Úrskurður yfirskattanefndar

  • Álag
  • Álag á vangreidda staðgreiðslu
  • Málsmeðferð áfátt
  • Valdsvið yfirskattanefndar

Úrskurður nr. 1045/1997

Gjaldár 1996

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 1. tölul. 2. mgr., 106. gr. 1. mgr., 121. gr.   Lög nr. 45/1987, 14. gr., 28. gr., 34. gr.   Lög nr. 113/1990, 13. gr. 2. mgr.  

Kærandi, sem hafði sjálfstæða starfsemi með höndum, sætti áætlun skattstofna vegna síðbúinna framtalsskila árið 1996. Við afgreiðslu á skattframtali hans þetta ár ákvarðaði skattstjóri kæranda álag vegna síðbúinna framtalsskila svo og álag á vangreidda staðgreiðslu reiknaðs endurgjalds. Yfirskattanefnd taldi að staðgreiðsluákvörðunin hefði út af fyrir sig ekki staðið í órofa samhengi við afgreiðslu skattstjóra á fyrirliggjandi kæru, þ.e. skattframtali kæranda árið 1996, og yrði ekki ákveðin án þess að skattstjóri gætti rannsóknarreglu sinnar, m.a. um skiptingu reiknaðs endurgjalds á greiðslutímabil, og að gættum andmælarétti kæranda. Var sú ákvörðun skattstjóra því felld úr gildi. Álag vegna síðbúinna framtalsskila var látið standa óhaggað. Það kæruatriði sem varðaði dráttarvexti vegna vangreidds tryggingagjalds var ekki talið á valdsviði yfirskattanefndar.

I.

Málavextir eru þeir að kærandi taldi ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1996. Við álagningu opinberra gjalda það ár sætti hann því áætlun skattstjóra á skattstofnum, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981. Með kæru, dags. 14. ágúst 1996, lagði kærandi fram skattframtal sitt árið 1996.

Með kæruúrskurði, dags. 22. október 1996, féllst skattstjóri á að leggja skattframtalið til grundvallar álagningu opinberra gjalda ársins 1996, að gerðum breytingum sem ekki sæta kæru. Þá bætti skattstjóri 15% álagi á skattstofna samkvæmt heimildarákvæðum 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að teknu tilliti til staðgreiðsluskila vegna kæranda. Við þessa ákvörðun kvaðst skattstjóri hafa hliðsjón af fyrri framtalsskilum kæranda, en hann hefði sætt áætlun gjaldstofna gjaldárin 1994 og 1995. Skattframtölum framangreindra ára hefði verið skilað 28. desember 1995. Skattstjóri taldi að af hálfu kæranda hefði ekki verið sýnt fram á að þær ástæður hafi legið fyrir er leiddu til þess að fella bæri niður álag skv. 3. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981. Þá bætti skattstjóri álagi á vangreidda staðgreiðslu reiknaðs endurgjalds, sbr. 1. og 2. tölul. 2. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Einnig ákvarðaði skattstjóri kæranda dráttarvexti á vangreidda staðgreiðslu af tryggingagjaldi og vísaði í því sambandi til 2. mgr. 13. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald, og vaxtalaga nr. 25/1987.

Með kæru, dags. 11. nóvember 1996, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar og krafist niðurfellingar álagsbeitingar skattstjóra á skattstofna. Hann kveður kæranda hafa átt við persónuleg vandamál að stríða sem hann sé að reyna að vinna sig út úr og að algjörlega óþarfar refsingar og álögur af hendi skattstjóra auðveldi honum það ekki.

Með bréfi, dags. 20. desember 1996, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra."

II.

1. Þegar frambornar ástæður í máli þessu fyrir síðbúnum framtalsskilum eru virtar svo og það sem upplýst er um fyrri framtalsskil kæranda, sbr. úrskurð skattstjóra, þykja eigi næg efni til þess að falla frá beitingu álags í tilviki kæranda gjaldárið 1996, sbr. heimildarákvæði 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Kröfu kæranda varðandi þetta kæruatriði er því hafnað.

2. Kærandi hafði tekjur sem sjálfstætt starfandi … á árinu 1995. Á skattframtali sínu árið 1996 færði hann til tekna reiknað endurgjald að fjárhæð 1.120.000 kr., sbr. 2. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og gjaldfærði það í rekstrarreikningi sem fylgdi skattframtalinu. Af fyrirliggjandi gögnum er ljóst að endurgjald kæranda við starfsemi hans var umfram fjárhæð samkvæmt 17. tölul. 1. mgr. 2. gr. reglugerðar nr. 591/1987, um laun, greiðslur og hlunnindi utan staðgreiðslu, og bar kæranda því að standa skil á staðgreiðslu af endurgjaldi sínu eftir ákvæðum laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Með kæruúrskurði sínum, dags. 22. október 1996, sem skattstjóri kvað upp vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 1996, tók skattstjóri fyrir að ákvarða kæranda staðgreiðslu opinberra gjalda á staðgreiðsluárinu 1995 og álag á vangreidda staðgreiðslu, sbr. 1. og 2. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Þótt staðgreiðsluskil hafi að sönnu áhrif á þætti við álagningu opinberra gjalda með tilliti til ákvæða 34. gr. laga nr. 45/1987 og 121. gr. laga nr. 75/1981, stóð staðgreiðsluákvörðunin út af fyrir sig ekki í órofa samhengi við afgreiðslu skattstjóra á fyrirliggjandi kæru, þ.e. skattframtali kæranda árið 1996, og varð ekki ákveðin án þess að skattstjóri gætti rannsóknarreglu sinnar, m.a. um skiptingu reiknaðs endurgjalds á greiðslutímabil, sbr. 14. gr. laga nr. 45/1987, og að gættum andmælarétti kæranda. Er þessi ákvörðun skattstjóra því felld úr gildi.

3. Umfjöllun skattstjóra í kæruúrskurði hans, dags. 22. október 1996, um dráttarvexti á tryggingagjald verður að skilja svo að hún lúti að dráttarvöxtum vegna vangreidds tryggingagjalds sem ákvarðað er við álagningu opinberra gjalda, sbr. ákvæði 2. mgr. 13. gr. laga nr. 113/1990, um tryggingagjald. Samkvæmt því ákvæði, sbr. og athugasemdir með 13. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 113/1990, svarar ákvæðið til 112. gr. laga nr. 75/1981. Því er um að ræða ágreining um innheimtu opinberra gjalda sem ekki verður borinn undir yfirskattanefnd. Þessu kæruatriði er því vísað frá yfirskattanefnd.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja