Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1099/1990

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 30. gr. 1. mgr. E-liður 1. tl. — 51. gr. 2. mgr. — 69. gr. C-liður — 100. gr. 1. mgr.   Lög nr. 92/1987 — Ákvæði til bráðabirgða I og II   Lög nr. 86/1988 — 68. gr.   Reglugerð nr. 76/1988 — 2. gr. 4. mgr.  

Húsnæðisbætur — Íbúðarhúsnæði — Íbúðareign — Fyrsta íbúðarhúsnæði — Fyrri íbúðareign — Eignarhaldstími — Eignarhluti í íbúð — Vaxtagjöld — Vaxtafrádráttur — Vaxtaafsláttur — Íbúðarlán — Greinargerð um vaxtagjöld — Verðbætur — Verðbætur, greiddar — Verðbætur, gjaldfallnar — Greiddar verðbætur — Gjaldfallnar verðbætur — Uppfærsla lána — Verkamannabústaður — Verkamannabústaður, uppgjör eignarhluta — Kröfugerð kæranda — Kæruheimild — Kæranleiki — Kæranleg skattákvörðun — Byggingarsjóður verkamanna — Húsnæðisstofnun ríkisins

Málavextir eru þeir, að með kaupsamningi, dags. 29. júlí 1988, seldu kærendur stjórn verkamannabústaða á A íbúð að A, en íbúð þessi hafði verið í eigu þeirra í 6 ár. Jafnframt keyptu kærendur íbúð að B, með kaupsamningi, dags. 14. maí 1988. Meðal vaxtagjalda til frádráttar, sbr. greinargerð um vaxtagjöld RSK 3.09, færðu kærendur 3.593.047 kr. sem voru verðbætur vegna uppfærslu lána frá Byggingarsjóði verkamanna, er gerð var í sambandi við útreikning á eignarhluta kærenda í íbúðinni við endursölu hennar til stjórnar verkamannabústaða. Þennan vaxtagjaldalið felldi skattstjóri niður fyrir frumálagningu opinberra gjalda gjaldárið 1989 og tilkynnti kærendum um þá breytingu. Byggði skattstjóri á því, að hér teldist ekki um gjaldfallnar verðbætur að ræða í skilningi 51. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Næst gerðist það í málinu, að kærendur sóttu um húsnæðisbætur til skattstjóra með umsóknum, dags. 22. ágúst 1989. Í bréfi, er fylgdi umsóknunum, kemur fram af hálfu kærenda, að skattstjóri hafi hafnað vaxtafrádrætti vegna þeirra sérreglna, er giltu um sölu á íbúðum til stjórnar verkamannabústaða. Kærendur töldu sig eiga rétt á húsnæðisbótum með þeim rökum, að íbúð þeirra að B, bæri að telja fyrsta íbúðarhúsnæði þeirra, þar sem eignarhlutdeild þeirra hvors um sig í íbúð í verkamannabústað að A, hefði verið innan við 10%, sbr. C-lið 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, eins og þeirri grein var breytt með 9. gr. laga nr. 92/1987, og 2. gr. reglugerðar nr. 76/1988, um húsnæðisbætur, með síðari breytingum. Með úrskurði, dags. 28. september 1989, synjaði skattstjóri kröfu kærenda um húsnæðisbætur með skírskotun til þess, að kærendur hefðu átt íbúðarhúsnæði að A á árunum 1983 til 1988 og því gæti íbúðin að B, ekki skoðast fyrsta íbúðarhúsnæði þeirra í skilningi lagaákvæða um húsnæðisbætur. Því ættu kærendur ekki rétt á húsnæðisbótum hvorki á grundvelli nefnds lagaákvæðis né ákvæðis til bráðabirgða II í lögum nr. 92/1987.

Af hálfu kærenda hefur úrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 22. október 1989. Í kærunni segir svo:

„Málavextir eru þeir að þann 29. júlí 1988 seldum við stjórn verkamannabústaða íbúð okkar á A og þann 14. maí 1988 keyptum við íbúð af X á B, sbr. meðfylgjandi gögn. Við skattframtalsgerð okkar töldum við til frádráttar á greinargerð um vaxtagjöld áfallna reiknaða vexti af láni hjá Byggingarsjóði Verkamanna kr. 3.593.047, sem eru áfallnar verðbætur á lánið á söludegi.

Þann 26. júlí sendi skattstjórinn í Reykjavík okkur bréf þar sem segir að vaxtagjöld til frádráttar hafi verið lækkuð um kr. 3.593.047. Jafnframt er sagt að þar sem farið var, við uppgjör söluverðs, eftir ákvæðum 51. gr. laga nr. 60/1984 um Húsnæðisstofnun ríkisins, skoðist uppfærsla þeirra lána sem á slíkum íbúðum hvíla og gerð er í sambandi við uppgjör og útreikning á verðmæti eignarhluta seljanda í íbúðinni ekki sem gjaldfallnar verðbætur af skuld í skilningi 51. gr., sbr. 8. gr. laga nr. 75/1981 og falli því ekki undir ákvæði 1. tl. E-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981 eins og þau ákvæði hljóðuðu fyrir gildistöku laga nr. 49/1987, sbr. bráðabirgðaákvæði í þeim lögum.

Þann 21. ágúst sendum við beiðni um húsnæðisbætur vegna ársins 1989. Með vísan til 2. ml. 4. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 76/1988, um húsnæðisbætur, þar sem sagt er: „að maður telst ekki hafa átt íbúð síðastliðin 10 ár í þessu sambandi ef hann hefur átt innan við 10% af íbúðinni ...“ teljum við okkur eiga rétt á húsnæðisbótum. Skattstjóri heldur því fram að vegna þeirra sérreglna er gilda um sölu verkamannaíbúða þá eigum við ekki rétt á vaxtafrádrætti vegna áfallinna verðbóta. Ef það er nú raunin að við eigum ekki rétt á þessum vaxtafrádrætti vegna þeirra sérreglna er gilda um sölu verkamannabústaða, hljótum við að falla undir fyrrnefnt reglugerðarákvæði þar sem eignarhluti hvors um sig í íbúðinni að A var 7%. Það getur varla verið markmið laganna að útiloka okkur bæði frá húsnæðisbótum og vaxtabótum.

Þann 28. september 1989 sendi skattstjóri okkur úrskurð sinn á kæru okkar. Hann hafnar því alfarið að við eigum rétt á húsnæðisbótum þar sem þeir einir eigi rétt á húsnæðisbótum sem eignast sitt fyrsta íbúðarhúsnæði á árunum 1984 til 1988.

Með vísan til framanritaðs förum við fram á að íbúðin við B verði talin okkar fyrsta íbúðarhúsnæði og væntum við þess að ríkisskattanefnd úrskurði okkur húsnæðisbætur. Til vara förum við fram á að álagning fari fram að nýju á grundvelli skattframtals okkar þ.e. að við fáum vaxtabætur.“

Með bréfi, dags. 27. apríl 1990, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„a) Um aðalkröfu:

Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

b) Um varakröfu:

Þess er krafist að kröfu um vaxtaafslátt verði vísað frá þar sem ekki hefur verið kveðinn upp úrskurður skattstjóra sem kæranlegur er til ríkisskattanefndar eftir reglum 100. gr. laga nr. 75/1981.“

Synjun skattstjóra um húsnæðisbætur kærendum til handa þykir bera að staðfesta með skírskotun til forsendna hins kærða úrskurðar. Að því er varðar varakröfu kærenda þá er það út af fyrir sig rétt, sem fram kemur í kröfugerð ríkisskattstjóra, að hinn kærði úrskurður skattstjóra tekur ekki til þess kæruefnis, sem í varakröfunni felst. Hins vegar má telja kæruefnin það samfléttuð, að réttlætanlegt þykir að taka varakröfuna til efnismeðferðar. Niðurfelling skattstjóra á hinum umdeildu verðbótum byggðist á því, að þær væru til komnar vegna uppgjörs og útreiknings á verðmæti eignarhluta kærenda í íbúð í verkamannabústað, sbr. ákvæði laga um Húsnæðisstofnun ríkisins þar um, og því teldist ekki vera um gjaldfallnar verðbætur að ræða í skilningi 51. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Með vísan til þessara forsendna þykir bera að synja varakröfu kærenda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja