Úrskurður yfirskattanefndar

  • Álag á virðisaukaskatt

Úrskurður nr. 324/1998

Virðisaukaskattur 1996

Lög nr. 50/1988, 24. gr. 1. mgr. (brl. nr. 122/1993, 22. gr.), 27. gr.   Reglugerð nr. 667/1995, 3. gr.  

Kæranda í máli þessu hafði verið gert að nota árið sem uppgjörstímabil virðisaukaskatts, en ekki gætt að því að standa skil á skatti þegar skattskyld velta fór umfram fjárhæðamörk ársskila. Að virtum atvikum málsins og skýringum kæranda var álag á vangreiddan virðisaukaskatt fellt niður.

I.

Málavextir eru þeir að kæranda, sem hafði með höndum … á árinu 1996, var gert að nota árið sem uppgjörstímabil virðisaukaskatts þar sem hann hafði selt skattskylda þjónustu fyrir minna en 800.000 kr. næstu tvö ár á undan, sbr. 1. mgr. 3. gr. reglugerðar nr. 667/1995, um framtal og skil á virðisaukaskatti. Á tímabilinu september til október 1996 fór skattskyld velta kæranda umfram ofangreind viðmiðunarmörk. Með bréfi skattstjóra, dags. 19. febrúar 1997, var kæranda ákvarðað 10% álag á vangreiddan virðisaukaskatt vegna uppgjörstímabilsins september–október 1996. Nam fjárhæð álagsins 8.599 kr. Umboðsmaður kæranda mótmælti álagsbeitingunni í kæru til skattstjóra, dags. 26. febrúar 1997, og kvað kæranda hafa misskilið reglur um ársuppgjörstímabil virðisaukaskatts. Skattstjóri hafnaði kröfum kæranda með kæruúrskurði, dags. 2. apríl 1997.

Með kæru, dags. 29. apríl 1997, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar. Í kærunni er þess krafist að álag samkvæmt úrskurði skattstjóra verði fellt niður. Í kærunni kemur fram að kærandi hafi misskilið orðsendingu ríkisskattstjóra nr. 1/96 og talið að viðmiðunarfjárhæð vegna ársskila virðisaukaskatts væri 1.204.100 kr. í stað 800.000 kr. Bendir umboðsmaður á að ýmsar reglugerðir skattyfirvalda væru orðaðar á þann hátt að fyrir venjulegu fólki gangi þær ekki upp í einu vetfangi. Þá kveður umboðsmaður fullseint að fá orðsendingu ríkisskattstjóra senda í janúar 1997 þegar gjalddagi skattsins hafi verið 5. desember 1996.

Með bréfi, dags. 25. júlí 1997, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra með vísan til forsendna hans.

II.

Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, skal aðili, sem ekki greiðir virðisaukaskatt á tilskildum tíma, sæta álagi til viðbótar skatti samkvæmt virðisaukaskattsskýrslu eða til viðbótar þeim skatti sem honum bar að standa skil á, sbr. 19. gr. laganna. Sama gildir ef virðisaukaskattsskýrslu hefur ekki verið skilað eða verið ábótavant og virðisaukaskattur því áætlaður eða endurgreiðsla samkvæmt 26. gr. hefur verið of há. Samkvæmt 6. mgr. sömu lagagreinar má fella niður álag ef aðili færir gildar ástæður sér til málsbóta og geta skattyfirvöld metið það í hverju tilviki hvað telja skuli gildar ástæður í þessu sambandi.

Að virtum atvikum í máli þessu og skýringum kæranda er krafa um niðurfellingu álags tekin til greina, sbr. 6. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja