Úrskurður yfirskattanefndar

  • Rekstrarkostnaður

Úrskurður nr. 60/1998

Gjaldár 1996

Lög nr. 75/1981, 31. gr. 1. tölul. 1. mgr.  

Kærandi, sem gerði út bát, færði til gjalda í ársreikningi sínum kaup á ferðageislaspilara og kostnað vegna námskeiðs fyrir 30 rúmlesta skipstjórnarnám. Yfirskattanefnd taldi um að ræða persónulegan kostnað kæranda en ekki frádráttarbæran rekstrarkostnað.

I.

Málavextir eru þeir að af hálfu kæranda var ekki talið fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1996. Við almenna álagningu opinberra gjalda það ár áætlaði skattstjóri kæranda því skattstofna til álagningar gjalda, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Skattframtal kæranda árið 1996, sem dagsett er 15. maí 1996, barst skattstjóra hinn 18. júlí 1996 samkvæmt áritun hans á framtalið um móttöku þess. Skattframtalinu fylgdi ársreikningur vegna útgerðar kæranda á bátnum X ásamt fylgiskjölum. Í kæru til skattstjóra, dags. 20. ágúst 1996, fór kærandi sérstaklega fram á að skattframtalið yrði lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1996 í stað áætlunar. Í framhaldi af fyrirspurnarbréfi skattstjóra, dags. 29. október 1996, um nokkur atriði skattframtalsins og að fengnu svarbréfi umboðsmanns kæranda, dags. 10. desember 1996, féllst skattstjóri með kæruúrskurði, dags. 18. desember 1996, á að leggja hið innsenda skattframtal til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1996 með breytingum sem tilgreindar eru í úrskurðinum. Samkvæmt kæru til yfirskattanefndar, dags. 13. janúar 1997, unir kærandi ekki þremur þeirra breytinga sem skattstjóri gerði. Nánar eru ágreiningsefnin sem hér segir:

1. Ferðaspilari. Undir viðhalds- og viðgerðarkostnaði báts gjaldfærði kærandi kaup á ferðaspilara 20.016 kr. Skattstjóri felldi þennan gjaldalið niður, sbr. kæruúrskurð hans, dags. 18. desember 1996, á þeim forsendum að ekki væri um að ræða rekstrarkostnað samkvæmt 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 13. janúar 1997, krefst kærandi þess að kostnaðarliður þessi verði leyfður til frádráttar. Um sé að ræða ferðageislaspilara sem hafður sé um borð í bátnum. Bent er á að ekki sé um hærri fjárhæð að ræða en kaup á bílaútvörpum, sem skattyfirvöld hafi ekki amast við, og hafi verið talinn eðlilegur kostnaður við rekstur og kaup bifreiðar. Vegna slæmra skilyrða á Vestfjarðamiðum til að ná útvarpssendingum hafi verið ákveðið að hafa ferðageislaspilara um borð í bátnum „til að stytta mönnum stundir á veiðum“. Ekki verði annað séð en að um sé að ræða eðlilegan og sambærilegan kostnað og kaup á bílaútvarpi.

2. …

3. Námskeiðskostnaður. Með kæruúrskurði sínum, dags. 18. desember 1996, felldi skattstjóri niður gjaldfærðan kostnað 26.900 kr. vegna námskeiðs fyrir 30 rúmlesta skipstjórnarnám á þeim forsendum að ekki væri um frádráttarbæran rekstrarkostnað að ræða samkvæmt 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 13. janúar 1997, er þess krafist að gjaldaliður þessi verði tekinn til greina, enda sé um að ræða kostnað vegna endurmenntunar til skipstjórnar og eingöngu tilkominn til frekari tekjuöflunar.

II.

Með bréfi, dags. 19. desember 1997, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Varðandi 1. tl. kæru. Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Varðandi 2. tl. kæru. …

Varðandi 3. tl. kæru. Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.“

III.

Um 1. kærulið: Kaup kæranda á ferðageislaspilara verður að telja persónulegan kostnað kæranda, en telst ekki frádráttarbær rekstrarkostnaður samkvæmt 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Er kröfu kæranda hafnað varðandi þetta kæruatriði.

Um 2. kærulið: …

Um 3. kærulið: Samkvæmt ljósriti kvittunar, dags. 21. júlí 1995, sem liggur fyrir í málinu greiddi kærandi B 26.900 kr. fyrir 30 rúmlesta skipstjórnarnám. Kærandi skýrir þennan kostnað svo í kæru til yfirskattanefndar að um sé að ræða kostnað „við endurmenntun til skipstjórnar“. Eins og þessum kostnaði er lýst af hálfu kæranda stafar hann af öflun kæranda sjálfs á tilteknum réttindum. Verður að telja að hér sé um persónulegan kostnað kæranda að ræða vegna umræddrar réttindaöflunar, en ekki frádráttarbæran rekstrarkostnað samkvæmt 1. tölul. 31. gr. laga nr. 75/1981. Er kröfu kæranda því hafnað um þetta kæruatriði.

Skattstjóri bætti 15% álagi á skattstofna kæranda vegna síðbúinna skila kæranda. Samkvæmt 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981 er ekki heimilt að beita hærra álagi en 10% þegar framtal berst áður en álagningu er lokið. Ber að leiðrétta þetta.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja