Úrskurður yfirskattanefndar

  • Skattframtal, höfnun
  • Framfærslueyrir

Úrskurður nr. 273/1998

Gjaldár 1996

Lög nr. 75/1981, 95. gr. 2. mgr., 96. gr. 5. mgr. (brl. nr. 145/1995, 16. gr.)   Lög nr. 37/1993, 20. gr.  

Skattstjóri taldi að innsent skattframtal kæranda yrði ekki lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda sökum lágs framfærslueyris. Í úrskurði yfirskattanefndar var bent á að fram komnar skýringar kæranda um meginframfærslu sína í föðurhúsum þýddu að ekki væri einhlítt að byggja á tölulegum útreikningi framfærslueyris samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum. Með hliðsjón af þessu og aðstæðum kæranda að öðru leyti, sem gerð var grein fyrir í málinu, var fallist á að leggja skattframtalið til grundvallar álagningu, enda hefði skattstjóri ekki fundið að einstökum atriðum þess.

I.

Málavextir eru þeir að kærandi taldi ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1996 og sætti því áætlun skattstjóra á skattstofnum við almenna álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1996, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Ekki var álagningin kærð til skattstjóra í kærufresti til hans.

Með bréfi, dags. 19. nóvember 1996, sneri umboðsmaður kæranda sér til ríkisskattstjóra, lagði fram skattframtal kæranda árið 1996 og fór þess á leit að framtalið yrði lagt til grundvallar endurálagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 1996 sem hefði verið áætluð við almenna álagningu, enda hefði skattframtali ekki verið skilað í tæka tíð. Skattframtalinu fylgdi ársreikningur vegna rekstrar blómaverslunar. Með bréfi, dags. 22. nóvember 1996, framsendi ríkisskattstjóri skattstjóra erindið og tók fram að um væri að ræða beiðni kæranda um að beitt yrði heimildarákvæði 3. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þess efnis að ákvörðun skattstjóra um álagningu yrði breytt og hún byggð á innsendu skattframtali í stað áætlunar skattstjóra.

Áður en skattstjóri tók erindið til afgreiðslu reit hann kæranda bréf, dags. 14. janúar 1997, og fór fram á skýringar kæranda á því að framfærslueyrir hans á árinu 1995 væri aðeins 55.832 kr., sbr. útreikning sem bréfinu fylgdi, er ekki fengi staðist. Í svarbréfi kæranda, dags. 22. janúar 1997, voru þær skýringar gefnar að hann hefði búið í föðurhúsum umrætt ár og notið þar húsaskjóls, fæðis og ferða til og frá Reykjavík, auk fjárhagslegs stuðnings eftir þörfum. Kvaðst kærandi njóta þessa stuðnings meðan hann væri að byggja upp eigin rekstur.

Hinn 10. febrúar 1997 tók skattstjóri erindi kæranda til afgreiðslu. Taldi skattstjóri að innsent skattframtal kæranda árið 1996 væri ekki tækur álagningargrundvöllur sökum lágs framfærslueyris, þ.e. 55.832 kr., sem einungis hefði verið skýrðu með því að kærandi hefði búið í föðurhúsum og fengið þar fjárhagsstuðning. Hvorki staðfesting né tölulegar upplýsingar um þennan fjárhagsstuðning hefðu fylgt skýringum kæranda. Skattstjóri taldi eftir atvikum mega lækka áætlaðan útsvars- og tekjuskattsstofn kæranda í 500.000 kr.

II.

Í framhaldi af fyrrgreindri ákvörðun skattstjóra sneri umboðsmaður kæranda sér til ríkisskattstjóra með bréfi, dags. 19. febrúar 1997, og tók fram að ekki hefði verið opnaður kæruréttur til skattstjóra í málinu. Af þeim sökum væri málinu vísað til ríkisskattstjóra á ný með beiðni um afgreiðslu. Með bréfi, dags. 16. júní 1997, framsendi ríkisskattstjóri erindið til yfirskattanefndar er hefði borist í kærufresti til nefndarinnar.

Í bréfi umboðsmanns kæranda ert tekið fram að til viðbótar því sem áður sé fram komið í málinu hafi faðir kæranda áritað bréf kæranda til skattstjóra, dags. 22. janúar 1997, og staðfest að upplýsingar kæranda séu réttar, sbr. áritun á bréfið, dags. 18. febrúar 1997. Þá bendir umboðsmaðurinn á að kærandi sé einhleypur og eigi lögheimili hjá föður sínum. Starf hans hafi verið fólgið í listiðn sem ekki gefi skjótfengnar tekjur, enda hafi kærandi nú lagt af það verkstæði sem hann hefði verið að byggja upp á umræddum tíma.

III.

Með bréfi, dags. 16. janúar 1998, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

IV.

Ríkisskattstjóri fól skattstjóra afgreiðslu á erindi umboðsmanns kæranda frá 19. nóvember 1996 með bréfi sínu, dags. 22. nóvember 1996, sbr. heimild 3. mgr. 101. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Í framhaldi af fyrirspurnarbréfi til kæranda varðandi framfærslueyri og að fengnu svarbréfi kæranda kvað skattstjóri upp úrskurð um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárið 1996 hinn 10. febrúar 1997, sbr. 5. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 16. gr. laga nr. 145/1995, þar sem hann hafnaði því að byggja álagningu á innsendu skattframtali en lækkaði hins vegar áætlaða skattstofna. Þessi ákvörðun skattstjóra var kæranleg til yfirskattanefndar samkvæmt 6. mgr. 96. gr. laga nr. 75/1981, sbr. 16. gr. laga nr. 145/1995, og lögum nr. 30/1992, um yfirskattanefnd. Bar skattstjóra að tiltaka í endurákvörðun sinni kæruheimild, kærufrest og hvert beina skyldi kæru, sbr. 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Skýringar kæranda á framfærslu sinni á árinu 1995 þýða það að ekki er einhlítt að byggja á tölulegum útreikningi framfærslueyris samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum. Samkvæmt skýringum kæranda hefur hann haft meginframfærslu sína í föðurhúsum og hefur faðir kæranda staðfest þessar skýringar. Með hliðsjón af þessu og aðstæðum kæranda að öðru leyti þykir mega taka kröfu kæranda til greina, enda hefur skattstjóri út af fyrir sig ekki fett fingur út í einstök atriði skattframtals kæranda. Samkvæmt þessari niðurstöðu fellur álagt tryggingagjald niður.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja