Úrskurður yfirskattanefndar

  • Lokunarstyrkur

Úrskurður nr. 78/2021

Lög nr. 38/2020, 4. gr. 1. tölul.   Auglýsing nr. 216/2020, 2. gr.   Auglýsing nr. 243/2020, 7. gr. 1. mgr.  

Í úrskurði yfirskattanefndar var talið að starfsemi kæranda, sem rak skólabúðir fyrir grunnskólanemendur, væri svo nátengd skóla- og æskulýðsstarfi að starfsemin heyrði undir gildissvið auglýsingar nr. 216/2020, um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar. Var því ekki talið að ákvæði auglýsingar nr. 243/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, gætu tekið til kæranda. Var kröfu kæranda um greiðslu lokunarstyrks því hafnað.

Ár 2021, miðvikudaginn 19. maí, er tekið fyrir mál nr. 11/2021; kæra A ehf., dags. 12. janúar 2021, vegna ákvörðunar um lokunarstyrk. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

 I.

Með kæru, dags. 12. janúar 2021, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 13. október 2020, að hafna umsókn kæranda um lokunarstyrk samkvæmt II. kafla laga nr. 38/2020, um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Byggðist höfnun ríkisskattstjóra á því að starfsemi kæranda, þ.e. starfræksla fræðslu- og afþreyingabúða fyrir börn, félli ekki undir lög nr. 38/2020. Í ákvörðun ríkisskattstjóra kom fram að hugsanlega mætti þó telja að hluti starfsemi kæranda félli undir 3. og 4. gr. auglýsingar nr. 243/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, þ.e. sem starfsemi sem sætti fjölda- og nálægðartakmörkunum sem hægt hefði verið að viðhalda í einhverri mynd og aðlaga hertum sóttvörnum. Slík takmörkun á hluta starfseminnar skapaði þó ekki rétt til styrkveitingar samkvæmt lögum nr. 38/2020.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar er ákvörðun ríkisskattstjóra mótmælt. Kemur fram að kærandi reki skólabúðir fyrir nemendur grunnskóla hvaðanæva af landinu. Nemendur dvelji í búðunum samfleytt í fjóra sólarhringa og að jafnaði séu um 90-100 nemendur í búðunum í senn auk kennara og fylgdarliðs. Kærandi hafi þurft að loka búðunum vegna heimsfaraldurs frá 10. mars 2020 til 4. maí sama ár. Þann 15. mars 2020 hafi fyrirsvarsmanni kæranda borist tölvupóstur frá sveitarstjóra, sem jafnframt sitji í almannavarnanefnd, þar sem tilkynnt hafi verið um lokun búðanna. Kæranda hafi því verið nauðugur sá kostur að loka skólabúðunum. Kærandi telji augljóst að starfsemin falli undir 2. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020, enda sé rekstur skólabúða byggður á hópefli, leikjum, íþróttastarfi og samveru nemenda. Slík starfsemi hljóti að teljast „sambærileg starfsemi“ í skilningi ákvæðisins. Vegna tilvísunar í ákvörðun ríkisskattstjóra til 3. og 4. gr. auglýsingarinnar er bent á í kærunni að vandséð sé hvernig unnt hefði verið að halda starfsemi skólabúðanna úti á meðan skólar landsins hafi þurft að fylgja svo ströngum sóttvarnaráðstöfunum að starfsemi þeirra hafi skerst verulega. Útilokað hafi verið að skerða starfsemi kæranda og aðlaga sóttvarnarreglum. Með hliðsjón af þessu sé ítrekuð krafa um að kæranda verði ákvarðaður lokunarstyrkur.

II.

Með bréfi til heilbrigðisráðuneytisins, dags. 13. janúar 2021, óskaði yfirskattanefnd eftir umsögn ráðuneytisins um kæruefni málsins, sbr. 8. gr. laga nr. 38/2020. Af því tilefni hefur heilbrigðisráðuneytið lagt fram umsögn í málinu með bréfi til yfirskattanefndar, dags. 25. febrúar 2021. Í umsögninni er vikið að sjónarmiðum í frumvarpi því, sem varð að lögum nr. 38/2020, svo sem nánar greinir, og gerð grein fyrir ákvæðum 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020. Kemur m.a. fram að hinn 16. mars 2020 hafi tekið gildi auglýsing nr. 216/2020, um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar, og hafi gildistími hennar síðar verið framlengdur til 3. maí 2020, sbr. auglýsingu nr. 308/2020. Ekki hafi sérstaklega verið kveðið á um lokanir í grunnskólum á gildistíma auglýsingar nr. 216/2020. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. auglýsingar nr. 216/2020 hafi auglýsingin tekið til grunnskóla og annarra menntastofnana, frístundaheimila, félagsmiðstöðva og íþróttastarfs og hefðu gilt um það sömu reglur og um viðkomandi skólastig. Að mati heilbrigðisráðuneytisins falli starfsemi skólabúða kæranda undir takmarkanir á skólastarfi og þannig undir gildissvið auglýsingar nr. 216/2020. Því til stuðnings sé bent á að ráðuneytið hafi svarað fyrirspurn kæranda frá 5. janúar 2021 þannig að starfsemin félli undir þágildandi reglugerð nr. 1306/2020, um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar. Nú sé í gildi reglugerð nr. 191/2021, um sama efni, og þar sé kveðið á um að starfsemi skólabúða falli undir gildissvið reglugerðarinnar, sbr. 7. mgr. 4. gr. hennar. Að mati ráðuneytisins hafi kæranda því ekki verið skylt að loka búðunum á grundvelli auglýsingar nr. 216/2020 og mögulegt hafi verið að viðhalda starfsemi þeirra í einhverri mynd. Með vísan til framanritaðs sé það mat heilbrigðisráðuneytisins að starfsemi kæranda uppfylli ekki skilyrði 1. tölul. 4. gr. laga nr. 38/2020 um að kæranda væri skylt að láta af starfsemi eða þjónustu samkvæmt 1. eða 2. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020.

Með bréfi, dags. 4. mars 2021, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að ákvörðun ríkisskattstjóra verði staðfest með vísan til forsendna hennar, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 5. mars 2021, voru kæranda send ljósrit af umsögnum heilbrigðisráðuneytisins og ríkisskattstjóra í málinu og kæranda gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum af því tilefni. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

III.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 38/2020, um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, gilda lög þessi um einstaklinga og lögaðila sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, hófu starfsemina fyrir 1. febrúar 2020 og bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi samkvæmt 1. eða 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Er markmið laganna að viðhalda atvinnustigi og efnahagsumsvifum með því að styðja við minni rekstraraðila sem hafa orðið fyrir tímabundnu tekjufalli vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og aðgerða stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar, sbr. 2. gr. laganna. Í II. kafla laga nr. 38/2020 er fjallað um greiðslu svonefndra lokunarstyrkja úr ríkissjóði, en samkvæmt 4. gr. laganna á rekstraraðili sem fellur undir lögin rétt á slíkum styrk að uppfylltum skilyrðum sem talin eru í fimm töluliðum í lagagreininni. Samkvæmt 1. tölul. 4. gr. laga nr. 38/2020 er skilyrði fyrir greiðslu lokunarstyrks að rekstraraðila hafi verið gert skylt að loka samkomustað samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. 5. gr. auglýsingar nr. 243/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, eða láta af starfsemi eða þjónustu samkvæmt 2. mgr. sömu greinar á grundvelli 2. mgr. 12. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997.

Í 12. gr. sóttvarnalaga nr. 19/1997 eru ákvæði um opinberar sóttvarnaráðstafanir vegna hættu á farsóttum innanlands. Samkvæmt 2. mgr. lagagreinarinnar ákveður ráðherra að fenginni tillögu sóttvarnalæknis hvort grípa skuli til opinberra sóttvarnaráðstafana, svo sem ónæmisaðgerða, einangrunar smitaðra, sótthreinsunar, afkvíunar byggðarlaga eða landsins alls, lokunar skóla eða samkomubanns. Hinn 6. mars 2020 lýsti ríkislögreglustjóri yfir neyðarstigi almannavarna hér á landi vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Hinn 13. sama mánaðar ákvað heilbrigðisráðherra á grundvelli 2. mgr. 12. gr. sóttvarnalaga að takmarka samkomur til að hægja á útbreiðslu veirunnar með auglýsingu nr. 217/2020, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar. Sama dag ákvað heilbrigðisráðherra að takmarka skólastarf tímabundið með auglýsingu nr. 216/2020, um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar. Samkvæmt hinni síðarnefndu auglýsingu var grunnskólum heimilt, samkvæmt nánari ákvörðun sveitarfélaga, að halda uppi skólastarfi í skólabyggingum að uppfylltum tilteknum skilyrðum, sbr. 4. gr. auglýsingarinnar. Skyldu takmarkanir þessar gilda til 12. apríl 2020 og með auglýsingu nr. 308/2020 voru þær framlengdar til 3. maí sama ár. Samkvæmt 2. gr. auglýsingar nr. 216/2020 tóku umræddar takmarkanir á skólastarfi til leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla og háskóla, hvort sem um væri að ræða opinbera eða einkarekna skóla. Þá tók ákvörðunin jafnframt til annarra menntastofnana, frístundaheimila, félagsmiðstöðva og íþróttastarfs og giltu um það sömu reglur og um viðkomandi skólastig.

Kærandi rekur skólabúðir fyrir grunnskólanemendur. Er rakið í kæru til yfirskattanefndar að kæranda hafi verið gert að loka skólabúðunum vegna heimsfaraldurs í mars 2020, sbr. tölvupóst sveitarstjóra 15. mars 2020 og bréf sama aðila, dags. 11. desember 2020, þar sem fram kemur að búðirnar hafi verið lokaðar frá 10. mars til 4. maí 2020 vegna faraldursins. Þegar litið er til fyrirliggjandi upplýsinga um starfsemi kæranda verður að fallast á með heilbrigðisráðuneytinu að hún sé svo nátengd skóla- og æskulýðsstarfi að starfsemin heyri undir gildissvið auglýsingar nr. 216/2020, um takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar, sbr. nú 4. mgr. 5. gr. reglugerðar nr. 191/2021, um sama efni, þar sem skólabúða er sérstaklega getið. Verður því ekki talið að ákvæði auglýsingar nr. 243/2020 geti tekið til kæranda, sbr. 1. mgr. 7. gr. hennar þar sem fram kemur að auglýsingin taki ekki til þess skólastarfs sem heimilað sé í sérstakri auglýsingu um takmörkun skólastarfs. Með vísan til þess verður ekki talið að skilyrði 1. tölul. 4. gr. laga nr. 38/2020 séu uppfyllt í tilviki kæranda. Verður því að hafna kröfu kæranda.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja