Úrskurður yfirskattanefndar

  • Gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra

Úrskurður nr. 420/2000

Gjaldár 1999

Lög nr. 75/1981, 1. gr., 70. gr. 3. mgr.   Lög nr. 82/1989, 10. gr. 1. mgr. 1. tölul.   Reglugerð nr. 648/1995, 1. gr.  

Talið að skattstjóra hafi borið við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1999 að ákvarða kærendum, sem voru við nám erlendis á árinu 1998 en héldu skattalegri heimilisfesti hér á landi samkvæmt ákvæðum reglugerðar nr. 648/1995, gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra, enda tóku lögmæltar undanþágur frá gjaldinu ekki til kærenda. Var kröfu kærenda um niðurfellingu gjaldsins hafnað.

I.

Málavextir eru þeir að kærendur töldu ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests gjaldárið 1999 og sættu því áætlun skattstjóra á skattstofnum við almenna álagningu opinberra gjalda það ár, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Skattframtal kærenda barst skattstjóra 14. júlí 1999 samkvæmt áritun hans um móttöku þess og var það tekið sem skattkæra, sbr. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 75/1981. Í athugasemdadálki í skattframtalinu kom fram að kærendur væru í námi erlendis og óskuðu eftir því að halda skattalegri heimilisfesti hér á landi. Með framtalinu fylgdu gögn um nám kærenda og tekjur erlendis á árinu 1998. Með kæruúrskurði, dags. 25. janúar 2000, féllst skattstjóri á að leggja innsent skattframtal kærenda til grundvallar álagningu opinberra gjalda þeirra gjaldárið 1999 án álags. Með úrskurði skattstjóra var kærendum hvoru um sig ákvarðað gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra 4.162 kr. Kom fram í úrskurðinum að um gjaldið færi eftir 1. tölul. 10. gr. laga nr. 82/1989, um málefni aldraðra. Nam tekjuskatts- og útsvarsstofn kæranda A 4.400.034 kr. og kæranda B 1.322.467 kr.

Með kæru, dags. 16. mars 2000, hafa umboðsmenn kærenda skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar. Kæran er svohljóðandi:

„Þrátt fyrir að A og B hafi valið að hafa skattalegt heimilisfesti hér á landi höfðu þau engar tekjur á Íslandi á árinu 1998. Þau áttu hér engar fasteignir eða aðrar varanlegar eignir. Einnig fengu þau á árinu engar bætur hvorki barnabætur, vaxtabætur né aðrar bætur. Vegna þessa er afar óeðlilegt að þau séu skylduð til að greiða gjald í framkvæmdasjóð aldraðra. Með þessu er verið að refsa þeim fyrir að hafa valið að vera með skattalegt heimilisfesti hér og þess vegna ávallt skilað skattframtali þar sem fram koma tekjur þeirra erlendis.

Það er beiðni okkar að yfirskattanefnd á grundvelli ofangreindra upplýsinga felli niður úrskurð þennan, þannig að A og B verði ekki krafin um greiðslu gjalda í framkvæmdasjóð aldraðra.“

Með bréfi, dags. 9. júní 2000, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Af gögnum málsins verður ráðið að kærður sé úrskurður skattstjórans í Reykjavík, dags. 25. janúar 2000, að því er varðar álagningu gjalds í framkvæmdasjóð aldraðra á tekjuárinu 1998.

Við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1999 var kærendum veitt skattalegt heimilisfesti hér á landi á grundvelli reglugerðar nr. 648/1995, um réttindi og skyldur manna, sem dveljast erlendis við nám, skv. ákvæðum laga um opinber gjöld, á tekjuárinu 1998 samkvæmt þeirra eigin umsókn þar að lútandi. Voru kærendur því við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1999 skattlagðir samkvæmt 1. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Samkvæmt 1. mgr. 1. tl. 10. gr. laga nr. 82/1989, um málefni aldraðra, eru tekjur framkvæmdasjóðs aldraðra sérstakt gjald sem skattstjórar leggja á þá sem skattskyldir eru skv. 1. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Byggist því álagning gjalds í framkvæmdasjóð aldraðra á beinni lagaskyldu þar um.

Með vísan til ofangreinds er það krafa ríkisskattstjóra að yfirskattanefnd staðfesti hinn kærða úrskurð skattstjóra með vísan til forsendna hans.“

II.

Samkvæmt 1. mgr. 1. tölul. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 82/1989, um málefni aldraðra, sbr. nú lög nr. 125/1999, um sama efni, teljast til tekna Framkvæmdasjóðs aldraðra tekjur af sérstöku gjaldi sem skattstjórar leggja á þá sem skattskyldir eru samkvæmt 1. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Í 2. mgr. þessa töluliðar kemur fram að börn innan 16 ára aldurs séu undanþegin gjaldinu sem og þeir sem eru 70 ára og eldri í lok tekjuárs. Einnig eru þeir undanþegnir gjaldinu sem hafa tekjuskattsstofn undir tiltekinni fjárhæð sem tekur árlegum breytingum samkvæmt því sem nánar greinir í ákvæðinu, en á tekjuárinu 1998 nam sú fjárhæð 718.401 kr. Í niðurlagi 2. mgr. töluliðarins kemur fram að skattstjóri skuli fella gjaldið niður af þeim elli- og örorkulífeyrisþegum, undir 70 ára aldri, sem dveljast á dvalar- og hjúkrunarheimilum.

Eins og fram er komið í lýsingu málavaxta hér að framan féllst skattstjóri með hinum kærða úrskurði, dags. 25. janúar 2000, á kröfu kærenda um að þau fengju að njóta þeirra réttinda við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1999 sem heimilisfesti hér á landi veitir samkvæmt ákvæðum laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 3. mgr. 70. gr. þeirra laga og ákvæði reglugerðar nr. 648/1995, um réttindi og skyldur manna, sem dveljast erlendis við nám, skv. ákvæðum laga um opinber gjöld. Var álagningu opinberra gjalda á kærendur umrætt ár því hagað í samræmi við 1. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, og 19. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, að gættum ákvæðum samnings milli Norðurlandanna til að komast hjá tvísköttun á tekjur og eignir, birtum sem fylgiskjal með auglýsingu nr. 19/1989 í C-deild Stjórnartíðinda, sbr. nú samnefndan samning sem tók gildi 11. maí 1997 og kom til framkvæmda 1. janúar 1998. Bar því samkvæmt 1. mgr. 1. tölul. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 82/1989 að ákvarða kærendum gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra. Með vísan til þess og þar sem undanþágur 2. mgr. töluliðarins taka ekki til kærenda verður að hafna kröfu þeirra í máli þessu.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kærenda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja