Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 711/1991

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 9. gr. — 17. gr. — 100. gr. 3. og 5. mgr.   Ákvæði til bráðabirgða II.  

Hlutabréf — Hlutafélag — Söluhagnaður — Lausafé — Söluhagnaður lausafjár — Söluhagnaður ófyrnanlegs lausafjár — Söluhagnaður af hlutabréfum — Söluhagnaður, útreikningur — Útreikningur söluhagnaðar — Uppgjörsaðferð söluhagnaðar — Söluhagnaður, uppgjörsaðferð — Jöfnunarhlutabréf — Jöfnunarhlutabréfaútgáfa — Jöfnunarhlutabréf, úthlutunarheimild — Jöfnunarhlutabréf, hámark úthlutunarheimildar miðað við almennar verðhækkanir — Kröfugerð kæranda — Kröfugerð ríkisskattstjóra — Rökstuðningur — Rökstuðningur kæru — Rökstuðningi kæru áfátt — Frávísun — Vanreifun — Frávísun vegna vanreifunar — Efnahagsreikningur

Skattstjóri ákvarðaði kæranda söluhagnað 215.947 kr. af hlutabréfum í X hf., sem hann seldi á árinu 1987 fyrir 431.894 kr.

Með bréfum, dags. 10. október 1989 og 27. nóvember 1989, hefur umboðsmaður kæranda skotið úrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Í kæru umboðsmannsins kemur m.a. eftirfarandi fram:

„Sala umbjóðanda míns á 50% hlutabréfa í X h.f., var liður í sameiningu X h.f. og Y h.f. sem átti sér stað á árinu 1987. Þrátt fyrir sameininguna voru félögin rekin í sitt hvoru lagi til ársloka 1987. Að mínu áliti er hér ekki um neinn söluhagnað að ræða þar eð félagið gat gefið út jöfnunarhlutabréf að upphæð kr. ca. 1.800.000 sbr. meðfylgjandi efnahagsreikning þess per 31/12 1987.“

Með bréfi, dags. 25. mars 1991, hefur ríkisskattstjóri gert svofellda kröfu í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Samkvæmt efnahagsreikningi X hf., þann 31. desember 1978 og með vísan til bráðabirgðaákvæðis II í lögum nr. 75/1981 um tekjuskatt og eignarskatt verður að telja að heimild hlutafélagsins til útgáfu jöfnunarhlutabréfa hafi numið gkr. 45.520. Ljóst er miðað við eiginfjárstöðu hlutafélagsins í árslok 1987 að heimild til útgáfu jöfnunarhlutabréfa hjá félaginu á árinu 1988 takmarkast af vísitölu jöfnunarhlutabréfa, sbr. ákvæði 5. málsliðar 1. mgr. 9. gr. laga nr. 75/1981. Útreikningur heimildar vegna ársins 1988 er þannig:

Hlutafé 31/12 1978 er 5.000 kr.

Heimild til útg. jöfnunarhlutabr. 1979 455 kr.

5.455 x 21,92 = 119.577

– nafnverð hlutabr. 1978 5.000

114.122

Útreikningur söluhagnaðar er þannig:

Söluverð 50% hlutabréfa í X h.f. 431.894 kr.

50% af heimild til útg. jöfnunarhlbr. – 57.061 kr.

Nafnverð – 2.500 kr.

Söluhagnaður 372.333 kr.

Samkvæmt úrskurði skattstjóra er hagnaður vegna sölu hlutabréfa áætlaður kr. 215.947. Ljóst er skv. framansögðu að söluhagnaður er kr. 372.333. Þess er krafist að réttur söluhagnaður vegna hlutabréfa færist til tekna kæranda, skattframtal 1988 verði tekið upp og gjöld hækkuð til samræmis við hækkun tekna.“

Með bréfi ríkisskattanefndar, dags. 29. apríl 1991, var kæranda veitt færi á að gera athugasemdir við kröfugerð ríkisskattstjóra, ef hann teldi ástæðu til. Svar hefur ekki borist, en frestur til þess var gefinn í 20 daga frá dagsetningu bréfsins.

Kærandi hefur enga aðra grein gert fyrir þeirri staðhæfingu, að félagið hefði getað gefið út jöfnunarhlutabréf að fjárhæð ca. 1.800.000 kr., en þá að vísa til efnahagsreiknings þess 31/12 1987. Hins vegar neitar hann ekki því hvaða áhrif takmarkanir vegna almennra verðhækkana frá 1/1 1979 höfðu á mögulega jöfnunarhlutabréfaútgáfu. Þá liggur ekki fyrir hvernig fjárhæð mögulegrar jöfnunarhlutabréfaútgáfu á árinu 1979, sem fram kemur í kröfugerð ríkisskattstjóra, er fundin. Að svo vöxnu er máli þessu vísað frá.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja