Úrskurður yfirskattanefndar

  • Rekstrarkostnaður
  • Málsmeðferð áfátt

Úrskurður nr. 269/1998

Gjaldár 1997

Lög nr. 75/1981, 95. gr., 96. gr.  

Sú breyting skattstjóra á skattframtali kæranda, að lækka rekstrarkostnað leigubifreiðar samkvæmt rekstrarreikningi vegna áætlaðra einkanota, var ómerkt með því að skattstjóri gætti þess ekki að gefa kæranda kost á að leggja fram skýringar og gæta réttar síns að öðru leyti áður en skattframtalinu var breytt á hinn umdeilda veg.

I.

Málavextir eru þeir að með skattframtali kæranda árið 1997 fylgdi rekstrarreikningur leigubifreiðar vegna tímabilsins 1. júní til 31. desember 1996. Með bréfi, dags. 28. júlí 1997, tilkynnti skattstjóri kæranda með vísan til 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að gerðar hefðu verið breytingar á skattframtali hans 1997. Rekstrarkostnaður leigubifreiðarinnar hefði verið lækkaður um áætluð einkanot bifreiðar 103.950 kr., sem væru 3.000 km x 34,65 kr. Hagnaður í reit 62 hækkaði því úr 48.260 kr. í 152.210 kr.

Umboðsmaður kæranda kærði breytingu skattstjóra með kæru, dags. 27. ágúst 1997, og krafðist þess að áætluð einkanot yrðu felld niður. Byggði umboðsmaður kæranda á því að kærandi hefði verið í iðnnámi fyrstu sex mánuði ársins 1996 og hefði því ekki starfað við leiguakstur á þeim tíma. Hann hefði hins vegar stundað leiguakstur í sex mánuði af árinu 1996 eins og greiðsla stöðvargjalda bæri vitni um. Taldi umboðsmaður kæranda að breyting skattstjóra væri brot á jafnræðisreglu, og tók fram að sér væri ekki kunnugt um að nokkrum leigubílstjóra í Reykjavík hefðu verið áætluð einkaafnot bifreiðar sinnar.

Skattstjóri hafnaði kröfu kæranda með kæruúrskurði, dags. 3. desember 1997. Byggði hann á því að þar sem ljóst væri að kærandi hefði ekki aðra eigin bifreið til afnota mætti ætla að bifreiðin væri einnig notuð til eigin nota.

Umboðsmaður kæranda hefur skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar með kæru, dags. 17. desember 1997, og krafist þess að áætluð einkanot kæranda verði felld niður. Byggir umboðsmaður kæranda á því að skattstjóri hafi gert breytingu sína með vísan til 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Telur umboðsmaður kæranda að skattstjóra hafi borið að senda kæranda fyrirspurnarbréf, skv. 96. gr. laga nr. 75/1981, áður en ákvörðun var tekin. Hafi réttrar málsmeðferðar því ekki verið gætt.

Með bréfi, dags. 27. febrúar 1998, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð: „Eftir atvikum er fallist á kröfu kæranda með vísan til rökstuðnings þess er fram kemur í kæru hans til yfirskattanefndar.“

II.

Skattstjóri gerði þá breytingu á skattframtali kæranda árið 1997, sbr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að hann lækkaði rekstrarkostnað leigubifreiðar kæranda vegna áætlaðra einkanota bifreiðarinnar. Telja verður að skattstjóra hafi borið að gæta reglna 1. og 3. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981 og gefa kæranda kost á að leggja fram skýringar og gæta réttar síns að öðru leyti áður en skattframtalinu var breytt á hinn umdeilda veg. Þetta gerði skattstjóri ekki og verður með vísan til framanritaðs og með vísan til kröfugerðar ríkisskattstjóra að ómerkja hinn kærða úrskurð skattstjóra.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja