Úrskurður yfirskattanefndar

  • Takmörkuð skattskylda
  • Teknategund

Úrskurður nr. 458/2000

Gjaldár 1999

Lög nr. 75/1981, 1. gr., 3. gr.  

Í málinu var ágreiningur um hvort kærandi, sem var fréttaritari fjölmiðilsins X í landinu Y, þar sem hann var búsettur, bæri takmarkaða skattskyldu hér á landi vegna greiðslna sem hann þáði frá umræddum fjölmiðli vegna starfa sinna erlendis. Yfirskattanefnd taldi að leggja bæri til grundvallar að kærandi hefði innt starf sitt af hendi erlendis og að um væri að ræða tekjur af sjálfstæðri starfsemi kæranda. Taldi nefndin að fella bæri niður álagningu opinberra gjalda á umræddar greiðslur með vísan til þess að aðili, sem væri ekki heimilisfastur hér á landi, en hafði tekjur frá íslenskum aðilum, vegna starfsemi sem hann ræki erlendis, væri ekki skattskyldur hér landi.

I.

Málavextir eru þeir að kærandi færði sér til tekna sem launatekjur í reit 21 á skattframtali sínu árið 1999 greiðslu frá X að fjárhæð 373.609 kr. Þá færði hann til tekna í lið 2.3 á framtalinu greiðslu frá X vegna síma að fjárhæð 5.261 kr. Var tekjuskatts- og útsvarsstofn kæranda samkvæmt því tilgreindur 378.870 kr. í framtalinu. Í athugasemdadálki á skattframtalinu gat kærandi þess að hann hefði flutt lögheimili sitt til landsins Y.

Með kæru til skattstjóra, dags. 9. ágúst 1999, fór umboðsmaður kæranda fram á leiðréttingu á álögðum opinberum gjöldum kæranda gjaldárið 1999. Kæran var svohljóðandi:

„A hefur verið fréttaritari X í Y árum saman, og samkvæmt launamiða frá X voru greiðslur til hans árið 1998 sem verktaka „fyrir efni og vinnu“ 373.609 kr. og símakostnaður 5.261 kr. Samkvæmt álagningar- og innheimtuseðli 1999 á hann að greiða af þessu 43.987 kr. í útsvar og 75.774 kr. í tekjuskatt. Ofan á þetta bætist „álag á ógreitt útsvar og/eða tekjuskatt“ 2.994 kr.

A flutti lögheimili á sínum tíma til Y þegar hann starfaði hjá B í Y í því skyni að forðast tvísköttun, en ekki er enn til samningur milli landanna um skattamál. Hann hefur nú látið af starfi hjá B vegna samdráttar og efnahagskreppu, en greiddi lögbundna skatta af launum sínum þar. Skattayfirvöld í Y kröfðu hann einnig upplýsinga um tekjur erlendis, og hann gaf samviskusamlega upp tekjurnar frá X. Af þeim tekjum var honum gert að greiða skatta. ... Þessi gjöld hefur hann þegar innt af hendi (sjá innheimtuseðla og kvittanir í fylgiskjali).“

Skattstjóri tók kæru umboðsmanns kæranda til afgreiðslu með kæruúrskurði, dags. 14. desember 1999, og synjaði kröfum kæranda. Í úrskurðinum gat skattstjóri þess að ekki væri í gildi samningur milli Íslands og Y til að komast hjá tvísköttun tekna og eigna. Vegna tekna er kærandi hefði aflað á Íslandi á árinu 1998 bæri kærandi takmarkaða skattskyldu hérlendis samkvæmt 2. tölul. 3. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, en um álagningarreglur vísaðist til 2. tölul. 71. gr. sömu laga og reiknaðist 20% skatthlutfall. Kvað skattstjóri ekki heimilt að taka tillit til persónuafsláttar. Útsvarshlutfall væri eins og það hefði verið ákvarðað í staðgreiðslu, sbr. 9. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, þ.e. 11,61%. Kvaðst skattstjóri ekki fá annað séð við yfirferð á útreikningi álagðra opinberra gjalda kæranda gjaldárið 1999 en að gjöld væru réttilega ákvörðuð í samræmi við fyrrgreindar lagagreinar og samkvæmt innsendu skattframtali kæranda og benti á að engin lagaheimild væri fyrir niðurfellingu eða lækkun réttilega álagðra gjalda. Að því er álag varðaði vísaði skattstjóri til ákvæða 3. mgr. 121. gr. laga nr. 75/1981, sem skattstjóri tók orðrétt upp í úrskurðinum, og kvað útreikning álags í fullu samræmi við þau.

Með kæru, dags. 29. febrúar 2000, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar. Í kærunni er farið fram á að álagning opinberra gjalda kæranda gjaldárið 1999 verði endurskoðuð og álögð gjöld felld niður eða lækkuð verulega. Þá er krafist niðurfellingar álags. Til stuðnings kröfum er bent á að fréttaöflun fylgi að sjálfsögðu ýmiss annar kostnaður en vegna síma og er í því sambandi vísað til gagna er fylgja kærunni. Tekur umboðsmaður fram að hæpið sé að greiðslan frá X hafi dugað fyrir beinum kostnaði vegna starfs kæranda. Verklaun hafi því í reynd sennilega verið lítil sem engin.

Með bréfi, dags. 31. mars 2000, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Af kæru kæranda verður ráðið að kærður sé úrskurður skattstjórans í Reykjanesumdæmi, dags. 14. desember 1999.

Af fyrirliggjandi gögnum málsins verður eigi annað séð en að skattstjórinn í Reykjanesumdæmi hafi í úrskurði sínum farið í einu og öllu eftir gildandi lagafyrirmælum og reglum í sambandi við útreikning opinberra gjalda kæranda. En samkvæmt 2. tl. 71. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, ber að reikna 20% tekjuskatt af tekjum manna sem bera hér á landi takmarkaða skattskyldu skv. 3. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Að auki ber að leggja á útsvarshlutfall eins og það er ákvarðað í staðgreiðslu, sbr. 9. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda.

Með vísan til ofangreinds svo og til forsendna hins kærða úrskurðar skattstjóra þá er það krafa ríkisskattstjóra að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.“

II.

Eins og fram er komið taldi kærandi greiðslu frá X að fjárhæð 373.609 kr. fram sem launatekjur í skattframtali sínu árið 1999. Þá taldi hann að fullu til tekna í skattframtalinu greiðslu frá X að fjárhæð 5.261 kr. vegna síma. Með kæru til skattstjóra, dags. 9. ágúst 1999, vakti umboðsmaður kæranda athygli á því að um verktakagreiðslu til kæranda hefði verið að ræða vegna starfa kæranda sem fréttaritari X í Y, þ.e. greiðslu „fyrir efni og vinnu“, auk greiðslu vegna símakostnaðar, og vísaði í því sambandi til tilgreiningar á launamiða. Viðhorf umboðsmanns kæranda um eðli tekna þessara var í samræmi við tilgreiningu umræddra greiðslna í launauppgjöf X til skattstjóra, sbr. 1. mgr. 92. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Kærandi var búsettur í Y allt árið 1998 og er óumdeilt að það ár bar kærandi ekki ótakmarkaða skattskyldu hér á landi samkvæmt ákvæðum 1. gr. laga nr. 75/1981. Þá þykir bera að leggja til grundvallar að kærandi hafi innt fréttaritarastörf sín af hendi erlendis og um hafi verið að ræða sjálfstæða starfsemi kæranda. Samkvæmt þessu og þar sem þóknun til aðila, sem ekki er heimilisfastur hér á landi, vegna starfsemi sem rekin er erlendis, telst ekki til skattskyldra tekna hér á landi, er hin kærða álagning felld niður.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hin kærða álagning fellur niður.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja