Úrskurður yfirskattanefndar

  • Styrkur
  • Beinn kostnaður

Úrskurður nr. 39/1998

Gjaldár 1996

Lög nr. 75/1981, 7. gr. A-liður 2. tölul., 30. gr. 2. mgr.  

Fallist á heimild kæranda, sem stundaði nám erlendis, til að draga frá fengnum námsstyrk kostnað vegna flutnings búslóðar, m.a. námsgagna. Af þeirri niðurstöðu leiddi að ekki kom til skattlagningar umrædds styrks.

I.

Málavextir eru þeir að á skattframtali sínu árið 1996 færði kærandi til tekna í lið 7.3 námsstyrk frá X að fjárhæð 90.000 kr. og sömu fjárhæð til frádráttar í lið 7.4 á framtalinu. Framtalinu fylgdi greinargerð þar sem fram kom sú sundurliðun námskostnaðar að um væri að ræða annars vegar kostnað vegna bókakaupa og skólagjalda við Y í Danmörku 25.000 kr. og hins vegar flutningskostnað 65.000 kr., þ.e. samtals 90.000 kr. Í kjölfar fyrirspurnarbréfs, dags. 12. apríl 1996, og að fengnu svarbréfi kæranda, dags. 21. apríl 1996, þar sem fram kom nánari sundurliðun námskostnaðar, lækkaði skattstjóri frádrátt á móti námsstyrk um 24.016 kr. í 65.984 kr. með vísan til 1. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Voru forsendur skattstjóra þær, sbr. bréf, dags. 26. júlí 1996, að kostnaður vegna flutnings á búslóð og kostnaður vegna yfirvigtar farangurs í flugi leyfðist ekki til frádráttar á móti fengnum námsstyrkjum. Kom fram í bréfi skattstjóra að mismunur á fengnum námsstyrk og heimiluðum kostnaði samkvæmt innsendu yfirliti kæranda, þ.e. 24.016 kr., hefði verið færður kæranda til tekna í reit 7.3 á skattframtali.

Kærandi mótmælti ofangreindri breytingu skattstjóra í kæru til hans, dags. 23. ágúst 1996. Kom fram af hálfu kæranda að flutningskostnaður væri hluti þess kostnaðar sem námsdvöl hans í Danmörku hefði haft í för með sér. Með kæruúrskurði, dags. 10. desember 1996, vísaði skattstjóri kærunni frá. Benti skattstjóri á að ekki væri fyrir hendi lagaheimild til frádráttar kostnaði vegna búferlaflutnings svo sem kærandi krefðist. Yrði ekki annað séð en álagningu opinberra gjalda á kæranda gjaldárið 1996 hefði verið hagað í samræmi við gildandi lagaákvæði. Breyting skattstjóra myndi því standa óbreytt.

II.

Með kæru, dags. 9. janúar 1997, hefur kærandi skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar. Í kæru er gerð sú krafa að tekjuskattsstofn kæranda vegna tekjuársins 1995 verði lækkaður um 24.016 kr. Í kæru víkur kærandi að formhlið málsins og gerir tilteknar athugasemdir við málsmeðferð skattstjóra. Bendir kærandi meðal annars á að skattstjóri hafi hvorki gætt lagaákvæða um fresti til uppkvaðningar kæruúrskurðar né ákvæða um rökstuðning kæruúrskurðar. Þá hafi leiðbeiningum í kæruúrskurði um kærufrest til yfirskattanefndar verið áfátt, svo sem kærandi rökstyður nánar í kæru. Kærandi bendir sömuleiðis á, að forsendur úrskurðar skattstjóra beri það með sér, að kröfu hans hafi verið hafnað, en engu að síður sé kærunni vísað frá. Í kæru til yfirskattanefndar víkur kærandi síðan að efnishlið málsins og kveðst byggja á því aðallega, að honum sé heimilt að færa til frádráttar fengnum námsstyrk ferða- og flutningskostnað að fjárhæð 60.907 kr., þ.e. vegna flutnings búslóðar 48.070 kr. og yfirvigtar vegna farangurs 12.900 kr., svo sem kærandi rökstyður frekar í kærunni. Til vara kveðst kærandi byggja á því að honum sé heimill frádráttur á móti greindum námsstyrk vegna húsnæðiskostnaðar í Danmörku 184.800 kr. Til stuðnings öllum málsástæðum sínum og kröfu sinni í heild vísar kærandi til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 442/1996.

Með bréfi, dags. 3. október 1997, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Að því er snýr að málsástæðu kæranda varðandi málshraða þá er sá tveggja mánaða frestur sem fram kemur í 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt í framkvæmd talin vera verklagsregla, sbr. dóm Hæstaréttar frá 12. mars 1948.

Hvað varðar málsástæðu kæranda um rökstuðning skattstjóra þá er hann fólginn í því að það er ekki lagaheimild fyrir hendi. Lagaheimild í lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, til að draga beinan kostnað við öflun annarra tekna en tekna skv. 1. tl. A-liðs 1. mgr. 7. gr., er í 2. mgr. B-liðar 30. gr. fyrrgreindra laga. Með réttu hefði skattstjóri átt að vísa í ákvæði 2. mgr. 30. gr. í rökstuðningi sínum en þrátt fyrir þann annmarka ber að mati ríkisskattstjóra ekki að ómerkja ákvörðun skattstjóra hvað varðar frádráttarbærni umþrættra liða.

Að öðru leyti gerir ríkisskattstjóri kröfu f.h. gjaldkrefjenda um að úrskurður skattstjóra verði staðfestur. Varðandi athugasemdir kæranda um kærufrest þykir ekki ástæða til að taka efnislega á því þar sem kærandi hefur kært til yfirskattanefndar innan þess tíma sem 30 daga frestur hefði byrjað að líða, sé tekið mið af dagsetningu bréfs úrskurðar skattstjóra.“

III.

Námsstyrkur kæranda frá X telst til skattskyldra tekna kæranda samkvæmt 2. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Um frádrátt frá þeim tekjum fer eftir 2. mgr. 30. gr. sömu laga. Samkvæmt því ákvæði skulu ákvæði 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laganna, sem efni sínu samkvæmt eiga einungis við um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, samt sem áður gilda eftir því sem við á um frádrátt beins kostnaðar við öflun annarra tekna en tekna samkvæmt 1. tölul. A-liðar 7. gr., þó ekki ákvæðin um vexti af skuldum, afföll, gengistöp og fyrningu eigna. Kemur fram að kostnaður þessi leyfist eingöngu til frádráttar sams konar tekjum og hann gekk til öflunar á og má frádráttur hvers árs ekki nema hærri fjárhæð en sem nemur þeim tekjum sem hann leyfist til frádráttar. Samkvæmt fyrrgreindu ákvæði í 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981 er heimilt að draga rekstrarkostnað frá tekjum af atvinnurekstri, þ.e. þann kostnað sem á árinu gengur til að afla teknanna, tryggja þær og halda þeim við.

Með bréfi kæranda til skattstjóra, dags. 21. apríl 1996, kom fram sundurliðun ferða- og flutningskostnaðar hans á árinu 1995 vegna námsdvalar í Danmörku. Skattstjóri hefur fallist á frádrátt vegna bóka og skólagjalda 11.436 kr., flugmiða 22.400 kr. og ferðar heim í jólafrí 32.148 kr. Hins vegar hafnaði skattstjóri frádráttarbærni útgjalda vegna flutnings búslóðar með E 48.070 kr. og yfirvigtar farangurs í flugi 12.900 kr. Kærandi hefur greint svo frá, að því er varðar flutning búslóðar, að um hafi verið að ræða nauðsynlega persónulega muni og námsgögn. Þykir mega fallast á það með kæranda að honum sé heimilt að draga umræddan kostnað frá fengnum námsstyrk samkvæmt 2. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981. Af þeirri niðurstöðu leiðir að ekki kemur til skattlagningar umrædds námsstyrks kæranda og lækkar því tekjuskatts- og útsvarsstofn hans um 24.016 kr. svo sem hann hefur krafist.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja