Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 913/1991

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 31. gr. 1. tl.  

Vinnufatakostnaður — Hlífðarfatakostnaður — Rekstrarkostnaður — Kostnaður vegna atvinnurekandans sjálfs — Persónulegur kostnaður — Járnabindingar — Eigin atvinnurekstur — Frádráttarheimild — Öryggisfatnaður — Öryggi á vinnustöðum

Málavextir eru þeir, að kærandi hafði með höndum sjálfstæða starfsemi við járnabindingar. Hann gjaldfærði 20.827 kr. sem hlífðarfatakostnað á rekstrarreikningi vegna þessarar starfsemi fyrir árið 1988. Var hér um að ræða kostnað vegna hlífðarfata kæranda sjálfs. Þennan gjaldalið felldi skattstjóri niður á þeim forsendum, að engin heimild væri til frádráttar á hlífðarfatnaði til eigin nota, sbr. endurákvörðun skattstjóra, dags. 7. febrúar 1990. Í kæru, dags. 2. mars 1990, var þessari breytingu skattstjóra mótmælt. Með kæruúrskurði, dags. 25. apríl 1990, synjaði skattstjóri kærunni, enda væri ekki um frádráttarbæran rekstrarkostnað að ræða samkvæmt 1. tl. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 30. apríl 1990. Krefst kærandi þess, að umræddur gjaldaliður verði tekinn til greina. Kærandi greinir frá því, að á árinu 1988 hafi hann starfað sem undirverktaki við járnabindingar í Reykjavík og á Nesjavöllum. Í því starfi hafi hann þurft að leggja sér til öryggishjálm, öryggisskó og hlífðarfatnað með endurskinsræmum til þess að uppfylla ákvæði laga og reglna um öryggi á vinnustað. Hér væri því ótvírætt um rekstrarkostnað að ræða, sem ekki yrði komist hjá við tekjuöflun á þessum vettvangi.

Með bréfi, dags. 31. júlí 1990, hefur ríkisskattstjóri krafist þess í málinu, að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Eins og starfi kæranda er háttað og lýst er í málinu þykir mega fallast á kröfu hans.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja