Úrskurður yfirskattanefndar

  • Húsaleigutekjur
  • Teknategund
  • Málsmeðferð

Úrskurður nr. 9/2020

Gjaldár 2019

Lög nr. 90/2003, 58. gr. a (brl. nr. 59/2017, 4. gr.), 99. gr. 1. mgr.   Lög nr. 37/1993, 10. gr., 13. gr., 22. gr.  

Breytingar ríkisskattstjóra á síðbúnu skattframtali kærenda árið 2019, sem lutu að því að færa leigutekjur frá X ehf. sem atvinnurekstrartekjur kæranda, A, í stað fjármagnstekna, voru felldar úr gildi með úrskurði yfirskattanefndar. Var m.a. talið að ágallar hefðu verið á rökstuðningi ríkisskattstjóra auk þess sem ríkisskattstjóri hefði ekki gætt þess að gefa kæranda kost á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum og eftir atvikum greinargerð um hugsanlegan frádrátt á móti leigutekjum.

Ár 2020, miðvikudaginn 29. janúar, er tekið fyrir mál nr. 181/2019; kæra A og B, dags. 9. desember 2019, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2019. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Kæruefnið í máli þessu, sem barst yfirskattanefnd með kæru, dags. 9. desember 2019, varðar breytingar ríkisskattstjóra á innsendu skattframtali kærenda árið 2019, sbr. kæruúrskurð, dags. 9. september 2019. Með úrskurðinum felldi ríkisskattstjóri niður framtaldar fjármagnstekjur að fjárhæð 2.177.950 kr. í reit 510 í skattframtalinu (leigutekjur af íbúðarhúsnæði sem ekki tengist atv.rekstri) sem voru vegna útleigu húseignarinnar R-götu til einkahlutafélagsins X ehf. Tekjur þessar færði ríkisskattstjóri til tekna sem rekstrartekjur hjá kæranda, A, sbr. rekstrarskýrslu (RSK 4.11) sem ríkisskattstjóri útbjó. Forsendur ríkisskattstjóra voru þær að væri húsnæði nýtt undir atvinnustarfsemi teldust leigutekjur af því vera rekstrartekjur samkvæmt B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Í kæru til yfirskattanefndar er bent á að ríkisskattstjóri hafi gert umræddar breytingar á skattframtali kærenda einhliða og því hafi kærendur ekki fengið tækifæri til að gera grein fyrir kostnaði sínum vegna öflunar leigutekna. Sé þess krafist að til gjalda í rekstrarskýrslu verði færð fasteignagjöld 297.744 kr., rafmagnskostnaður 74.418 kr., hitakostnaður 146.416 kr. og vaxtagjöld 1.055.848 kr. Hagnaður af rekstri verði þá 603.524 kr.

II.

Með bréfi, dags. 7. janúar 2020, hefur ríkisskattstjóri lagt fram svofellda umsögn um kæruna:

„Þar sem kærandi hefur nú lagt fram ný gögn og rökstuðning í máli þessu og með hliðsjón af þeim lagarökum er búa að baki 12. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, er þess krafist að kærunni verði vísað til ríkisskattstjóra til uppkvaðningar nýs úrskurðar.“

III.

Kærendur töldu ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 2019 og sættu af þeim sökum áætlun ríkisskattstjóra á skattstofnum við almenna álagningu opinberra gjalda það gjaldár. Samkvæmt því sem kemur fram í úrskurði ríkisskattstjóra barst honum skattframtal kærenda árið 2019 þann 5. júní 2019. Þess er að geta að ráðið verður af upplýsingakerfi ríkisskattstjóra að framtalið hafi borist embættinu 9. maí 2019. Hvort heldur sem var er ljóst að framtalsfrestur var liðinn þegar kærendur stóðu skil á skattframtalinu. Eins og skattframtalið bar að samkvæmt þessu var ríkisskattstjóri ekki bundinn af fyrirspurnar- og tilkynningarákvæðum 95. og 96. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, hygðist hann breyta skattframtalinu eða vefengja það í heild sinni eða hluta. Ríkisskattstjóra bar hins vegar að rökstyðja kæruúrskurð sinn, þ.m.t. þær breytingar sem hann gerði á framtalinu, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003 og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um efni rökstuðnings, og sjá til þess samkvæmt rannsóknarreglu, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að málið væri nægjanlega upplýst, væru ákvarðanir teknar sem krefðust slíks. Með úrskurði sínum, dags. 9. september 2019, féllst ríkisskattstjóri að leggja hið innsenda skattframtal til grundvallar álagningu opinberra gjalda kærenda gjaldárið 2019 í stað áætlunar en með tilgreindum breytingum.

Í innsendu skattframtali sínu tilgreindu kærendur í reit 510 húsaleigutekjur að fjárhæð 2.177.950 kr. Í meðfylgjandi greinargerð um leigutekjur (RSK 3.25) kom fram að leigutaki væri X ehf. og að tímabil útleigu væri frá 1. janúar til 31. desember 2018.

Með hinum kærða úrskurði, dags. 31. október 2018, felldi ríkisskattstjóri niður framtaldar leigutekjur 2.177.950 kr. í reit 510 í skattframtali þeirra. Þess í stað færði umræddar leigutekjur frá X ehf. til tekna hjá kæranda, A, sem tekjur af atvinnurekstri í reit 62 í skattframtali hans. Í kæru til yfirskattanefndar eru ekki gerðar athugasemdir við niðurstöðu ríkisskattstjóra um eðli umræddra tekna, en þess krafist að rekstrargjöld verði heimiluð til frádráttar tekjunum svo sem nánar greinir í kærunni.

Breytingar ríkisskattstjóra voru byggðar á því að greindar leigutekjur kærenda frá X ehf. væru tekjur af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Þessu til stuðnings tók ríkisskattstjóri fram að væri húsnæði „nýtt undir atvinnustarfsemi teljast leigutekjur af því vera rekstrartekjur sem eru skattskyldar skv. B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003 um tekjuskatt“. Ekki gerði ríkisskattstjóri grein fyrir lagagrundvelli ákvörðunar sinnar frekar en hér hefur verið rakið eða færði að öðru leyti rök fyrir ályktun sinni. Samkvæmt 58. gr. a laga nr. 90/2003, sbr. 4. gr. laga nr. 59/2017, skulu tekjur manna af útleigu íbúðarhúsnæðis, frístundahúsnæðis eða annars húsnæðis, m.a. þar sem gisting er boðin gegn endurgjaldi, teljast stafa af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi nema tilgreind undanþáguákvæði í a- eða b-liðum 1. mgr. lagagreinarinnar teljist eiga við. Hafi ríkisskattstjóri reist breytingu sína á þessu lagaákvæði, sem frekast verður talið, bar honum að vísa til þess og láta þá koma fram af hvaða ástæðu hann taldi nefnd undanþáguákvæði ekki koma til álita. Með því að ríkisskattstjóri gætti þessa ekki voru ágallar á rökstuðningi embættisins, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003, sbr. og 1. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um efni rökstuðnings. Hafi stjórnvaldsákvörðun ekki verið rökstudd eða rökstuðningur verið haldinn verulegum annmarka leiðir það almennt til þess að íþyngjandi ákvörðun verður talin ógildanleg, enda nást þá venjulega ekki þýðingarmikil markmið sem að er stefnt með rökstuðningi, svo sem að auðvelda málsaðilum að leggja mat á það hvort efni séu til að nýta frekari úrræði, t.d. kæru til æðra stjórnvalds. Þess er jafnframt að geta að ríkisskattstjóri hefur án sérstakrar umfjöllunar talið umræddar tekjur tilheyra kæranda, A, en ekki hjónunum báðum, sbr. í þessu sambandi 3. tölul. 1. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003.

Auk framangreinds er það að athuga við málsmeðferð ríkisskattstjóra að hann leitaði engra skýringa hjá kærendum varðandi tilfærðar húsaleigutekjur áður en hann kvað upp úrskurð í máli þeirra eða gaf þeim kost á að gæta hagsmuna sinna. Í þessu sambandi skal áréttað að sú skylda hvílir á stjórnvöldum að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá er í 13. gr. sömu laga kveðið á um að aðili máls skuli eiga þess kost að tjá sig um efni máls áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans og rök fyrir henni eða slíkt sé augljóslega óþarft. Miðað við viðhorf ríkisskattstjóra um eðli umræddra tekna, sem hann taldi sem fyrr segir tilheyra kæranda, A, einum, varð ekki hjá því komist að gefa kæranda kost á að koma að sjónarmiðum sínum og eftir atvikum greinargerð um hugsanlegan frádrátt á móti tekjum þessum, sbr. ákvæði um frádráttarbæran rekstrarkostnað í 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003. Varð jafnframt að taka afstöðu til þess hvort um fyrnanlega eign til útleigu væri að ræða. Samkvæmt þessu fengu breytingar ríkisskattstjóra ekki staðist án viðhlítandi öflunar upplýsinga og gagna.

Samkvæmt framansögðu voru verulegir annmarkar á málsmeðferð ríkisskattstjóra. Af þeim sökum verður að ómerkja ákvörðun hans um skattmeðferð umræddra leigutekna. Með úrskurði þessum er þá engin efnisafstaða tekin til eðlis tekna þessara eða ágreiningsefnisins að öðru leyti.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Breytingar ríkisskattstjóra samkvæmt hinum kærða úrskurði á innsendu skattframtali kærenda árið 2019 eru ómerktar. 

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja