Úrskurður yfirskattanefndar

  • Skattframtal
  • Málsmeðferð áfátt

Úrskurður nr. 1056/1997

Gjaldár 1996

Lög nr. 75/1981, 91. gr. 1. mgr., 95. gr., 99. gr. 1. mgr.  

Talið var að kærumeðferð skattstjóra og kæruúrskurður hans vegna álagningar opinberra gjalda kæranda árið 1996 hefði verið ólögmætur þar sem skattframtal kæranda þetta ár hefði aldrei borist skattstjóra í lögmætu formi.

I.

Málavextir eru þeir að kærandi sætti áætlun skattstofna gjaldárið 1996 af hálfu skattstjóra þar sem skattframtal barst ekki frá kæranda í framtalsfresti, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Hinn 27. júní 1996 móttók skattstjóri ársreikning kæranda fyrir árið 1995 ásamt fyrningarskýrslu, verðbreytingarskýrslu, framtali vegna markaðsgjalds og leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts, sbr. áritun skattstjóra á ársreikninginn um móttökuna.

Með bréfi, dags. 4. október 1996, lagði skattstjóri fyrir kæranda að láta í té gögn og/eða skýringar varðandi tilgreind atriði í innsendum gögnum áður en málið yrði tekið til úrskurðar. Í bréfi skattstjóra kom fram að samkvæmt rekstrarreikningi kæranda væri sala félagsins árið 1995 talin 919.884 kr. en vörunotkun vegna þessarar sölu samkvæmt gjaldahlið rekstrarreiknings 850.555 kr. Þar sem starfsemi félagsins fælist í veitingarekstri gæti innsendur rekstrarreikningur ekki staðist án sérstakra skýringa. Var kæranda gefinn kostur á að koma að skýringum varðandi óeðlilegt hlutfall milli vörunotkunar og skráðrar sölu. Bærust ekki viðhlítandi skýringar mætti búast við að innsent framtal teldist ekki tækur grundvöllur álagningar. Þá tók skattstjóri fram að skattframtal væri óundirritað og óskaði eftir því að bætt yrði úr því.

Í svari umboðsmanns kæranda, dags. 20. október 1996, er barst skattstjóra 1. nóvember 1996, kom fram að hann taldi að framtali hefði verið skilað innan viðbótarframtalsfrests hinn 25. júní 1996. Þá var tekið undir það að vörunotkun á árinu 1995 væri óeðlileg. Helstu skýringar á því væru að rekstur félagsins hefði verið í „algjöru rugli" undanfarin ár og engu skilað en nú hafi verið ákveðið að taka til hendinni og reyna að laga hlutina svo rekstur ársins 1996 skilaði mögulega einhverju. Vörulager hefði því verið afskrifaður þar sem hann hefði í raun verið verðlítill og því gjaldfærður á árinu 1995. Þá lýsti umboðsmaður kæranda því yfir að undirskrift hans á bréfinu væri jafnframt undirritun á öll áðursend eyðublöð vegna skattframtals.

Með kæruúrskurði, dags. 18. nóvember 1996, hafnaði skattstjóri því að byggja álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1996 á innsendu skattframtali og ákvað að álögð gjöld kæranda gjaldárið 1996 samkvæmt áætlun skyldu standa óbreytt. Í úrskurði skattstjóra sagði m.a. að samkvæmt ársreikningum kæranda hafi birgðir numið 183.400 kr. þann 31. desember 1994 en 50.000 kr. þann 31. desember 1995 og væri birgðabreyting því 133.400 kr. Vörukaup á árinu hafi því numið 716.600 kr. án flutningsgjalda sem væru gjaldfærð sérstaklega. Sú skýring sem fram kæmi í svari umboðsmanns kæranda varðandi vörunotkun gæti því alls ekki staðist. Þá væri heildarvelta kæranda samkvæmt innsendum virðisaukaskattsskýrslum fyrir árið 1995 1.028.334 kr. eða 108.450 kr. hærri en talið væri á rekstrarreikningi.

II.

Með kæru, dags. 10. desember 1996, hefur kærandi skotið kæruúrskurði skattstjóra frá 18. nóvember 1996 til yfirskattanefndar. Gerir kærandi þær kröfur að úrskurður skattstjóra verði afturkallaður og gjöld endurákvörðuð í samræmi við framtal félagsins. Kærunni fylgdi ársreikningur kæranda árið 1995 ásamt fylgigögnum og er tekið fram að ársreikningur þessi sé leiðréttur í samræmi við athugasemd skattstjóra í kæruúrskurði hans, dags. 18. nóvember 1996. Í rökstuðningi í kæru segir m.a.:

„Skattstjóri gerði athugasemdir við afkomu félagsins á árinu 1995 og óskaði skýringa. Við sendum okkar skýringar í ofannefndu bréfi. Því hafnar hann í úrskurði sínum 18.11.1996 og segir þær ekki geta staðist.

Okkur hefði þótt eðlilegra að hann óskaði eftir að skoða bókhald ársins og sjá með eigin augum að afkoman er ekki betri en hún kemur þarna fram. Skýringarnar geta verið margvíslegar s.s. rýrnun.

Okkur er ómögulegt að sætta okkur við þennan úrskurð þar sem hann er einungis byggður á einföldum talnaleik en ekki skoðunum á bókhaldi. Við getum ekki boðið betur en að bjóða fram bókhald félagsins."

III.

Með bréfi, dags. 18. apríl 1997, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Krafist er staðfestingar á úrskurði skattstjóra þar sem innsend gögn gefa ekki tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.

Athygli yfirskattanefndar er vakin á því að skattframtal kæranda fannst ekki á skattstofu … og samkvæmt upplýsingum sem ríkisskattstjóri aflaði hjá umboðsmanni kæranda var skattframtal aldrei afhent skattstjóra, skilyrðum 91. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt er því ekki fullnægt."

Með bréfi, dags. 23. júní 1997, sendi yfirskattanefnd kæranda ljósrit af kröfugerð ríkisskattstjóra og gaf honum kost á að leggja fram gögn til skýringar og tjá sig um þau atriði í kröfugerðinni sem hann teldi ástæðu til. Sérstaklega var vakin athygli á því atriði í kröfugerð ríkisskattstjóra er varðaði vöntun skattframtals, sbr. 91. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Hinn 6. júlí 1997 barst yfirskattanefnd undirritað skattframtal kæranda árið 1996, dags. 6. júlí 1997.

IV.

Skattframtal kæranda árið 1996 barst yfirskattanefnd hinn 6. júlí 1997, sbr. það sem að framan greinir. Eins og fyrr segir barst skattstjóra ársreikningur kæranda fyrir árið 1995 ásamt tilgreindum fylgigögnum hinn 27. júní 1996 samkvæmt áritun skattstjóra á ársreikninginn. Með vísan til þess, sem fram kemur í kröfugerð ríkisskattstjóra í máli þessu, dags. 18. apríl 1997, og að virtum gögnum málsins, þ. á m. framlagningu skattframtals hinn 6. júlí 1997, verður ekki séð að skattframtal árið 1996 í lögmætu formi, sbr. 1. mgr. 91. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, hafi borist skattstjóra frá kæranda. Þrátt fyrir þetta verður ekki annað séð en skattstjóri hafi byggt á því að skattframtal hafi legið fyrir, sbr. bréf skattstjóra, dags. 4. október 1996, og kæruúrskurð, dags. 18. nóvember 1996, enda byggði skattstjóri kærumeðferð sína á 2. málsl. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, þar sem mælt er svo fyrir að skattframtal, sem berst eftir lok framtalsfrests en áður en álagningu er lokið samkvæmt 1. mgr. 98. gr. laganna, skuli tekið sem kæra til skattstjóra hvort sem skattaðili kærir skattákvörðun eða ekki.

Samkvæmt framansögðu verður við það að miða að skattframtal kæranda árið 1996 í lögmætu formi hafi í raun aldrei borist skattstjóra. Af því leiðir að málsmeðferð skattstjóra í máli þessu var andstæð lögum, enda er það grundvallarskilyrði fyrir álagningu að skattframtal í lögmætu formi liggi fyrir, sbr. 91. gr. og 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og kærumeðferð samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. 99. gr. laga þessara verður ekki viðhöfð nema á grundvelli innsends skattframtals. Skattstjóri gat hins vegar eftir atvikum litið á innsend gögn sem kæru til lækkunar á áætlun.

Samkvæmt framansögðu verður að telja að kærumeðferð skattstjóra og kæruúrskurður hans, dags. 18. nóvember 1996, hafi verið ólögmætur. Ber því af þeim sökum að ómerkja kæruúrskurðinn. Að því virtu og þar sem skattframtal árið 1996 liggur nú fyrir, sem ekki hefur sætt efnisúrlausn hjá skattstjóra, sbr. 12. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, er málið sent skattstjóra til nýrrar meðferðar og uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja