Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 588/1991

Gjaldár 1990

Lög nr. 75/1981 — 69. gr. C-liður — 100. gr. 5. mgr.   Lög nr. 79/1989 — 1. gr.  

Íbúðarhúsnæði — Íbúðarlán — Vaxtagjöld — Vaxtabætur — Íbúðarhúsnæði, öflun — Öflun íbúðarhúsnæðis — Eigin notkun — Eigin notkun íbúðarhúsnæðis — Íbúðarhúsnæði, eigin notkun — Notkun húsnæðis — Lögheimili — Sjómaður — Kröfugerð ríkisskattstjóra

Kæruefnið er sú ákvörðun skattstjóra að fella niður vaxtagjöld 236.641 kr. í reit 87 í skattframtali kæranda árið 1990 af lánum vegna öflunar íbúðarhúsnæðis að A á þeim forsendum, að ekki væru uppfyllt skilyrði C-liðs 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með því að íbúðarhúsnæði þetta væri ekki til eigin nota í skilningi nefnds lagaákvæðis, sbr. kæruúrskurð skattstjóra, dags. 21. nóvember 1990. Byggði skattstjóri í þessum efnum á því, að samkvæmt þjóðskrá væri kærandi skráður til heimilis að B.

Í kæru til ríkisskattanefndar, dags. 15. desember 1990, kveðst kærandi hafa búið að A frá því hann hafi keypt íbúðina og enginn annar haft afnot af húsnæðinu. Þar sem hann væri langdvölum fjarri heimili sínu vegna sjómennsku, hefði hann ekki flutt lögheimili sitt á þennan stað, en verið skráður á heimili móður sinnar. Hún hefði því fengið póstinn hans og getað rekið ýmis erindi fyrir hann með þægilegri hætti. Kærandi staðhæfir, að hann einn hafi haft afnot af íbúðinni frá því hann keypti hana og hvorki leigt né léð öðrum afnot af íbúðinni. Það geti aðrir íbúar hússins staðfest.

Með bréfi, dags. 21. maí 1991, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Í ljósi þeirra skýringa sem kærandi hefur gefið má fallast á að um sé að ræða íbúð til eigin nota, í skilningi 1. tl. 3. mgr. C-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981. Rétt þykir því að fallast á kröfu kæranda.“

Að virtum skýringum kæranda og með vísan til kröfugerðar ríkisskattstjóra er krafa kæranda tekin til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja