Úrskurður yfirskattanefndar

  • Skattsekt
  • Skattrannsókn

Úrskurður nr. 79/2020

Lög nr. 90/2003, 109. gr. 1. mgr.   Lög nr. 4/1995, 22. gr. 2. mgr.   Lög nr. 50/1988, 40. gr. 1. og 3. mgr. (brl. nr. 42/1995, 3. gr.)  

A var með úrskurði yfirskattanefndar gerð sekt fyrir að hafa á saknæman hátt vanrækt að telja fram í skattframtölum sínum tekjur af útleigu húsnæðis til ferðamanna á árunum 2016, 2017 og 2018 og fyrir að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum og innheimtum virðisaukaskatti vegna seldrar þjónustu á sömu árum.

Ár 2020, miðvikudaginn 3. júní, er tekið fyrir mál nr. 44/2020; krafa skattrannsóknarstjóra ríkisins um að A verði gerð sekt vegna meintra brota á skattalögum. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi, dags. 18. mars 2020, hefur skattrannsóknarstjóri ríkisins krafist þess að yfirskattanefnd taki til sektarmeðferðar mál A fyrir brot á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, lögum nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, allra með áorðnum breytingum, framin vegna rekstraráranna 2016, 2017 og 2018.

Í bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins segir:

„A er gefið að sök eftirfarandi.

1. Skil á efnislega röngum skattframtölum. Vanframtaldar rekstrartekjur.

A er gefið að sök að hafa, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, staðið skattyfirvöldum skil á efnislega röngum skattframtölum gjaldárin 2017 til og með 2019, vegna rekstraráranna 2016 til og með 2018, með því að vanrækja að gera grein fyrir rekstrartekjum sínum sem til eru komnar vegna sjálfstæðrar starfsemi hennar, samtals að fjárhæð 15.274.350 kr., að teknu tilliti til mögulegra rekstrargjalda, sem skattleggja beri samkvæmt B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Leiddi háttsemi A til ákvörðunar lægri tekjuskatts- og útsvarsstofna hennar en vera bar gjaldárin 2017, 2018 og 2019, vegna rekstraráranna 2016, 2017 og 2018, og þar með til ákvörðunar lægri tekjuskatts og útsvars, svo sem hér greinir:

Rekstrarár

Vanframtaldar rekstrartekjur

Möguleg rekstrargjöld

Tekjuskattur

Útsvar

2016

9.898.799

2.345.579

1.564.643

1.096.728

2017

14.054.452

10.197.877

433.235

559.975

2018

4.329.739

465.184

869.525

560.875

Samtals kr.

28.282.990

13.008.640

2.867.403

2.217.578

Sú háttsemi A sem lýst hefur verið hér að framan brýtur í bága við ákvæði 1. mgr. 90. gr., sbr. B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 22. gr. og 19. gr. og 1. mgr. 21. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, beggja með áorðnum breytingum.

Varðar framanlýst háttsemi A sekt samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, beggja með áorðnum breytingum.

Við væntanlega endurákvörðun skattstofna opinberra gjalda A vegna rekstraráranna 2016, 2017 og 2018 mun A að líkum verða gert að sæta álagningu tekjuskatts og útsvars á álag á vanframtalda skattstofna samkvæmt 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, með áorðnum breytingum, er komi til frádráttar við ákvörðun sektarfjárhæðar.

2. Vanræksla á tilkynningu um virðisaukaskattsskylda starfsemi. Vanræksla á skilum á virðisaukaskattsskýrslum. Vanframtalin skattskyld velta og útskattur.

A er gefið að sök, að því er best verður séð af ásetningi, en í það minnsta af stórkostlegu hirðuleysi, að hafa vanrækt að tilkynna ríkisskattstjóra (nú Skatturinn) um virðisaukaskattsskylda starfsemi sína, ásamt því að hafa vanrækt að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum til skattyfirvalda vegna uppgjörstímabilanna maí-júní til og með nóvember-desember rekstrarárið 2016, janúar-febrúar til og með nóvember-desember rekstrarárið 2017 og janúar-febrúar til og með september-október rekstrarárið 2018 og vanframtelja með því skattskylda veltu og virðisaukaskatt. Samkvæmt rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins nemur vanframtalin skattskyld velta vegna framangreindra uppgjörstímabila samtals 28.282.990 kr. og vanframtalinn útskattur nemur samtals 3.111.128 kr. Sundurliðast vanframtalin skattskyld velta og virðisaukaskattur svo sem hér greinir:

Rekstrarár

Uppgjörstímabil

Vanframtalin skattskyld velta kr.

Vanframtalinn útskattur kr.

2016

maí - júní

1.985.044

218.355

2016

júlí - ágúst

2.201.257

242.138

2016

sept. - okt.

2.584.300

284.273

2016

nóv. - des.

3.128.198

344.102

Samtals kr.

 

9.898.799

1.088.868

2017

jan. - feb.

2.041.804

224.598

2017

mars - apríl

1.527.513

168.026

2017

maí - júní

2.754.037

302.944

2017

júlí - ágúst

4.101.956

451.215

2017

sept. - okt.

3.061.045

336.715

2017

nóv. - des.

568.097

62.491

Samtals kr.

 

14.054.452

1.545.989

2018

jan. - feb.

439.776

48.375

2018

mars - apríl

617.186

67.891

2018

maí - júní

536.389

59.003

2018

júlí - ágúst

1.753.383

192.872

2018

sept. - okt.

983.005

108.130

Samtals kr.

 

4.329.739

476.271

Samtals öll árin kr.

 

28.282.990

3.111.128

Telst þessi háttsemi A brjóta í bága við ákvæði 1. mgr. 5. gr., 1. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 24. gr., sbr. aðalreglur 1. gr., 2. gr., 1. tölul. 1. mgr. 3. gr., 1. mgr. 11. gr., 1. mgr. 13. gr., 1. mgr. 14. gr. og 19. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Framangreind háttsemi varðar A sekt samkvæmt 1. og 3. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum.

Þess er krafist að A verði með úrskurði yfirskattanefndar gert að sæta sekt í samræmi við framangreint.“

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins er málavöxtum lýst í greinargerð, dags. 18. mars 2020, sem fylgdi kröfugerðinni.

II.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 18. mars 2020, var gjaldanda veitt færi á að skila vörn í tilefni af framangreindri kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins eða tilkynna sérstaklega ef hún vildi ekki hlíta því að yfirskattanefnd afgreiddi mál hennar og yrði málið þá endursent skattrannsóknarstjóra ríkisins sem tæki ákvörðun um hvort því yrði vísað til opinberrar rannsóknar, sbr. 4. mgr. 110. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 4. mgr. 41. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Engar athugasemdir hafa borist frá gjaldanda.

III.

1. Með bréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 18. mars 2020, er gerð sú krafa að gjaldanda, A, verði gerð sekt samkvæmt þargreindum ákvæðum 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, 22. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga, og 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Gjaldandi hefur átt þess kost að koma að vörnum fyrir yfirskattanefnd í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins, en engar athugasemdir hafa borist. Þar sem gjaldandi hefur ekki gert athugasemdir við meðferð máls þessa fyrir yfirskattanefnd verður að líta svo á að hún mæli því ekki í gegn að það sæti sektarmeðferð fyrir nefndinni.

2. Sektarkrafa skattrannsóknarstjóra ríkisins í máli þessu er byggð á niðurstöðum rannsóknar embættisins á tekjum, sjálfstæðri starfsemi og skattskilum gjaldanda vegna rekstraráranna 2016, 2017 og 2018, sbr. skýrslu um rannsóknina, dags. 20. desember 2019. Rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins hófst formlega hinn 30. september 2019 og beindist að skattskilum gjaldanda, þ.m.t. virðisaukaskattsskilum, á rannsóknartímabilinu, en tilefni rannsóknarinnar var athugun ríkisskattstjóra á skattskilum gjaldanda, sbr. bréf um framsendingu málsins til þóknanlegrar meðferðar skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 23. janúar 2019, vegna erlendra greiðslna inn á bankareikning hennar, þ.á m. frá Airbnb. Vegna rannsóknarinnar kom gjaldandi til skýrslutöku hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 2. október 2019. Með bréfi, dags. 19. nóvember 2019, sendi skattrannsóknarstjóri gjaldanda skýrslu um rannsóknina, sem þá lá fyrir, dags. sama dag, og gaf henni kost á að tjá sig um efni hennar. Athugasemdir bárust frá tilnefndum verjanda gjaldanda með bréfi, dags. 4. desember 2019. Í framhaldi af þessu tók skattrannsóknarstjóri ríkisins saman nýja skýrslu um rannsóknina, dags. 30. desember 2019, sem var efnislega samhljóða hinni fyrri að viðbættum kafla um lok rannsóknarinnar, auk fylgiskjala A7-A8 og 10.1-10.19.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 20. desember 2019, voru helstu niðurstöður rannsóknarinnar dregnar saman með svofelldum hætti:

„Niðurstöður rannsóknar á sjálfstæðri starfsemi, tekjum og skattskilum skattaðila gjaldárin 2017 til og með 2019, vegna tekju- og rekstraráranna 2016 til og með 2018, eru:

Staðin hafa verið skil á efnislega röngum skattframtölum. – Skattaðili stundaði sjálfstæða starfsemi. – Bókhald hefur ekki verið fært og tekjuskráningu er ábótavant. – Skattaðili stundaði virðisaukaskattsskylda starfsemi án þess að vera skráð á virðisaukaskattsskrá. – Vanrækt var að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum. – Skattskyld velta og útskattur eru vanframtalin. – Rekstrartekjur eru vanframtaldar. – Ekki eru fyrirliggjandi gögn vegna mögulegs innskatts. – Gistináttaskattur hefur ekki verið innheimtur.“

Þá gerði skattrannsóknarstjóri ríkisins tölulega grein fyrir niðurstöðum rannsóknarinnar í töflu í niðurlagi skýrslu sinnar. Þar kom fram að rekstrartekjur og skattskyld velta gjaldanda væri vantalin um 9.898.799 kr. rekstrarárið 2016 (útskattur 1.088.868 kr.), um 14.054.452 kr. rekstrarárið 2017 (útskattur 1.545.989 kr.) og um 4.329.739 kr. rekstrarárið 2018 (útskattur 476.271 kr.). Næmu möguleg rekstrargjöld 2.345.579 kr. fyrsta árið, 10.197.877 kr. annað árið og 465.184 kr. þriðja árið.

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins var mál gjaldanda sent ríkisskattstjóra til meðferðar, sbr. 6. mgr. 103. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 2. mgr. 39. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. bréf skattrannsóknarstjóra, dags. 18. mars 2020.

3. Fram kemur í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 20. desember 2019, að gjaldandi hafi staðið skil á skattframtölum árin 2017, 2018 og 2019 vegna tekjuáranna 2016, 2017 og 2018, en að bókhald hafi ekki verið fært. Þá kemur fram að gjaldandi hafi ekki verið með opið virðisaukaskattsnúmer á þeim árum sem voru til rannsóknar og því ekki skilað inn virðisaukaskattsskýrslum vegna uppgjörstímabila árin 2016, 2017 og 2018. Er tekið fram að ekki hafi verið gefnir út sölureikningar vegna starfseminnar og engin bókhaldsgögn hafi verið varðveitt.

Við skýrslutöku af gjaldanda hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins hinn 2. október 2019 kom fram að gjaldandi hefði sjálf útbúið skattframtöl vegna gjaldáranna 2017, 2018 og 2019 og byggt á forskráðum upplýsingum. Þegar gjaldandi var spurð að því hvort skattframtölin gæfu rétta mynd af tekjum hennar, eignum og skuldum sagði gjaldandi að það vantaði inn í framtölin, hún hefði haldið að það yrði haft samband við hana fyrr en hún hefði alltaf verið að ýta þessu frá sér. Við skýrslutökuna voru lögð fyrir gjaldanda yfirlit yfir greiðslur inn á bankareikning hennar, en greiðslur þessar námu 10.987.667 kr. á árinu 2016, 15.600.441 kr. á árinu 2017 og 4.806.010 kr. á árinu 2018. Staðfesti gjaldandi að um væri að ræða greiðslur frá Airbnb vegna útleigu húsnæðis. Greindi gjaldandi frá því að bæði hún og fyrrverandi sambýlismaður hennar hefðu misst vinnuna og því lent í fjárhagserfiðleikum, en lán þeirra hefðu verið skráð á hana þar sem hann hefði verið gjaldþrota. Hefðu þau byrjað að leigja út eitt herbergi í húsinu þeirra og svo hefðu fleiri herbergi bæst við. Þá hefði hús þeirra verið selt á uppboði en gjaldandi hefði samið við bankann um að leigja húsið áfram. Því næst hefði gjaldandi flutt í leiguíbúð og leigt húsið til ferðamanna. Svo hefði flosnað upp úr sambandinu og gjaldandi leigt herbergi fyrir sig en alltaf haldið áfram að leigja út húsið til ferðamanna. Ennfremur hefði frændi gjaldanda beðið hana um hjálp við að leigja út hús sitt við K. Hefði hún auðfúslega gert það, en fyrirkomulagið hefði verið þannig að hún hefði séð um að leigja út húsið og svo millifært peninga inn á hans reikning. Sagði gjaldandi að þau hefðu ennfremur oft farið í hraðbanka og hún hefði tekið út fjármuni og látið hann fá í umslagi. Kvaðst gjaldandi hafa fengið að dvelja í húsinu en hún hefði séð um þrif og annað. Þegar gjaldandi var beðin um að gera nánar grein fyrir leigugreiðslunum sagði gjaldandi að þetta væri allt á hennar ábyrgð. Kvaðst gjaldandi ekkert hafa hugsað þetta lengra og bara verið fegin að geta verið einhvers staðar. Aðspurð um hversu mikinn pening hún hefði látið frændann hafa sagði gjaldandi það hafa verið „alveg fullt sko“, en hún hefði fengið greiddar 10.000 kr. fyrir að þrífa áður en gestir kæmu. Aðspurð hvers vegna gjaldandi hefði ekki skráð sig á virðisaukaskattsskrá og skilað virðisaukaskattsskýrslum vegna starfseminnar sagði gjaldandi að hún hefði bara ýtt þessu frá sér.

Í umfjöllun skattrannsóknarstjóra ríkisins um rekstrartekjur og skattskylda veltu gjaldanda kemur fram að gjaldandi hafi haft með höndum sjálfstæða starfsemi á rannsóknartímabilinu en hafi ekki verið skráð á virðisaukaskattsskrá. Hafi gjaldandi ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum þrátt fyrir skattskylda veltu í starfsemi hennar. Kemur fram að gjaldandi hafi verið skráð til heimilis í M til ... 2017 og á K frá ... til ... 2017. Samkvæmt upplýsingum frá X-banka, sem keypt hafi M á nauðungarsölu, hafi gjaldandi haft umráð yfir fasteigninni til ... 2017. Þá megi sjá greiðslur til T ehf. á bankareikningi gjaldanda. Sé gengið út frá því í skýrslunni að fasteign sú sem gjaldandi kvaðst hafa leigt út fyrir annan aðila í eigin nafni hafi verið K. Fyrsta millifærsla til T ehf. sé í október 2016 og sú síðasta í nóvember 2017 en samtals nemi greiðslur þessar 11.469.774 kr. Hafi T ehf. verið sent fyrirspurnarbréf vegna greiðslna þessara og með svarbréfi umboðsmanns félagsins hafi fylgt húsaleigusamningur við V ehf., en gjaldandi sé prókúruhafi þessa félags. Einnig hafi fylgt samantekt yfir innborganir, hreyfingar í bókhaldi og sölureikningar sem T ehf. gefi út á V ehf. vegna húsaleigu í september og október 2016. Þá er rakið í skýrslunni að fram komi í húsaleigusamningnum, sem sé ótímabundinn, að V ehf. sé heimilt að framleigja fasteignina að K og greiða leigusala 75% af þeirri leigu sem félagið fái vegna leigu til þriðja aðila en aldrei lægri fjárhæð en sem nemi 400.000 kr. á mánuði. Hafi athugun skattrannsóknarstjóra ríkisins leitt í ljós að V ehf. hafi hvorki skilað skattframtölum vegna rekstraráranna 2016 og 2017 né ársreikningum. Hafi félagið verið á virðisaukaskattsskrá á árinu 2016 en verið fellt af skrá á árinu 2017. Þá hafi ekki verið staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum af hálfu félagsins framangreind ár og hafi félagið sætt áætlun virðisaukaskattsskyldrar veltu bæði árin. Ennfremur hafi athugun skattrannsóknarstjóra ríkisins leitt í ljós að ekki hafi verið neinar hreyfingar á bankareikningi félagsins á árunum 2016 og 2017 en félagið hafi verið skráð undir atvinnugreinanúmerinu 58190, „önnur útgáfustarfsemi“. Verði því ekki séð að um raunverulega atvinnustarfsemi hafi verið að ræða af hálfu V ehf. á árunum 2016 og 2017 við útleigu húsnæðis til ferðamanna. Líti skattrannsóknarstjóri því svo á að þrátt fyrir að húsaleigusamningur um fasteignina að K hafi verið gerður í nafni V ehf. hafi það í raun verið gjaldandi sem hafi verið aðili að viðskiptunum, enda hafi allar greiðslur vegna útleigunnar runnið inn á bankareikning gjaldanda og hafi allur kostnaður, þ.m.t. leigugreiðslur til leigusalans, verið greiddur af henni en ekki félaginu. Hafi aðkoma V ehf. því aðeins verið til málamynda og gjaldandi sjálf verið raunverulegur leigutaki.

Er rakið í skýrslunni að með breytingu laga um tekjuskatt nr. 90/2003, sbr. 4. gr. laga nr. 59/2017, hafi 58. gr. a verið bætt við tekjuskattslögin en þar sé kveðið á um hver séu skilyrði þess að tekjur manna af útleigu íbúðarhúsnæðis, frístundahúsnæðis eða annars húsnæðis til gistingar gegn endurgjaldi teljist ekki stafa af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi. Hafi breytingarákvæði þetta tekið gildi 1. janúar 2017 og komið til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2018. Gjaldandi hafi fengið greiddar 10.987.667 kr. inn á bankareikning sinn vegna útleigu húsnæðis til ferðamanna á árinu 2016 og taki ákvæði 58. gr. a. því ekki til þess tíma. Hins vegar væri til þess að líta að samkvæmt 8. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, næði undanþága skattskyldu sem þar greinir ekki til útleigu gistiherbergja og annarrar gistiþjónustu þegar leigt væri til skemmri tíma en eins mánaðar. Lægi ekki annað fyrir í tilviki gjaldanda en að um útleigu til ferðamanna til skemmri tíma en eins mánaðar væri að ræða og því ætti greind undanþága ekki við um gjaldanda. Þá yrði þjónustan ekki talin undanþegin virðisaukaskatti samkvæmt 3. mgr. 2. gr. laganna og gjaldandi ekki undir fjárhæðarmörkum 3. tölul. 4. gr. þeirra. Er tekið fram að útleiga gjaldanda á rekstrarárinu 2016 hafi verið það umfangsmikil og regluleg að enginn vafi sé á því að útleiga hennar á rekstrarárinu 2016 hafi verið rekin í atvinnuskyni sem sjálfstæð starfsemi hennar. Hafi starfsemin því verið virðisaukaskattsskyld og tekjurnar tekjur af sjálfstæðri starfsemi gjaldanda rekstrarárið 2016. Hvað snerti rekstrarárin 2017 og 2018 komi fram í b-lið 1. mgr. fyrrnefndrar 58. gr. a. laga nr. 90/2003 það skilyrði þess að heimagisting verði ekki talin til atvinnustarfsemi að leigutekjur nemi ekki hærri fjárhæð en 2.000.000 kr. á ári. Hafi þetta skilyrði hvorki verið uppfyllt á árinu 2017 né á árinu 2018 og verði tekjur gjaldanda af útleigu húsnæðis því taldar tekjur af sjálfstæðri starfsemi hennar greind ár. Þá eigi sömu rök við um virðisaukaskattsskyldu gjaldanda árin 2017 og 2018 eins og varðandi árið 2016. Breyti hækkun viðmiðunarfjárhæðar í 3. tölul. 4. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, engu þar um. Sé það því niðurstaða skattrannsóknarstjóra ríkisins að greiðslur til gjaldanda vegna útleigu gjaldanda á fasteignum til ferðamanna, sem fjallað sé um í töflu A1 í skýrslunni og að frádregnum virðisaukaskatti, séu vanframtaldar rekstrartekjur gjaldanda sem skattleggja beri sem tekjur samkvæmt B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003. Þá hafi starfsemi gjaldanda verið virðisaukaskattsskyld og gjaldanda hafi borið að skrá sig á virðisaukaskattsskrá, sbr. ákvæði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 50/1988, og skila virðisaukaskattsskýrslum og virðisaukaskatti til ríkissjóðs, sbr. 1. og 2. mgr. 24. gr. laganna. Samkvæmt 2. tölul. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 50/1988 beri gistiþjónusta 11% virðisaukaskatt. Telji skattrannsóknarstjóri rétt að líta svo á að virðisaukaskattur hafi verið innifalinn í þeim fjárhæðum sem gjaldandi innheimti af viðskiptavinum sínum.

Í kafla um rekstrargjöld og innskatt kemur fram að engin kostnaðargögn liggi fyrir. Hins vegar beri færslur á bankareikningi gjaldanda með sér að þær varði útgjöld vegna starfsemi gjaldanda, t.a.m. greiðslur vegna rafmagns og internetþjónustu til viðbótar við greiðslur sem gjaldandi innti af hendi til T ehf. vegna leigu á fasteigninni að K. Gæfi skýrslugjöf gjaldanda til kynna að um einhvern frekari kostnað gjaldanda hefði verið að ræða en fram kæmi á yfirlitum yfir bankareikning hennar. Þætti ekki óvarlegt að áætla að kostnaður gjaldanda hefði numið samtals 13.008.640 kr. á árunum 2016, 2017 og 2018. Í þessu sambandi þætti rétt að benda á að það hefði verið gjaldandi en ekki V ehf. sem hefði leigt fasteignina að K af eiganda hennar. Þar sem engin kostnaðargögn lægju fyrir yrði ekki talið að gjaldandi ætti rétt til innskatts vegna starfseminnar greind ár, sbr. 7. mgr. 20. gr. laga nr. 50/1988, sbr. og nánar ákvæði reglugerðar nr. 192/1993, um innskatt.

4. Telja verður að leitt hafi verið í ljós með rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins að gjaldandi hafi haft með höndum sjálfstæða starfsemi við útleigu húsnæðis til ferðamanna á árunum 2016, 2017 og 2018, en ekki gert grein fyrir tekjum sínum af þeirri starfsemi í skattframtölum árin 2017, 2018 og 2019, svo og að hún hafi ekki staðið skil á virðisaukaskattsskýrslum og innheimtum virðisaukaskatti vegna seldrar þjónustu sömu ár. Í máli því, sem hér er til meðferðar, er um að tefla kröfugerð um ákvörðun sektar á hendur gjaldanda samkvæmt þar tilgreindum ákvæðum 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, og 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sem gera ráð fyrir því að sektarákvörðun sé bundin þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin. Verður því að taka afstöðu til þess hvort skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi með skattrannsókn sinni sýnt fram á hverju skattfjárhæð, sem undan var dregin, hafi að minnsta kosti numið. Allan vafa í því sambandi verður að meta gjaldanda í hag, sbr. grundvallarreglu 108. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála.

Eins og fram er komið byggja tölulegar niðurstöður skattrannsóknarstjóra ríkisins á rekstrartekjum og skattskyldri veltu gjaldanda rekstrarárin 2016, 2017 og 2018 á upplýsingum um innborganir inn á bankareikning gjaldanda, sbr. fskj. 5.1-5.61 og 6.118-6.122 með skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins. Á þessum grundvelli er í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins gerð grein fyrir vantöldum rekstrartekjum og vantalinni skattskyldri veltu að fjárhæð 9.898.799 kr. rekstrarárið 2016, 14.054.452 kr. rekstrarárið 2017 og 4.329.739 kr. rekstrarárið 2018. Við skýrslutökur hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins 2. október 2019 staðfesti gjaldandi að um væri að ræða greiðslur vegna útleigu húsnæðis til ferðamanna sem hún hefði ekki gert grein fyrir í skattskilum sínum. Gjaldandi hefur ekki gert athugasemdir í tilefni af sektarkröfu skattrannsóknarstjóra ríkisins. Samkvæmt þessu og að virtum gögnum málsins að öðru leyti þykir ekkert komið fram sem gefur tilefni til annars en að miða við fjárhæðir rekstrartekna og skattskyldrar veltu samkvæmt skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins. Þá hefur ekkert komið fram sem gefur tilefni til þess að ætla að rekstrarkostnaður og innskattur hafi numið hærri fjárhæðum en greinir í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið og að öðru leyti með stoð í gögnum málsins þykir bera að fallast á ályktun skattrannsóknarstjóra ríkisins um að gjaldandi hafi með saknæmum hætti staðið skil á efnislega röngum skattframtölum árin 2017, 2018 og 2019 með því að vanrækja að telja fram tekjur af atvinnurekstri sínum eða sjálfstæðri starfsemi með fyrrgreindum fjárhæðum sem skattskyldar voru samkvæmt B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. og 19. gr. og 21. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga. Telst vanálagður tekjuskattur nema 1.546.643 kr. gjaldárið 2017, 433.235 kr. gjaldárið 2018 og 869.525 kr. gjaldárið 2019. Vanálagt útsvar nam 1.096.728 kr. fyrsta árið, 559.975 kr. annað árið og 560.875 kr. þriðja árið. Hinar röngu upplýsingar í skattframtölum gjaldanda gjaldárin 2017, 2018 og 2019 leiddu til lægri álagningar opinberra gjalda hennar en vera bar umrædd gjaldár, svo sem greinir í kröfugerð skattrannsóknarstjóra ríkisins, þannig að brot gjaldanda varða við 1. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. og 2. mgr. 22. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga.

Þá þykir fullsannað með stoð í gögnum málsins að gjaldandi, sem skyld var til þess að standa skil á virðisaukaskatti, sbr. 1. mgr. 15. gr. og 1. og 2. mgr. 24. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, hafi vanrækt að standa skil á virðisaukaskattsskýrslum uppgjörstímabilin maí-júní 2016 til og með september-október 2018 og þannig vanrækt að gera grein fyrir virðisaukaskatti til greiðslu samtals að fjárhæð 3.111.128 kr. umrædd uppgjörstímabil, sbr. sundurliðun í kröfubréfi skattrannsóknarstjóra ríkisins. Varðar þetta gjaldanda sekt samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995.

Ákvarða ber gjaldanda, A, sekt samkvæmt framangreindum ákvæðum 2. mgr. 109. gr. laga nr. 90/2003 og 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988, sbr. 3. gr. laga nr. 42/1995. Samkvæmt breytingum á refsiákvæðum skattalaga, sem gerðar voru með lögum nr. 42/1995 og tóku gildi 9. mars 1995, skal sekt aldrei vera lægri en sem nemur tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin, þó að teknu tilliti til álags. Við ákvörðun sektar ber að taka tillit til skatts af álagi samkvæmt 108. gr. laga nr. 90/2003 svo og álags samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 50/1988. Að þessu virtu og málsatvikum að öðru leyti þykir sekt gjaldanda hæfilega ákveðin 11.000.000 kr. til ríkissjóðs og 3.900.000 kr. til borgarsjóðs Reykjavíkur.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Gjaldandi, A, greiði sekt að fjárhæð 11.000.000 kr. til ríkissjóðs og 3.900.000 kr. til borgarsjóðs Reykjavíkur.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja