Úrskurður yfirskattanefndar

  • Takmörkuð skattskylda
  • Lífeyristekjur
  • Tvísköttunarsamningur
  • Kærufrestur

Úrskurður nr. 147/2021

Gjaldár 2020

Lög nr. 90/2003, 3. gr. 2. tölul., 69. gr. 2. mgr.   Lög nr. 30/1992, 5. gr. 1. mgr.   Lög nr. 37/1993, 28. gr. 1. mgr. 1. tölul.   Tvísköttunarsamningur við Spán, 18. gr., 19. gr., 22. gr.  

Í máli þessu var deilt um skattalega meðferð lífeyristekna kærenda, sem fluttu til Spánar í febrúar 2019, við álagningu opinberra gjalda kærenda gjaldárið 2020. Ekki var fallist á með kærendum að hin kærða álagning fæli í sér tvísköttun lífeyristekna þeirra hluta ársins 2019, þ.e. vegna þess tímabils áður en kærendur fluttu til Spánar. Var bent á að skattlagningarrétti Spánar vegna lífeyristekna kærenda, sem byggðist á heimilisfesti kærenda á Spáni eftir brottflutning þeirra, væri ekki til að dreifa fyrr en eftir að kærendur hefðu tekið upp búsetu þar í landi.

Ár 2021, miðvikudaginn 15. september, er tekið fyrir mál nr. 46/2021; kæra A og B, Spáni, dags. 15. febrúar 2021, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2020. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 15. febrúar 2021, hafa kærendur skotið til yfirskattanefndar kæruúrskurði ríkisskattstjóra, dags. 17. ágúst 2020, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2020. Í kærunni kemur fram að kæruefni málsins lúti að skattalegri meðferð lífeyristekna kærenda á árinu 2019 og er þess krafist að ofteknir skattar vegna þess árs verði endurgreiddir.

II.

Helstu málavextir eru þeir að kærendur fluttu af landi brott til Spánar 17. febrúar 2019 samkvæmt því sem skráð er í þjóðskrá. Samkvæmt skattframtali kærenda árið 2020 nam tekjuskatts- og útsvarsstofn kæranda, A, 1.041.103 kr. vegna greiðslna frá Brú lífeyrissjóði og Greiðslustofu lífeyrissjóða. Tekjuskatts- og útsvarsstofn kæranda, B, nam 3.606.017 kr. vegna greiðslna frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og Tryggingastofnun ríkisins.

Með kæru til ríkisskattstjóra, dags. 13. júlí 2020, óskuðu kærendur eftir leiðréttingu á skattframtali sínu árið 2020 í samræmi við tvísköttunarsamning milli Íslands og Spánar. Í kærunni kom fram að ríkisskattstjóri hefði samþykkt undanþágu frá greiðslu skatta af lífeyrisstekjum frá Tryggingastofnun ríkisins og Greiðslustofu lífeyrissjóða frá og með áramótum 2019/2020. Undanþágan hefði þó ekki náð til tekna frá Brú lífeyrissjóði eða Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, en persónuafsláttur nýttist á móti þeim greiðslum. Væri því farið fram á leiðréttingu skattframtals til samræmis við tvísköttunarsamning.

Ríkisskattstjóri tók kæruna til afgreiðslu með kæruúrskurði, dags. 17. ágúst 2020. Í úrskurðinum tók ríkisskattstjóri fram að kærendur hefðu verið búsett á Spáni frá 18. febrúar 2019 og fengju lífeyrisgreiðslur frá íslenskum aðilum. Vísað var til þess að Ísland og Spánn hefðu gert með sér samning til að komast hjá tvísköttun og koma í veg fyrir undanskot frá skattlagningu á tekjur og eignir sem birtur væri með auglýsingu nr. 3/2002 í C-deild Stjórnartíðinda. Samkvæmt 18. gr. samningsins skyldi skattleggja lífeyrisstekjur aðila sem heimilisfastir væru á Spáni þar í landi. Hins vegar skyldu eftirlaun, sem greidd væru af eða úr sjóðum stofnuðum af samningsríki eða sjálfstjórnarhéraði eða sveitarstjórn þess til manns fyrir störf hans í þjónustu þess ríkis eða sjálfstjórnarhéraðs eða sveitarstjórnar, einungis skattlögð í því ríki, sbr. a-lið 2. tölul. 19. gr. samningsins. Því skyldu eftirlaun sem kærandi, A, hefði fengið frá Brú Lífeyrissjóði starfsmanna sveitarfélaga og kærandi, B, frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, skattlögð hér á landi. Í niðurlagi úrskurðar ríkisskattstjóra kom fram að fallist væri á kröfu kærenda. Var bent á að tekjur sem kærendur hefðu aflað fyrir brottflutning til Spánar væru skattlagðar samkvæmt 66. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, en tekjur frá opinberum lífeyrissjóðum eftir brottflutning til Spánar samkvæmt 3. mgr. 2. tölul. 70. gr. sömu laga. Tekið væri tillit til undanþágu frá greiðslu skatta sem kærendum hefði verið veitt á árinu 2019 vegna annarra lífeyristekna. Þá kom fram að skattskyldar tekjur kæranda, A, fyrir brottför næmu 171.825 kr. og eftir brottför 620.621 kr. Skattskyldar tekjur kæranda, B, fyrir brottför næmu 586.504 kr. og eftir brottför 1.052.004 kr.

III.

Í kæru til yfirskattanefndar er bent á að kærendur hafi flutt til Spánar 18. febrúar 2019 og staðið skil á skattframtali vegna ársins 2019 bæði hér á landi og á Spáni, sbr. tvísköttunarsamning milli ríkjanna. Afrit af spænsku skattframtali kærenda ásamt vottorði um staðfestu á Spáni hafi verið sent ríkisskattstjóra. Að undangenginni kæru hafi kærendum verið endurgreiddir fyrirframteknir skattar á Íslandi eftir brottflutning, þ.e. til 18. febrúar 2019. Samkvæmt tvísköttunarsamningi Íslands við Spán beri hins vegar að endurgreiða vegna alls ársins, enda skipti ríkin ekki með sér tekjum eftir tímabilum. Kærendur séu því ranglega tvísköttuð hluta úr ári, þ.e. vegna tímabilsins frá 1. janúar 2019 til 18. febrúar 2019. Samkvæmt meginreglu tvísköttunarsamningsins skipti ríkin ekki með sér tekjum eftir tímabilum heldur liggi skattlagningarvald hjá því ríki þar sem skattborgarinn dvelji 183 daga eða lengur. Sú regla sé tíunduð í 15. gr. samningsins og sé meginuppgjörsregla hans. Nánari útlistun á skattalegri meðferð lífeyris kærenda sé að finna í 18. gr. sem vísi bæði til undantekninga í 2.mgr. 19. gr. en að öðru leyti til meginreglu 15. gr. Samkvæmt þessu séu lífeyrisgreiðslur frá Greiðslustofu lífeyrissjóða og Tryggingarstofnun ríkisins skattlagðar á Spáni allt árið en greiðslur frá Brú lífeyrissjóði og Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins ávallt skattlagðar á Íslandi. Ákvæði 23. gr. samningsins eigi aðeins við um álögur sem hugsanlega séu lagðar á eftir gerð samningsins og engan veginn sé unnt að heimfæra undir einstaka liði tvísköttunarsamningsins. Þar sem aðeins sé um að ræða tekjuskatt og útsvar hjá kærendum eigi sú grein samningins ekki við. Ríkisskattstjóri hafi vísað til laga nr. 90/2003, en ótækt sé að þau lög gangi í berhögg við tvísköttunarsamning sem ríkjunum beri að virða. Þess sé því krafist að kærendum verði endurgreiddir ofteknir skattar vegna ársins 2019.

IV.

Með bréfi, dags. 2. mars 2021, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að kærunni verði vísað frá yfirskattanefnd þar sem hún sé of seint fram komin, en lögmæltur þriggja mánaða kærufrestur samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, hafi runnið út 17. nóvember 2020. Kærubréf kærenda hafi hins vegar ekki borist yfirskattanefnd fyrr en 28. janúar 2021. Telji yfirskattanefnd hins vegar að taka beri kæruna til efnislegrar meðferðar þrátt fyrir ofangreindan formgalla sé þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi skattaðilar ekki sýnt fram á fulla og ótakmarkaða skattskyldu á Spáni allt tekjuárið 2019.

Með bréfi, dags. 7. mars 2021, hafa kærendur komið á framfæri athugasemdum í tilefni af umsögn ríkisskattstjóra. Kemur fram að úrskurður ríkisskattstjóra hafi ekki borist kærendum fyrr en í desember 2020 þar sem bréf með úrskurðinum hafi verið stílað á rangt heimilisfang kærenda, þ.e. götuheiti hafi verið rétt en íbúðarnúmer rangt. Á Spáni séu engir póstkassar merktir með nöfnum. Hafi bréfið verið póstlagt þá hafi það ekki borist. Eftir að kærendur hefðu móttekið úrskurðinn í tölvupósti í desember 2020 hafi þau þegar farið fram á endurupptöku málsins þar sem niðurstaða úrskurðar ríkisskattstjóra hafi verið í andstöðu við tvísköttunarsamning Íslands og Spánar. Ríkisskattstjóri hafi samþykkt það með þeim athugasemdum að leiðrétting yrði gerð eftir áramót. Sæti því furðu að ríkisskattstjóri krefjist frávísunar í ljósi framvindu málsins.

Þá kemur fram í bréfi kærenda að ef svo ólíklega fari að yfirskattanefnd fallist á niðurstöðu ríkisskattstjóra þá sé þess krafist til vara að útreikningar ríkisskattstjóra verði leiðréttir. Er vísað til þess að kærendur hafi fengið senda útreikninga eftir áramót sem hafi legið til grundvallar endurgreiðslu til þeirra. Í þeim útreikningi sé gert ráð fyrir að kærandi, B, geti ekki nýtt ónotaðan persónuafslátt kæranda, A, þá 49 daga sem þeim hafi verið ætlað að hafa dvalið á Íslandi. Uppsafnaður persónuafsláttur hvors um sig á árinu sé hærri en skattar sem þeim hafi verið gert að greiða og sé með öllu óeðlilegt að persónuafsláttur falli niður án þess að mæta þeirri skattlagningu.

V.

Hinn kærði úrskurður ríkisskattstjóra er dagsettur 17. ágúst 2020 og liggur ekki annað fyrir en að hann hafi verið póstlagður sama dag. Kærufrestur til yfirskattanefndar er þrír mánuðir frá dagsetningu ákvörðunar ríkisskattstjóra, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum. Samkvæmt þessu var síðasti dagur kærufrests 17. nóvember 2020. Kæra til yfirskattanefndar er dagsett 15. febrúar 2021 og barst yfirskattanefnd sama dag. Samkvæmt þessu er kæran fram komin að liðnum kærufresti. Af hálfu kærenda er komið fram, sbr. bréf þeirra til yfirskattanefndar, dags. 7. mars 2021, að úrskurður ríkisskattstjóra hafi ekki borist þeim fyrr en við eftirgrennslan í desember 2020 þar sem heimilisfang kærenda á Spáni hafi misritast í úrskurðinum, svo sem nánar er rakið. Ekkert er að þessu vikið í umsögn ríkisskattstjóra um kæruna þar sem þó er krafist frávísunar hennar með því að kærufrestur sé liðinn. Að þessu virtu og skýringum kærenda þykir rétt, með vísan til 1. tölul. 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, að taka kæruna til efnismeðferðar þrátt fyrir að kærufrestur til yfirskattanefndar hafi verið liðinn er kæran barst nefndinni. Er frávísunarkröfu ríkisskattstjóra því hrundið.

Eins og fram er komið fluttu kærendur til Spánar 17. febrúar 2019 samkvæmt því sem skráning í þjóðskrá ber með sér. Eftir þann tíma höfðu kærendur tekjur hér á landi frá Tryggingastofnun ríkisins og lífeyrissjóðum. Vegna þeirra tekna báru kærendur eftir brottflutning af landinu takmarkaða skattskyldu hér á landi samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Þar er tekið fram að allir menn, sem njóti frá íslenskum aðilum launa fyrir störf, þar með talin stjórnar-, endurskoðenda- eða nefndarstörf, eftirlauna, biðlauna, lífeyris, styrkja eða hliðstæðra greiðslna, skuli greiða tekjuskatt af þeim greiðslum. Kærendur báru á hinn bóginn ótakmarkaða skattskyldu hér á landi frá ársbyrjun 2019 til 17. febrúar 2019, þ.e. til þess dags er þau fluttu til Spánar samkvæmt því sem skráð er í þjóðskrá, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003.

Vegna þessara aðstæðna, sem hér hefur verið lýst, giltu mismunandi reglur um skattlagningu kærenda gjaldárið 2020 samkvæmt lögum nr. 90/2003, annars vegar vegna þess tímabils tekjuársins 2019 þegar kærendur báru ótakmarkaða skattskyldu og hins vegar vegna tímabils hinnar takmörkuðu skattskyldu. Vegna tímabils ótakmarkaðrar skattskyldu kærenda giltu ákvæði 2. mgr. 69. gr. laga nr. 90/2003 þar sem mælt er fyrir um ákvörðun tekjuskatts þeirra manna sem skattskyldir eru samkvæmt 1. gr. laganna en hafa einungis verið heimilisfastir hér á landi hluta tekjuársins. Vegna tímabils takmarkaðrar skattskyldu þeirra giltu hins vegar ákvæði 70. gr. laga nr. 90/2003 þar sem mælt er fyrir um tekjuskatt aðila með takmarkaða skattskyldu. Í tilviki kærenda eiga nánar tiltekið við ákvæði 2. tölul. 70. gr. laganna þar sem fjallað er um tekjuskatt aðila sem um ræðir í 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna. Þá bar við álagningu á kærendur að gæta ákvæða tvísköttunarsamnings milli Íslands og Spánar, sbr. auglýsingu nr. 3, 6. ágúst 2002, um tvísköttunarsamning við Spán, sem birtir samning þennan sem fylgiskjal. Þess er að geta að kærendur voru útsvarsskyld hér á landi bæði fyrir og eftir brottflutning á árinu 2019, en eftir brottflutning helgast sú skylda af takmarkaðri skattskyldu kærenda hér á landi vegna fyrrgreindra lífeyristekna frá innlendum aðilum, sbr. ákvæði 2. tölul. 3. gr. laga nr. 90/2003 og 19. og 21. gr. laga nr. 4/1995, um tekjustofna sveitarfélaga. Samkvæmt gögnum málsins lagði ríkisskattstjóri útsvar kærenda til Reykjavíkur, bæði vegna tímabils ótakmarkaðrar og takmarkaðrar skattskyldu, og ákvarðaðist útsvar 14,52% af útsvarsstofni.

Rétt þykir að gera nánari grein fyrir framangreindum reglum. Í 2. mgr. 69. gr. laga nr. 90/2003 er mælt fyrir um ákvörðun tekjuskatts þeirra manna sem skattskyldir eru samkvæmt 1. gr. laganna en hafa einungis verið heimilisfastir hér á landi hluta tekjuársins. Kemur þar fram að í tekjuskattsstofn slíkra aðila skuli deila með fjölda dvalardaga þeirra hér á landi og margfalda síðan þá útkomu með 365. Tekjuskattur skuli síðan reiknast samkvæmt 66. gr. laganna af þannig reiknuðum tekjuskattsstofni, að teknu tilliti til 67. gr., eins og um væri að ræða menn heimilisfasta hér á landi allt árið. Í þá fjárhæð skuli deila með 365 og margfalda þá útkomu með fjölda dvalardaga þeirra hér á landi á árinu. Sú fjárhæð sem þannig fáist skuli vera endanlega ákvarðaður og álagður tekjuskattur eða ákvarðaður ónýttur persónuafsláttur.

Í 70. gr. laga nr. 90/2003 er mælt fyrir um tekjuskatt aðila með takmarkaða skattskyldu. Í 2. tölul. 70. gr. er fjallað um tekjuskatt aðila sem um ræðir í 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna. Samkvæmt 1. mgr. 2. tölul. 70. gr. skal tekjuskattur nema 20% af tekjuskattsstofni þeirra aðila. Í 3. mgr. 2. tölul. 70. gr. er þó að finna sérreglu varðandi tekjuskatt eftirlaunaþega og lífeyrisþega sem um ræðir í 2. tölul. 1. mgr. 3. gr. laganna. Við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2020 var ákvæði þetta svohljóðandi:

„Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skal tekjuskattur eftirlaunaþega og lífeyrisþega sem um ræðir í 2. tölul. 3. gr. reiknast af tekjuskattsstofni skv. 1.–3. tölul. 1. mgr. 66. gr. að teknu tilliti til persónuafsláttar skv. A-lið 67. gr. Persónuafsláttur skal í þessum tilvikum einungis dreginn frá tekjuskatti af eftirlaunum og lífeyri viðkomandi aðila og skal ónýttum hluta hans einungis ráðstafað til greiðslu á útsvari af sömu tekjum. Sá hluti persónuafsláttar sem þá er enn óráðstafað fellur niður og er hann ekki millifæranlegur milli hjóna nema þau séu bæði eftirlauna-þegar eða lífeyrisþegar og falli að öðru leyti bæði undir ákvæði þessarar málsgreinar.“

Tekið skal fram að með 70. gr. a laga nr. 90/2003, sbr. 11. gr. laga nr. 165/2010, er kveðið á um það að þeir menn sem búsettir eru í aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum og bera takmarkaða skattskyldu hér á landi samkvæmt 3. gr. laga nr. 90/2003, en fá sem nemur eigi minna en 75% heildartekna sinna á tekjuárinu frá Íslandi, eigi rétt á að vera skattlagðir líkt og þeir hefðu verið skattskyldir samkvæmt 1. gr. laganna allt tekjuárið, með þeim réttindum sem heimilisfesti hér á landi veitir samkvæmt lögum þessum og öðrum lögum um opinber gjöld. Sama rétt eiga þeir menn sem skattskyldir eru samkvæmt 1. gr., en hafa einungis verið heimilisfastir hér á landi hluta tekjuársins, hafi þeir dvalið í aðildarríki á Evrópska efnahagssvæðinu, í aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða í Færeyjum, enda nemi tekjur þeirra frá Íslandi eigi minna en 75% heildartekna þeirra á tekjuárinu. Af hálfu kærenda hefur ekki verið óskað eftir því að skattlagningu þeirra verði hagað eftir ákvæðum 70. gr. a laga nr. 90/2003.

Í 1. mgr. 66. gr. laga nr. 90/2003 eru ákvæði um skattstiga manna. Við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2020 bar að reikna 22,5% tekjuskatt af tekjuskattsstofni að 11.125.045 kr. og 31,8% tekjuskatt af stofni yfir þeirri fjárhæð, sbr. 1.-5. tölul. 1. mgr. 66. gr. laga nr. 90/2003. Persónuafsláttur gjaldárið 2020 var 677.358 kr. Útsvar reiknast 14,52% af tekjuskattsstofni, sbr. hér að framan.

Eins og fram er komið tilfærðu kærendur í skattframtali sínu árið 2020 greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins og lífeyrissjóðum. Nánar tiltekið færði kærandi, A, til tekna greiðslur frá Brú lífeyrissjóði starfsmanna sveitarfélaga að fjárhæð 743.296 kr. og frá Greiðslustofu lífeyrissjóða að fjárhæð 297.807 kr. Kærandi, B, færði til tekna greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins að fjárhæð 2.348.893 kr. og frá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins að fjárhæð 1.257.124 kr. Óumdeilt er í málinu að skattlagningarréttur vegna greiðslna til kærenda frá Brú lífeyrissjóði og Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins á árinu 2019 sé hér á landi samkvæmt ákvæðum a-liðar 2. mgr. 19. gr. tvísköttunarsamnings milli Íslands og Spánar. Að sama skapi er óumdeilt að skattlagningarréttur vegna annarra lífeyristekna kærenda, þ.e. frá Greiðslustofu lífeyrissjóða og Tryggingastofnun ríkisins, sé á Spáni, sbr. meginreglu 18. gr. tvísköttunarsamningsins, eftir brottflutning kærenda til Spánar. Að því er snertir greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins verður þó að telja að sú niðurstaða helgist af ákvæði 1. mgr. 21. gr. tvísköttunarsamningsins um aðrar tekjur, enda er ekki um að ræða lífeyrisgreiðslur vegna fyrri starfa í því tilviki og geta þær greiðslur því ekki fallið undir 18. gr. samningsins.

Miðað við brottflutningsdag kærenda þann 17. febrúar 2019 ber að byggja á því að dvalardagar kærenda hér á landi hafi verið 48 á árinu 2019. Samkvæmt þessu var tímabil takmarkaðrar skattskyldu á árinu 2019 317 dagar. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum reiknast tekjur kærenda vegna tímabils ótakmarkaðrar skattskyldu samtals 137.950 kr. í tilviki kæranda, A, og 471.293 kr. í tilviki kæranda, B, og vegna tímabils takmarkaðrar skattskyldu samtals 644.806 kr. í tilviki A og 1.092.301 kr. í tilviki B. Skipting persónuafsláttar 677.358 kr. á umrædd tímabil verður þannig að vegna tímabils ótakmarkaðrar skattskyldu reiknast persónuafsláttur 89.077 kr. og er þá miðað við persónuafslátt í 48 daga af 365. Persónuafsláttur vegna tímabils takmarkaðrar skattskyldu reiknast 588.281 kr.

Af hálfu kærenda er því haldið fram að hin kærða álagning feli í sér tvísköttun tekna þeirra hluta ársins 2019, þ.e. vegna tímabilsins 1. janúar til 17. febrúar 2019 er kærendur báru ótakmarkaða skattskyldu hér á landi. Er tekið fram í kæru kærenda til yfirskattanefndar að samkvæmt tvísköttunarsamningi Íslands og Spánar sé tekjum ekki skipt til skattlagningar eftir tímabilum heldur beri að skattleggja tekjur í því ríki þar sem aðili dvelji 183 daga eða lengur, sbr. 15. gr. tvísköttunarsamningsins sem vísað er til í þessu sambandi í kærunni. Af þessu tilefni skal tekið fram að þar sem kærendur voru búsett hér á landi á því tímabili sem um ræðir, þ.e. til brottflutningsdags 17. febrúar 2019, og báru hér ótakmarkaða skattskyldu á grundvelli 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003 til þess dags var skattlagningarréttur vegna lífeyristekna kærenda sem féllu til fyrir 18. febrúar 2019 hér á landi en ekki á Spáni. Leiðir þetta af ákvæðum 18. gr., 2. mgr. 19. gr. og 22. gr. tvísköttunarsamningsins við Spán sem taka til eftirlauna, lífeyris og greiðslna frá almannatryggingum. Skattlagningarrétti Spánar vegna lífeyristekna frá Greiðslustofu lífeyrissjóða og Tryggingastofnun ríkisins, sem byggist á heimilisfesti kærenda á Spáni eftir brottflutning þeirra, sbr. 18. og 21. gr. tvísköttunarsamningsins, var því ekki til að dreifa fyrr en eftir að kærendur tóku upp búsetu þar í landi. Vegna tilvísunar í kæru til ákvæðis 2. mgr. 15. gr. tvísköttunarsamningsins, sem tekur til vinnulauna, er ástæða til að benda á að ákvæðið mælir fyrir um skattlagningarrétt heimilisfestisríkis launamanns við þær aðstæður og að uppfylltum þeim skilyrðum sem þar greinir. Ákvæðið getur hins vegar ekki veitt heimilisfestisríki skattlagningarrétt vegna tekna sem falla til áður en skattaðili hefur öðlast heimilisfesti í því ríki sem í hlut á, þ.e. á Spáni í tilviki kærenda.

Varakrafa kærenda lýtur að leiðréttingu á úrskurði ríkisskattstjóra með því að ekki sé í útreikningi álagningar gert ráð fyrir millifærslu óráðstafaðs persónuafsláttar kæranda, A, til kæranda, B, vegna tímabilsins fyrir brottflutning kærenda til Spánar. Vegna þessarar kröfu kærenda skal tekið fram að samkvæmt niðurstöðu hins kærða úrskurðar ríkisskattstjóra kom ekki til álagningar tekjuskatts og útsvars á kæranda, A, hvorki vegna tímabils ótakmarkaðrar né takmarkaðrar skattskyldu hér á landi á árinu 2019. Voru eftirstöðvar ónotaðs persónuafsláttar A að fjárhæð 38.008 kr. millifærðar til kæranda, B, og komu til frádráttar reiknuðum tekjuskatti hennar og útsvari vegna sama tímabils. Verður því að líta svo á að þessi krafa kærenda sé tilefnislaus. Rétt er að taka fram að kærendum hefur báðum verið ákvarðaður fullur persónuafsláttur 677.358 kr. tekjuárið 2019 til frádráttar reiknuðum tekjuskatti og útsvari af heildartekjum. Á hinn bóginn verður ekki annað séð en að ríkisskattstjóri hafi í útreikningi sínum miðað brottflutning kærenda við febrúarlok 2019 í stað 17. þess mánaðar, án þess að sérstaklega sé þó að því vikið í úrskurði ríkisskattstjóra. Að þessu athuguðu og eins og málið er vaxið þykir rétt að senda ríkisskattstjóra kæru kærenda til afgreiðslu að því er varðar ákvörðun dvalardaga kærenda hérlendis á árinu 2019.

Þess er að geta að í tölvupósti kæranda, A, til yfirskattanefndar 18. febrúar 2021 kemur fram að kærendur hafi verið búsett á Spáni frá september 2018, sbr. og athugasemd á forsíðu skattframtals kærenda árið 2020 þar sem fram kom að þau hefðu ekki dvalið á Íslandi á árinu. Þá er í umsögn ríkisskattstjóra í málinu bent á að kærendur hafi ekki sýnt fram á fulla og ótakmarkaða skattskyldu á Spáni allt tekjuárið 2019. Að því marki sem skilja má kæru til yfirskattanefndar svo, að þess sé krafist að kærendur verði talin bera takmarkaða skattskyldu hér á landi allt tekjuárið 2019 vegna brottflutnings á árinu 2018, verður ekki litið framhjá því að sú krafa var naumast lögð fyrir ríkisskattstjóra við meðferð málsins á fyrri stigum. Hefur embættið og ekki tekið neina rökstudda afstöðu til hennar ef undan er skilin fyrrgreind athugasemd í umsögn til yfirskattanefndar, sbr. 2. mgr. 1. gr. laga nr. 90/2003. Eins og bent er á í umsögninni hafa kærendur ekki lagt fram nein gögn til stuðnings því að þau hafi flust búferlum til Spánar á árinu 2018, en eins og fram er komið ber skráning í þjóðskrá með sér brottflutning þann 17. febrúar 2019. Að framangreindu virtu og eins og málið liggur fyrir þykir rétt að vísa kærunni frá yfirskattanefnd að því leyti sem hún kann að snúa að skattalegri heimilisfesti kærenda á árinu 2019, enda þykir kæran vanreifuð um þann þátt málsins.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kæran er send ríkisskattstjóra til afgreiðslu vegna ákvörðunar dvalardaga kærenda hér á landi á tekjuárinu 2019. Að öðru leyti er kröfum kærenda hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja