Úrskurður yfirskattanefndar

  • Söluhagnaður, frestun skattlagningar
  • Framleiðsluréttur í landbúnaði

Úrskurður nr. 323/1995

Gjaldár 1993

Lög nr. 75/1981, 31. gr. A 3. mgr., 14. gr. 4. mgr.  

Kröfu kæranda um lækkun á stofnverði íbúðarhúsnæðis hans sem næmi hagnaði af sölu framleiðsluréttar í landbúnaði var hafnað þar sem kærandi hafði hvorki uppfyllt skilyrði um búrekstur árin fyrir kaup eignarinnar né um búsetu í hinni keyptu íbúð eftir kaupin.

I.

Með kæru, dags. 13. desember 1993, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra, dags. 15. nóvember 1993, til yfirskattanefndar og krafist þess að stofnverð íbúðarhúsnæðis að N-götu í Z-bæ verði lækkað um 1.079.486 kr., sem sé hagnaður af sölu framleiðsluréttar með leiðréttingum samkvæmt úrskurði skattstjóra.

Málavextir eru þeir að kærandi taldi ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 1993 og sætti því áætlun skattstjóra á skattstofnum við álagningu opinberra gjalda það ár. Skattframtal kæranda árið 1993 var móttekið hjá skattstjóra 30. ágúst 1993. Framtalinu fylgdi landbúnaðarskýrsla þar sem einu tilgreindu tekjurnar voru seldur fullvirðisréttur að fjárhæð 5.666.600 kr. og verðbreytingartekjur 42.685 kr., en rekstrarkostnaður var alls 4.677.864 kr., þ.e. fyrningar 4.270.890 kr., rafmagn 15.000 kr. og fasteignagjöld, vátryggingariðgjöld og vextir 391.974 kr. Með kæruúrskurði, dags. 15. nóvember 1993, féllst skattstjóri á að leggja hið innsenda framtal til grundvallar álagningu með þeim breytingum að til tekna á landbúnaðarskýrslu voru færðar veiðitekjur að fjárhæð 69.800 kr. og bústofnsaukning 26.935 kr. Þá lækkaði skattstjóri rekstrartap frá fyrra ári um 154.000 kr. Að þessum breytingum gerðum á landbúnaðarskýrslunni færði skattstjóri sem hreinar tekjur af landbúnaðarskýrslu í reit 69 á framtali 1.079.486 kr. en synjaði að hagnaður vegna landbúnaðar yrði færður til lækkunar á stofnverði N-götu í Z-bæ, á þeim forsendum að það væri ekki heimilt.

II.

Með kæru, dags. 13. desember 1993, hefur umboðsmaður kæranda skotið kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar. Í kærunni kemur fram að kærandi hafi stundað búrekstur á jörðinni Y frá árinu 1975 til ársins 1992 að hann seldi fullvirðisréttinn en íbúðarhúsið og aðrar eignir sem tengjast búrekstrinum seldi hann ekki, enda hafi hann fasta atvinnu í hreppnum. Telur umboðsmaður kæranda að um meðhöndlun söluhagnaðar framleiðsluréttar í landbúnaði eigi að fara skv. 14. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem segi efnislega að áliti umboðsmanns kæranda að lækka megi stofnkostnað íbúðarhúsnæðis til eigin nota sem keypt er innan tveggja ára frá söludegi fullvirðisréttar.

Ríkisskattstjóri hefur með bréfi, dags. 14. október 1994, krafist þess fyrir hönd gjaldkrefjenda að kröfu kæranda verði hafnað. Rökstuðningur ríkisskattstjóra er svohljóðandi:

„Kærendur hafa á undanförnum árum starfað sem launþegar að aðalstarfi en hafa haft lítilsháttar landbúnaðarframleiðslu með höndum auk þess að selja á leigu framleiðslurétt á tilteknum landbúnaðarvörum.

Á árinu 1992 seldu kærendur framleiðslurétt sinn. Skattaleg meðferð söluhagnaðar framleiðsluréttar fellur undir ákvæði 14. gr. laga nr. 75/1981.

Krafa kærenda er sú að þeim sé heimil ráðstöfun hagnaðar af sölu fullvirðisréttar til niðurfærslu stofnverðs íbúðar að N-götu í Z-bæ, samkvæmt ákvæðum 4. mgr. 14. gr. laga nr. 75/1981.

Með tilliti til þess að kærendur hafa ekki uppfyllt það atriði ákvæðis 4. mgr. 14. gr. að hafa haft búrekstur að aðalstarfi 5 ár af síðastliðnum 8 árum ber að hafna kröfu kærenda.“

III.

Samkvæmt lokamálslið 3. mgr. 31. gr. A í lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, fer um söluhagnað framleiðsluréttar í landbúnaði eftir 14. gr. laganna. Samkvæmt 4. mgr. þeirrar lagagreinar getur skattaðili farið fram á frestun skattlagningar söluhagnaðar þess er þar um ræðir um tvenn áramót frá söludegi, enda afli hann sér sams konar eignar eða íbúðarhúsnæðis til eigin nota í stað hinnar seldu eignar innan þess tíma og færist þá söluhagnaðurinn, framreiknaður samkvæmt ákvæðum 26. gr., til lækkunar stofnverði hinnar nýju eignar. Nemi stofnverð hinnar nýju eignar lægri fjárhæð en söluhagnaðurinn telst mismunurinn til skattskyldra tekna. Þessi meðferð söluhagnaðar er því aðeins heimil að seljandi hafi haft búrekstur á hinni seldu eign að aðalstarfi í a.m.k. fimm ár á síðastliðnum átta árum næst á undan söludegi og stundi búrekstur á hinni keyptu bújörð eða noti hið keypta húsnæði fyrir eigin íbúð í a.m.k. tvö ár eftir kaupdag.

Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum kæranda árin 1988-1992 hafa hvorki kærandi né eiginkona hans haft búrekstur að aðalstarfi frá ársbyrjun 1987. Á þessum árum hefur aðalstarf kæranda verið hjá ... fyrirtæki utan bújarðar hans. Þá hefur hann ekki tekið upp búsetu í hinni keyptu íbúð eftir kaup hennar. Hann hefur því hvorki uppfyllt skilyrði lagagreinarinnar um búrekstur að aðalstarfi fimm ár af næstliðnum átta árum né um búsetu í hinni keyptu íbúð eftir kaup. Kröfu kæranda er því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja