Úrskurður yfirskattanefndar

  • Erfðafjárskattur
  • Almenningsheill

Úrskurður nr. 65/2021

Lög nr. 14/2004, 1. gr. 5. mgr. (brl. nr. 124/2015, 24. gr.)  

Ekki var fallist á að kærandi, sem var opinber háskóli, gæti fallið undir undanþáguákvæði laga um erfðafjárskatt sem tóku til félagasamtaka og sjálfseignarstofnana sem störfuðu að almenningsheillum.

 

 

 

Ár 2021, miðvikudaginn 21. apríl, er tekið fyrir mál nr. 56/2021; kæra A, dags. 4. mars 2021, vegna ákvörðunar erfðafjárskatts. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

 I.

Með kæru, dags. 4. mars 2021, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar ákvörðun sýslumanns, dags. 9. febrúar 2021, um erfðafjárskatt kæranda vegna arfs úr dánarbúi B, sem lést á árinu 2019. Af hálfu kæranda er þess krafist að kæranda verði ekki gert að greiða erfðafjárskatt af arfinum. Þá er gerð krafa um greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

II.

Helstu málavextir eru þeir að samkvæmt erfðaskrá B, sem lögð var til grundvallar við skipti dánarbús hans, nam arfur til kæranda … kr. Erfðafjárskýrslu, dags. 7. janúar 2021, vegna dánarbús B fylgdi bréf, dags. 6. sama mánaðar, þar sem fram kom að kærandi teldi sig undanþeginn erfðafjárskatti á grundvelli 5. mgr. 1. gr. laga nr. 14/2004, um erfðafjárskatt, með áorðnum breytingum, en í ákvæði þessu segir að ekki skuli greiða erfðafjárskatt af gjöfum sem falli til félagasamtaka og sjálfseignarstofnana sem starfi að almenningsheillum.

Í framhaldi af bréfaskiptum, sbr. bréf sýslumanns til kæranda, dags. 28. janúar 2021, og svarbréf kæranda, dags. 3. febrúar sama ár, tilkynnti sýslumaður kæranda um ákvörðun erfðafjárskatts kæranda með bréfi, dags. 9. febrúar 2021. Í ákvörðun sýslumanns var vísað til ákvæðis 5. mgr. 1. gr. laga nr. 14/2004 og tekið fram að kærandi gæti ekki talist til félagasamtaka eða sjálfseignarstofnana sem störfuðu að almenningsheill í skilningi þess. Var bent á í bréfi sýslumanns að kærandi væri sjálfstæð menntastofnun, sbr. 3. gr. laga nr. 85/2008, um opinbera háskóla, og 2. gr. laga nr. 63/2006, um háskóla. Ekki yrði séð að unnt væri að heimfæra slíka menntastofnun undir ákvæði 5. mgr. 1. gr. laga nr. 14/2004, enda væri um að ræða undantekningarákvæði frá erfðafjárskatti. Þá yrði ekki séð að kærandi starfaði að almannaheillum í skilningi laga nr. 14/2004 þótt skólinn stundaði vissulega vísindalegar rannsóknir sem menntastofnun. Ekki gæti skipt máli hvort kæranda hefði borið að greiða skatt af lífsgjöf frá hinum látna þar sem hann hefði ekki ráðstafað eignum sínum með þeim hætti. Tilvísun til brottfallinna laga, þ.e. eldri laga nr. 83/1984, um erfðafjárskatt, styddi að mati sýslumanns ekki sjónarmið kæranda í málinu. Kröfu kæranda um að teljast undanþeginn erfðafjárskatti væri því hafnað. Erfðafjárskattur kæranda af hreinni eign … kr. yrði því … kr. að teknu tilliti til óskattskylds arfs að fjárhæð 1.500.000 kr.

III.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar kemur fram að kærandi sé skóli á háskólastigi sem öllum sé frjálst að sækja. Kærandi, sem stundi vísindalegar rannsóknir, sé ekki talinn skattskyldur aðili og því sé ljóst að skólanum hefði ekki borið að greiða tekjuskatt af gjöf frá hinum látna. Kærandi telji því að leggja megi skólann að jöfnu við félagasamtök og/eða sjálfseignarstofnanir sem starfi að almannaheillum, sbr. umfjöllun um það hugtak í úrskurði yfirskattanefndar nr. 158/2017. Þá telji kærandi sýnt að ætlun löggjafans með lögfestingu ákvæðis 5. mgr. 1. gr. laga nr. 14/2004, sbr. lög nr. 124/2015, um breyting á þeim lögum, hafi verið sú að taka upp sambærilegt ákvæði og áður hafi verið að finna í 4. gr. eldri laga nr. 83/1984, enda komi ekkert annað fram í athugasemdum með ákvæðinu en að það hafi verið að finna í eldri lögum. Sé þar augljóslega átt við 2. mgr. 4. gr. laga nr. 83/1984 þar sem kirkna, opinberra sjóða, líknar- og menningarstofnana eða félaga hafi verið sérstaklega getið sem aðila er undanþegnir væru erfðafjárskatti. Þrátt fyrir að um undantekningarákvæði sé að ræða þurfi að túlka ákvæðið með hliðsjón af þeirri lagasetningu sem sé grundvöllur þess, þ.e. lögum nr. 124/2015, og lögskýringargögnum þar að baki. Sé þess því krafist að ákvörðun sýslumanns verði breytt.

IV.

Með bréfi, dags. 15. mars 2021, hefur sýslumaður lagt fram umsögn í málinu og ítrekað fyrri afstöðu sína til erfðafjárskatts kæranda.

Með bréfi til yfirskattanefndar, dags. 18. mars 2021, hefur kærandi áréttað kröfur sínar og sjónarmið.

V.

Kærandi í máli þessu er opinber háskóli, sbr. lög nr. 85/2008, um opinbera háskóla, með áorðnum breytingum. Kæruefni málsins lýtur að ákvörðun erfðafjárskatts samkvæmt lögum nr. 14/2004, um erfðafjárskatt, vegna arfs úr dánarbúi B, sem andaðist á árinu 2019, en kærandi er bréferfingi hans. Nánar tiltekið er deilt um það hvort kærandi teljist félagasamtök eða sjálfseignarstofnun sem starfi að almannaheillum og uppfylli því skilyrði til að njóta undanþágu samkvæmt 5. mgr. 1. gr. laga nr. 14/2004, um erfðafjárskatt. Dánarbúi B var skipt einkaskiptum og því fer um meðferð málsins eftir 7. gr. laga nr. 14/2004, þar á meðal um meðferð ágreiningsmála. Kæruheimild er í 4. mgr. 9. gr. laga nr. 14/2004.

Samkvæmt 5. mgr. 1. gr. laga nr. 14/2004 skal ekki greiða erfðafjárskatt „af gjöfum sem falla til félagasamtaka og sjálfseignarstofnana sem starfa að almannaheillum“. Ákvæði þetta var lögfest með 24. gr. laga nr. 124/2015, um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld (ýmsar breytingar). Í almennum athugasemdum í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 124/2015 er gerð grein fyrir ákvæðinu í tengslum við tillögu um að hækka hámark frádráttar í almennum skattskilum rekstraraðila úr 0,5% í 0,75% af tekjum vegna gjafa og framlaga til kirkjufélaga, viðurkenndrar líknarstarfsemi, menningarmála, stjórnmálaflokka og vísindalegra rannsóknarstarfa. Eru þessi frumvarpsákvæði sett í samhengi við það langtímamarkmið að félagasamtök og sjálfseignarstofnanir geti í auknum mæli aflað sér fjár án beins stuðnings ríkisins. Í athugasemdum við 24. gr. í frumvarpinu kemur ekki annað fram um ákvæðið en að sambærilegt ákvæði hafi verið að finna í eldri lögum en verið fellt brott árið 2004. Er hér augljóslega átt við 1. málsl. 2. mgr. 4. gr. laga nr. 83/1984 þar sem sagði: „Af arfi, sem fellur til kirkna, opinberra sjóða, líknar- og menningarstofnana eða félaga, skal engan erfðafjárskatt greiða, sbr. þó ákvæði 2. mgr. 3. gr.“

Ákvæði 2. mgr. 4. gr. laga nr. 83/1984 var eins og getið er fellt brott með lögum nr. 14/2004. Í almennum athugasemdum með frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 14/2004, er vikið að ákvæðinu og tekið fram að í frumvarpinu sé lagt til „að heimildir ráðherra til að undanþiggja þessa aðila greiðslu erfðafjárskatts verði felldar brott“, eins og þar segir. Maki og sambýlismaður eða sambýliskona verði þó áfram undanþegin greiðslu erfðafjárskatts. Kemur fram að samfara þeim lækkunum erfðafjárskattsins sem lagðar séu til í frumvarpinu sé talið að ekki séu lengur forsendur fyrir sérstökum undanþágum sem verið hafi í gildi hingað til auk þess sem það hafi valdið vandkvæðum í framkvæmd að meta framangreind atriði. Muni breytingin leiða til þess að fyrrgreindir aðilar greiði framvegis erfðafjárskatt. Eins og hér að framan er rakið var núgildandi ákvæði 5. mgr. 1. gr. laga nr. 14/2004 síðan tekið upp með 24. gr. laga nr. 124/2015 með þeim athugasemdum sem þar greinir.

Af hálfu kæranda er lögð á það áhersla í kæru til yfirskattanefndar að ráða megi af framangreindum athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 124/2015 að ætlun löggjafans með lögfestingu núgildandi ákvæðis 5. mgr. 1. gr. laga nr. 14/2004 hafi verið að mæla fyrir um sömu undanþágur frá erfðafjárskatti og áður var að finna í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 83/1984. Ekki verður fallist á þetta með kæranda, enda leiðir af orðalagi hins yngra ákvæðis að það gengur skemur með tilliti til aðila sem undanþegnir eru erfðafjárskatti þar sem það tekur eingöngu til félagasamtaka og sjálfseignarstofnana sem starfa að almannaheillum. Þá verður ekki litið framhjá því í málinu að fyrir breytingu á lögum nr. 14/2004 sem um ræðir með 24. gr. laga nr. 124/2015 var engum ákvæðum til að dreifa í hinum fyrrnefndu lögum um undanþágu stofnana hins opinbera eða félaga í eigu þess frá erfðafjárskatti. Hvorki þykir orðalag 5. mgr. 1. gr. laga nr. 14/2004 né lögskýringargögn að baki ákvæðinu benda til þess að með upptöku undanþágunnar hafi verið stefnt að breytingum á stöðu opinberra aðila að þessu leyti. Óumdeilt er að kærandi er ekki sjálfseignarstofnun, sbr. lög nr. 19/1988, um sjóði og sjálfseignarstofnanir sem starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá, og til hliðsjónar 2. gr. laga nr. 33/1999, um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur. Þá verður ekki talið að kærandi, sem er opinber háskóli undir yfirstjórn ráðherra samkvæmt 1. gr. laga nr. 85/2008, geti talist til félagasamtaka í skilningi 5. mgr. 1. gr. laga nr. 14/2004 frekar en aðrar stofnanir á vegum hins opinbera.

Með vísan til framanritaðs verður að hafna kröfu kæranda í máli þessu. Samkvæmt þeim úrslitum málsins verður ennfremur að hafna málskostnaðarkröfu kæranda, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja