ekki séð að önnur niðurstaða verði leidd af öðrum greinum áðurnefndra laga.“

Lagaákvæði um sjómannaafslátt í B-lið 68. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, öðluðust gildi 1. janúar 1988 og komu til framkvæmda við álagningu gjaldárið 1989. Komu ákvæði þessi í stað 1. og 2. tl. C-liðs 1. mgr. 30. gr. laganna um sjómannafrádrátt. Samkvæmt 2. mgr. 65. gr. laganna var slíkur frádráttur leyfður til frádráttar þeim tekjum barna innan 16 ára, sem skattaðar eru sérstaklega. Hvorki í ákvæði núgildandi laga um sjómannaafslátt né ákvæði þeirra um sérskattlagningu tekna barna innan 16 ára girða skv. orðum sínum fyrir slíkan afslátt í tilviki þeirra. Af forsögu hinna nýju lagaákvæða og lögskýringargögnum kemur ekki fram að stefnt hafi verið að slíkri breytingu. Að þessu virtu þykir bera að taka kröfu kæranda til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja