Úrskurður yfirskattanefndar

  • Frádráttur á móti ökutækjastyrk
  • Skattmat ríkisskattstjóra

Úrskurður nr. 616/1997

Gjaldár 1996

Lög nr. 75/1981, 30. gr. 1. mgr. A-liður 1. tölul. (brl. nr. 92/1987, 2. gr.)   Skattmat fyrir tekjuárið 1995.  

Til úrlausnar var lækkun skattstjóra á tilfærðum frádrætti á móti ökutækjastyrk á skattframtali kæranda árið 1996. Kærandi lagði ekki fram akstursdagbók eða akstursskýrslur vegna aksturs í þágu launagreiðanda, svo sem áskilið er í matsreglum ríkisskattstjóra. Var hann ekki talinn hafa sýnt fram á með fullnægjandi hætti að honum bæri meiri frádráttur vegna kostnaðar á móti ökutækjastyrk en skattstjóri hafði þegar ákvarðað. Var kröfum hans því hafnað.

I.

Kærð er álagning opinberra gjalda kæranda gjaldárið 1996 vegna þeirra breytinga skattstjóra á skattframtali kæranda að lækka frádrátt vegna kostnaðar á móti ökutækjastyrk um 307.400 kr.

Málavextir eru þeir að kærandi taldi ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1996 og sætti hann því áætlun skattstjóra á skattstofnum við álagningu opinberra gjalda það ár. Skattframtal kæranda barst skattstjóra hinn 24. júní 1996 samkvæmt áritun hans á skattframtalið um móttöku þess. Í reit 22 á skattframtalinu færði kærandi 603.675 kr. í ökutækjastyrk og í reit 32 færði hann 407.400 kr. til frádráttar sem kostnað á móti styrknum. Á ökutækjaskýrslu (RSK 3.04), sem fylgdi skattframtalinu, tilgreindi kærandi 33.800 km heildarakstur, þar af 3.800 km akstur til og frá vinnu, 10.000 km annan akstur í eigin þágu og 20.000 km akstur í þágu launagreiðanda.

Skattstjóri krafði kæranda með bréfi, dags. 2. september 1996, um ýmsar skýringar og gögn til staðfestingar akstri í þágu launagreiðanda, þar á meðal um akstursdagbók.

Kærandi gerði grein fyrir akstri milli heimilis og vinnustaðar í bréfi, dags. 5. september 1996, og kvað ökutækjastyrk sinn vera ákveðinn samkvæmt starfssamningi við launagreiðanda og hefði upphaflega verið miðað við 18.000 km akstur í þágu launagreiðanda. Samkvæmt samkomulagi hefði viðmiðunin verið hækkuð síðar í 20.000 km. Með bréfinu fylgdu umbeðin gögn vegna rekstrarkostnaðar bifreiðar, starfssamningur kæranda og greinargerð launagreiðanda, …, um akstur kæranda í hans þágu, en þar kom meðal annars fram að verksvið kæranda væri að sjá um öll bankaviðskipti, útleysingar úr tolli að hluta og eftirlit og þjónustu við marga stærstu viðskiptavini fyrirtækisins. Starfi kæranda fylgdu heimsóknir til fjölmargra umboðsmanna fyrirtækisins víða um land, þar sem miklir fjárhagslegir hagsmunir væru í húfi.

Með kæruúrskurði, dags. 30. september 1996, féllst skattstjóri á að leggja skattframtal kæranda til grundvallar við útreikning skattstofna gjaldárið 1996 í stað áætlunar áður að gerðum breytingum, þar á meðal hinni kærðu lækkun frádráttar vegna kostnaðar á móti ökutækjastyrk. Kvað skattstjóri kæranda hvorki hafa lagt fram umbeðna akstursdagbók né gert nokkurn tölulegan útreikning á tilfærðum akstri í þágu launagreiðanda. Þrátt fyrir skýringar í greinargerð launagreiðanda um akstur kæranda í hans þágu væri enginn tölulegur rökstuðningur fyrir hinum tilgreinda akstri eða útreikningur á því hvernig hann væri ákvarðaður. Kvað skattstjóri ekki unnt að heimila þann frádrátt vegna kostnaðar á móti ökutækjastyrk sem kærandi hefði tilgreint, þar sem umbeðin akstursdagbók eða akstursskýrsla hefði ekki verið lögð fram.

Kærandi hefur skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar með kæru, dags. 29. október 1996. Gerir hann lauslega grein fyrir akstri sínum í þágu launagreiðanda og kveðst aka um 60 til 70 km á dag í þágu launagreiðanda eða um 1.200 til 1.400 km akstur á mánuði auk ferða út á land. Sé því augljóst að akstur í þágu launagreiðanda á árinu 1995 sé að minnsta kosti 20.000 km.

Með bréfi, dags. 27. júní 1997, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Samkvæmt 1. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, er frádráttur kostnaðar á móti ökutækjastyrk heimill að þargreindum skilyrðum uppfylltum, þar á meðal að slík útgjöld séu sönnuð í samræmi við matsreglur ríkisskattstjóra.

Samkvæmt skattmati ríkisskattstjóra fyrir árið 1995 þurfa þeir aðilar, sem hyggjast gera kröfu um að fá kostnað dreginn frá ökutækjastyrk sem þeir fá greiddan á árinu 1995, að færa akstursdagbók eða akstursskýrslu þar sem skráð er hver ferð í þágu launagreiðanda, dagsetning, ekin vegalengd, aksturserindi, nafn og kennitala launamanns og einkennisnúmer viðkomandi ökutækis. Færa skal þessi gögn reglulega og skulu þau vera aðgengileg skattyfirvöldum.

Kærandi hefur hvorki lagt fram akstursdagbók né akstursskýrslu. Kærandi þykir því ekki hafa gert nægilega skilmerkilega grein fyrir akstri í þágu vinnuveitanda. Að mati ríkisskattstjóra ber því að staðfesta úrskurð skattstjóra."

II.

Eins og fram hefur komið í málinu hefur kærandi ekki lagt fram akstursdagbók eða akstursskýrslur vegna aksturs í þágu launagreiðanda á árinu 1995. Með vísan til þeirra skilyrða sem getið er í kröfugerð ríkisskattstjóra, sbr. ákvæði 1. tölul. A-liðar 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með áorðnum breytingum, og matsreglna ríkisskattstjóra fyrir tekjuárið 1995, sbr. auglýsingu nr. 26/1996 í B-deild Stjórnartíðinda, hefur kærandi ekki sýnt fram á með fullnægjandi hætti að honum beri meiri frádráttur vegna kostnaðar á móti ökutækjastyrk en skattstjóri hefur þegar ákvarðað. Kröfu kæranda er því hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja