Úrskurður yfirskattanefndar

  • Skattrannsókn
  • Rekstrarkostnaður
  • Innskattur

Úrskurður nr. 169/2021

Gjaldár 2019

Virðisaukaskattur 2018 og 2019

Lög nr. 90/2003, 31. gr. 1. tölul. 1. mgr.   Lög nr. 50/1988, 16. gr. 1. mgr.  

Í framhaldi af rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á bókhaldi og skattskilum kæranda felldi ríkisskattstjóri niður gjaldfærðan kostnað og innskatt í skattskilum kæranda þar sem talið var að sölureikningar frá X ehf. og Y ehf., sem lágu til grundvallar gjaldfærslu og færslu innskatts, væru tilhæfulausir og ættu sér ekki efnislega stoð í reynd. Yfirskattanefnd taldi að á grundvelli framburðar fyrirsvarsmanna X ehf. og Y ehf. og þess sem upplýst var við rannsókn skattrannsóknarstjóra um greinda reikninga hefði ríkisskattstjóri haft réttmæta ástæðu til að vefengja að kærandi hefði í raun borið útgjöld samkvæmt þeim. Kærandi hefði enga skilmerkilega grein gert fyrir viðskiptunum, þar á meðal verkefnum X ehf. og Y ehf. í þágu kæranda og um ákvörðun endurgjalds samkvæmt sölureikningunum, og ekki lagt fram nein gögn sem horft gætu til staðfestingar á efni þeirra. Var kröfum kæranda hafnað.

Ár 2021, miðvikudaginn 27. október, er tekið fyrir mál nr. 55/2021; kæra A ehf., dags. 3. mars 2021, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2019 og ákvörðunar virðisaukaskatts árin 2018 og 2019. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 3. mars 2021, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 3. desember 2020, um endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2019 og virðisaukaskatts rekstrarárin 2018 og 2019. Endurákvörðun ríkisskattstjóra fór fram í kjölfar rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins á skattskilum kæranda rekstrarárið 2018 og rekstrartímabilið janúar til og með ágúst 2019, sbr. skýrslu embættisins, dags. 31. desember 2019. Með úrskurðinum hækkaði ríkisskattstjóri tekjuskattsstofn kæranda um 22.377.827 kr. gjaldárið 2019. Þá lækkaði ríkisskattstjóri innskatt í virðisaukaskattskilum kæranda um 5.990.092 kr. árið 2018 og um 1.947.218 kr. uppgjörstímabilin janúar-febrúar til og með júlí-ágúst 2019.

Af hálfu kæranda er þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi.

II.

Rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á skattskilum kæranda vegna rekstrarársins 2018 og rekstrartímabilsins frá janúar til og með ágúst 2019 hófst formlega 17. október 2019. Við rannsóknina voru þrír menn með réttarstöðu sakbornings, þ.e. B, sem var fyrirsvarsmaður kæranda, C og D. Með bréfi, dags. 3. desember 2019, sendi skattrannsóknarstjóri ríkisins þessum mönnum skýrslu, dags. sama dag, um rannsókn embættisins og gaf þeim kost á að tjá sig um hana. Með bréfi tilnefnds verjenda fyrirsvarsmanns kæranda, dags. 30. desember 2019, voru gerðar athugasemdir við skýrslu skattrannsóknarstjóra. Að mati skattrannsóknarstjóra ríkisins gáfu fram komnar athugasemdir ekki tilefni til breytinga á upphaflegri skýrslu og lauk rannsókninni með skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 31. desember 2019, sem var samhljóða fyrri skýrslu að öðru leyti en því að bætt var við kafla um lok rannsóknar og aukið við skýrsluna þar greindum ítar- og fylgiskjölum.

Í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 31. desember 2019, var rakið að rannsókn hefði leitt í ljós að í bókhaldi kæranda vegna rekstrarársins 2018 væru færð rekstrargjöld sem byggð væru á reikningum sem ættu ekki við rök að styðjast og að innskattur vegna þeirra verið færður á virðisaukaskattsskýrslur til frádráttar útskatti kæranda. Sama ætti um um tímabilið frá janúar til og með ágúst 2019. Nánar kom fram í skýrslunni að í bókhaldi kæranda væru færðir til innskatts sölureikningar í nafni félaganna X ehf. og Y ehf., vegna tímabilsins 1. janúar 2018 til og með 31. ágúst 2019. Rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins hefði leitt í ljós að sölureikningar frá þessum félögum ættu ekki við rök að styðjast og að þeir hefðu verið gjaldfærðir og innskattaðir í bókhaldi kæranda til að lækka rekstrargjöld vegna rekstrarársins 2018 og útskatt vegna rekstrarársins 2018 og janúar til og með ágúst 2019. Í því sambandi benti skattrannsóknarstjóri ríkisins á að virðisauki félagsins væri lítill á því tímabili sem til rannsóknar væri.

Skattrannsóknarstjóri ríkisins gerði grein fyrir fyrirliggjandi upplýsingum um félögin X ehf. og Y ehf. Þá voru rakin helstu atriði í framburði B, fyrirsvarsmanns kæranda, og C og D. Taldi skattrannsóknarstjóri ríkisins ekki annað ráðið af framburði aðila um viðskipti kæranda við X ehf. og Y ehf. en að útgefnir sölureikningar í nafni félaganna á hendur kæranda ættu ekki við rök að styðjast og að þeir hefðu verið gerðir með það fyrir augum að lækka rekstrargjöld og nýta innskatt til frádráttar útskatti kæranda.

Einnig var rakið í skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins að á níu af tíu fyrirliggjandi sölureikningum, útgefnum í nafni X ehf. og Y ehf., kæmi það eitt fram að um smíðavinnu væri að ræða. Á einum af sölureikningunum kæmi enginn texti fram. Samtals væri fjárhæð sölureikninganna 41.011.808 kr. Engin gögn, hvorki samningur né tímaskýrslur, fylgdu sölureikningunum. Ekki lægju fyrir upplýsingar um þá aðila sem ættu að hafa innt umrædda vinnu af hendi. Þá lægju ekki fyrir upplýsingar um að greiðslur hefðu átt sér stað vegna reikninganna.

Samkvæmt framangreindu þætti ljóst að umræddir sölureikningar í nafni X ehf. og Y ehf. ættu ekki við rök að styðjast og væru því ekki hæfir til innskatts uppgjörstímabilin janúar-febrúar 2018 til og með júlí-ágúst 2019, sbr. 1. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 40/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila. Jafnframt væru færð í bókhaldi og skattskilum kæranda fyrir rekstrarárið 2018 rekstrargjöld, byggð á reikningum útgefnum í nafni X ehf., sem ekki ættu við rök að styðjast.

Tölulegar niðurstöður í máli kæranda voru þær að innskattur væri oftalinn um 5.990.092 kr. rekstrarárið 2018 og um 1.947.218 kr. á tímabilinu frá janúar til ágúst rekstrarárið 2019. Þá væru rekstrargjöld oftalin í skattframtali kæranda árið 2019 um 24.958.716 kr.

III.

Af hálfu skattrannsóknarstjóra ríkisins var mál kæranda sent ríkisskattstjóra til meðferðar með bréfi, dags. 19. mars 2020, sbr. 6. mgr. 103. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Með bréfi, dags. 1. október 2020, gerði ríkisskattstjóri kæranda grein fyrir því að fyrirhugað væri að endurákvarða álögð opinber gjöld félagsins vegna gjaldársins 2019 með vísan til 6. mgr. 103. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, sbr. 96. gr. sömu laga. Þá væri fyrirhugað að endurákvarða virðisaukaskatt kæranda uppgjörstímabilin janúar-febrúar 2018 til og með júlí-ágúst 2019 með vísan til 26. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatts. Um ástæður endurákvörðunar vísaði ríkisskattstjóri til skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 31. desember 2019, og kom fram að ríkisskattstjóri tæki undir ályktanir í skýrslunni.

Með bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 11. nóvember 2020, var áformuðum breytingum á skattskilum kæranda mótmælt á þeim forsendum að efnisleg rök stæðu ekki til þeirra, svo sem nánar var rökstutt.

Ríkisskattstjóri hratt hinum boðuðu breytingum í framkvæmd með úrskurði um endurákvörðun, dags. 3. desember 2020, og endurákvarðaði opinber gjöld kæranda og virðisaukaskatt til samræmis. Samkvæmt úrskurðinum féll niður yfirfæranlegt rekstrartap 2.580.889 kr. gjaldárið 2019 en tekjuskattstofn ákvarðaðist 22.377.827 kr. Einnig lækkaði ríkisskattstjóri innskatt í virðisaukaskattskilum kæranda um 5.990.092 kr. árið 2018 og um 1.947.218 kr. uppgjörstímabilin janúar-febrúar til og með júlí-ágúst 2019. Í úrskurðinum færði ríkisskattstjóri fram sömu ástæður fyrir breytingum sínum og gerð var grein fyrir í boðunarbréfi. Jafnframt tók ríkisskattstjóri afstöðu til andmæla kæranda frá 11. nóvember 2020 en taldi þau ekki gefa tilefni til að falla frá boðuðum breytingum.

IV.

Í úrskurði ríkisskattstjóra um endurákvörðun, dags. 3. desember 2020, sbr. einnig bréf, dags. 1. október 2020, var gerð grein fyrir helstu niðurstöðum skattrannsóknarstjóra ríkisins samkvæmt skýrslu embættisins. Tók ríkisskattstjóri fram að líta bæri á skýrslu skattrannsóknarstjóra sem hluta forsendna breytinga á skattskilum kæranda. Þá gerði ríkisskattstjóri grein fyrir helstu réttarheimildum málsins.

Ríkisskattstjóri rakti umfjöllun skattrannsóknarstjóra ríkisins um fyrirliggjandi sölureikninga X ehf. og Y ehf. á hendur kæranda. Kvaðst ríkisskattstjóri telja að sölureikningarnir uppfylltu ekki formskilyrði samkvæmt reglugerð nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, þar sem m.a. segði að á sölureikningum skyldi koma fram lýsing á því sem selt væri og skyldi sú lýsing vera nægilega glögg til að ljóst væri hvort viðskiptin vörðuðu skattskylda starfsemi þess sem keypti. Þá skyldi koma fram upplýsingar um magn, einingaverð og heildarverð eftir því sem við yrði komið. Samkvæmt framburði framkvæmdastjóra kæranda væru ekki fyrirliggjandi tilboðsgögn, vinnuskýrslur, samningar o.þ.h. á bak við reikningana.

Þá hefði komið fram við skýrslutöku að reikningarnir hefðu verið borgaðir með reiðufé. Ríkisskattstjóri benti á að fyrir lægi að úttekt reiðufjár af bankareikningi kæranda árið 2018 hefði numið alls 11.101.772 kr. og 872.175 kr. á árinu 2019 og því fengi ekki staðist sá framburður framkvæmdastjóra kæranda að reikningarnir hefðu verið borgaðir með reiðufé. Þá hefði framkvæmdastjórinn ekki getað svarað því hvernig afgangurinn hefði verið greiddur.

Með hliðsjón af framburði aðila í skýrslutökum, skorti á upplýsingum og gögnum varðandi gjaldfærða og innskattaða reikninga og þess að ekki hefði verið sýnt fram á að þeir hefðu verið greiddir væri það mat ríkisskattstjóra að umræddir reikningar ættu ekki við rök að styðjast og væru tilhæfulausir. Því bæri að lækka gjaldfærðan rekstrarkostnað kæranda um 24.958.716 kr. gjaldárið 2019, þar sem ekki yrði séð að um frádráttarbæran rekstrarkostnað væri að ræða, sbr. 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Þar sem sölureikningarnir væru tilhæfulausir væri ekki heimild fyrir innskatti á grundvelli þeirra, sbr. 3. mgr. 15. gr. og 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Þætti því bera að fella niður innskatt að fjárhæð 5.990.092 kr. rekstrarárið 2018 og 1.947.218 kr. tímabilið janúar til og með ágúst rekstrarárið 2019.

Ríkisskattstjóri vék í úrskurði sínum að andmælum kæranda er lutu að þýðingu reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila, fyrir niðurstöðu málsins. Af hálfu ríkisskattstjóra væri vísað til reglugerðarinnar í tengslum við umfjöllun um annmarka á nefndum sölureikningum, en engar upplýsingar væru á reikningunum um hvaða verk hefðu átt að vera unnin. Þetta væri einn þáttur í rökstuðningi fyrir þeirri niðurstöðu að reikningarnir ættu ekki við rök að styðjast. Vegna tilvísunar kæranda til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 52/2002, sem kærandi teldi bera með sér að ekki væri farið svo strangt í sakirnar um lýsingu hins selda á sölureikningi sem ríkisskattstjóri héldi fram, benti ríkisskattstjóri á að í úrskurði þessum hefði ekki reynt efnislega á það hvort viðskipti hefðu átt sér stað. Einungis hefði verið á því byggt að sundurliðun á sölureikningum hefði verið sem skyldi en yfirskattanefnd hefði ekki þótt tilefni til að draga í efa að vinnan hefði varðað skattskylda starfsemi hlutaðeigandi aðila. Um andmæli kæranda varðandi greiðslu umþrættra reikninga benti ríkisskattstjóri á að það hefði ítrekað komið fram í vitnisburði fyrirsvarsmanns kæranda í skýrslutöku að reikningarnir hefðu verið greiddir með reiðufé. Hann hefði aldrei haldið því fram að þeir hefðu verið greiddir að hluta. Þá væru litlar sem engar skuldir tilgreindar í skattframtali eða ársreikningi kæranda vegna tekjuársins 2018.

V.

Í kæru umboðsmanns kæranda til yfirskattanefndar, dags. 3. mars 2021, er þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi. Um rökstuðning fyrir þeirri kröfu er í kærunni vísað til bréfs umboðsmanns kæranda, dags. 11. nóvember 2020, til ríkisskattstjóra.

Bent er á það í bréfi umboðsmanns kæranda að ríkisskattstjóri vísi til formkrafna sem kæmi fram í reglugerð um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila. Ríkisskattstjóri vísi þó ekki til tiltekinna ákvæða reglugerðarinnar. Rökstuðningurinn sé settur fram undir kaflanum „rekstrarkostnaður“ en ekki sé vísað til reglugerðarinnar undir kaflanum „virðisaukaskattur“. Ríkisskattstjóri sé ekki skýr um það hvernig greind tilvísun til reglugerðarinnar eigi við í málinu og því síður hvernig tilvísun í hana geti átt við sem rök fyrir því að fella niður rekstrarkostnað hjá kæranda. Hvers kyns skilyrði um form sölureikninga, sem fram komi í reglugerðinni, eigi ekki við um færslu rekstrarkostnaðar samkvæmt lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, og eftir atvikum reglugerð nr. 483/1994, um frádrátt frá tekjum af atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi.

Að því er varðar innskattsfrádrátt og kröfur sem gerðar séu til sölureikninga vísi kærandi til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 52/2002 (misritað 50/2002 í bréfinu). Þar hafi texti sölureiknings verið „v/imislegt“ en að teknu tilliti til skýringa hlutaðeigandi aðila hafi niðurstaða yfirskattanefndar allt að einu orðið sú að innskattsréttur yrði ekki felldur niður á grundvelli þessa texta reikningsins. Texti sölureikninga í tilviki kæranda sé umtalsvert meira lýsandi en í nefndu máli og augljóst að þjónustan varði rekstur kæranda.

Vegna tilvísunar ríkiskattstjóra til þess að forsvarsmaður útgefanda reikninganna hafi ekkert upplýst um meint viðskipti er tekið fram af hálfu kæranda að félagið geti augljóslega ekki borið hallann af því. Kærandi hafi ekki skýringar á því hvers vegna nefndur maður upplýsti ekki um viðskiptin. Fyrir liggi að hann hafi sjálfur haft réttarstöðu grunaðs manns og því mögulega nýtt sér þann rétt að tjá sig ekki. Hvernig sem á þessu standi þá hafi það ekki þau áhrif á frádráttarrétt kæranda sem ríkisskattstjóri telji. Sé rökum ríkisskattstjóra hér að lútandi því alfarið hafnað sem ómálefnalegum og óréttmætum.

Að lokum víkur kærandi að þeirri afstöðu ríkisskattstjóra að umþrættir reikningar hafi ekki verið greiddir. Í því sambandi tekur kærandi fram að ekki liggi annað fyrir en að reikningarnir hafi að lágmarki verið greiddir að hluta, enda vísi ríkisskattstjóri til reiðufjárúttekta á árunum 2018 og 2019. Í öðru lagi hafi ríkisskattstjóri ekki vísað til réttarheimilda því til stuðnings að ógreiddir og útistandandi reikningar teljist ekki til rekstrarkostnaðar, og tækir til innskattsfrádráttar, á þeim tíma sem þeir féllu til. Í þriðja lagi liggi ekkert frekar fyrir í málinu sem styðji það að reikningarnir hafi ekki verið greiddir eða lagt hafi verið út fyrir greiðslu. Þessari málsástæðu ríkisskattstjóra sé því hafnað, enda sé enginn grunnur fyrir henni.

VI.

Með bréfi, dags. 13. apríl 2021, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi yfirskattanefndar, dags. 13. apríl 2021, var kæranda sent ljósrit af umsögn ríkisskattstjóra í málinu og félaginu gefinn kostur á að tjá sig um umsögnina og leggja fram gögn til skýringar. Gefinn var 20 daga svarfrestur. Engar athugasemdir hafa borist.

VII.

Kæra í máli þessu varðar endurákvörðun opinberra gjalda kæranda gjaldárið 2019 og endurákvörðun virðisaukaskatts vegna allra uppgjörstímabila á tímabilinu frá og með 1. janúar 2018 til ágústloka 2019, sbr. úrskurð ríkisskattstjóra um endurákvörðun, dags. 3. desember 2020. Var endurákvörðun ríkisskattstjóra gerð á grundvelli skýrslu skattrannsóknarstjóra ríkisins, dags. 31. desember 2019, vegna rannsóknar á bókhaldi og skattskilum kæranda rekstrarárið 2018 svo og fyrir rekstrartímabilið janúar til og með ágúst 2019. Rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins á bókhaldi og skattskilum kæranda hófst formlega þann 17. október 2019, sbr. fyrrnefnda skýrslu um rannsóknina. Í II. kafla hér að framan er gerð grein fyrir niðurstöðum rannsóknarinnar. Samkvæmt niðurstöðunum voru rekstrarkostnaður kæranda rekstrarárið 2018 svo og innskattur vegna uppgjörstímabilanna frá og með janúar 2018 til og með ágúst 2019 oftalinn um tilgreindar fjárhæðir vegna tilhæfulausra reikninga sem ekki þættu eiga sér efnislega stoð í reynd. Samkvæmt þessu hefði kærandi staðið skil á röngu skattframtali vegna rekstrarársins 2018 og röngum virðisaukaskattsskýrslum vegna sama rekstrarárs svo og vegna tímabilsins janúar til og með ágúst 2019. Undir þetta tók ríkisskattstjóri og taldi rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins hafa leitt í ljós að tilgreind bókhaldsgögn, sem fjallað væri um í rannsóknarskýrslu, væru ófullnægjandi og efnislega röng og gætu því ekki verið til grundvallar réttum skattskilum kæranda vegna rannsóknartímabilsins. Á þessum grundvelli endurákvarðaði ríkisskattstjóri virðisaukaskatt kæranda vegna greinds tímabils vegna lækkunar innskatts, sbr. 2. mgr. 26. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Í þeim efnum horfði ríkisskattstjóri til tölulegra niðurstaðna rannsóknar skattrannsóknarstjóra ríkisins og efnislegra raka að baki þeim. Þá endurákvarðaði ríkisskattstjóri áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 2019, sbr. 5. mgr. 96. gr. og 6. mgr. 103. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er leiddi til ákvörðunar tekjuskattsstofns gjaldárið 2019.

Ríkisskattstjóri byggði niðurfellingu gjaldfærslu og innskatts samkvæmt sex sölureikningum frá X ehf. að fjárhæð 30.948.808 kr. á árinu 2018 og niðurfellingu innskatts samkvæmt fjórum sölureikningum frá Y ehf. að fjárhæð 10.063.000 kr. á því að þeir væru rangir bæði að efni og formi. Í því sambandi tiltók ríkisskattstjóri að lýsing seldrar þjónustu á sölureikningunum væri mjög almenn, þ.e. oftast eingöngu „smíðavinna“, en engar tíma- eða vinnuskýrslur hefðu komið fram við rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins sem gætu skýrt efni sölureikninganna. Taldi ríkisskattstjóri sölureikningana ekki uppfylla formskilyrði reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila. Einnig vísaði ríkisskattstjóri til þess að fyrirsvarsmenn X ehf. og Y ehf., C og D, hefðu engar upplýsingar getað gefið um viðskipti félaganna við kæranda. Loks benti ríkisskattstjóri á að skýring fyrirsvarsmanns kæranda um að kærandi hefði greitt sölureikningana með reiðufé stæðist ekki þar sem úttekt reiðufjár af bankareikningi kæranda árin 2018 og 2019 næmi aðeins 11.101.772 kr. fyrra árið og 872.175 kr. síðara árið.  

Við skýrslutökur hjá skattrannsóknarstjóra ríkisins af fyrirsvarsmanni kæranda, B, kom fram að kærandi hefði á umræddum tíma m.a. starfað sem undirverktaki við viðhaldsframkvæmdir. X ehf. og Y ehf. hefðu verið undirverktakar kæranda. Sölureikningar X ehf. frá árinu 2018 væru aðallega vegna vinnu við múr- og málningarvinnu þótt þeir væru útgefnir vegna smíðavinnu. B kvaðst telja að um væri að ræða vinnu við þrjú eða fjögur verkefni og tiltók í því sambandi fjölbýlishús, fasteign og ótilgreint iðnaðarhúsnæði. Hann hefði stjórnað vinnu starfsmanna X ehf., sem hefðu verið á bilinu tveir til fimm útlendingar, en kvaðst ekki geta nafngreint neinn þeirra. Þeir hefðu skráð vinnustundir sínar á blöð í vinnuskúr en B taldi þau blöð ekki lengur vera til reiðu. Þá væru ekki fyrirliggjandi tilboð, vinnuskýrslur, samningar eða önnur gögn vegna verkanna. Sölureikningar X ehf. hefðu verið greiddir með reiðufé. B kvaðst ekki hafa skýringu á mismun fjárhæða reikninganna og úttekt reiðifjár af bankareikningi kæranda. Kvittanir eða önnur gögn væru líklega ekki fyrirliggjandi um greiðslurnar. Framburður B um viðskiptin við Y ehf. var í meginatriðum hliðstæður því sem hér hefur verið rakið.

Af hálfu kæranda er vísað til þessara skýringa fyrirsvarsmanns kæranda og byggt á því að þeim hafi ekki verið hnekkt með rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins. Í því sambandi er m.a. bent á að framburðir C og D, fyrirsvarsmanna X ehf. og Y ehf., kunni að litast af því að þeir hafi sjálfir verið til skattrannsóknar.

Taka má undir það með kæranda að meta verði skýrslugjöf C og D fyrir skattrannsóknarstjóra ríkisins með hliðsjón af stöðu þeirra og eigin hagsmunum. Allt að einu verður að telja að ríkisskattstjóri hafi á grundvelli umrædds framburðar og þess sem upplýst var við rannsókn skattrannsóknarstjóra ríkisins um greinda reikninga, sem út höfðu verið gefnir út í nafni X ehf. og Y ehf., haft réttmæta ástæðu til að vefengja að kærandi hefði í raun borið útgjöld samkvæmt þeim. Vegna vefengingar skattrannsóknarstjóra ríkisins og ríkisskattstjóra, þar sem m.a. var bent á að engin gögn lægju fyrir um verkefni X ehf. og Y ehf. fyrir kæranda, var ærið tilefni til þess að kærandi leitaðist við að styðja skýringar sínar með gögnum þar að lútandi. Kærandi hefur enga skilmerkilega grein gert fyrir þeim viðskiptum sem hér um ræðir, þar á meðal um verkefni þessara einkahlutafélaga í þágu kæranda og um ákvörðun endurgjalds samkvæmt sölureikningum þeirra, og ekki lagt fram nein gögn sem geta horft til staðfestingar á efni sölureikninganna, svo sem vinnu- eða tímaskýrslur. Þá liggur ekki fyrir hvernig greiðslum kæranda samkvæmt reikningum félaganna var farið, enda voru engin gögn um greiðslur til þeirra í bókhaldsgögnum kæranda eftir því sem kemur fram í skýrslu skattrannsóknarstjóra.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið þykir kærandi ekki hafa sýnt fram á frádráttarbærni umræddra útgjalda samkvæmt ákvæðum 1. mgr. 1. tölul. 31. gr. laga nr. 90/2003 í almennum skattskilum sínum gjaldárið 2019 né frádráttarbærni virðisaukaskatts (innskatts) samkvæmt grunnreglu 1. mgr. 16. gr. laga nr. 50/1988 árin 2018 og 2019.

Tekið skal fram að ríkisskattstjóri gat þess jafnframt til stuðnings ákvörðun sinni að ekki væru uppfyllt skilyrði 1. mgr., sbr. 7. mgr. 20. gr. laga nr. 50/1988 um sönnun fyrir frádrætti innskatts, enda bæri tilgreining hins selda ekki með sér að viðskiptin vörðuðu skattskylda starfsemi kæranda, sbr. 3. tölul. 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 50/1993, um bókhald og tekjuskráningu virðisaukaskattsskyldra aðila. Kærandi hefur af þessu tilefni mótmælt því að tilgreining á sölureikningunum sé ófullnægjandi og skírskotað í þeim efnum til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 52/2002 sem beri með sér að í úrskurðaframkvæmd sé ekki farið svo strangt í sakirnar um efni sölureikninga sem ríkisskattstjóri haldi fram. Vegna þessa er ástæða til að benda á að í nefndum úrskurði var eingöngu tekist á um það hvort heimild væri til innskattsfrádráttar á grundvelli sölureikninga með tiltekinni lýsingu á seldri þjónustu, sem skattstjóri taldi ekki fullnægja reglum um sönnun fyrir innskatti, en ekki var ágreiningur í málinu um réttmæti frádráttar í almennum skattskilum og raunar vefengdi skattstjóri ekki skýringar hlutaðeigandi aðila um tilefni útgjalda. Eins og atvikum og ágreiningsefnum er farið í máli kæranda þykir nefndur úrskurður ekki hafa þá þýðingu um niðurstöðu málsins sem umboðsmaður kæranda telur.

Samkvæmt framangreindu er kröfu kæranda um ógildingu hins kærða úrskurðar hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfu kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja