Úrskurður yfirskattanefndar

  • Málskostnaður

Úrskurður nr. 73/2021

Lög nr. 30/1992, 2. gr., 3. gr., 8. gr. 2. mgr. (brl. nr. 96/1998, 4. gr.)  

Í máli þessu vegna endurákvörðunar tollgæslustjóra á aðflutningsgjöldum kæranda lá fyrir að tollgæslustjóri hafði afturkallað hina kærðu ákvörðun sína. Af þeim sökum fór kærandi fram á að málið yrði látið niður falla hjá yfirskattanefnd, en krafðist þess að kæranda yrði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði. Þar sem talið var að slíkri kröfu yrði ekki komið fyrir yfirskattanefnd nema í tengslum við úrlausn kæranlegrar ákvörðunar var kröfunni vísað frá yfirskattanefnd.

Ár 2021, miðvikudaginn 12. maí, er tekið fyrir mál nr. 38/2021; kæra A hf., dags. 9. febrúar 2021, vegna ákvörðunar aðflutningsgjalda. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 9. febrúar 2021, hefur umboðsmaður kæranda skotið úrskurði tollgæslustjóra um endurákvörðun aðflutningsgjalda, dags. 11. nóvember 2020, til yfirskattanefndar. Í kærunni er þess krafist að úrskurður tollgæslustjóra verði felldur úr gildi og að kæranda verði greiddur málskostnaður. Samkvæmt bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 28. apríl 2021, er farið fram á að málið verði fellt niður hjá yfirskattanefnd að öðru leyti en varði kröfu um greiðslu málskostnaðar.

II.

Tollgæslustjóri tilkynnti kæranda með bréfi, dags. 22. maí 2020, um þau áform embættisins að endurákvarða aðflutningsgjöld vegna tveggja sendinga sem kærandi hefði flutt inn á árinu 2018 og fengið tollafgreiddar. Byggði fyrirhuguð endurákvörðun á því að virðisaukaskattur af sendingunum hefði verið ranglega felldur niður. Nánar tiltekið hefði tollmiðlarinn B, í umboði kæranda, ranglega afgreitt fyrrnefndar tvær sendingar og fellt niður virðisaukaskatt með niðurfellingarkóðanum VSKNE, sem skráður hefði verið í reit 14 á aðflutningsskýrslu. Rakti tollgæslustjóri að ástæður þessa mætti rekja til heimildar til niðurfellingar virðisaukaskatts, sbr. 42. gr. A laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, sbr. og 12. gr. laga nr. 163/2010, sem hefði verið í lögum en verið felld brott úr lögum í kjölfar athugasemda Eftirlitsstofnunar EFTA þar sem hún hefði brotið í bága við 61. gr. EES-samningsins. Hefði tollmiðlarinn lagt fram aðflutningsskýrslur vegna sendinganna á árinu 2018 en umrædd niðurfellingarheimild hefði formlega verið felld úr gildi þann 20. mars 2013 með 2. gr. laga nr. 24/2013, um breytingu á lögum um virðisaukaskatt.

Með bréfi, dags. 7. september 2020, mótmælti umboðsmaður kæranda ráðagerð tollgæslustjóra. Í bréfinu var því m.a. borið við að kærandi væri ekki eigandi eða innflutningsaðili umræddra sendinga og því ekki sá aðili sem með réttu bæri að greiða lögbundin aðflutningsgjöld af sendingunum. Sá aðili væri V. Að sögn kæranda fæli starfsemi kæranda aðeins í sér sölu á aðstöðu í húsakynnum þess og stoðþjónustu við viðskiptavini.

Með úrskurði, dags. 11. nóvember 2020, hratt tollgæslustjóri fyrirhugaðri endurákvörðun í framkvæmd. Vegna athugasemda um aðildarskort tók tollgæslustjóri fram að ekki aðeins væri kærandi skráður móttakandi sendinganna heldur væri nafn kæranda einnig skráð á komutilkynningu, skuldfærslutilkynningu (CUSTAR/tilkynningu um SMT tollafgreiðslu sendingar og skuldfærslu aðflutningsgjalda) og í flugfarmbréfi fyrir sendingarnar. Augljóst væri að sendingarnar hefðu borist hingað til lands á vegum kæranda og verið til nota í starfsemi fyrirtækisins. Væri kærandi því innflytjandi í skilningi tollalaga. Endurákvarðaði tollgæslustjóri aðflutningsgjöld af sendingunum tveimur, sbr. 111. gr. tollalaga nr. 88/2005, og ákvarðaði kæranda álag á aðflutningsgjöld í samræmi við 180. gr. b sömu laga.

III.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 9. febrúar 2021, gerir umboðsmaður kæranda nánari grein fyrir starfsemi kæranda og áréttar fram komnar athugasemdir um að kærandi sé ekki eigandi þess búnaðar sem fluttur hafi verið inn með umræddum tveimur sendingum og hafi því ekki verið innflytjandi. V hafi keypt búnaðinn af N GmbH sem hefði sent búnaðinn til Íslands til hýsingar hjá kæranda. Tollmiðlarinn B og V hafi átt í tölvupóstsamskiptum sín á milli vegna sendinganna og án aðildar kæranda. Þar hefði m.a. verið rætt hvernig greiðslu aðflutningsgjalda V yrði háttað. Þrátt fyrir þetta hafi tollmiðlarinn ranglega tilgreint kæranda sem innflytjanda á aðflutningsskýrslum. Á aðflutningsskýrslum hafi tollmiðlarinn síðan tilgreint að ekki þyrfti að greiða virðisaukaskatt við innflutning. Hins vegar hafi verið lagt á svonefnt „endurvinnslu- og eftirlitsgjald“ að fjárhæð annars vegar 7.052 evrur og 4.499 evrur hins vegar vegna sendinganna sem V hefði greitt. Umboðsmaður kæranda tekur fram að vegna málsins hafi kærandi ritað V bréf og krafist tafarlausrar leiðréttingar og að V bætti kæranda greiðsluna til ríkissjóðs. Hafi V þá viðurkennt stöðu sína sem innflytjanda eindregið og án tvímæla gagnvart skattyfirvöldum og lýst yfir vilja til að greiða kæranda virðisaukaskattinn til baka. Í kærunni færir umboðsmaður kæranda fram ýmsar athugasemdir varðandi málsmeðferð tollgæslustjóra. Þá er farið fram á að málið verði flutt munnlega fyrir yfirskattanefnd.

Með bréfi til yfirskattanefndar, dags. 12. mars 2021, upplýsir umboðsmaður kæranda að tollmiðlarinn B hafi leiðrétt þær aðflutningsskýrslur sem hafi verið tilefni málsins. Þá hafi kærandi fengið upplýsingar um að réttur aðili hafi greitt aðflutningsgjöld á grundvelli skýrslnanna. Bréfinu fylgdi afrit af reikningi vegna vinnu umboðsmanns kæranda fyrir kæranda. Á reikningnum er tilgreind sala á lögfræðiþjónustu til kæranda fyrir samtals 2.129.700 kr. vegna 51,5 klukkustunda vinnu umboðsmanns kæranda fyrir félagið.

Með tölvupósti til yfirskattanefndar 31. mars 2021 hefur tollgæslustjóri greint nefndinni frá því að embættið hafi afturkallað þá ákvörðun sem kærð hafi verið og telji tollgæslustjóri málinu lokið.

Í bréfi til yfirskattanefndar, dags. 28. apríl 2021, fer umboðsmaður kæranda fram á að mál kæranda verði fellt niður. Hafi kæranda verið tilkynnt með tölvupósti 31. mars 2021 að úrskurður tollgæslustjóra frá 11. nóvember 2020 hafi verið afturkallaður og með erindi deildarstjóra tollendurskoðunardeildar Skattsins frá 28. apríl 2021 hafi verið staðfest að tollafgreiðsla á kæranda hafi verið afturkölluð. Hafi því verið fallist á þær kröfur sem kærandi hafi gert fyrir yfirskattanefnd. Með hliðsjón af atvikum málsins geri kærandi þó kröfu um að félaginu verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði.

Með bréfi, dags. 7. maí 2021, hefur tollgæslustjóri mótmælt kröfu kæranda um greiðslu málskostnaðar.

IV.

Eins og fram er komið varðar kærumál þetta úrskurð tollgæslustjóra, dags. 11. nóvember 2020, um endurákvörðun aðflutningsgjalda kæranda vegna tveggja sendinga með sendingarnúmerin ... Endurákvörðun sína afturkallaði tollgæslustjóri hinn 31. mars 2021 í ljósi fenginna athugasemda og gagna, þar á meðal endurgerðra aðflutningsskýrslna vegna sendinganna, svo sem kærandi mun hafa farið fram á við embættið, sbr. m.a. bréf umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar, dags. 12. mars 2021. Í kjölfar þessa hefur kærandi farið fram á að kærumál þetta fyrir yfirskattanefnd vegna úrskurðar tollgæslustjóra verði látið niður falla en krefst þess allt að einu að félaginu verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Ákvæði þetta er svohljóðandi:

„Nú fellur úrskurður yfirskattanefndar málsaðila í hag, að hluta eða öllu leyti, og getur yfirskattanefnd þá úrskurðað greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði, að hluta eða öllu leyti, enda hafi hann haft uppi slíka kröfu við meðferð málsins, um sé að ræða kostnað sem eðlilegt var að hann stofnaði til vegna meðferðar málsins og ósanngjarnt væri að hann bæri þann kostnað sjálfur.“

Samkvæmt orðalagi 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, er ljóst að kröfu um greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði verður ekki komið fyrir yfirskattanefnd nema í tengslum við úrlausn kæranlegrar ákvörðunar, sbr. 1. og 2. mgr. 2. gr. og 3. gr. laga þessara. Að þessu virtu og þar sem efnislegur ágreiningur er ekki í málinu eftir að tollgæslustjóri hefur fellt úrskurð sinn niður og kærandi jafnframt óskað eftir að afturkalla kæru til yfirskattanefndar ber að vísa kröfu kæranda um að félaginu verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði frá yfirskattanefnd, sbr. til hliðsjónar m.a. úrskurð yfirskattanefndar nr. 3/2006.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Málskostnaðarkröfu kæranda er vísað frá yfirskattanefnd.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja