Úrskurður yfirskattanefndar

  • Aðflutningsgjöld
  • Tollflokkun
  • Rafskutla

Úrskurður nr. 154/2021

Lög nr. 88/2005, 20. gr.   Almennar reglur um túlkun tollskrár.  

Deilt var um tollflokkun ökutækja af gerðinni Hecht Wise. Kærandi leit svo á að ökutækin féllu undir vörulið 8713 í tollskrá sem ökutæki fyrir fatlaða, en tollgæslustjóri taldi tækin falla undir vörulið 8703 í tollskrá sem ökutæki til mannflutninga. Fram kom í úrskurði yfirskattanefndar að um væri að ræða lítil, rafknúin ökutæki á fjórum hjólum með einu sæti fyrir ökumann sem hönnuð væru fyrir 15 km hámarkshraða. Þar sem ekki varð séð að tækin gætu talist sérstaklega gerð eða hönnuð fyrir fatlaða var kröfum kæranda hafnað.

Ár 2021, miðvikudaginn 29. september, er tekið fyrir mál nr. 125/2021; kæra A ehf., dags. 24. júní 2021, vegna ákvörðunar aðflutningsgjalda. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Kæra í máli þessu, dags. 24. júní 2021, varðar kæruúrskurð tollgæslustjóra, dags. 16. júní 2021, um ákvörðun aðflutningsgjalda vegna innflutnings kæranda á ökutækjum af gerðinni Hecht Wise á árinu 2021. Samkvæmt úrskurði tollgæslustjóra var ökutækið talið falla undir vörulið 8703 í tollskrá sem ökutæki aðallega gert til mannflutninga. Af hálfu kæranda er hins vegar litið svo á að ökutækið falli undir vörulið 8713 í tollskrá sem ökutæki fyrir fatlaða, enda sé um að ræða rafmagnshjólastól en ekki rafskutlu.

II.

Helstu málavextir eru þeir að í apríl 2021 mun kærandi hafa flutt til landsins nokkur ökutæki af gerðinni Hecht Wise. Í hinum kærða úrskurði tollgæslustjóra, dags. 16. júní 2021, kemur fram að við afgreiðslu á aðflutningsskjali vegna innflutnings ökutækjanna hafi embættið gert þá athugasemd að ökutækin skyldi tollflokka sem rafskutlur. Með kæru, dags. 14. maí 2021, hafi kærandi mótmælt afstöðu tollgæslustjóra þar sem um væri að ræða tæki til heilbrigðisþjónustu. Af hálfu tollgæslustjóra var kæra kæranda tekin til afgreiðslu með kæruúrskurði, dags. 16. júní 2021, þar sem kröfum kæranda var hafnað. Í úrskurðinum vísaði tollgæslustjóri til 1. gr. í almennum reglum um túlkun tollskrár og benti á að í lagalegu tilliti skyldi tollflokkun byggð á orðalagi vöruliða í tollskrá og athugasemdum við tilheyrandi flokka eða kafla. Þá tók tollgæslustjóri fram að hin innfluttu ökutæki kæranda væru með fjögur hjól, keyrð á rafhlöðu og ætluð til að flytja einstaklinga. Samkvæmt skýringabókum Alþjóðatollastofnunarinnar féllu hjólastólar, venjulegir og rafknúnir, undir vörulið 8713. Til þess að tæki gæti fallið undir þann vörulið þyrfti tækið að vera sérstaklega hannað fyrir fatlað fólk. Tæki kæranda væru ekki sérstaklega hönnuð fyrir fatlaða, enda um að ræða almenna rafskutlu. Ekki væri nægilegt að tæki væri rafknúið til að falla undir lið 8713 heldur þyrfi að vera augljóst að tækið væri sérstaklega hannað með þarfir fatlaðra í huga. Teldi tollgæslustjóri ljóst að tækið félli að lýsingu vöruliðar 8703 sem lítið, vélknúið ökutæki sem hannað væri til aksturs á upp í 25 km á klst. Vegna athugasemda í kæru varðandi virðisaukaskattsskyldu innflutnings ökutækjanna í ljósi þess að þau væru talin sem „Medical Devices“ samkvæmt Evrópustaðli (EN12184) tók tollgæslustjóri fram að ekki væri tekin nein afstaða til þess. Engin sérstök undanþága væri þó til staðar til að fella niður virðisaukaskatt af innflutningi tækja sem féllu undir slíka flokkun. Þá væri enginn munur á álagningu gjalda samkvæmt viðkomandi tollskrárnúmerum. Ákvörðun tollgæslustjóra um tollflokkun vörusendingar kæranda væri því staðfest.

III.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar, dags. 24. júní 2021, er þess krafist „að tekin sé afstaða og viðurkennt að um sé að ræða rafmagnshjólastól en ekki rafskutlu“, eins og þar segir. Kemur fram að rafmagnshjólastólarnir séu fluttir inn samkvæmt Evrópureglugerð og séu auðkenndir sem „EN 12814 Medical Device“. Undrun sæti að tollgæslustjóri hafi ekki tekið afstöðu til þess heldur viljað tollflokka tækin sem leiktæki. Því sé kærandi ósammála. Vera kunni að kærandi hafi ekki rétt fyrir sér varðandi undanþágu frá virðisaukaskatti, en engu að síður skjóti skökku við að innflytjendur Teslu-bifreiða njóti slíkrar undanþágu á meðan eldra fólk og hreyfihamlaðir þurfi að greiða virðisaukaskatt af nauðsynlegum hjálpartækjum.

IV.

Með bréfi, dags. 16. ágúst 2021, hefur tollgæslustjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Í umsögn tollgæslustjóra er gerð nokkur grein fyrir eiginleikum og útbúnaði hinna innfluttu ökutækja af gerðinni Hecht Wise. Vegna tilvísunar í kæru til Evrópustaðals bendir tollgæslustjóri á að við tollflokkun vara séu tollyfirvöld bundin af tollalögum og tollskrá og skýringum við hana, þar á meðal skýringabókum Alþjóðatollastofnunarinnar (WCO). Engu að síður sé ástæða til að taka fram að greindur staðall EN 12184 gildi bæði fyrir rafknúna hjólastóla og vespur/skutlur á þremur eða fleiri hjólum samkvæmt upplýsingum á vef Evrópusambandsins. Ljóst sé af skýringum WCO að ökutæki þurfi að vera sérstaklega hönnuð fyrir fatlaða einstaklinga til þess að geta fallið undir vörulið 8713 í tollskrá. Ekki sé því nægilegt að ökutæki kunni að henta fötluðum. Að mati tollgæslustjóra sé ekkert í hönnun ökutækja af gerðinni Hecht Wise sem gefi til kynna að þau séu sérstaklega gerð fyrir fatlaða, enda sé hönnun þeirra almenns eðlis og þau henti þannig hverjum sem er. Beri því að fella ökutækin undir vörulið 8703 í tollskrá. Hámarkshraði tækjanna gefi þó vissulega til kynna að þau ættu að höfða frekar til aldraðra, of þungra einstaklinga eða annarra sem eigi erfitt með gang fremur en til yngra fólks. Til stuðnings afstöðu tollgæslustjóra sé ennfremur vísað til meðfylgjandi bindandi álits WCO frá árinu 2001 sem lotið hafi að sambærilegu ökutæki. Þá sé það mat tollyfirvalda að umrædd ökutæki falli ekki undir neinar undanþágur frá greiðslu virðisaukaskatts við innflutning, sbr. bráðabirgðaákvæði XXIV í lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, burtséð frá því hvort þau verði talin falla undir vörulið 8703 eða vörulið 8713.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 18. ágúst 2021, var kæranda send umsögn tollgæslustjóra og félaginu gefinn kostur á að tjá sig um efni hennar og að leggja fram frekari gögn í málinu, ef kærandi teldi ástæðu til. Var kæranda veittur 20 daga frestur. Engar athugasemdir hafa borist.

V.

Eins og fram er komið varðar kæra í máli þessu kæruúrskurð tollgæslustjóra, dags. 16. júní 2021, um ákvörðun aðflutningsgjalda vegna innflutnings kæranda á ökutækjum af gerðinni Hecht Wise á árinu 2021. Samkvæmt úrskurði tollgæslustjóra voru ökutækin talin falla undir vörulið 8703 í tollskrá sem ökutæki aðallega gerð til mannflutninga, nánar tiltekið undir tollskrárnúmer 8703.1081 („Ökutæki sérstaklega gerð til aksturs í snjó; golfbifreiðar og áþekk ökutæki: Önnur: Annars: Lítil rafknúin ökutæki, sem hönnuð eru til aksturs á hraða upp í 25 km á klst“). Í kæru til yfirskattanefndar er hins vegar litið svo á að ökutækin falli undir vörulið 8713 í tollskrá sem ökutæki fyrir fatlaða.

Í almennum reglum um túlkun tollskrárinnar, sem lögfest var sem viðauki við tollalög nr. 88/2005, kemur fram að við flokkun samkvæmt tollskrá skuli fyrirsagnir á flokkum, köflum og undirköflum einungis vera til leiðbeiningar. Í lagalegu tilliti skuli tollflokkun byggð á orðalagi vöruliða og athugasemdum við tilheyrandi flokka eða kafla. Í 87. kafla tollskrár er fjallað um ökutæki og hluta og fylgihluti til þeirra. Undir vörulið 8703 falla bifreiðar og önnur vélknúin ökutæki aðallega gerð til mannflutninga (þó ekki ökutæki í nr. 8702), þar með taldir skutbílar og kappakstursbílar. Eins og fram er komið leit tollgæslustjóri svo á að hið innflutta ökutæki kæranda félli undir greindan vörulið 8703 í tollskrá, nánar tiltekið undir tollskrárnúmer 8703.1081 sem rafknúið ökutæki hannað til aksturs á upp í 25 km á klst.

Í 2. mgr. 74. gr. reglugerðar nr. 1100/2006, um vörslu og tollmeðferð vöru, er vikið að skýringarriti Alþjóðatollastofnunarinnar (WCO) um tollflokkun. Þar segir: „Fyrstu sex stafirnir í átta stafa tollskrárnúmerum tollskrárinnar eru í samræmi við vöruflokkunarkerfi Alþjóða tollastofnunarinnar sem Ísland er skuldbundið til að fylgja, sbr. auglýsingu nr. 25/1987. Skýringarritum og álitum Alþjóðatollastofnunarinnar um tollflokkun er ætlað að stuðla að samræmdri túlkun á flokkunarkerfi stofnunarinnar og geta verið til leiðbeiningar um tollflokkun samkvæmt íslensku tollskránni, enda þótt þau séu ekki bindandi að landsrétti.“ Með umræddri auglýsingu nr. 25/1987, sem birt var í C-deild Stjórnartíðinda, var almenningi gert kunnugt um aðild Íslands að alþjóðlegum samningi um samræmda vörulýsingar- og vörunúmeraskrá, sem gerður var í Brussel 14. júní 1983, sbr. einnig bókun við samninginn 24. júní 1986. Samkvæmt 1. tölul. 3. gr. alþjóðasamningsins skuldbinda samningsaðilar sig til þess að haga tollskrá sinni og skýrslugerð vegna inn- og útflutningsviðskipta í samræmi við hina samræmdu skrá, en í því felst m.a. að nota alla vöruliði og undirliði samræmdu skrárinnar án viðbóta eða breytinga ásamt tilheyrandi númeraskrá, og að fylgja númeraröð samræmdu skrárinnar. Jafnframt skuldbinda aðilar sig til þess að beita hinum almennu reglum um túlkun samræmdu skrárinnar og öllum athugasemdum við flokka, kafla og undirliði skrárinnar. Samkvæmt 7. gr. samningsins skal svonefnd samskrárnefnd, sbr. nánar 6. gr. samningsins, m.a. ganga frá skýrgreiningum, flokkunarúrskurðum og öðrum ráðgefandi ritum til túlkunar á samræmdu skránni, en rit þessi þurfa að hljóta samþykki Tollasamvinnuráðsins, nú Alþjóðatollastofnunarinnar (WCO), eftir ákvæðum 8. gr. samningsins. Þess er að geta að litið hefur verið til skýringa í umræddum ritum WCO í langvarandi stjórnsýsluframkvæmd á sviði tollamála, sbr. t.d. úrskurði ríkistollanefndar nr. 2 og 8/2004, 9/2012 og 2/2013 og úrskurði yfirskattanefndar nr. 300/2015 og 67/2016.

Ökutæki sem málið snýst um eru af gerðinni Hecht Wise. Umsögn tollgæslustjóra í málinu fylgja gögn frá framleiðanda ökutækjanna þar sem ökutækjunum er rækilega lýst. Af hálfu kæranda hafa engar athugasemdir verið gerðar af því tilefni og verður að leggja til grundvallar úrlausn málsins að upplýsingar sem koma fram í gögnum þessum, m.a. um stærð, búnað og aðra eiginleika ökutækja af gerðinni Hecht Wise, eigi við um hin innfluttu ökutæki. Um er að ræða lítil, rafknúin ökutæki á fjórum hjólum með einu sæti fyrir ökumann og kemur fram í umsögn tollgæslustjóra að ökutækin séu hönnuð fyrir 15 km hámarkshraða. Fyrir framan stýri ökutækjanna er lítil geymslukarfa. Í málinu hefur ekkert komið fram um drægni ökutækjanna í akstri.

Af hálfu kæranda er byggt á því að hin innfluttu ökutæki séu gerð fyrir fatlað fólk og falli undir vörulið 8713 í tollskrá. Samkvæmt skýringum við vörulið 8713 í skýringariti Alþjóðatollastofnunarinnar tekur vöruliðurinn til vagna, hjólastóla og svipaðra ökutækja (e. carriages, wheelchairs and similar vehicles) sem sérstaklega eru gerðir og hannaðir fyrir fatlað fólk. Er tekið fram í skýringunum að vöruliðurinn taki ekki til venjulegra ökutækja sem hafa verið aðlöguð til notkunar fyrir fatlaða. Taka verður undir með tollgæslustjóra að ekki verður séð að hin innfluttu ökutæki af gerðinni Hecht Wise geti talist sérstaklega gerð eða hönnuð fyrir fatlaða, enda hefur engin rökstudd grein verið gerð fyrir því af hálfu kæranda. Að þessu athuguðu og í ljósi framangreindra skýringa Alþjóðatollastofnunarinnar, svo og með hliðsjón af flokkunarúrskurði stofnunarinnar frá árinu 2001 sem varðar hliðstætt ökutæki, verður fallist á það með tollgæslustjóra að ökutækin falli undir vörulið 8703 í tollskrá. Er kröfu kæranda er lýtur að því að ökutækin verði talin falla undir vörulið 8713 í tollskrá sem ökutæki fyrir fatlaða því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja