Úrskurður yfirskattanefndar

  • Takmörkuð skattskylda
  • Arðstekjur
  • Staðgreiðsla opinberra gjalda
  • Málsmeðferð

Úrskurður nr. 1/2021

Gjaldár 2019

Lög nr. 90/2003, 3. gr. 7. tölul., 99. gr. 1. mgr.   Lög nr. 45/1987, 22. gr. 1. mgr., 24. gr. 3. mgr.   Lög nr. 37/1993, 10. gr., 22. gr.   Tvísköttunarsamningur við Bretland, 10. gr.  

Kærandi í máli þessu var félag skráð í Bretlandi sem bar takmarkaða skattskyldu hér á landi vegna arðs af hlutabréfum í íslensku hlutafélagi. Úrskurður ríkisskattstjóra, þar sem hafnað var kröfu kæranda um endurgreiðslu afdráttarskatts sem haldið var eftir af arðgreiðslum til kæranda, var felldur úr gildi vegna annmarka á málsmeðferð ríkisskattstjóra.

Ár 2021, miðvikudaginn 20. janúar, er tekið fyrir mál nr. 125/2020; kæra A Ltd., dags. 11. september 2020, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2019. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

 I.

Með kæru, dags. 11. september 2020, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar kæruúrskurði ríkisskattstjóra, dags. 12. júní 2020, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2019. Með úrskurðinum hafnaði ríkisskattstjóri kröfu kæranda samkvæmt kæru, dags. 18. nóvember 2019, um endurgreiðslu 22% afdráttarskatts sem haldið hefði verið af arðgreiðslum til kæranda frá X hf. á árinu 2018. Í úrskurði ríkisskattstjóra kom fram að kærandi, sem væri félag skráð í Bretlandi, bæri takmarkaða skattskyldu hér á landi vegna arðgreiðslna frá X hf., sbr. 7. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Bæri að standa skil á 20% staðgreiðslu tekjuskatts af arðgreiðslunum á grundvelli a-liðar 2. gr. og 6. tölul. 5. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. b-lið 7. tölul. 70. gr. laga nr. 90/2003. Teldi aðili sig undanþeginn greindri skattskyldu, t.d. á grundvelli tvísköttunarsamnings, væri hægt að óska eftir slíkri undanþágu með erindi til ríkisskattstjóra á eyðublaði RSK 5.42. Í málinu væri óstaðfest að greiðandi arðsins, X hf., hefði staðið skil á umræddri staðgreiðslu í ríkissjóð fyrir hönd félagsins sérstaklega og þannig ekki með fullnægjandi hætti staðið ríkissjóði skil á afdreginni staðgreiðslu í samræmi við ákvæði laga nr. 45/1987. Þá væri umsókn kæranda um undanþágu frá skattskyldu eða staðgreiðsluskyldu, að öllu leyti eða að hluta, enn til umfjöllunar hjá ríkisskattstjóra og enn óafgreidd. Að framangreindu virtu yrði að hafna beiðni kæranda um endurgreiðslu skatts af arði á árinu 2018 að svo stöddu.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar er rakið að kærandi hafi fengið arðgreiðslur frá X hf. á árinu 2018 og hafi verið haldið eftir 22% staðgreiðslu af þeim greiðslum. Í skattframtali kæranda árið 2019, sem sent hafi verið ríkisskattstjóra í maí 2019, hafi verið miðað við fullan frádrátt vegna þessara tekna vegna takmarkaðrar skattskyldu og tvísköttunarsamnings. Ranghermt sé í úrskurði ríkisskattstjóra að ekki hafi verið sýnt fram á að X hf. hafi staðið skil á staðgreiðslu af arðgreiðslunum, sbr. gögn er fylgi kærunni. Kærandi telji því hinn kærða úrskurð efnislega rangan. Fram kemur að kærandi sem viðtakandi arðs hafi ekki beinar upplýsingar um staðgreiðsluskil greiðanda. Hið eina sem félagið hafi undir höndum séu greiðslustaðfestingar sem beri með sér að X hf. hafi haldið eftir staðgreiðslu 22% fjármagnstekjuskatts. Þess sé því krafist að úrskurði ríkisskattstjóra verði hrundið og að fallist verði á að kærandi eigi rétt á endurgreiðslu staðgreiðslu af arði sem félagið hafi fengið greiddan frá X hf. á árinu 2018, sbr. innsent skattframtal. Kærunni fylgir umsókn kæranda, dags. 20. maí 2019, um undanþágu frá skattlagningu hér á landi vegna ákvæða tvísköttunarsamnings (RSK 5.42) ásamt fylgigögnum.

II.

Með bréfi, dags. 10. nóvember 2020, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn vegna kærunnar og krafist þess að úrskurður embættisins verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 12. nóvember 2020, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að tjá sig um hana og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

III.

Kærandi í máli þessu er félag skráð í Bretlandi og er ágreiningslaust að kærandi beri takmarkaða skattskyldu hér á landi samkvæmt 7. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, vegna arðgreiðslna frá X hf. Mun kærandi hafa staðið skil á skattframtali árið 2019 til ríkisskattstjóra hinn 20. maí 2019 þar sem tilfærðar voru arðgreiðslur frá X hf. að fjárhæð ... kr. Skattframtalinu munu jafnframt hafa fylgt umsóknir um undanþágu frá skattskyldu (RSK 5.42 - Application under Double Taxation Agreement for an Exemption or partial relief from Icelandic Taxation, og RSK 5.43 - Application under Double Taxation Agreement for a Refund of Taxes Paid) vegna arðgreiðslna frá X hf. á árunum 2018 og 2019. Var tilgreint í hinni fyrrnefndu umsókn kæranda að undanþága frá skattskyldu byggðist á ákvæði 10. gr. í tvísköttunarsamningi milli Íslands og Bretlands sem gerður var á árinu 1991, sbr. auglýsingu nr. 32/1991 í C-deild Stjórnartíðinda. Ekki kom til álagningar neinna gjalda á kæranda gjaldárið 2019 samkvæmt álagningarseðli.

Með tölvupósti til ríkisskattstjóra 18. nóvember 2019 voru af hálfu kæranda gerðar athugasemdir við að 22% afdráttarskattur, sem haldið hefði verið eftir af arðgreiðslum frá X hf. á árinu 2018, hefði ekki komið til endurgreiðslu samkvæmt álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2019. Eins og fram er komið hafnaði ríkisskattstjóri kröfu um endurgreiðslu staðgreiðslunnar með kæruúrskurði, dags. 12. júní 2020, á þeim forsendum að óstaðfest væri að X hf. „hafi staðið skil á staðgreiðslunni í ríkissjóð fyrir hönd félagsins sérstaklega“ í samræmi við ákvæði laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Þá væri umsókn kæranda um undanþágu frá skattskyldu eða staðgreiðsluskyldu enn til meðferðar hjá ríkisskattstjóra og óafgreidd. Er ljóst að hér er af hálfu ríkisskattstjóra vísað til fyrrgreindra umsókna er fylgdu skattframtali kæranda árið 2019.

Vegna fyrrgreindra forsendna ríkisskattstjóra er til þess að líta að í 1. mgr. 22. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, er kveðið á um að launamaður beri ekki ábyrgð á greiðslu opinberra gjalda sem hann sannar að launagreiðandi hafi haldið eftir af launum hans. Að því leyti sem skilja má forsendur ríkisskattstjóra svo, að höfnun hans hafi byggst á því að ekki hafi verið staðin skil á staðgreiðslu skatts af arðgreiðslunum í ríkissjóð, þá fengu þær ekki staðist án umfjöllunar um ábyrgð kæranda á framangreindum grundvelli með tilliti til þeirra gagna um afdrátt staðgreiðslu sem munu hafa fylgt skattframtali árið 2019, sbr. bréf kæranda til ríkisskattstjóra, dags. 20. maí 2019, ásamt meðfylgjandi gögnum. Hafi höfnun ríkisskattstjóra hins vegar byggst á því, að skilum staðgreiðslu vegna kæranda yrði ekki fundinn staður í skilagreinum X hf. eða eftir atvikum milligöngumanns vegna ársins 2018, sbr. 7. gr. og 2. mgr. 20. gr. laga nr. 45/1987, þá verður að ganga út frá því að ríkisskattstjóra hafi borið að grafast nánar fyrir um það atriði og sjá þannig til þess að málið væri upplýst áður en hann hafnaði endurgreiðslukröfu kæranda á þeim forsendum, eftir atvikum með öflun frekari upplýsinga eða gagna frá þriðja aðila, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og heimildir ríkisskattstjóra til upplýsingaöflunar vegna staðgreiðsluskila samkvæmt 3. mgr. 24. gr. laga nr. 45/1987.

Þá er til þess að líta að eins og málið lá fyrir ríkisskattstjóra blasti við að úrlausn um kröfu kæranda um endurgreiðslu afdreginnar staðgreiðslu af arðgreiðslum X hf. ylti á því hvernig háttað væri skiptingu skattlagningarréttar vegna tekna þessara samkvæmt ákvæðum tvísköttunarsamnings milli Íslands og Bretlands, sbr. 10. gr. samningsins. Verður ekki talið að ríkisskattstjóri hafi getað skotið sér undan umfjöllun um þetta grundvallaratriði málsins með því einu að umsóknir kæranda um undanþágu frá skattskyldu, sem fylgdu skattframtali félagsins í maí 2019 eins og fram er komið, lægju enn óafgreiddar hjá embættinu. Er þá jafnframt litið til þess að í leiðbeiningum um framtalsskil erlendra félaga vegna arðs af hlutafjáreign í íslenskum hlutafélögum á vef ríkisskattstjóra kemur fram að tilgangur að baki framtalsskilum erlendra félaga í slíkum tilvikum sé ekki sá að telja fram skattstofna til álagningar „heldur má líta á þau sem umsókn um endurgreiðslu“, og tekið fram að skilin miði því eingöngu að því að fá endurgreiddan skatt af arði sem haldið hafi verið eftir í staðgreiðslu.

Með vísan til þess sem að framan er rakið verður að telja að verulegir annmarkar hafi verið á meðferð og undirbúningi málsins af hendi ríkisskattstjóra, sbr. rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, auk þess sem rökstuðningi hins kærða úrskurðar er áfátt, sbr. 1. mgr. 99. gr. laga nr. 90/2003 og ákvæði um efni rökstuðnings í 1. og 2. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Að því gættu verður ekki hjá því komist að ómerkja með öllu hinn kærða úrskurð ríkisskattstjóra. Af því leiðir að framsenda verður kæru kæranda til ríkisskattstjóra til meðferðar og uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar. Með úrskurði þessum er þá ekki tekin nein efnisleg afstaða til ágreiningsefnis málsins umfram það sem leiðir af framangreindri umfjöllun.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Úrskurður ríkisskattstjóra er felldur úr gildi. Kæran er framsend ríkisskattstjóra til meðferðar og uppkvaðningar nýs kæruúrskurðar.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja