Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 603/1991

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. — 30. gr. 1. mgr. A-liður 1. tl. — 31. gr. 1. tl. — 91. gr. 1. mgr. — 96. gr. 1. og 4. mgr. — 116. gr.   Reglugerð nr. 591/1987 — 5. gr.   Auglýsing um skattmat ríkisskattstjóra tekjuárið 1988, liður 3.1.0.  

Skattskyldar tekjur — Ökutækjastyrkur — Ökutækjakostnaður — Frádráttarheimild — Ökutækjaskýrsla — Greinargerð vinnuveitanda um ökutækjastyrk — Akstursdagbók — Akstur milli heimilis og vinnustaðar — Akstur í eigin þágu — Matsreglur ríkisskattstjóra — Skattmat ríkisskattstjóra — Rekstrarkostnaður — Bifreiðakostnaður — Ökutækjastyrkur, uppgjörsaðferðir til skatts — Staðgreiðsla opinberra gjalda — Ökutækjastyrkur utan staðgreiðslu — Fylgigögn skattframtals — Skattframtal, vefenging — Andmælareglan — Málsmeðferð áfátt — Meðalhófsreglan — Forsendur skattstjóra — Rangar forsendur skattstjóra — Sjónarmið, sem stjórnvaldsákvörðun er byggð á — Ólögmæt sjónarmið — Sönnun — Kærumeðferð skattstjóra

I.

Málavextir eru þeir, að kærandi, sem er byggingarfulltrúi hjá X-bæ, fékk greiddan ökutækjastyrk að fjárhæð 163.624 kr. frá bæjarfélaginu á árinu 1988. Styrk þennan færði kærandi sér til tekna í reit 22 í skattframtali sínu árið 1989. Sem kostnað á móti styrknum í reit 32 í framtalinu færði kærandi 117.130 kr., sbr. greinargerð um ökutækjastyrk og ökutækjarekstur (RSK 3.04), er fylgdi framtalinu. Kom þar fram, að akstur í þágu vinnuveitanda var talinn 8.500 km og kostnaður vegna þess aksturs nam tilfærðri fjárhæð.

Með bréfi, dags. 13. desember 1989, krafði skattstjóri kæranda um akstursdagbók eða aðra fullgilda greinargerð, er sýndi ákvörðun aksturs í þágu launagreiðanda. Í svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 13. janúar 1990, var vísað til þess, að kærandi hefði lagt fram fullnægjandi greinargerð (RSK 3.04) um ökutækjarekstur og ökutækjastyrk á árinu 1988, er gerð væri í fullu samræmi við leiðbeiningar ríkisskattstjóra. Þess var getið, að kærandi gegndi starfi byggingarfulltrúa og því fylgdi mikill akstur vegna byggingareftirlits. Sérstök bifreiðanefnd á vegum X-bæjar hefði metið akstur kæranda vegna þessara starfa 8.500 km.

Hinn 9. febrúar 1990 tilkynnti skattstjóri kæranda, að tilfærður frádráttur 117.130 kr. í reit 32 í skattframtali hans árið 1989 vegna kostnaðar á móti ökutækjastyrk hefði verið felldur niður og áður álögð opinber gjöld gjaldárið 1989 endurákvörðuð af því tilefni. Forsendur skattstjóra voru svofelldar: „Þar sem ekki hafa verið lögð fram nein gögn, akstursdagbók eða annað, sem sýna raunverulegan akstur framteljanda, telst umræddur kostnaður ósannaður og því felldur niður.“ Þá vísaði skattstjóri til 5. gr. reglugerðar nr. 591/1987, um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu.

Af hálfu umboðsmanns kæranda var breytingu skattstjóra mótmælt í kæru, dags. 20. febrúar 1990. Ítrekaðar voru áður framkomnar skýringar og rök og vísað til þess, að kærandi hefði gert tilskilda grein fyrir ökutækjarekstri og umræddum frádráttarlið, sbr. RSK 3.04. Þá skírskotaði umboðsmaðurinn til 1. tl. A-liðs 1. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, og leiðbeininga ríkisskattstjóra. Mótmælt var þeirri túlkun skattstjóra, að aksturskostnaður á móti fengnum bifreiðastyrk væri því aðeins frádráttarbær, að framteljandi hefði haldið akstursdagbók, enda væri sú ályktun andstæð skattalögum.

Með kæruúrskurði, dags. 26. febrúar 1990, synjaði skattstjóri kröfu kæranda. Forsendur skattstjóra eru svohljóðandi:

„Heimild til frádráttar kostnaðar á móti ökutækjastyrk er bundin við [sannanlegan] kostnað. Þér hafið ekki getað fært nein rök fyrir hver akstur yðar er önnur en að [X-bær] hafi fyrir löngu síðan samþykkt að greiða yður fyrir þennan tiltekna kílómetrafjölda. Á þeim tíma var akstur milli heimilis og vinnustaðar talinn að mestu leyti í þágu vinnuveitanda, sem ekki er nú. Þá breytast umsvif starfa og akstursþörf á löngum tíma. Því verður að telja, að akstur yðar sé ósannaður og þar með er kostnaður vegna hans ósannaður.“

II.

Kæruúrskurði skattstjóra hefur af hálfu umboðsmanns kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 21. mars 1990, og þess krafist, að tilfærður frádráttur 117.130 kr. í reit 32 verði látinn óhaggaður standa með svofelldum rökum:

„Umbjóðandi minn hefur skilað inn yfirliti um rekstur bifreiðar sinnar árið 1988 á eyðublaði RSK 3.04. Eyðublað þetta er útfyllt í fullu samræmi við leiðbeiningar á bakhlið þess og hafa eigi áður verið gerðar neinar athugasemdir við útfyllingu þess. Skv. greindu eyðublaði er einkaakstur umbjóðanda míns á bifr. [A] tilgreindur 5720 km. Auk þess á umbjóðandi minn aðra bifr., bifr. [B], sem eingöngu er notuð í einkaþágu og var henni ekið alls um 4500 km árið 1988. Einkaakstur umbjóðanda míns árið 1988 nam því alls 10220 km, sem telja verður innan eðlilegra marka hér um slóðir.

Í úrskurði sínum, dags. 26.02.1990, byggir skattstjóri niðurfellingu tilfærðs bifreiðakostnaðar á móti fengnum bifreiðastyrk á því, að umbjóðandi minn hafi eigi fært sönnur á aksturþörf sína í þágu [X-bæjar] með framlagningu akstursdagbókar eða annarra fullnægjandi gagna, og því sé akstur hans og þar með kostnaður vegna hans með öllu ósannaður.

Í 30. gr. 1. mgr. A, tölul. 1. laga nr. 75/1981, um tekju- og eignarskatt, felst heimildin til frádráttar kostnaðar vegna fengins ökutækjastyrks og auk þess hafa framteljendur til hliðsjónar leiðbeiningar, sem gefnar eru út árlega af ríkisskattstjóra um útfyllingu skattframtala og annarra eyðublaða, þar á meðal eyðublað RSK 3.04.

Í leiðbeiningum útgefnum fyrir framtalsárið 1988, en það var fyrsta árið sem staðgreiðsla gilti, er ekki að sjá neinar breytingar frá áður gildandi reglum og heldur ekki í leiðbeiningum fyrir árið 1989.

Sú túlkun skattstjóra, að aksturskostnaður á móti fengnum bifreiðastyrk sé aðeins frádráttarbær, að framteljandi hafi haldið akstursdagbók, fæst því eigi staðist skv. ákvæðum skattalaga, enda stendur á áberandi stað á eyðublaði RSK 3.04: „Óski framteljandi að njóta frádráttar í tölulið 7.4 á skattframtali skal hann skila þessu eyðublaði útfylltu á fullnægjandi hátt.“

Af öllu framansögðu verður eigi séð, að umbjóðandi minn hafi staðið ranglega að málum. Hann hefur skilað inn fullnægjandi gögnum um rekstur bifreiðar sinnar árið 1988. Akstur hans í þágu vinnuveitanda er byggður á mati sérstakrar nefndar um bifreiðamál á vegum [X-bæjar].“

III.

Með bréfi, dags. 18. desember 1990, hefur ríkisskattstjóri krafist þess í málinu, að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

IV.

Skattframtali kæranda árið 1989 fylgdi greinargerð um ökutækjastyrk og ökutækjarekstur á árinu 1988 (RSK 3.04). Kom þar m.a. fram heildarakstur bifreiðarinnar A og skipting hans. Var heildarakstur tilgreindur 15.000 km og var honum skipt þannig af hálfu kæranda, að 8.500 km voru taldir vera vegna aksturs í þágu X-bæjar vegna starfs kæranda, 1.500 km vegna aksturs í þágu sjálfstæðrar starfsemi kæranda og 5.000 km í einkaþágu. Varðandi síðastnefnda atriðið gat kærandi þess, að önnur bifreið væri á heimilinu til einkaþarfa og hefði henni verið ekið 4.500 km á árinu 1988. Kærandi færði kostnað vegna aksturs í þágu X-bæjar 117.130 kr. til frádráttar í reit 32 í framtalinu á móti tekjufærðum ökutækjastyrk 163.624 kr. frá bænum eins og fyrr greinir. Heildarfjárhæð bifreiðakostnaðar er óvefengd. Með bréfi sínu, dags. 13. desember 1989, krafði skattstjóri kæranda um akstursdagbók eða aðra fullgilda greinargerð, er sýndi ákvörðun aksturs í þágu X-bæjar. Í framhaldi af svari kæranda, dags. 13. janúar 1990, þar sem hann skírskotaði einkum til greinargerðar sinnar (RSK 3.04), felldi skattstjóri niður með öllu tilfærðan kostnað á móti ökutækjastyrk á þeim forsendum, að ekki hefðu verið lögð fram nein gögn, akstursdagbók eða annað, er sýndi raunverulegan akstur kæranda í þágu vinnuveitanda. Í kæruúrskurði sínum, dags. 26. febrúar 1990, situr skattstjóri við sinn keip og teflir jafnframt fram ýmsum nýjum forsendum, er hann vill byggja synjun sína á. Til þess er að líta, að skattstjóri hefur áður talið, að starfi kæranda fylgdu akstursnauðsynjar. Það fær því ekki staðist af hálfu skattstjóra að telja nú, að þessu sama starfi fylgdi enginn akstur og láta við slíka niðurstöðu sitja. Skattstjóri sýnist byggja niðurstöðu sína á vefengingu á akstursskiptingu kæranda og hafði krafið kæranda um gögn þar að lútandi, akstursdagbók eða aðra fullgilda greinargerð. Svo sem fram kemur í kæru er kærandi ekki skyldur til þess að halda akstursdagbók og hefur valið annan kost í þeim efnum, sbr. reglur ríkisskattstjóra þar um. Ekki kemur fram í hverju fullgild greinargerð hefði átt að felast. Ef skattstjóri átti við greinargerð vinnuveitanda, sbr. reglur ríkisskattstjóra, bar að tilgreina það skýrlega. Þá er það enn við málsmeðferð skattstjóra að athuga, að í kæruúrskurði hans koma fram fyrst ýmsar forsendur, er hann byggir niðurstöðu sína á. Í ljósi þeirrar meðferðar, sem mál þetta hefur sætt af hálfu skattstjóra og með vísan til skýringa kæranda og málsgagna þykir bera að taka kröfu kæranda til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja