Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 307/1991

Gjaldár 1989

Lög nr. 38/1954 — 9. gr. 2. mgr. — 11. gr. — 14. gr.   Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 2. tl. og C-liður 3. tl. — 8. gr. — 28. gr. 2. tl. — 30. gr. 1. mgr. B-liður 1. tl. — 60. gr. 2. mgr.  

Skattfrelsi — Eignaauki — Skattfrjáls eignaauki — Eignaauki, skattfrjáls — Skattskyldur eignaauki — Eignaauki, skattskyldur — Skattskyldar tekjur — Skattfrjálsar tekjur — Fjártjón — Miski — Miskabætur — Skaðabætur — Opinber starfsmaður — Ólögmæt uppsögn úr opinberu starfi — Dómur — Atvinnumissir — Bætur vegna atvinnumissis — Bótafjárhæð, skipting — Skipting bótafjárhæðar — Frávikning úr opinberri stöðu — Stöðumissir — Bætur vegna stöðumissis — Vaxtatekjur — Vaxtaþáttur í bótafjárhæð — Tekjutímabil — Greiðsluár — Sniðgöngusjónarmið — Frávísun — Vanreifun — Frávísun vegna vanreifunar

I.

Málavextir eru þeir, að í athugasemdadálki skattframtals síns árið 1989 skýrði kærandi frá því, að hinn 13. desember 1988 hefði svo samist milli hans og [...]ráðherra, að ríkissjóður greiddi honum miskabætur að fjárhæð 2.200.000 kr. Hefðu 793.480 kr. verið greiddar á árinu 1988 en 1.406.520 kr. verið útistandandi í árslok 1988.

Með bréfi, dags. 14. júní 1989, tilkynnti skattstjóri kæranda, að fyrirhugað væri að færa honum til tekna í skattframtali árið 1989 þann hluta bótanna, sem greiddur hefði verið á árinu 1988 eða 793.480 kr. Jafnframt tjáði skattstjóri kæranda, að eftirstöðvar bótanna 1.406.520 kr. yrðu síðar tekjufærðar, er þær hefðu verið greiddar.

Ekki verður séð, að fyrrnefndu atriði í bréfi skattstjóra, dags. 14. júní 1989, hafi verið svarað af hálfu kæranda. Með bréfi, dags. 25. júlí 1989, tilkynnti skattstjóri kæranda, að sú breyting hefði m.a. verið gerð á skattframtali hans árið 1989, að bætur 793.480 kr. skv. samkomulagi við [...]ráðherra hefðu verið færðar til tekna í kafla 7.3. Tók skattstjóri fram, að greiðsla þessi virtist vera bætur fyrir atvinnumissi og skattskyld skv. 2. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Fyrirhugað væri að skattleggja eftirstöðvar bótanna 1.406.520 kr. á framtali 1990, enda væri tekinn staðgreiðsluskattur af þeirri fjárhæð við greiðslu hennar 1989. Þá gat skattstjóri þess, að teldi kærandi, að hluti bótanna væru vaxtatekjur, sem ekki bæri að greiða skatt af, þá væri þess óskað, að hann legði fram samning sinn við [...]ráðherra þannig að séð yrði hvort og þá hvernig fjárhæðin væri sundurgreind þar. Skattstjóri tók jafnframt fram, að ekki yrði séð, að bætur þessar gætu fallið undir 2. tl. 28. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Af hálfu kæranda var skattlagningu nefndra bóta mótmælt í kæru, dags. 29. ágúst 1989, til skattstjóra. Fylgdi kærunni ljósrit af samningi, dags. 13. desember 1988, milli kæranda annars vegar og [...]ráðherra hins vegar. Í samningi þessum kom m.a. fram, að ráðherra sæi til þess, að áfrýjun dóms bæjarþings Reykjavíkur í máli kæranda gegn ríkisvaldinu yrði dregin til baka og unað niðurstöðu héraðsdóms um að uppsögn kæranda úr opinberu starfi hefði verið ólögmæt. Þá samdist svo um bætur: „Með hliðsjón af 3. mgr. 11. gr. sbr. 2. mgr. 9. gr. l. nr. 38/1954 greiðir ráðherra [X] skaðabætur auk sérstakra miskabóta samtals að fjárhæð kr. 2.200.000.- auk málskostnaðar að skaðlausu.“

Auk kæranda og [...]ráðherra ritaði fjármálaráðherra undir samning þennan. Í samningnum er tekið fram, að hann sé til staðfestingar á samkomulagi gerðu 22. nóvember 1988. Kærandi tók fram í kærunni, að gengið hefði verið út frá því við samningsgerðina, að nefndar bætur yrðu ekki skattlagðar. Um það atriði vísaði hann til yfirlýsingar lögmanns þess, er var fulltrúi ráðherranna við samningsgerðina. Í yfirlýsingu þessari kom meðal annars fram, að bæturnar væru að verulegum hluta miskabætur. Höfðustóll bóta væri óverulegur, þar sem verulegur hluti bótafjárhæðar væru vextir, sem ekki væru skattskyldir. Við samkomulagið hefði verið gengið út frá því, að bæturnar yrðu ekki skattlagðar.

Með kæruúrskurði, dags. 13. október 1989, synjaði skattstjóri kröfu kæranda um skattfrelsi bótanna. Forsendur skattstjóra eru svohljóðandi í hinum kærða úrskurði:

„Hins vegar er ekki fallist á að með orðaleik sé hægt að nefna bætur fyrir atvinnumissi miskabætur og fella þær þar með undir skattfrelsisákvæði 2. tl. 28. gr. laga nr. 75/1981, enda fjallar sá töluliður um bætur fyrir tjón á lífi, limum og heilsu. Í því tilviki sem hér um ræðir er hins vegar um að ræða bætur fyrir missi atvinnu og atvinnutekna, e.t.v. að teknu tilliti til röskunar á högum. Kröfum varðandi skattfrelsi umræddra bóta er því alfarið hafnað.“

II.

Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 7. nóvember 1989. Ítrekuð er krafan um, að nefndar bætur verði ekki skattlagðar með vísan til framlagðra gagna og skýringa og rökstuðnings kæranda við meðferð málsins á skattstjórastigi. Sérstaklega er skírskotað til fyrrgreindrar yfirlýsingar lögmannsins, dags. 2. júní 1989, um að gengið hafi verið út frá því við samningsgerðina, að bæturnar yrðu ekki skattlagðar.

III.

Með bréfi, dags. 24. október 1990, hefur ríkisskattstjóri gert svofellda kröfu í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Að kröfu kæranda verði hafnað. Umrædd bótagreiðsla er tvímælalaust skattskyld skv. 2. tl. A-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981.“

IV.

Með dómi bæjarþings Reykjavíkur uppkveðnum 8. apríl 1988 í máli kæranda gegn fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs til heimtu skaðabóta vegna frávikningar kæranda úr stöðu [...] voru kæranda dæmdar bætur að fjárhæð 900.000 kr. með vísan til 11. gr., sbr. meginreglu 14. gr., laga nr. 38/1954, fyrir stöðumissi, álitshnekki og önnur óþægindi. Dómi þessum var áfrýjað af hálfu fjármálaráðherra. Svo sem fram kemur í fyrirliggjandi samningi, dags. 13. desember 1988, ákvað áfrýjandi að una þeirri niðurstöðu héraðsdóms, að uppsögn kæranda hefði verið ólögmæt og fella áfrýjun niður. Hins vegar ákvað ráðherra að greiða kæranda hærri bætur en tildæmdar voru í héraði, sbr. nefndan samning, og er í samningnum vísað til 3. mgr. 11. gr., sbr. 2. mgr. 9. gr., laga nr. 38/1954 um bótagrundvöll. Kærandi krefst þess, að umrædd bótafjárhæð 2.200.000 kr. teljist ekki til skattskyldra tekna á þeim grundvelli að um miskabætur sé að ræða, sbr. 2. tl. 28. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Telja verður að kærandi reisi kröfugerð sína á þessari málsástæðu, enda skiptir engu við úrlausn máls þessa út frá hverju samningsaðilar hafa gengið í þessum efnum við samningsgerðina. Kærandi byggir einkum á því, að í bótafjárhæð séu miskabætur skv. umræddu samkomulagi. Verður og að skilja málatilbúnað hans svo, að fyrst og fremst hafi verið um miskabætur að ræða. Í þessu sambandi verður að fallast á það með skattstjóra að út af fyrir sig skipti nafngiftin ekki máli heldur beri að virða sjálfstætt hvers eðlis bæturnar hafi verið. Fram kemur í nefndum bæjarþingsdómi að tildæmd fjárhæð er bæði vegna fjártjóns og miska. Enga sundurliðun er að finna í dóminum þar um og eru bæturnar ákveðnar í einu lagi. Eins háttar til í umræddum samningi, þar sem bætur fyrir fjártjón og miska eru ákveðnar í einu lagi. Skattstjóri hefur talið, að bæturnar væru skattskyldar að fullu með því að þær væru einvörðungu vegna fjártjóns, þ.e. vegna atvinnumissis. Hins vegar hefur skattstjóri ekki tekjufært bæturnar að fullu tekjuárið 1988, sbr. 2. mgr. 60. gr. laga nr. 75/1981, heldur aðeins greidda fjárhæð. Mál þetta þykir liggja þannig fyrir, að í umsömdum bótum felist að einhverju leyti skattfrjáls þáttur, þ.e. bætur fyrir miska, þótt telja verði, miðað við atvik málsins, bótagrundvöll og annað, er skiptir máli í þessu sambandi, að bæturnar séu að meginstofni til vegna fjártjóns og skattskyldar. Eins og fram hefur komið eru miskabætur ekki sérgreindar hvorki í dóminum né samningi. Tilefni var til að gæta að þessu við samningsgerðina. Að öllu framansögðu virtu verður að telja, að það beri undir kæranda að gera grein fyrir hugsanlegum skattfrjálsum þætti í bótafjárhæðinni og hann beri því hallann af því verði hann ekki staðreyndur. Fjárhæð miskabóta liggur ekki fyrir. Að svo vöxnu þykir bera að vísa kærunni frá vegna vanreifunar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja