Úrskurður yfirskattanefndar

  • Bifreiðagjald
  • Undanþága frá gjaldskyldu

Úrskurður nr. 147/2020

Lög nr. 39/1988, 4. gr. a-liður og c-liður (brl. nr. 37/2000, 4. gr.).  

Ríkisskattstjóri hafnaði kröfu kæranda um niðurfellingu bifreiðagjalds af bifreiðinni Y vegna örorku kæranda á þeim forsendum að bifreiðagjald hefði þegar verið fellt niður vegna annarrar bifreiðar í hans eigu, bifreiðarinnar Z. Þar sem fallist var á með kæranda að telja bæri bifreiðina Z eldri en 25 ára í upphafi árs 2020 var krafa hans um niðurfellingu gjaldsins af bifreiðinni Y tekin til greina, enda var ekkert talið því til fyrirstöðu að gjaldandi til bifreiðagjalds gæti notið undanþágu samkvæmt fleiri en einum staflið 4. gr. laga nr. 39/1988 á sama tíma.

Ár 2020, miðvikudaginn 18. nóvember, er tekið fyrir mál nr. 136/2020; kæra A, dags. 18. september 2020, vegna ákvörðunar bifreiðagjalds árið 2020. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru til yfirskattanefndar, dags. 18. september 2020, hefur kærandi mótmælt ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 9. september 2020, um synjun niðurfellingar bifreiðagjalds af ökutækinu Y á grundvelli örorku kæranda. Byggði ríkisskattstjóri á því að þegar væri búið að fella niður bifreiðagjald af öðru ökutæki kæranda, þ.e. bifreiðinni Z, sem þyngri væri.

Kærandi fer fram á endurskoðun á úrskurði ríkisskattstjóra á þeim grundvelli að bifreiðagjald vegna bifreiðar hans Z hafi verið fallið niður vegna 25 ára aldurs bifreiðarinnar en ekki á grundvelli örorku kæranda.

II.

Samkvæmt gögnum málsins er kærandi skráður eigandi tveggja bifreiða, annars vegar bifreiðarinnar Z af gerðinni Ford Econoline og hins vegar Y af gerðinni Jeep Cherokee. Með erindi til ríkisskattstjóra, dags. 17. júlí 2020, sótti kærandi um niðurfellingu á bifreiðagjaldi vegna síðari gjaldtímabils 2020 af ökutækinu Y vegna örorku.

Með úrskurði, dags. 9. september 2020, synjaði ríkisskattstjóri erindi kæranda. Gerði ríkisskattstjóri grein fyrir því að erindi kæranda varðaði niðurfellingu bifreiðagjalds vegna bifreiðarinnar Y fyrir síðara gjaldtímabil ársins 2020 vegna örorku. Tók ríkisskattstjóri fram að við skoðun á málinu hefði komið í ljós að bifreiðagjald að fjárhæð 44.895 kr. fyrir síðara gjaldtímabil 2020 hefði verið fellt niður af bifreiðinni Z sem einnig væri í eigu kæranda. Samkvæmt ákvæðum 4. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, með áorðnum breytingum, tæki réttur til niðurfellingar bifreiðagjalds einungis til einnar bifreiðar. Í lagaákvæði þessu væri tekið fram að ef sá, sem rétt ætti á niðurfellingu bifreiðagjalds, ætti fleiri en eina bifreið skyldi bifreiðagjald fellt niður af þeirri bifreið sem væri þyngst. Þar sem þegar væri búið að fella niður bifreiðagjald af þeirri bifreið kæranda sem þyngst væri, þ.e. bifreiðinni Z, væri engin heimild til að fella niður bifreiðagjald af öðrum ökutækjum í eigu kæranda.

III.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 18. september 2020, fer kærandi fram á að synjun ríkiskattstjóra á niðurfellingu bifreiðagjalds af bifreiðinni Y verði endurskoðuð þar sem kærandi sæki um niðurfellingu vegna örorku sinnar. Er tekið fram í kærunni að bifreiðin Z Ford Econoline sé komin í fornbílahóp. Ökutækið hafi verið notað sem húsbíll og hafi bifreiðinni aðeins verið ekið nokkuð hundruð kílómetra á ári. Sé bifreiðagjald af þeirri bifreið þegar fallið niður vegna 25 ára aldurs bifreiðarinnar og tengist niðurfellingin því ekki örorku kæranda. Kærunni fylgir útprentun úr ökutækjaskrá þar sem fram kemur að bifreiðin Z hafi fyrst verið skráð í janúar 1995.

IV.

Með bréfi, dags. 6. október 2020, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og gert þá kröfu að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til forsendna hennar, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Í umsögn ríkisskattstjóra er rakið að í 4. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, sé fjallað um undanþágur frá gjaldskyldu og séu taldar upp með tæmandi hætti tegundir ökutækja sem undanþegnar séu bifreiðagjaldi. Samkvæmt c-lið 4. gr. laganna séu bifreiðir sem séu eldri en 25 ára í upphafi gjaldárs, talið frá og með árgerðarári þeirra, undanþegnar bifreiðagjaldi. Samkvæmt skoðunarvottorði ökutækisins Z sé bifreiðin af árgerð 1995. Í c-lið 5. gr. reglugerðar, nr. 359/1998, um bifreiðagjald, komi jafnframt fram að bifreiðir sem séu eldri en 25 ára í upphafi gjaldárs talið frá og með árgerðarári þeirra skuli undanþegnar bifreiðagjaldi. Kærandi hafi í samræmi við 4. gr. laga nr. 39/1988 fengið niðurfellingu bifreiðagjalds á síðara gjaldtímabili ársins 2020 vegna bifreiðarinnar Z sem sé þyngri en bifreið í eigu kærenda með skráningarnúmerið Y.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 6. október 2020, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og honum gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

V.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 39/1988, um bifreiðagjald, með áorðnum breytingum, skal greiða til ríkissjóðs bifreiðagjald af bifreiðum sem skráðar eru hér á landi eins og nánar er ákveðið í lögunum. Mælt er fyrir um fjárhæð gjaldsins í 2. gr. laganna og gjalddaga o.fl. í 3. gr.

Í 4. gr. laganna er kveðið á um að tilteknar bifreiðir skuli vera undanþegnar bifreiðagjaldi. Samkvæmt a-lið lagagreinarinnar skulu bifreiðir í eigu þeirra sem fá greiddan örorkustyrk, örorkulífeyri, bensínstyrk eða umönnunargreiðslur vegna örorku barna frá Tryggingastofnun ríkisins, vera undanþegnar bifreiðagjaldi. Réttur til niðurfellingar bifreiðagjalds vegna þeirra sem fá greiddan örorkustyrk, örorkulífeyri eða bensínstyrk er bundinn því skilyrði að bóta- eða styrkhafi sé í ökutækjaskrá annaðhvort skráður eigandi bifreiðar eða umráðamaður bifreiðar samkvæmt eignarleigusamningi. Kveðið er á um það í 7. málslið stafliðarins að ef sá sem á rétt á niðurfellingu bifreiðagjalds eigi fleiri en eina bifreið skuli bifreiðagjald fellt niður af þeirri bifreið sem er þyngst. Samkvæmt c-lið 4. gr. lagagreinarinnar eru bifreiðir sem eru eldri en 25 ára í upphafi gjaldárs, talið frá og með árgerðarári þeirra, undanþegnar bifreiðagjaldi.

Eins og að framan greinir leitaði kærandi til ríkisskattstjóra 17. júlí 2020 með beiðni um undanþágu frá gjaldskyldu til bifreiðagjalds vegna bifreiðarinnar Y, sbr. a-lið 4. gr. laga nr. 39/1988. Með hinum kærða úrskurði synjaði ríkisskattstjóri beiðni kæranda á þeim grundvelli að bifreiðagjald hefði þegar verið fellt niður vegna annarrar bifreiðar í eigu kæranda, þ.e. bifreiðarinnar Z. Vísaði ríkisskattstjóri til þess að samkvæmt 4. gr. laga nr. 39/1988 tæki réttur til niðurfellingar bifreiðagjalds aðeins til einnar bifreiðar og þá þeirrar sem þyngst væri. Þessari afgreiðslu ríkisskattstjóra er mótmælt af hálfu kæranda á þeim grundvelli að bifreiðin Z sé ekki gjaldskyld til bifreiðagjalds sökum aldurs.

Gera verður þá athugasemd við rökstuðning í úrskurði ríkisskattstjóra að ónákvæmt var að vísa til þess að samkvæmt 4. gr. laga nr. 39/1988 nái réttur til niðurfellingar bifreiðagjalds einungis til einnar bifreiðar. Sá lagaáskilnaður er einungis orðaður varðandi undanþágur á grundvelli a-liðar lagagreinarinnar. Er þannig ekkert því til fyrirstöðu að gjaldandi til bifreiðagjalds njóti undanþágu samkvæmt fleiri en einum staflið 4. gr. nefndra laga á sama tíma. Úrskurður ríkisskattstjóra verður ekki heldur skilinn þannig að því sé haldið fram af hans hálfu að almenn takmörkun af nefndu tagi felist í lagaákvæðum sem hér um ræðir. Hins vegar má ráða af umfjöllun í umsögn ríkisskattstjóra að hann telji að undanþáguákvæði c-liðar 4. gr. laganna taki ekki til bifreiðarinnar Z á árinu 2020, enda gildi sú undanþága eingöngu um bifreiðir sem séu eldri en 25 ára, og því beri að horfa til beggja bifreiða kæranda við afgreiðslu á undanþágubeiðni hans samkvæmt a-lið lagagreinarinnar. Að þessu athuguðu verður að telja að málið velti á því hvort bifreiðin Z teljist orðin eldri en 25 ára í skilningi c-liðar 4. gr. laga nr. 39/1988 í upphafi gjaldárs 2020.

Fram kemur í almennum athugasemdum með frumvarpi því er varð að lögum nr. 39/1988 að einstaka greinar frumvarpsins þarfnist ekki nánari skýringa. Er því að enga vísbendingu að finna í frumvarpinu um það hvernig ákvarða beri aldur bifreiðar til að undanþáguákvæði c-liðar 4. gr. laga nr. 39/1988 teljist taka til hennar. Samkvæmt lagaákvæðinu er á hinn bóginn ljóst að að telja ber aldur bifreiða frá og með árgerðarári.

Í ökutækjaskrá Samgöngustofu er tilgreint að bifreiðin Z sé árgerð 1995. Þykir mega ganga út frá því að árið 1995 sé „árgerðarár“ bifreiðarinnar í skilningi c-lið 4. gr. laga nr. 39/1988. Árið 1995 er því fyrsta árið í talningu aldursára bifreiðarinnar. Tuttugasta og fimmta aldursárið er þá árið 2019. Eftir að 25 ár hafa þannig verið í dilk dregin geta ekki verið áhöld um að í upphafi árs 2020 beri að telja bifreiðina „eldri en“ 25 ára.

Samkvæmt framansögðu telst bifreiðin Z vera undanþegin bifreiðagjaldi eftir c-lið 4. gr. laga nr. 39/1988 og bar því ekki að líta til hennar við afgreiðslu á erindi kæranda, dags. 17. júlí 2020, um undanþágu bifreiðagjalds vegna bifreiðarinnar Y sem borið var fram á grundvelli örorku kæranda. Þar sem ríkisskattstjóri hefur með úrskurði sínum viðurkennt rétt kæranda til undanþágu á bifreiðagjaldi vegna örorku verður fallist á erindi hans um undanþágu vegna bifreiðarinnar Y.

Samkvæmt 18. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum, ber undir ríkisskattstjóra að framkvæma gjaldabreytingar samkvæmt úrskurði þessum.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

 Fallist er á kröfu kæranda í máli þessu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja