Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 602/1991

Gjaldár 1989 og 1990

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. C-liður 2. tl. 2. mgr. — 30. gr. 2. mgr. — 100. gr. 5. mgr. — 116. gr.  

Íbúðarhúsnæði — Húsaleigutekjur — Húsaleigutekjur, reiknaðar — Reiknaðar húsaleigutekjur — Eigin notkun — Eigin notkun íbúðarhúsnæðis — Íbúðarhúsnæði, eigin notkun — Notkun húsnæðis — Sifjalið — Matsreglur ríkisskattstjóra — Skattmat ríkisskattstjóra — Kröfugerð ríkisskattstjóra — Kröfugerð kæranda — Reiknaðar húsaleigutekjur (brúttó) — Beinn kostnaður — Beinn kostnaður á móti reiknuðum húsaleigutekjum

Málavextir eru þeir, að skattstjóri reiknaði kæranda húsaleigutekjur af íbúð hans að X, 94.878 kr. gjaldárið 1989 og 109.998 kr. gjaldárið 1990, sbr. 2. mgr. 2. tl. C-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Af hálfu kæranda er aðallega krafist niðurfellingar á þessum reiknuðu húsaleigutekjum en til vara, að fasteignagjöld og greiðslur í hússjóð komi til frádráttar hinum reiknuðu tekjum, sbr. bréf umboðsmanns kæranda, dags. 14. febrúar 1991, er barst í framhaldi af kæru til ríkisskattanefndar, dags. 14. janúar 1991. Umboðsmaðurinn greinir frá því, að kærandi hafi keypt íbúðina að X, á árinu 1986. Íbúðin hafi ekki verið leigð út frá því að hún var keypt. Hins vegar hafi dóttir kæranda haft endurgjaldslaus afnot af íbúðinni vegna menntaskólanáms á höfuðborgarsvæðinu. Hinn 1. janúar 1988 hafi hún flutt lögheimili sitt frá Y að X. Hún hafi verið í sambúð og sambýlismaður við iðnnám. Hafi kærandi látið þeim afnot íbúðarinnar í té endurgjaldslaust fyrst og fremst í því skyni að styðja þau í langskólanámi. Það væri skilningur kæranda, að íbúðin væri notuð til eigin þarfa og því bæri ekki að reikna tekjur.

Með bréfi, dags. 21. maí 1991, hefur ríkisskattstjóri fallist á aðalkröfu kæranda í máli þessu.

Að virtum málsatvikum og með vísan til lokamálsliðs 2. mgr. 2. tl. C-liðs 7. gr. laga nr. 75/1981 og kröfugerðar ríkisskattstjóra er fallist á kröfu kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja