Úrskurður yfirskattanefndar

  • Bifreiðagjald
  • Undanþága frá gjaldskyldu

Úrskurður nr. 106/2020

Lög nr. 39/1988, 4. gr. a-liður (brl. nr. 37/2000, 4. gr.).  

Við skiptalok á dánarbúi B, eiginmanns kæranda, í nóvember 2019 fékk kærandi bifreið B framselda sér. Var Samgöngustofu tilkynnt um eignarhald kæranda að bifreiðinni þann 4. febrúar 2020. Kröfu kæranda um að niðurfelling bifreiðagjalds af bifreiðinni vegna örorku kæranda yrði miðuð við þann dag er kærandi öðlaðist eignarráð bifreiðarinnar var hafnað í úrskurði yfirskattanefndar. Kom fram að vegna fortakslauss lagaáskilnaðar þess efnis að bóta- eða styrkhafi væri skráður eigandi eða umráðamaður bifreiðar í ökutækjaskrá yrði almennt að miða niðurfellingu bifreiðagjalds vegna örorku við þann dag er Samgöngustofu eða umboðsmanni hennar væri tilkynnt um eigendaskipti að viðkomandi bifreið.

Ár 2020, mánudaginn 31. ágúst, er tekið fyrir mál nr. 78/2020; kæra A, mótt. 18. maí 2020, vegna ákvörðunar bifreiðagjalds. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, sem barst yfirskattanefnd 18. maí 2020, hefur kærandi skotið úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 30. mars 2020, til yfirskattanefndar. Kæruefnið varðar ákvörðun bifreiðagjalds af bifreiðinni L. Af hálfu kæranda er þess krafist að niðurstaða ríkisskattstjóra um niðurfellingu bifreiðagjalds verði endurskoðuð og að kærandi fái að njóta niðurfellingar bifreiðagjalds að fullu frá 1. desember 2019.

Samkvæmt gögnum málsins eru atvik með þeim hætti að ríkisskattstjóra barst þann 4. febrúar 2020 erindi frá fulltrúa Tryggingastofnunar ríkisins þar sem óskað var eftir niðurfellingu bifreiðagjalds af bifreiðinni L í eigu kæranda vegna örorku kæranda, sbr. a-lið 4. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, sbr. 4. gr. laga nr. 37/2000, um breyting á þeim lögum.

Með úrskurði, dags. 30. mars 2020, féllst ríkisskattstjóri á erindi kæranda og felldi niður bifreiðagjald af bifreiðinni L vegna fyrra gjaldtímabils ársins 2020. Fram kom í úrskurði ríkisskattstjóra að samkvæmt gögnum málsins hefðu greiðslur Tryggingastofnunar til kæranda hafist 1. janúar 2020, en úrskurður um örorku verið kveðinn upp 22. október 2019. Við athugun ríkisskattstjóra hefði komið í ljós að kærandi hefði keypt bifreiðina 4. febrúar 2020 og ætti því rétt á niðurfellingu bifreiðagjalds frá kaupdegi, sbr. ákvæði 4. málsl. a-liðar 4. gr. laga nr. 39/1988. Ríkisskattstjóri hefði því fallist á erindið að hluta og fellt niður bifreiðagjald vegna tímabilsins frá 4. febrúar til 30. júní 2020 að fjárhæð 7.990 kr. sem yrði endurgreitt kæranda sem rétthafa endurgreiðslu.

II.

Í kæru til yfirskattanefndar greinir kærandi frá því að eiginmaður hennar hafi látist á árinu 2019 og við lúkningu dánarbús hans hafi kæranda verið afhent umrædd bifreið til að standa straum af kostnaði við útför hans. Kærandi hafi fengið þau svör hjá sýslumanni að nafnabreyting á bifreiðinni væri ekki í höndum sýslumanns. Kærandi hafi á því stigi ekki verið viss um hvort hún kysi að halda bifreiðinni eða selja hana og því hafi dregist að gera nafnabreytingu. Sé því mótmælt að kærandi hafi keypt bifreiðina 4. apríl 2020, eins og fram komi í úrskurði ríkisskattstjóra. Að mati kæranda sé nafnabreyting formsatriði og sé þess því óskað að málið verði endurskoðað þannig að kærandi njóti niðurfellingar bifreiðagjalda að fullu frá 1. desember 2019. Er vísað til meðfylgjandi yfirlýsingar Tryggingastofnunar ríkisins um örorkumat og staðfestingar sýslumanns á skiptalokum dánarbús eiginmanns kæranda.

III.

Með bréfi, dags. 16. júní 2020, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna og krafist þess að úrskurður embættisins verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra. Ríkisskattstjóri tekur fram að kærandi hafi ekki skráð sig strax sem eiganda bifreiðarinnar L, en kærandi hafi fengið framseldar eignir dánarbús eiginmanns síns í nóvember 2019. Kærandi hafi skráð sig sem eiganda bifreiðarinnar þann 4. febrúar 2020 og sótt í kjölfarið um niðurfellingu bifreiðagjalda fyrir 1. gjaldtímabil 2020 sem hafi verið samþykkt. Þar sem kærandi hafi hvorki verið skráður eigandi né umráðamaður bifreiðarinnar fyrr en þann 4. febrúar 2020 uppfylli kærandi ekki skilyrði niðurfellingar bifreiðagjalds á tekjuárinu 2019, sbr. 4. málsl. a-liðar 4. gr. laga nr. 39/1988.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 18. júní 2020, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og henni gefin kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Hinn 3. júlí 2020 hafði kærandi samband símleiðis við skrifstofu yfirskattanefndar og kvaðst ekki hafa neinu við að bæta í málinu. Ítrekaði kærandi gerðar kröfur.

IV.

Samkvæmt kæru til yfirskattanefndar er kærður úrskurður ríkisskattstjóra, dags. 30. mars 2020. Lýtur krafa kæranda að niðurfellingu bifreiðagjalds af bifreiðinni L vegna tímabilsins frá 1. desember 2019 til 4. febrúar 2020, þ.e. vegna síðara gjaldtímabils ársins 2019 að hluta og vegna fyrra gjaldtímabils ársins 2020 í heild sinni. Eins og fram er komið féllst ríkisskattstjóri með hinum kærða úrskurði á niðurfellingu bifreiðagjalds af bifreiðinni L frá og með 4. febrúar 2020 og vísaði til þess að kærandi hefði keypt bifreiðina þann dag. Kom fram í úrskurðinum að skilyrði fyrir niðurfellingu bifreiðagjalds vegna fyrri tímabila væru ekki uppfyllt þar sem kærandi hefði þá ekki verið skráður eigandi eða umráðamaður bifreiðarinnar, sbr. ákvæði a-liðar 4. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, með áorðnum breytingum.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar kemur fram að bifreiðin L hafi verið í eigu eiginmanns kæranda, B, sem andaðist í júlí 2019. Kærunni fylgdi staðfesting sýslumannsins á höfuðborgarsvæðinu, dags. 22. nóvember 2019, þar sem fram kemur að skiptum dánarbús B hafi verið lokið á grundvelli 1. mgr. 25. gr. laga nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl. Hafi kæranda verið framseldar allar eignir búsins, þ.e. bifreiðin L, og hún tekið við réttindum og skyldum sem því fylgi, enda hafi borið að verja andvirði eigna dánarbúsins til greiðslu útfararkostnaðar. Kærandi mun í kjölfar þessa eða hinn 4. febrúar 2020 hafa tilkynnt Samgöngustofu um eigendaskipti að bifreiðinni. Er litið svo á af hálfu kæranda að þar sem eigendaskipti hafi í reynd farið fram við skiptalok dánarbúsins 22. nóvember 2019 beri kæranda réttur til niðurfellingar bifreiðagjalds frá og með því tímamarki.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, skal greiða til ríkissjóðs bifreiðagjald af bifreiðum sem skráðar eru hér á landi eins og nánar er ákveðið í lögum þessum. Er fjárhæð gjalds í meginatriðum miðuð við skráða losun koltvísýrings viðkomandi bifreiðar, sbr. 2. gr. laganna. Gjalddagar bifreiðagjalds eru 1. janúar ár hvert vegna gjaldtímabilsins 1. janúar til 30. júní og 1. júlí ár hvert vegna gjaldtímabilsins 1. júlí til 31. desember, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna. Í 4. gr. laga nr. 39/1988, sbr. 4. gr. laga nr. 37/2000, eru taldar bifreiðar sem undanþegnar skulu bifreiðagjaldi. Samkvæmt 1. málsl. a-liðar 4. gr. eru bifreiðir í eigu þeirra sem fá greiddan örorkustyrk, örorkulífeyri, bensínstyrk eða umönnunargreiðslur vegna örorku barna frá Tryggingastofnun ríkisins undanþegnar bifreiðagjaldi. Í 4. málsl. stafliðarins segir að réttur til niðurfellingar bifreiðagjalds vegna þeirra sem fá greiddan örorkustyrk, örorkulífeyri eða bensínstyrk sé bundinn því skilyrði að bóta- eða styrkhafi sé í ökutækjaskrá annaðhvort skráður eigandi bifreiðar eða umráðamaður bifreiðar samkvæmt eignarleigusamningi. Í lokamálslið umrædds stafliðar kemur fram að fyrir álagningu bifreiðagjalds skuli Tryggingastofnun ríkisins senda ríkisskattstjóra upplýsingar um bifreiðaeign þeirra sem fái slíkar greiðslur frá stofnuninni sem að framan greinir.

Eins og fram er komið fékk kærandi bifreiðina L framselda við skiptalok á dánarbúi eiginmanns síns þann 22. nóvember 2019 á grundvelli 1. mgr. 25. gr. laga nr. 20/1991, um skipti á dánarbúum o.fl., sbr. fyrrgreinda staðfestingu sýslumanns. Öðlaðist kærandi þar með eignarráð bifreiðarinnar, en af ástæðum sem kærandi hefur tíundað í kæru til yfirskattanefndar var Samgöngustofu ekki tilkynnt um eignarhald hennar að bifreiðinni fyrr en 4. febrúar 2020. Vegna fortakslauss áskilnaðar í a-lið 4. gr. laga nr. 39/1988, sbr. 4. gr. laga nr. 37/2000, þess efnis að bóta- eða styrkhafi sé skráður eigandi eða umráðamaður bifreiðar í ökutækjaskrá, verður almennt að miða niðurfellingu bifreiðagjalds á grundvelli ákvæðisins við þann dag þegar Samgöngustofu eða umboðsmanni hennar er tilkynnt um eigendaskipti að viðkomandi bifreið, sbr. til hliðsjónar 12. gr. reglugerðar nr. 751/2003, um skráningu ökutækja, með áorðnum breytingum. Að því athuguðu og þar sem ekki verður séð að atvik, sem kæranda verður ekki kennt um, hafi valdið þeim drætti á tilkynningu um eigendaskipti sem um ræðir verður að hafna kröfu kæranda í máli þessu.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja