Úrskurður yfirskattanefndar

  • Bifreiðakostnaður
  • Fyrning

Úrskurður nr. 4/1998

Gjaldár 1996

Lög nr. 75/1981, 32. gr.   Reglugerð nr. 483/1994, 4. gr.  

Kærandi hafði með höndum útgerð fiskiskips. Í málinu var deilt um gjaldfærðan bifreiðakostnað í skattskilum kæranda svo og hvort snjósleði í eigu hans gæti talist fyrnanleg eign í rekstrinum. Yfirskattanefnd taldi kæranda ekki hafa sýnt fram á að akstur í þágu atvinnurekstrar hefði verið slíkur sem á væri byggt af hans hálfu og tók fram í því sambandi að kærandi hefði látið sitja við almennar skýringar á akstrinum. Þá benti yfirskattanefnd á að skýringar kæranda bæru með sér að hluti rekstrarkostnaðar bifreiðar væri vegna breytinga á viðkomandi bifreið, þ.e. upphækkunar hennar, sem ekki yrði talið til viðhalds hennar. Var kröfum kæranda varðandi bifreiðakostnað vísað frá vegna vanreifunar. Þá taldi yfirskattanefnd að þegar litið væri til starfsemi kæranda og þarfar slíks rekstrar almennt fyrir snjósleða yrði ekki fallist á það sjónarmið hans að um fyrnanlega eign væri að ræða.

I.

Málavextir eru þeir að skattframtali kæranda árið 1996 fylgdi ársreikningur vegna útgerðar fiskiskips. Meðal gjaldaliða var bifreiðakostnaður að fjárhæð 716.519 kr. Meðal fyrnanlegra eigna var færð bifreið af gerðinni Toyota Hilux …, sem keypt var á árinu 1994, svo og snjósleði sem keyptur var á árinu 1995. Bifreiðin var fyrnd almennri fyrningu 179.238 kr. og sérstakri fyrningu 1.158.989 kr. og snjósleðinn almennri fyrningu 28.500 kr. og sérstakri fyrningu 142.500 kr.

Með bréfi, dags. 31. maí 1996, óskaði skattstjóri eftir að kærandi færði rök fyrir færslu framangreindrar bifreiðar í rekstri með tilliti til þess að í eigu kæranda væri engin önnur fólksbifreið. Þá var óskað eftir ítarlegri greinargerð fyrir akstri í þágu atvinnurekstrar þar sem tilgreind væri „dagleg notkun bifreiðar á tekjuárinu“ og sundurliðun bifreiðakostnaðar. Þá fór skattstjóri fram á skýringar varðandi notkun snjósleða í atvinnurekstrinum.

Í svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 8. júní 1996, kom fram að bifreiðin, sem væri pallbíll með þröngri aðstöðu fyrir farþega, væri notuð við útgerðina til að flytja veiðarfæri og vegna ýmissa snúninga. Snjósleðinn hefði verið keyptur til notkunar fyrir útgerðina vegna aksturs á vetrum.

Með bréfi, dags. 25. júlí 1996, tilkynnti skattstjóri kæranda að hann hefði fellt niður gjaldfærðar fyrningar umræddrar bifreiðar, samtals 1.338.227 kr., og fært bifreiðina til eignar á persónuframtali, enda teldist fólksbifreið, sem notuð væri í atvinnurekstri og sem einkabifreið, ekki til fyrnanlegs lausafjár skv. 32. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Jafnframt lækkaði skattstjóri gjaldfærðan bifreiðakostnað um 400.000 kr. á þeim grundvelli að ekki hefði verið gerð fullnægjandi grein fyrir notkun bifreiðar í þágu atvinnurekstrar og að ráða mætti af innsendum hreyfingalista vegna gjaldaliðarins að í sumum tilvikum virtist vera um einkakostnað að ræða. Loks felldi skattstjóri niður gjaldfærðar fyrningar snjósleða og færði hann til eignar á persónuframtali. Taldi skattstjóri að ekki væri um slíka eign að ræða sem teldist til fyrnanlegs lausafjár skv. 32. gr. laga nr. 75/1981. Skattstjóri hækkaði fyrningar annarra eigna í niðurlagsverð, sbr. 45. gr. laga nr. 75/1981, samtals um 1.008.228 kr.

Umboðsmaður kæranda mótmælti breytingum skattstjóra með kæru til hans, dags. 9. ágúst 1996, og krafðist þess að bifreið og snjósleði stæðu áfram sem fyrnanlegar eignir. Þá gerði umboðsmaðurinn grein fyrir bifreiðakostnaði og sundurliðaði hann. Þessum kröfum hafnaði skattstjóri með kæruúrskurði, dags. 17. desember 1996.

II.

Umboðsmaður kæranda hefur skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar með kæru, dags. 30. desember 1996. Kærunni fylgir rekstraryfirlit fólksbifreiðar (RSK 4.03) og er þess krafist að kostnaður vegna 10.700 km aksturs í þágu atvinnurekstrar af 17.500 km heildarakstri verði viðurkenndur sem rekstrarkostnaður, þ.e. 522.194 kr., svo sem gerð er grein fyrir á rekstraryfirlitinu. Þá er þess krafist að snjósleði, keyptur 1995, verði viðurkenndur sem fyrnanleg eign skv. 32. gr. laga nr. 75/1981. Snjósleðinn sé eingöngu notaður í þeim tilgangi að flytja menn og vistir milli hafnar og þorps.

III.

Með bréfi, dags. 16. maí 1997, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

IV.

Um bifreiðakostnað:

Samkvæmt því sem fram kemur í kæru til yfirskattanefndar er á það fallist af hálfu kæranda að bifreiðin … sé ekki fyrnanleg eign í skilningi 32. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Að því er þennan þátt málsins varðar lýtur krafa kæranda að því að bifreiðakostnaður samkvæmt greinargerð RSK 4.03, sem fylgdi kærunni, verði tekinn til greina í stað áætlunar skattstjóra miðað við að akstur í þágu atvinnurekstrar hafi verið 10.700 km og kostnaður á ekinn kílómetra numið 48,80 kr. Með bréfi skattstjóra, dags. 31. maí 1996, fór hann fram á að kærandi gerði ítarlega grein fyrir akstri í þágu atvinnurekstrar þar sem tilgreind væri „dagleg notkun bifreiðar á tekjuárinu“ og skyldi koma fram hvert væri ekið, hve oft, í hvaða tilgangi og hvernig aksturinn tengdist öflun tekna í atvinnurekstri. Þótt tæpast verði til þess ætlast að gerð sé svo nákvæm grein fyrir akstrinum sem skattstjóri krafðist, þykir ríkt tilefni hafa verið til þess að kærandi gerði skilmerkilega grein fyrir akstri í þágu atvinnurekstrar og hvaða forsendur lágu að baki skiptingu aksturs í akstur í eigin þágu og akstur vegna atvinnurekstrar. Þetta hefur kærandi ekki gert. Hefur hann látið sitja við þær almennu skýringar að bifreiðin sé notuð til að flytja starfsmenn, svo og veiðarfæri og ýmsar rekstrarvörur við útgerðina, og til ýmissa annarra snúninga sem reksturinn krefjist. Þykir kærandi ekki hafa sýnt fram á að akstur í þágu atvinnurekstrar hafi verið slíkur sem á er byggt af hans hálfu. Þá verður að gera þá athugasemd varðandi rekstrarkostnað bifreiðarinnar að skýringar kæranda bera með sér að hluti hans sé vegna breytinga á bifreiðinni, þ.e. upphækkunar hennar, sem ekki verður talið til viðhalds hennar, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Rétt þykir að vísa þessu kæruatriði frá vegna vanreifunar.

Um snjósleða:

Þegar litið er til starfsemi kæranda og þarfar slíks rekstrar almennt fyrir snjósleða, verður ekki fallist á það sjónarmið kæranda að um fyrnanlega eign sé að ræða í skilningi 32. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Kröfu kæranda er því hafnað að því er þetta kæruatriði varðar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja