Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 31/1992

Gjaldár 1991

Lög nr. 75/1981 — 2. gr. 1. mgr. 1. tl. — 91. gr. 1. mgr. — 95. gr. 2. mgr.  

Hlutafélag — Skattskylda — Upphaf skattskyldu — Upphaf skattskyldu hlutafélags — Stofnun hlutafélags — Stofnfundur — Stofndagur hlutafélags — Hlutafélagaskrá — Tilkynning til hlutafélagaskrár — Framtalsskylda — Áætlun — Áætlun skattstofna — Skattframtal í stað áætlunar

Kærð er álagning opinberra gjalda gjaldárið 1991. Kröfugerð kæranda fyrir ríkisskattanefnd er svohljóðandi:

„Kærður er úrskurður skattstjóra A-umdæmis, dags. 20. ágúst s.l. þar sem hann hafnar niðurfellingu tekjuskatts, eignarskatts og fleiri opinberra gjalda, svo og sveitarsjóðsgjalda, sem álögð eru á kærandann 1991, samtals að upphæð kr. 15.639.375.

Málavextir eru þeir að X hf., sem er arftaki B, taldi eigi fram til skatts þar sem upphafsdagur félagsins er 1. janúar 1991 en þann dag tók það til starfa með yfirtöku eigna, skulda og rekstrar B, allt samkvæmt ákvæðum stofnsamnings félagsins. Yfirgnæfandi partur hlutafjárins fólst í umræddri nettóeign deildarinnar en að auki lögðu nokkrir aðilar til fé af innstæðum sínum í s.k. verksmiðjustofnsjóði sem einnig greiddist félaginu hinn 1. janúar 1991. Áætlun skattstjóra var því kærð til niðurfellingar hinn 13. ágúst s.l. með vísun til þess að enginn rekstur hafi verið á vegum félagsins né eignir í þess eigu innan þeirra tímamarka sem umrædd álagning nær til.

Í úrskurði sínum virðist skattstjóri bera brigður á það að upplýsingar um upphaf starfsemi og innborgun hlutafjár séu réttar og vísar til þess að skv. „staðgreiðsluskrá“ hafi félagið greitt um 230 milljónir króna í vinnulaun á árinu 1990.

Staðgreiðslusköttum vegna launþeganna, sem unnu sér inn hinar umræddu 230 milljónir í starfi hjá D, hafði reyndar öllum verið skilað af D og undir kennitölu B. Ástæða þess að nafn X hf. er nú komið til skjalanna í „staðgreiðsluskrá“ er sennilega sú að Hagstofa Íslands úthlutaði félaginu sömu kennitölu og B hafði notað. Mun Hagstofan hafa talið sér hagræði að þessu og breytti einnig nöfnum við kennitölur nokkurra annarra deilda D sem breytt var í hlutafélög um s.l. áramót. Sagt er að Hagstofan hafi ráðfært sig við aðila innan skattakerfisins sem fallist hafi á þessa tilhögun, að því tilskildu að breytingin yrði um áramót. Þess má geta að upphaf þess að deildirnar fengu sjálfstæðar kennitölur er rakið til upptöku virðisaukaskatts.

Hinir kærðu tekju- og eignarskattar eru miðaðir við áætlun skattstjóra en gjöld sem miða ber við umfang rekstrar, svo sem aðstöðugjald, iðnlánasjóðsgjald og skyld gjöld eru lögð á X hf. miðað við aðstöðugjaldsframtal B. Þessi sömu gjöld eru einnig lögð á D, undir kennitölu E, nú kennitölu D eftir endurskipulagningu. Skattstjóri hefur því að þessu leyti lagt sömu gjöldin á tvo lögaðila eftir framtali annars þeirra og má telja það allharða skattheimtu.

Ákvörðun um stofnun X hf. var tekin á stofnfundi þess hinn 15. desember 1990. Félagið er skráð í hlutafélagaskrá hinn 27. desember sem er næst síðasti virkur dagur ársins en skráning er forsenda þess að hlutafélag geti öðlast réttindi og tekið á sig skyldur. Samkvæmt 5. gr. stofnsamnings, sem er fylgiskjal með tilkynningu um stofnun, fer yfirtaka reksturs, eigna og skulda, þar með greiðsla hlutafjár, fram hinn 1. janúar 1991. Engar forsendur eru því til þess að gera ársreikning fyrir 1990.

Með vísan til framanritaðs telur kærandi að skattskylda félagsins hefjist hinn 1. janúar 1991 og framtalsskylda vegna ársins 1990 sé því eigi til staðar. Óskast álögð gjöld felld niður á þeirri forsendu.

Geti ríkisskattanefnd ekki fallist á túlkun kæranda á framtalsskyldu sinni er til vara gerð krafa um niðurfellingu gjaldanna á grundvelli meðfylgjandi framtalseyðublaðs, sem undirritað er af framkvæmdastjóra félagsins og sýnir að engir skattstofnar eru til staðar til álagningar.“

Með bréfi, dags. 19. desember 1991, hefur ríkisskattstjóri gert svofellda kröfu í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Telja verður að kærandi sé skattaðili frá skráningu. Framtalsskyldu var ekki sinnt með lögformlegum hætti. Við svo búið stendur enn, en eftir öllum atvikum þykir mega fallast á að áætlun um tekjur, eign og veltu verði niður felld, í ljósi nú innsendra gagna.“

Samkvæmt gögnum málsins er stofndagur kæranda 15. desember 1990. Ber að miða upphaf skattskyldu kæranda við þann tíma. Er aðalkröfu kæranda því synjað.

Að virtum öllum málavöxtum og með hliðsjón af kröfugerð ríkisskattstjóra er fallist á varakröfu kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja