Úrskurður yfirskattanefndar

  • Skattframtal, tortryggilegt
  • Rannsóknarregla
  • Málsmeðferð áfátt

Úrskurður nr. 142/1998

Gjaldár 1996

Lög nr. 75/1981, 99. gr. 1. mgr.   Lög nr. 37/1993, 10. gr.  

Með kæruúrskurði hafnaði skattstjóri að byggja álagningu opinberra gjalda kærenda gjaldárið 1996 á innsendu skattframtali þeirra, sem borist hafði skattstjóra að liðnum framtalsfresti umrætt ár, á þeim forsendum að skattframtalið væri tortryggilegt og ótraust heimild um tekjur og gjöld, eignir og skuldir kærenda. Í þessu sambandi vísaði skattstjóri m.a. til ætlaðs neikvæðs framfærslueyris kærenda, sem skattstjóri reiknaði miðað við fyrirliggjandi gögn og tilgreindi tölulega í úrskurði sínum. Yfirskattanefnd taldi að rétt hefði verið, m.a. samkvæmt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga, að skattstjóri hefði gefið kærendum kost á að tjá sig um nefndan útreikning áður en hann byggði höfnun skattframtalsins á þessu atriði. Var talið að málið hefði ekki verið nægjanlega upplýst af hálfu skattstjóra áður en hann tók ákvörðun um höfnun skattframtals kærenda með kæruúrskurði sínum. Taldi yfirskattanefnd rétt að byggja álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1996 á innsendu skattframtali kærenda, að gerðum tilteknum leiðréttingum í samræmi við upplýsingar þeirra.

I.

Málavextir eru þeir að kærendur töldu ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1996 og sættu því áætlun skattstjóra á skattstofnum við almenna álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1996, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Skattframtal kærenda árið 1996 hafði borist skattstjóra hinn 21. júní 1996 eða að liðnum framtalsfresti en áður en álagningu var lokið. Með kæru, dags. 19. ágúst 1996, var farið fram á af hálfu kærenda að innsent skattframtal árið 1996 yrði lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1996 án álags.

Skattstjóri tók skattframtalið sem kæru, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og kvað upp kæruúrskurð hinn 24. febrúar 1997, þar sem hann hafnaði skattframtalinu sem tækum álagningargrundvelli þar sem það þætti vera í þeim mæli tortryggilegt og ótraust heimild um tekjur og gjöld, eignir og skuldir kærenda af þeim ástæðum sem nánar er gerð grein fyrir í úrskurðinum. Aðfinnsluefni skattstjóra var í fyrsta lagi að hlutafjáreign kærenda í X hf. virtist offærð. Samkvæmt hluthafaskrá með skattframtali X hf. 1996 væri hlutafjáreign kærenda í hlutafélaginu þann 31. desember 1995 tilgreind samtals 1.787.000 kr., þ.e. hlutafjáreign kæranda, A, 1.527.000 kr. og hlutafjáreign kæranda, B, 260.000 kr. Í skattframtali sínu árið 1996 tilfærðu kærendur hins vegar hlutafjáreign í X hf. samtals að fjárhæð 1.887.000 kr. Í öðru lagi tók skattstjóri fram að í efnahagsreikningi pr. 31. desember 1995 og skýringum meðfylgjandi skattframtali Y ehf. væri tilgreind skuld við kæranda, B, að fjárhæð 544.916 kr. Þessi útistandandi krafa kæmi ekki fram í innsendu skattframtali kærenda. Í þriðja lagi taldi skattstjóri að framfærslueyrir kærenda á árinu 1995 væri neikvæður samkvæmt skattframtölum árin 1995 og 1996, þ.e. ráðstöfun kærenda á fjármunum væri 147.647 kr. umfram tekjur. Ljóst væri að tekjur væru verulega vantaldar eða að ekki hefði verið gerð grein fyrir þeim skuldum sem til hefði verið stofnað á árinu 1995. Í úrskurðinum gerði skattstjóri grein fyrir útreikningi á lífeyri kærenda og tók fram í sambandi við þann útreikning að ekki væri tekið tillit til kostnaðar við rekstur tveggja bifreiða kærenda, kostnaðar við rekstur fasteignar og kostnaðar við framfærslu kærenda og tveggja barna þeirra.

II.

Með kæru til yfirskattanefndar, dags. 21. mars 1997, mótmælti umboðsmaður kærenda úrskurði skattstjóra á þeim grundvelli að fyrrgreindur útreikningur á framfærslueyri væri rangur. Hinn 17. mars 1997 höfðu skattstjóra borist gögn frá kæranda, þ. á m. útreikningur hans á framfærslueyri. Með bréfi, dags. 18. mars 1997, framsendi skattstjóri yfirskattanefnd gögn þessi.

Í kærunni er þeirri ákvörðun skattstjóra mótmælt að hafna hinu innsenda skattframtali árið 1996 sem tækum álagningargrundvelli, enda sé útreikningur skattstjóra á framfærslueyri kærenda rangur í verulegum atriðum. Jafnframt sé til þess að líta að kærendur hafi ekki talið fram allar skuldir sínar. Kærunni fylgdi útreikningur á framfærslueyri kærenda vegna ársins 1995 þar sem fram kemur að til ráðstöfunar hafi verið 1.262.476 kr. Samkvæmt útreikningi þessum voru 5.054.127 kr. til ráðstöfunar en skattstjóri hafði talið í útreikningi sínum að miða bæri við 4.358.920 kr. í þessum efnum. Mismunur er 695.207 kr. sem felst í því að í útreikningi kærenda eru tilgreindar skuldir við Sparisjóð F 136.581 kr. og við X hf. 471.633 kr., er ekki hafi verið tilfærð í skattframtali, auk launa sonar kærenda, D, 86.993 kr. Samkvæmt framlögðum útreikningi kærenda var ráðstafað samtals 3.791.651 kr. en skattstjóri miðaði við 4.506.567 kr. í þessum efnum. Mismunur er 714.916 kr. sem felst í því að í útreikningi kærenda er ekki gert ráð fyrir láni að fjárhæð 544.916 kr. til Y ehf. og framlagningu nýs hlutafjár að fjárhæð 170.000 kr. til þess félags.

Í kærunni kemur fram að lán og hlutafé samtals að fjárhæð 714.916 kr. til Y ehf. hafi verið greitt af Z ehf. sem kærendur séu eigendur að. Upplýsingar í skattframtali Y ehf. séu rangar, enda hafi réttar upplýsingar ekki legið fyrir við framtalsgerð þess félags. Þá hafi keypt hlutabréf í X hf. ekki verið greidd á árinu, en vegna mistaka kærenda hafi skuld við X hf. að fjárhæð 471.633 kr. ekki verið tilgreind í skattframtali. Þá væri í útreikningi skattstjóra talið með innlegg að fjárhæð 136.581 kr. í Sparisjóði F. Hér væri um gamla bankabók að ræða sem láðst hefði að telja fram undanfarin ár, en ekkert hafi verið lagt inn á bókina á árinu 1995. Þá kom fram að þau mistök hefðu orðið að hlutafjáreign í X hf. hefði verið offærð um 100.000 kr. Þau mistök hefðu hins vegar engin áhrif á útreikning á framfærslueyri.

III.

Með bréfi, dags. 3. október 1997, hefur ríkisskattstjóri gert þá kröfu í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda að hinn kærði úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

IV.

Eins og fram hefur komið töldu kærendur ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1996 og sættu því áætlun skattstjóra á skattstofnum við almenna álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1996. Skattframtal kærenda, sem barst að liðnum framtalsfresti en áður en álagningu var lokið, tók skattstjóri sem kæru, sbr. 2. málsl. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og kvað upp kæruúrskurð hinn 24. febrúar 1997 þar sem hann hafnaði skattframtalinu sem tækum álagningargrundvelli. Eins og málið bar að var skattstjóri ekki bundinn af fyrirspurnar- og tilkynningarákvæðum 96. gr. laga nr. 75/1981 hygðist hann gera breytingar á skattframtalinu eða vefengja það í heild sinni eða að hluta. Honum bar hins vegar að rökstyðja kæruúrskurð sinn, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981 og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og sjá til þess samkvæmt rannsóknarreglu að málið væri nægjanlega upplýst, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Í kæruúrskurði sínum, dags. 24. febrúar 1997, tilgreinir skattstjóri, auk neikvæðs framfærslueyris að fjárhæð 147.647 kr. samkvæmt sérstökum útreikningi þar um, ósamræmi í tilgreiningu hlutafjáreignar kærenda í X hf., þ.e. offærslu hlutafjáreignarinnar um 100.000 kr. miðað við hluthafaskrá félagsins, og ætlaða vöntun á færslu útistandandi skuldar kæranda, B, hjá Y ehf. að fjárhæð 544.916 kr. Þessi atriði verða naumast talin þess eðlis að þau hafi gefið sjálfstætt tilefni til höfnunar skattframtalsins. Hins vegar var rétt að skattstjóri krefði kærendur skýringa á því misræmi sem var til staðar miðað við upplýsingar frá þriðja aðila, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt þessu verður að telja að meginforsenda skattstjóra fyrir höfnun skattframtalsins hafi verið ætlaður neikvæður framfærslueyrir kærenda sem skattstjóri reiknaði miðað við fyrirliggjandi gögn og tilgreindi tölulega í kæruúrskurði sínum. Í kæru til yfirskattanefndar kemur fram að kærendur telja að útreikningur skattstjóra sé rangur bæði vegna rangra forsendna hans sjálfs, þ.e. einkum vegna láns og hlutafjár vegna Y ehf. samtals 714.916 kr., er Z ehf. hafi greitt, og vegna mistaka við framtalsgerð, þ.e. vegna vantalinnar skuldar við X hf. 471.633 kr. og sparifjárinneignar 136.581 kr. Kærendur hafa að nokkru stutt staðhæfingar sínar gögnum.

Ljóst er að ætluð vantalin útistandandi skuld 544.916 kr. hjá Y ehf. skipti verulegu máli við útreikning skattstjóra á framfærslueyri kærenda. Þá var útreikningur þessi að öðru leyti þess eðlis að rétt hefði verið, m.a. samkvæmt rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að skattstjóri gæfi kærendum kost á því að tjá sig um þennan útreikning og koma að athugasemdum sínum, skýringum og gögnum, áður en hann byggði höfnun framtalsins á þessu atriði. Ganga má út frá að með þessu móti hefðu ýmis atriði skattframtalsins skýrst þannig að framfærslueyrir kærenda hefði legið með verulega breyttum hætti fyrir skattstjóra. Samkvæmt þessu verður að telja að málið hafi ekki verið nægjanlega upplýst af hálfu skattstjóra áður en hann tók ákvörðun um höfnun skattframtals kærenda með kæruúrskurði sínum, dags. 24. febrúar 1997.

Með vísan til þess, sem að framan greinir, og að virtum framkomnum skýringum kærenda þykir rétt að byggja álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1996 á innsendu skattframtali kærenda. Þær leiðréttingar þykir bera að gera í samræmi við upplýsingar kærenda að hlutafjáreign í reit 08 er lækkuð í 2.507.000 kr. eða um 100.000 kr. vegna offærðrar hlutafjáreignar í X hf. og skuldahlið er hækkuð um 471.633 kr. vegna skuldar við hlutafélag þetta, sbr. gögn og skýringar kærenda. Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 21. mars 1997, er af hálfu kærenda ekki vikið að síðbúnum framtalsskilum og álagsbeitingu. Verður því tekið tillit til álags samkvæmt 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981 við ákvörðun opinberra gjalda kærenda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja