Úrskurður yfirskattanefndar

  • Brottflutningur úr landi
  • Barnabætur
  • Vaxtabætur
  • Málsmeðferð

Úrskurður nr. 68/2020

Gjaldár 2019

Lög nr. 90/2003, 68. gr. A-liður og B-liður, 69. gr. 2. mgr., 99. gr.   Lög nr. 37/1993, 10. gr., 22. gr.  

Kærandi skaut til yfirskattanefndar kæruúrskurði ríkisskattstjóra þar sem fallist var á að leggja síðbúið skattframtal kæranda árið 2019 til grundvallar álagningu opinberra gjalda í stað áætlunar, en að gerðum breytingum á skattframtalinu sem m.a. lutu að því að ákvarða persónuafslátt miðað við 212 daga dvalartíma hér á landi á árinu 2018 og að haga ákvörðun barnabóta og vaxtabóta kæranda miðað við að kærandi væri í sambúð. Yfirskattanefnd taldi slíka annmarka vera á málsmeðferð ríkisskattstjóra að ekki yrði hjá því komist að ómerkja hina kærðu álagningu með öllu og fella niður að svo stöddu opinber gjöld kæranda gjaldárið 2019. Var lagt fyrir ríkisskattstjóra að hlutast til að nýju um álagningu opinberra gjalda kæranda umrætt gjaldár með uppkvaðningu nýs úrskurðar.

Ár 2020, miðvikudaginn 6. maí, er tekið fyrir mál nr. 14/2020; kæra A, dags. 20. janúar 2020, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2019. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 20. janúar 2020, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar kæruúrskurði ríkisskattstjóra, dags. 21. október 2019, vegna álagningar opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2019. Með úrskurðinum féllst ríkisskattstjóri á að leggja innsent skattframtal kæranda árið 2019, sem barst ríkisskattstjóra 5. júní 2019, til grundvallar álagningu opinberra gjalda kæranda það ár í stað áætlaðra skattstofna. Í úrskurðinum kom fram að samkvæmt upplýsingum frá þjóðskrá Eistlands hefði kærandi búið í Eistlandi frá 31. júlí 2018. Því væri dvalartími kæranda á Íslandi ákvarðaður 212 dagar vegna tímabilsins 1. janúar til 30. júlí 2018. Ríkisskattstjóri gat þess að persónuafsláttur kæranda væri ákvarðaður í samræmi við dvalartíma hér á landi, sbr. 2. mgr. 69. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Í kæru sinni til yfirskattanefndar mótmælir kærandi því að hún hafi flutt úr landi 31. júlí 2018. Hún hafi ferðast til Eistlands sumarið 2018 og verið þar í tvo mánuði. Þessu til stuðnings vísar kærandi til meðfylgjandi flugfarseðla þar sem kemur fram að kærandi hafi átt flug til Eistlands með millilendingu í Svíþjóð 4. júní 2018 og sömu leið aftur til Íslands 14. ágúst sama ár. Kærandi tekur fram að hún hafi dvalið erlendis skemur en sex mánuði og hafi lögum samkvæmt því ekki þurft að tilkynna flutning úr landi. Kærandi hafi verið með fasta búsetu hér á landi frá árinu 2008, hún hafi ekki tilkynnt um flutning sinn úr landi, auk þess sem börn hennar séu í námi og í leikskóla hér á landi. Enn fremur sé kærandi þinglýstur eigandi að fasteign hér á landi frá árinu 2013. Þrátt fyrir það hafi kæranda ekki verið ákvarðaðar vaxtabætur sem henni beri að lögum. Kærandi getur þess að ríkisskattstjóri virðist telja hana hafa fengið greiddar barnabætur erlendis. Um það sé kæranda ekki kunnugt. Kveðst kærandi telja sig eiga rétt á tekjutengdum barnabótum hér á landi, auk vaxtabóta, og þar sem kærandi sé búsett á Íslandi beri henni persónuafsláttur fyrir allt árið.

II.

Með bréfi, dags. 18. febrúar 2020, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna. Í umsögn ríkisskattstjóra kemur fram að með hliðsjón af þeim lagarökum sem búi að baki 12. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sé rétt að vísa kærunni til ríkisskattstjóra til uppkvaðningar nýr úrskurðar. Er bent á að kærandi hafi lagt fram ný gögn og rökstuðning í málinu.

III.

Kærandi taldi ekki fram til skatts innan tilskilins framtalsfrests árið 2019 og sætti hún því áætlun ríkisskattstjóra á skattstofnum við almenna álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2019, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Skattframtal kæranda árið 2019 barst ríkisskattstjóra í kærufresti samkvæmt 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003 og með kæruúrskurði, dags. 21. október 2019, féllst ríkisskattstjóri á að skattframtal kæranda yrði lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2019. Eins og skattframtalið bar að samkvæmt þessu var ríkisskattstjóri ekki bundinn af fyrirspurnar- og tilkynningarákvæðum 95. og 96. gr. laga nr. 90/2003 hygðist hann breyta framtalinu eða vefengja það í heild sinni eða að hluta. Ríkisskattstjóra bar hins vegar að rökstyðja kæruúrskurð sinn, þ.m.t. breytingar sem hann gerði á framtalinu, sbr. 4. málsl. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003 og 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og sjá til þess samkvæmt rannsóknarreglu, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að málið væri nægjanlega upplýst væru ákvarðanir teknar sem krefðust slíks.

Samkvæmt þjóðskrá var kærandi með skráð lögheimili hér á landi allt árið 2018. Þá kemur ekkert fram í skattframtali kæranda árið 2019 um annað en að hún hafi haft fasta búsetu hérlendis allt tekjuárið. Eftir því sem kemur fram í úrskurði ríkisskattstjóra taldi hann allt að einu að 2. mgr. 69. gr. laga nr. 90/2003 ætti við í tilviki kæranda og ákvarðaði dvalartíma hennar hérlendis 212 daga árið 2018. Í greindu ákvæði er fjallað um skattlagningu þeirra sem einungis hafa verið heimilisfastir hér á landi hluta tekjuársins. Samkvæmt þessu byggði ríkisskattstjóri hina kærðu álagningu á því að kærandi hafi aðeins verið heimilisföst hér á landi hluta ársins 2018. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003 hefur ríkisskattstjóri úrskurðarvald um það hverjir teljast heimilisfastir hér á landi samkvæmt lagagreininni. Ekki vísaði ríkisskattstjóri þó til þessarar heimildar sinnar í hinum kærða úrskurði.

Til stuðnings ákvörðun sinni um heimilisfesti kæranda og þá jafnframt dvalardaga skírskotaði ríkisskattstjóri til upplýsinga frá „Þjóðskrá Eistlands“ án þess að gera aðra grein fyrir þeim upplýsingum en að kærandi hefði samkvæmt þeim „búið í Eistlandi frá 31. júlí 2018“. Í kæru til yfirskattanefndar kemur fram að kærandi telur hér rangt með farið, enda hafi hún einungis dvalið í Eistlandi í um tveggja mánaða skeið sumarið 2018. Að því athuguðu sem fyrr greinir um upplýsingar í þjóðskrá og skattgögnum kæranda verður að telja að ríkisskattstjóra hafi í samræmi við rannsóknarreglu, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, borið að ganga úr skugga um að málið væri nægjanlega upplýst með tilliti til heimilisfesti kæranda, eftir atvikum með áskorun til kæranda um framlagningu gagna, áður en hann tók ákvörðun sína um þetta atriði. Þessa gætti ríkisskattstjóri ekki við meðferð málsins. Það athugist að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá bera með sér að kærandi hafi starfað hjá íslenskum launagreiðanda í nóvember og desember 2018. Gaf það sérstakt tilefni til þess að ríkisskattstjóri aflaði upplýsinga um búsetu kæranda og aðrar aðstæður hennar sem hér skipta máli.

Vegna umfjöllunar í kæru um rétt kæranda til vaxtabóta og barnabóta skal tekið fram að í kæruúrskurði ríkisskattstjóra er ekkert vikið að ákvörðun bóta þessara. Samkvæmt 1. mgr. A-liðar 68. gr. laga nr. 90/2003 skulu hjón, sem skattlögð eru samkvæmt 62. gr. laganna, bæði teljast framfærendur og skal skipta barnabótum milli þeirra til helminga. Ennfremur er kveðið á um það í umræddri lagagrein að hið sama gildi um sambúðarfólk sem uppfyllir í lok tekjuársins skilyrði 3. mgr. 62. gr., enda þótt það óski ekki eftir að vera skattlagt samkvæmt þeirri grein. Að sama skapi teljast þeir sem halda heimili saman ásamt barni sínu framfærendur í skilningi ákvæðisins þótt skilyrði til skráningar á sambúð séu ekki uppfyllt. Við slíkar aðstæður skal ákvarða barnabætur eins og um hjón sé að ræða. Þá kemur fram í 7. mgr. B-liðar 68. gr. laganna að vaxtabótum hjóna skuli skipt til helminga á milli þeirra og að hið sama gildi um sambýlisfólk, sem uppfyllir skilyrði 3. mgr. 62. gr., þótt það óski ekki eftir að vera skattlagt samkvæmt þeirri grein.

Í innsendu skattframtali sínu árið 2019 staðfesti kærandi að hún væri einstætt foreldri með tilgreiningu í þar til ætlaðan reit. Ráðið verður af tiltækum gögnum að ríkisskattstjóri hafi ekki byggt á þessari staðfestingu kæranda, en þess í stað hagað ákvörðun umræddra bóta miðað við að hún væri í sambúð er félli undir skilyrði 3. mgr. 62. gr. laga nr. 90/2003. Leiddi þetta m.a. til þess að kæranda ákvörðuðust ekki vaxtabætur.

Telja verður að þær upplýsingar hafi legið fyrir ríkisskattstjóra að efni væru til þess að hann kannaði, þrátt fyrir staðfestingu kæranda í skattframtali á sifjaréttarlegri stöðu sinni, hvort framangreind ákvæði um barnabætur og vaxtabætur ættu við í hennar tilviki. Var því rík ástæða til þess að ríkisskattstjóri kannaði nánar hvernig umræddum málum væri háttað og krefði kæranda skýringa. Jafnframt var slík rannsókn forsenda þess að ríkisskattstjóra væri heimilt að taka ákvörðun um að breyta framtali hennar og varð niðurstaða þar að lútandi að vera ótvíræð, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá bar ríkisskattstjóra, teldi hann ástæðu til að haga skattlagningu á kæranda eftir reglum um sambúðarfólk andstætt tilgreiningu kæranda á stöðu sinni að þessu leyti, að tilkynna kæranda um þá ákvörðun. Eins og fram er komið fórst með öllu fyrir í úrskurði ríkisskattstjóra að gera grein fyrir tilhögun álagningarinnar að þessu leyti. Þess er að geta að ráðið verður af kæru að kæranda sé kunnugt um að ríkisskattstjóri telji sig hafa upplýsingar um greiddar barnabætur til kæranda í Eistlandi. Ekkert er fjallað um slíkt í úrskurði ríkisskattstjóra og í gögnum málsins eru engar upplýsingar um fjárhæð greiðslna af þessu tagi til kæranda.

Þess er að loks geta að með tilgreiningum í lið 1.3 í skattframtali kæranda óskaði hún eftir því að sér yrði ákvörðuð lækkun á tekjuskattsstofni vegna ungmennis í námi, sbr. 4. tölul. 1. mgr. 65. gr. laga nr. 90/2003. Í úrskurði ríkisskattstjóra er ekkert vikið að þessari beiðni kæranda.

Samkvæmt framansögðu voru margþættir ágallar á rökstuðningi ríkisskattstjóra, sbr. áskilnað um rökstuðning kæruúrskurða í 4. málsl. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003, sbr. og ákvæði um efni rökstuðnings í 1. og 2. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, auk þess sem ríkisskattstjóri hefur ekki gætt þess að málið væri nægjanlega upplýst, sbr. 10. gr. síðastnefndra laga. Jafnframt fékk málaleitan kæranda um lækkun tekjuskattsstofns enga umfjöllun af hendi ríkisskattstjóra.

Með vísan til þess sem að framan er rakið þykja þeir annmarkar hafa verið á hinni kærðu álagningu að ekki verður hjá því komist að ómerkja hana með öllu, þó þannig að ákvörðun ríkisskattstjóra um að falla frá áætlun skattstofna verður látin standa óhögguð. Samkvæmt þessari niðurstöðu falla niður að svo stöddu opinber gjöld kæranda gjaldárið 2019, sem ríkisskattstjóri ákvarðaði með hinum kærða úrskurði, þar á meðal barnabætur. Er lagt fyrir ríkisskattstjóra að hlutast að nýju til um álagningu opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2019 með uppkvaðningu nýs úrskurðar að gættum þeim atriðum sem hér að framan eru rakin. Með úrskurði þessum er þá ekki tekin nein efnisleg afstaða til ágreiningsefnis málsins.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hin kærða álagning opinberra gjalda er felld úr gildi og lagt fyrir ríkisskattstjóra að hlutast til um nýja álagningu á kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja