Úrskurður yfirskattanefndar

  • Álag
  • Jafnræðisregla
  • Kröfugerð ríkisskattstjóra

Úrskurður nr. 937/1997

Gjaldár 1996

Lög nr. 75/1981, 101. gr., 106. gr. 1. mgr.   Lög nr. 30/1992, 7. gr. 4. mgr. 2. málsl.  

Kærandi, sem notið hafði aðstoðar tiltekinnar bókhaldsþjónustu við framtalsgerð sína árið 1996, sætti álagi vegna síðbúinna skila á skattframtalinu. Í kæru til yfirskattanefndar benti kærandi á að skattstjóri hefði ekki beitt álagi í tilvikum annarra skattaðila, sem notið hefðu aðstoðar sama aðila við framtalsgerð, og orðið hefðu fyrir því að dráttur varð á framtalsskilunum með sama hætti og hjá kæranda. Ríkisskattstjóri gerði enga grein fyrir því í kröfugerð sinni hvernig málum hefði verið farið að þessu leyti. Að svo vöxnu máli féllst yfirskattanefnd á kröfu kæranda um niðurfellingu álags.

I.

Málavextir eru þeir að kærendur töldu ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1996 og sættu því áætlun skattstjóra á skattstofnum við almenna álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1996, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Skattstjóri bætti 15% álagi við hina áætluðu skattstofna, sbr. heimildarákvæði 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Í framhaldi af kæru til skattstjóra, dags. 28. ágúst 1996, sendi umboðsmaður kærenda skattframtal þeirra árið 1996 með bréfi, dags. 3. október 1996, er barst skattstjóra 7. s.m., og fór fram á að framtalið yrði lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1996 án álags vegna síðbúinna framtalsskila. Með kæruúrskurði, dags. 23. desember 1996, féllst skattstjóri á að leggja innsent skattframtal kærenda til grundvallar álagningu opinberra gjalda þeirra gjaldárið 1996 með leiðréttingum varðandi reiknað endurgjald sem ekki er ágreiningur um. Kröfu kærenda um að álagi vegna síðbúinna framtalsskila yrði ekki beitt hafnaði skattstjóri hins vegar með vísan til fyrri framtalsskila kærenda.

Kæruúrskurði skattstjóra hefur af hálfu umboðsmanns kærenda verið skotið til yfirskattanefndar með kæru, dags. 3. janúar 1997, og er þess krafist að álag það, sem skattstjóri bætti við skattstofna, verði fellt niður. Gerð er grein fyrir því að sérstakar ástæður hafi valdið því að ekki tókst að skila framtali í tæka tíð. A ehf. hafi séð um framtalsskil kærenda um nokkurra ára skeið. Svo hafi einnig verið framtalsárið 1996. Af sérstökum ástæðum hafi ekki verið staðið skil á verulegum fjölda skattframtala frá A ehf. vegna framtalsársins 1996. Af þessu tilefni hafi skattstjóra verið greint frá stöðu mála. Þar sem vanskilin hafi ekki verið skattaðilum að kenna hafi verið á það fallist að tekið yrði tillit til þess við úrskurði í málum við afgreiðslu kæra. Samkvæmt upplýsingum A ehf. hafi við úrskurði á milli 50 og 60 mála af þessum toga á síðustu þremur mánuðum verið tekið tillit til þess að skattaðilum væri ekki um að kenna og álagi vegna síðbúinna framtalsskila ekki beitt. Er farið fram á að kærendur fái sömu meðferð hvað niðurfellingu álags varðar og aðrir þeir sem hafi verið í sömu aðstöðu.

II.

Með bréfi, dags. 2. maí 1997, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra varðandi álagsbeitingu verði staðfestur. Umboðsmaður kæranda vill meina að umbjóðandi hans hafi ekki notið jafnræðis á við aðra gjaldendur í sömu stöðu. Þessi fullyrðing hans er ekki studd neinum gögnum og því telur ríkisskattstjóri að ekki verði á þessu byggt. Sérstök athygli er vakin á því að ákvörðun sína varðandi álagsbeitingu rökstyður skattstjóri með tilvísun til fyrri framtalsskila gjaldenda. Gjaldárið 1994 var skattframtali skilað 9. júní og gjaldárið 1995 20. júlí og það ár voru kæranda áætlaðar tekjur við álagningu opinberra gjalda."

III.

Af hálfu kærenda er krafa þeirra um niðurfellingu álags vegna síðbúinna framtalsskila eingöngu rökstudd með skírskotun til þess að skattstjóri hafi ekki beitt álagi í tilvikum annarra skattaðila, sem nutu aðstoðar A ehf. við framtalsgerð sína, og urðu fyrir því að dráttur varð á framtalsskilunum með sama hætti og hjá kærendum. Verður að telja að málið velti á þessu. Ríkisskattstjóri telur að það sé kærenda að færa fram gögn fyrir staðhæfingum sínum og þar sem kærendum hafi ekki tekist að sanna staðhæfingu sína beri að synja kröfu þeirra. Ekki verður á þetta sjónarmið fallist. Vegna málsástæðu kærenda var tilefni til þess að ríkisskattstjóri kannaði á grundvelli stjórnsýsluvalds síns, sbr. m.a. 101. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, hvernig málum var farið að þessu leyti, og gerði grein fyrir þessu í kröfugerð sinni fyrir yfirskattanefnd, sbr. sérstaklega 2. málsl. 4. mgr. 7. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd. Að svo vöxnu máli þykir þykir rétt að fallast á kröfu kærenda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja