Úrskurður yfirskattanefndar

  • Aðflutningsgjöld
  • Tollverð
  • Valdsvið yfirskattanefndar

Úrskurður nr. 121/2020

Lög nr. 88/2005, 14. gr. 1. mgr., 115. gr., 118. gr.   Lög nr. 30/1992, 2. gr.   Reglugerð nr. 1100/2006, 57. gr., 58. gr., 62. gr.  

Í máli þessu var deilt um ákvörðun aðflutningsgjalda af sendingu til kæranda sem kom til landsins með pósti og innihélt bílavarahluti, þar með talið tvo hliðarspegla fyrir Hummer bifreið. Kærandi hafði ekki undir höndum sölureikning vegna innflutningsins, en taldi áætlun tollgæslustjóra á tollverði speglanna um skör fram. Yfirskattanefnd rakti upplýsingar sem fyrir lágu í málinu um verðmæti sams konar spegla og taldi kæranda ekki hafa sýnt fram á að tollverð speglanna væri ofákvarðað af hendi tollyfirvalda eða að öðru leyti þannig að ekki fengi samrýmst viðeigandi laga- og reglugerðarákvæðum. Var kærunni vísað frá yfirskattanefnd.

Ár 2020, miðvikudaginn 14. október, er tekið fyrir mál nr. 53/2020; kæra A, dags. 30. mars 2020, vegna ákvörðunar aðflutningsgjalda. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Kæra í máli þessu, dags. 30. mars 2020, varðar kæruúrskurð tollgæslustjóra, dags. 24. mars 2020, um ákvörðun aðflutningsgjalda vegna innflutnings kæranda á notuðum speglum fyrir bifreið á árinu 2019. Er nánar tiltekið deilt um ákvörðun tollverðs hinna innfluttu spegla, sbr. ákvæði V. kafla tollalaga nr. 88/2005 og VII. kafla reglugerðar nr. 1100/2006, um vörslu og tollmeðferð vöru, með áorðnum breytingum. Í kæru til yfirskattanefndar er þess krafist að tollverð sendingarinnar verði ákvarðað 45.000 kr. í stað 150.000 kr., eins og tollgæslustjóri lagði til grundvallar.

II.

Málavextir eru þeir að sending barst til kæranda sem kom til landsins með pósti 30. desember 2019. Í framhaldi af samskiptum við Íslandspóst ohf. vegna sendingarinnar, sbr. m.a. tölvupóst Íslandspósts ohf. til kæranda 13. janúar 2020, þar sem skorað var á kæranda að leggja fram reikninga vegna innflutningsins, greindi kærandi frá því í tölvupósti sama dag að reikningur væri ekki til staðar þar sem um gjöf væri að ræða, m.a. tvo 17 ára gamla spegla fyrir bifreið af gerðinni Hummer. Kom fram að kærandi hefði greitt flutningskostnað 300 USD vegna sendingarinnar, en hún hefði enga kvittun. Í kjölfar þessa mun kærandi hafa sent tollgæslustjóra hlekki á vefsíður þar sem finna mætti upplýsingar um verð á sambærilegum varahlutum. Með ákvörðun 31. janúar 2020 ákvað tollgæslustjóri tollverð hinna innfluttu spegla samtals 999,98 USD eða 499,99 USD vegna hvors um sig.

Með kæru til tollgæslustjóra, dags. 31. janúar 2020, mótmælti kærandi ákvörðun tollyfirvalda. Í kærunni var áréttað að kærandi hefði fengið speglana að gjöf frá kunningja sínum gegn því að greiða flutningskostnað að fjárhæð 300 USD. Kærandi hefði sent upplýsingar um verð á nýjum, sambærilegum speglum sem hún teldi rétt að miða við. Ítrekaði kærandi að um væri að ræða notaða hluti úr 17 ára gömlum bíl.

Með kæruúrskurði, dags. 24. mars 2020, hafnaði tollgæslustjóri kröfu kæranda. Í úrskurðinum voru málavextir raktir. Vék tollgæslustjóri að þeirri meginreglu að almenn tollskylda hvíldi á hverjum þeim sem flytti vöru inn til landsins til endursölu, afhendingar án endurgjalds eða eigin nota og yrði ábyrgur fyrir greiðslu tolla, sbr. 3. gr. tollalaga nr. 88/2005. Undantekningu frá meginreglunni væri m.a. að finna í 1. mgr. 6. gr. laganna. Allar undantekningar frá almennri toll- og skattskyldu bæri að túlka þröngt og yrði því að gera ríkar kröfur um að skilyrðum þeirra væri fullnægt. Kvaðst tollgæslustjóri meta það svo að umræddir bílavarahlutir gætu ekki talist til tækifærisgjafa í skilningi a-liðar 8. tölul. 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005 og 32. gr. reglugerðar nr. 630/2008. Að því er snerti tollverð speglanna var vísað til V. kafla tollalaga og VII. kafla reglugerðar nr. 1100/2006, um vörslu og tollmeðferð vöru. Tollverð innfluttra vara væri viðskiptaverð þeirra, þ.e. það verð sem raunverulega væri greitt eða bæri að greiða fyrir vörurnar við sölu þeirra til útflutnings til landsins, sbr. 14. gr. tollalaga. Þegar ástæða væri til að draga í efa sannleiksgildi reiknings giltu reglur VII. kafla reglugerðar nr. 1100/2006, sbr. 2. mgr. 16. gr. tollalaga. Í 56. gr. reglugerðarinnar kæmi fram að ef tollstjóri teldi ástæðu til að draga sannleiksgildi upplýsinga um viðskiptaverð í efa, þrátt fyrir framkomnar skýringar eða gögn, eða ef frekari skýringar eða gögn væru ekki látin tollstjóra í té innan hæfilegs frests, yrði viðskiptaverð vöru ekki lagt til grundvallar við ákvörðun tollverðs. Ákvörðun um tollverð vörunnar skyldi þá fara fram í samræmi við reglur 57.–62. gr. reglugerðarinnar. Reglurnar væru í ákveðinni rétthæð og bæri fyrst að beita ákvæði 57. gr. Samkvæmt því ákvæði skyldi tollverð vöru, þegar ekki væri unnt að notast við tollverð samkvæmt 14. gr. tollalaga, vera viðskiptaverð sams konar vara sem seldar hefðu verið og fluttar til landsins á sama eða svipuðum tíma. Í 58. gr. kæmi fram að væri ekki unnt að notast við 57. gr. skyldi tollverð vöru vera viðskiptaverð svipaðra vara sem seldar hefðu verið og fluttar til landsins á sama eða svipuðum tíma. Í 62. gr. reglugerðarinnar kæmi fram að yrði tollverð innfluttrar vöru ekki ákvarðað samkvæmt 14. gr. tollalaga eða 57.–61. gr. reglugerðarinnar skyldi ákvarða það með rökréttum hætti samkvæmt meginreglum og almennum ákvæðum samnings um framkvæmd VII. gr. hins almenna samnings um tolla og viðskipti 1994 og á grundvelli fáanlegra upplýsinga hér á landi.

Fram kom í úrskurðinum að tollyfirvöld gætu ekki fallist á það verð sem kærandi teldi rétt að miða við fyrir umrædda spegla. Þeir speglar sem kærandi kysi að miða við væru ekki af sömu tegund og þeir speglar sem væru til skoðunar í málinu og þeir bæru ekki sama vörunúmer. Kvaðst tollgæslustjóri hafa leitað á internetinu eftir sama vörunúmeri og væri að finna á hinum innfluttu speglum og þá hefði komið í ljós að notaðir speglar af sömu tegund hefðu reynst mun dýrari en þeir speglar sem kærandi vildi miða við. Kvaðst tollgæslustjóri hafa stuðst við 62. gr. reglugerðar nr. 1100/2006 til að finna „réttasta verðið“ á speglunum sem væru til umfjöllunar í málinu. Tollgæslustjóri hefði fundið notaða spegla til sölu á vefsíðunni Ebay sem hefðu verið með sama vörunúmeri og af sömu tegund og speglar kæranda auk þess sem þeir hefðu verið notaðir. Leiddi það í ljós að rétt áætlað tollverð speglanna tveggja næmi samtals 999,998 USD. Með vísun til þeirrar niðurstöðu og með hliðsjón af reglum sem giltu við verðmat á vöru þegar vörureikningur væri ekki nothæfur eða ekki til staðar við ákvörðun tollverðs, sbr. 57.–62. gr. reglugerðar nr. 1100/2006, væri það mat tollgæslustjóra að ákvörðun embættisins frá 31. janúar 2020 um ákvörðun aðflutningsgjalda vegna hinna innfluttu vara væri rétt.

III.

Í kafla I hér að framan er greint frá kröfugerð kæranda í kæru til yfirskattanefndar, dags. 30. mars 2020. Í kærunni eru málsatvik rakin. Kveðst kærandi aldrei hafa óskað eftir tollfrjálsum innflutningi heldur hafi hún einungis staðfest að hún hafi greitt 300 USD í flutningskostnað að ósk sendanda. Eftir leiðbeiningar frá Íslandspósti hafi hún fundið sams konar vörur á netinu og vitað hafi verið um í sendingunni. Hafi verðmæti á notuðum speglum fyrir bifreið af árgerðinni 2003 verið á bilinu 200–400 USD. Síðar hafi komið í ljós, án vitneskju kæranda, að sendandi hafi viljað losna við fleira og sent kæranda bæði plasthlífar og merkimiða í sömu sendingu þar sem flutningskostnaður hafi þegar verið að fullu greiddur.

Í kærunni er bent á að ágreiningur málsins snúist ekki um það hvort tilgreind sending skuli vera undanþegin aðflutningsgjöldum, heldur að greiða beri raunhæf gjöld miðað við vöru sem sé 17 ára gömul. Telur kærandi verðmat speglanna vera 45.000 kr. en ekki 150.000 kr. eins og tollgæslustjóri hafi miðað við. Kærunni fylgir m.a. skjáskot af samskiptum og auglýsingum á samfélagsmiðlinum Facebook.

IV.

Með bréfi, dags. 8. maí 2020 hefur tollgæslustjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að ákvörðun embættisins verði staðfest. Í umsögninni er vísað til úrskurðar tollgæslustjóra þar sem ekki sé fallist á verð kæranda af þeirri ástæðu að speglarnir sem kærandi hafi miðað við séu ekki af sömu tegund og ekki með sama vörunúmer og þeir speglar sem séu til skoðunar í málinu. Að mati tollgæslustjóra breyti samskipti kæranda við aðra einstaklinga á samskiptaforritinu Facebook engu í málinu. Þar megi sjá að kærandi hafi haft samskipti við einstakling varðandi viðskipti með einhvern hlut og flutningskostnað, en þau samskipti geti á engan hátt talist sönnun fyrir því að speglarnir hafi kostað 300 USD eins og kærandi haldi fram, enda sé í engu minnst á verðgildi speglanna í þessum samskiptum.

Með bréfi, dags. 12. maí 2020, hefur kærandi komið á framfæri athugasemdum í tilefni af umsögn tollyfirvalda. Í bréfinu kemur fram að kærandi hafi aldrei haldið því fram að speglanir hafi kostað 300 USD. Sendingarkostnaður hafi numið 302 USD. Um sé að ræða 17 ára gamla spegla sem sendandi hafi ætlað að afhenda kæranda gegn greiðslu þess kostnaðar. Kærandi geri þá kröfu að réttlátt verð viðkomandi vöru verði lagt til grundvallar ákvörðun tollverðs. Einfalt sé að finna raunverð á netmiðlum. Sé því gerð sú krafa að úrskurður tollgæslustjóra verði felldur úr gildi og að sanngjarnt gjald verði lagt á í samræmi við verðmæti vörunnar sem sýnt hafi verið fram á. Þá er þess krafist að varan verði send aftur til landsins á kostnað þess sem ábyrgð beri á því að varan hafi verið sendursend án þess að samþykkis kæranda fyrir því hafi verið aflað.

V.

Kæra í máli þessu varðar ákvörðun aðflutningsgjalda vegna innflutnings tveggja hliðarspegla fyrir bifreið af tegundinni Hummer sem kæranda bárust með póstsendingu frá Bandaríkjunum þann 30. desember 2019. Er nánar tiltekið deilt um tollverð speglanna sem tollgæslustjóri taldi nema 499,99 USD í tilviki hvors um sig. Í hinum kærða úrskurði tollgæslustjóra kemur fram að póstsendingin hafi innihaldið fleiri bílavarahluti, þ.e. auk fyrrgreindra spegla bæði hlífar og límmiða, og að ekki sé deilt um tollverð þeirra muna. Við meðferð málsins hjá tollyfirvöldum kom fram af hálfu kæranda að um gjöf væri að ræða frá kunningja hennar í Bandaríkjunum og að kærandi hefði einungis greitt sendingarkostnað varanna að fjárhæð 300 USD. Í úrskurði sínum tók tollgæslustjóri af þessu tilefni til úrlausnar hvort kærandi fengi notið undanþágu samkvæmt a-lið 8. tölul. 1. mgr. 6. gr. tollalaga nr. 88/2005 vegna sendingarinnar á þeim forsendum að um gjöf í skilningi þess ákvæðis væri að tefla, en komst að þeirri niðurstöðu að svo væri ekki. Er ljóst af kæru til yfirskattanefndar að ekki er neinn ágreiningur um þetta. Á hinn bóginn telur kærandi að tollgæslustjóri hafi ofákvarðað tollverð hinna innfluttu spegla, sbr. ennfremur bréf kæranda til yfirskattanefndar, dags. 12. maí 2020, og meðfylgjandi gögn.

Ákvæði um heimildir tollyfirvalda til áætlunar aðflutningsgjalda eru í 115. gr. tollalaga. Þar segir að í þeim tilvikum þegar tollyfirvöldum beri að áætla fjárhæð aðflutningsgjalda skuli þau áætla tollverð vöru svo ríflega að eigi sé hætt við að fjárhæðir séu áætlaðar lægri en raunverulegt verðmæti vörunnar og ákvarða aðflutningsgjöld í samræmi við þá áætlun. Við áætlunina skuli tollyfirvöld hafa hliðsjón af þeim upplýsingum sem liggi fyrir um vöruna, þar á meðal farmskrá, framlögðum gögnum ef einhver eru og gögnum Hagstofu Íslands yfir innfluttar vörur.

Kveðið er á um tollverð og tollverðsákvörðun í 14. og 15. gr. tollalaga. Nánari ákvæði um tollverð og ákvörðun þess er að finna í reglugerð nr. 1100/2006, um vörslu og tollmeðferð vöru. Þar er m.a. tekið fram í 52. gr. að aðalgrundvöllur tollverðs sé viðskiptaverð vöru, sbr. 1. mgr. 14. gr. tollalaga. Verði tollverð ekki ákvarðað á grundvelli viðskiptaverðs, skuli það ákvarðað samkvæmt 57.–62. gr. reglugerðarinnar. Sama gildi þegar ekkert er greitt fyrir vöru eða greiðsla er einungis til málamynda.

Ítarleg fyrirmæli um tollverð vöru þegar viðskiptaverð verður ekki lagt til grundvallar er að finna í 57.–62. gr. reglugerðar nr. 1100/2006. Í 1. mgr. 57. gr. reglugerðarinnar kemur fram að sé ekki hægt að ákvarða tollverð vöru samkvæmt 14. gr. tollalaga skuli tollverðið vera viðskiptaverð sams konar vara sem seldar hafa verið og fluttar til landsins á sama eða svipuðum tíma. Í 4. mgr. sama ákvæðis kemur fram að finnist meira en eitt viðskiptaverð á sams konar vörum, skuli nota lægsta verðið við ákvörðun á tollverði vörunnar. Í 58. gr. segir að verði tollverð vöru hvorki ákvarðað samkvæmt 14. gr. tollalaga né 57. gr. reglugerðarinnar skuli það vera viðskiptaverð svipaðra vara sem seldar eru og fluttar til landsins á sama eða svipuðum tíma og varan sem verið er að virða. Þá eru í 60. og 61. gr. reglugerðarinnar ákvæði um að þegar annað þrýtur verði miðað við reiknað verð sem byggi á samtölu tiltekinna þátta eða endursöluverð sams konar eða svipaðra vara hérlendis. Loks er í 62. gr. reglugerðarinnar ákvæði um að verði tollverð innfluttrar vöru ekki ákvarðað samkvæmt 14. gr. tollalaga eða 57.–61. gr. reglugerðarinnar, skuli ákvarða það með rökréttum hætti samkvæmt meginreglum og almennum ákvæðum samnings um framkvæmd VII. gr. hins almenna samnings um tolla og viðskipti 1994 (GATT-samkomulagið) og á grundvelli fáanlegra upplýsinga hér á landi. Þá eru í 2. mgr. ákvæðisins talin upp í sjö liðum viðmið sem ekki ber að beita við ákvörðun tollverðs samkvæmt ákvæðinu. Í úrskurði sínum kvaðst tollgæslustjóri hafa stuðst við 62. gr. reglugerðar nr. 1100/2006 við ákvörðun tollverðs.

Við meðferð máls kæranda hjá tollyfirvöldum var því beint til hennar að leggja fram gögn (sölureikning) um verðmæti hinna umdeildu spegla. Af hálfu kæranda kom fram að hún hefði engan sölureikning undir höndum þar sem speglarnir væru gjöf til hennar, en í tölvupósti kæranda til Íslandspósts ohf. 13. janúar 2020 kom fram að nýjir speglar af sömu tegund kostuðu um 300 USD. Eins og fram er komið taldi tollgæslustjóri að ákvarða bæri tollverð speglanna með 499,99 USD í tilviki hvors um sig. Byggði tollgæslustjóri í því sambandi á upplýsingum um söluverð notaðra spegla af sömu gerð á sölusíðunni Ebay, en í úrskurði sínum kvaðst tollgæslustjóri hafa slegið upp vörunúmeri speglanna og fundið notaða spegla með sama vörunúmer og af sömu tegund til sölu á Ebay. Samkvæmt fyrirliggjandi útprentun af Ebay er um að ræða notaða spegla sem lýst er sem „Hummer H2 Left Driver Side Door Exterior Rear Wiew Mirror OEM 2003-2007“ og eru vörunúmer vörunnar tilgreind annars vegar 25774400 („Manufacturer Part Number“) og hins vegar 18-55400-000 („Other Part Number“), en síðara vörunúmerið kemur heim og saman við vörunúmer á hinum innfluttu speglum samkvæmt fyrirliggjandi ljósmyndum af þeim sem eru meðal gagna málsins. Af þessu tilefni kemur fram í kæru kæranda til yfirskattanefndar að kærandi hafi leitað á netinu að samskonar vörum og fundið notaða spegla fyrir Hummer bifreið að árgerð 2003 að verðmæti 200–400 USD. Kærunni fylgdu gögn um þetta, þ.e. bæði skjáskot af vefsíðu og samskiptum á samskiptamiðlinum Facebook, og frekari gögn fylgdu bréfi kæranda, dags. 12. maí 2020, en þar er m.a. um að ræða útprentun af Ebay þar sem spegill fyrir Hummer („2003-2005 Hummer H2 Passenger Side View Mirror Power Without Chrome Package“) er boðinn til sölu á 226,49 USD og skjáskot af tölvupósti R, sem mun hafa sent kæranda speglana, þar sem fram kemur að hann telji áætlun tollyfirvalda á verðmæti speglanna um skör fram.

Af samanburði vörunúmers hinna innfluttu spegla annars vegar og vörunúmers spegla sem tollgæslustjóri leit til hins vegar verður ráðið að um sömu eða sams konar vöru sé að ræða. Þá er í báðum tilvikum um að ræða notaða spegla fyrir Hummer bifreiðar af árgerð 2003–2007. Í gögnum sem kærandi hefur lagt fram í málinu um söluverð spegla fyrir Hummer bifreiðar koma á hinn bóginn ekki fram neinar upplýsingar um vörunúmer og er því örðugt um vik að slá því föstu að um öldungis sams konar spegla sé að ræða. Lýsing á spegli, sem vísað er til í bréfi kæranda til yfirskattanefndar, dags. 12. maí 2020, sbr. skjáskot C af Ebay, þykir raunar benda til hins gagnstæða. Með vísan til framanritaðs verður ekki séð að tollverð þeirra spegla sem um ræðir hafi verið ofákvarðað af hendi tollgæslustjóra eða að öðru leyti þannig að ekki fái samrýmst ákvæðum 62. gr. reglugerðar nr. 1100/2006. Verður því ekki hróflað við ákvörðun tollgæslustjóra. Eftir atvikum þykir rétt að vísa kröfu kæranda um lækkun tollverðs frá yfirskattanefnd.

Eins og fram kemur í bréfi kæranda til yfirskattanefndar, dags. 12. maí 2020, mun umrædd sending til kæranda, sem kom með pósti til landsins 30. desember 2019, hafa verið endursend í apríl 2020, sbr. ennfremur upplýsingar þar að lútandi á vef Íslandspósts ohf. Í greindu bréfi krefst kærandi þess að varan verði send aftur til landsins á kostnað þess aðila „sem ber ábyrgð á að hafa endursent sendingu“ án samþykkis kæranda. Af þessu tilefni skal tekið fram að ekki er á valdsviði yfirskattanefndar að taka slíka kröfu til efnislegrar meðferðar, sbr. ákvæði 1. og 2. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, og 118. gr. tollalaga nr. 88/2005. Er því óhjákvæmilegt að vísa þessari kröfu kæranda frá yfirskattanefnd.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

 Kærunni er vísað frá yfirskattanefnd.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja