Úrskurður yfirskattanefndar

  • Tekjufallsstyrkur

Úrskurður nr. 170/2021

Lög nr. 118/2020, 4. gr. 1. tölul.  

Í máli þessu vegna umsóknar um tekjufallsstyrk taldi yfirskattanefnd að skýra yrði heimild laga til að miða mat á tekjufalli rekstraraðila við annað tímabil en sjö mánaða tímabil á árinu 2019 svo að um væri að ræða heimild við sérstakar aðstæður til að byggja ákvörðun slíks styrks á samanburði við tekjur á styttra tímabili frá ársbyrjun 2019 til marsloka 2020. Gæti því ekki að lögum komið til viðmiðunar við eldri tímabil. Þá væri enga heimild að finna í lögum nr. 118/2020 til þess að miða tekjufall rekstraraðila við áætlun tekna, svo sem byggt var á af hálfu kæranda. Var kröfum kæranda hafnað.

Ár 2021, miðvikudaginn 27. október, er tekið fyrir mál nr. 117/2021; kæra A ehf., dags. 15. júní 2021, vegna ákvörðunar um tekjufallsstyrk. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 15. júní 2021, sbr. greinargerð, dags. 23. júlí 2021, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 19. mars 2021, að hafna umsókn kæranda um tekjufallsstyrk samkvæmt II. kafla laga nr. 118/2020, um tekjufallsstyrki. Ákvörðun ríkisskattstjóra var tekin í kjölfar umsóknar kæranda, dags. 11. janúar 2021, og fyrirspurnar ríkisskattstjóra, dags. 11. febrúar 2021, og svarbréfs kæranda, dags. 22. febrúar 2021. Byggðist höfnun ríkisskattstjóra á því að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 1. tölul. 4. gr. laga nr. 118/2020 um a.m.k. 40% tekjufall á tímabilinu 1. apríl til 31. október 2020 vegna heimsfaraldurs kórónuveiru eða ráðstafana stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar. Í ákvörðun sinni rakti ríkisskattstjóri fyrrgreind ákvæði 1. tölul. 4. gr. laga nr. 118/2020 og benti á að samkvæmt þeim væri meginregla við mat á tekjufalli að bera tekjur rekstraraðila á tímabilinu 1. apríl til 31. október 2020 saman við sjö mánaða tekjur eða 7/12 hluta af heildartekjum ársins 2019, nema starfsemi hefði hafist eftir 1. apríl 2019 eða um nýstofnaðan atvinnurekstur væri að ræða, þ.e. starfsemi hefði staðið skemur en sjö heila almanaksmánuði í lok árs 2020. Þá taldi ríkisskattstjóri að byggja mætti viðmiðunartekjur á öðru tímabili en 1. apríl til 31. október 2020 samkvæmt 4. málsl. 1. tölul. 4. gr. laga nr. 118/2020, svo sem kærandi hefði óskað eftir í umsókn sinni, en kærandi vildi nota tímabilið 3. febrúar til 31. mars 2020. Ríkisskattstjóri benti hins vegar á að komið hefði fram að kærandi hefði ekki haft neinar tekjur svo nokkru næmi á því tímabili. Tók ríkisskattstjóri fram að ekki væri heimilt að byggja á áætluðum tekjum eins og kærandi hefði gert í umsókn sinni.

Í kæru til yfirskattanefndar, dags. 15. júní 2021, sbr. greinargerð, dags. 23. júlí 2021, er þess krafist að ákvörðun ríkisskattstjóra verði felld úr gildi í heild sinni og að tekjufallsstyrkur verði afgreiddur í samræmi við umsókn kæranda. Er tekið fram í kærunni að með kröfugerð þessari sé átt við að annað tveggja verði lagt til grundvallar, þ.e. „að viðmiðunartímabil verði áætlunin eða tekjuárið 2018“, eins og segir í kærunni. Þá er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með síðari breytingum.

Í kærunni er rakið að kærandi hafi rekið gistiheimili frá árinu 2000. Í lok ársins 2018 hafi eigendur kæranda ákveðið að ráðast í byggingu nýs hótels og rekstri gistiheimilisins því verið hætt. Fyrirhugað hafi verið að opna hótelið í febrúar 2020, en vegna seinkunar á framkvæmdum hafi ekki tekist að opna fyrr en í apríl sama ár. Örfáum dögum eftir opnun hafi hins vegar þurft að segja upp starfsfólki vegna áhrifa heimsfaraldurs, enda hafi þá verið orðið ljóst að faraldurinn gengi ekki yfir á nokkrum vikum og afbókanir vegna sumarsins verið farnar að berast. Einu tekjur kæranda á árinu 2020 hafi verið vegna einstaks verkefnis, þ.e. útleigu herbergja síðla árs fyrir aðila á vegum X. Þá kemur fram að kærandi byggi kröfu sína á heimild í 4. málsl. 1. tölul. 4. gr. laga nr. 118/2020 sem kveði á um að heimilt sé að miða við annað tímabil við ákvörðun á tekjufallsstyrk. Að mati kæranda sé þannig ástatt í málinu. Kærandi hafi lagt fram raunhæfar áætlanir sem séu varfærnislegar þegar litið sé til tekna í október 2020. Ekki séu sérstakar leiðbeiningar um hvernig slíku tímabili skuli hagað. Tekjur kæranda á árinu 2020 hafi numið ... kr. og þegar litið sé til tekna á árinu 2018, sem hafi numið ... kr., sé ljóst að hreint tekjufall milli þessara ára sé um 43%. Sé miðað við eitthvert sjö mánaða tímabil á árinu 2018 sé tekjufall 100% miðað við árið 2020, þ.e. sé litið framhjá fyrrgreindu verkefni síðla árs 2020. Í umsókn kæranda um tekjufallsstyrk hafi verið byggt á áætlunum sem hafi gert ráð fyrir því að meðaltekjur hvers mánaðar á ársgrundvelli væru um ... milljónir króna. Sú nálgun ríkisskattstjóra, að hafna viðmiði um öflun eigin tekna í einn mánuð, komi niður á möguleika kæranda til að fá tekjufallsstyrk og fari gegn meðalhófi og markmiði laganna, sem sé að koma til móts við tekjufall rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Að mati kæranda fari afstaða ríkisskattstjóra einnig gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og stjórnarskrár lýðveldisins Íslands. Ríkisskattstjóri hafi talið að miða bæri við raunverulegar fjárhæðir á árinu 2019, en í tilviki kæranda hafi engar tekjur fallið til á því ári. Kærandi telji að samanburðartímabil verði að meta á grundvelli þess sem raunhæft sé, sem í tilviki kæranda sé rekstrarárið 2018. Bendir kærandi á að ríkisskattstjóri hafi einnig litið framhjá því að kærandi hafi fengið fyrirgreiðslu sem hið opinbera hafi staðið fyrir vegna fjárhagserfiðleika sem hafi skapast vegna heimsfaraldurs kórónuveiru.

II.

Með bréfi, dags. 20. september 2021, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að úrskurður embættisins verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi, dags. 30. september 2021, hefur kærandi lagt fram athugasemdir vegna umsagnar ríkisskattstjóra og ítrekað gerðar kröfur.

III.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 118/2020, um tekjufallsstyrki, gilda lög þessi um einstaklinga og lögaðila sem stunda tekjuskattsskyldan atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, hófu starfsemina fyrir 1. apríl 2020 og bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi samkvæmt 1. eða 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Er markmið laganna að viðhalda atvinnustigi og efnahagsumsvifum með því að styðja við rekstraraðila sem hafa orðið fyrir tímabundnu tekjufalli vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og aðgerða stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar, sbr. 2. gr. laganna. Í II. kafla laga nr. 118/2020 er fjallað um greiðslu svonefndra tekjufallsstyrkja úr ríkissjóði, en samkvæmt 4. gr. laga þessara á rekstraraðili sem fellur undir lögin rétt á slíkum styrk að uppfylltum skilyrðum sem talin eru í þremur töluliðum í lagagreininni.

Samkvæmt 1. tölul. 4. gr. laga nr. 118/2020 er skilyrði fyrir greiðslu tekjufallsstyrks að tekjur rekstraraðila á tímabilinu 1. apríl til 31. október 2020 hafi verið a.m.k. 40% lægri en meðaltekjur hans á sjö mánaða tímabili 2019 og tekjufallið megi rekja til heimsfaraldurs kórónuveiru eða ráðstafana stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar. Hafi rekstraraðili hafið starfsemi eftir 1. apríl 2019 skulu tekjur hans bornar saman við tekjur hans fyrstu sjö heilu almanaksmánuði sem hann starfaði. Hafi hann starfað skemur en sjö heila almanaksmánuði í lok mars 2020 skal umreikna tekjur þann tíma sem hann starfaði til loka mars 2020 í 214 daga viðmiðunartekjur. Við sérstakar aðstæður má nota annað tímabil til viðmiðunar sýni rekstraraðili fram á að það gefi betri mynd af tekjufalli hans en viðmiðunartímabil samkvæmt 1.-3. málsl. ákvæðisins.

Síðastnefnt ákvæði 4. málsl. 1. tölul. 4. gr. laga nr. 118/2020, um að heimilt sé við sérstakar ástæður að nota annað tímabil til viðmiðunar við ákvörðun tekjufallsstyrks en viðmiðunartímabil samkvæmt 1.-3. málsl. ákvæðisins, var ekki að finna í upphaflegu frumvarpi til laga nr. 118/2020, en var tekið upp í meðförum Alþingis. Í nefndaráliti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis var gerð grein fyrir breytingu þessari í tengslum við þær breytingar á frumvarpinu að slaka á skilyrði um lágmark tekjufalls rekstraraðila (úr 50% í 40%) og gera ráð fyrir meiri sveigjanleika varðandi samanburðartímabil við mat á tekjufalli í einstökum tilvikum. Kemur eftirfarandi fram um þessar breytingar í nefndaráliti, sbr. þskj. 259 á 151. löggjafarþingi 2020-2021:

„Jafnframt leggur nefndin til að í stað þess að tekjufall á tímabilinu 1. apríl til 31. október 2020 verði miðað við tekjur rekstraraðila sömu mánuði á árinu 2019 skuli miða við meðaltekjur hans á sjö mánaða tímabili á árinu 2019. Er þannig leitast við að koma til móts við rekstraraðila þar sem starfsemi er sveiflukennd eftir árstíðum auk þess sem fyrirkomulagið er einfaldara í framkvæmd. Þó er lagt til að heimilt verði að notast við annað viðmiðunartímabil ef rekstraraðili sýnir fram á að þannig fáist betri mynd af raunverulegu tekjufalli hans. Þetta getur t.d. átt við í tilviki einyrkja sem hefur verið í fæðingarorlofi eða veikindaleyfi stóran hluta rekstrarársins 2019. Í slíku tilviki er á herðum rekstraraðila að tilgreina annað viðmiðunartímabil og sýna fram á rök fyrir því að það gefi betri mynd af tekjufalli hans.“

Í upphaflegu frumvarpi til laga nr. 118/2020 var gengið út frá því að mat á tekjufalli við ákvörðun tekjufallsstyrkja tæki ávallt mið af samanburði við tekjur rekstraraðila á árinu 2019, eftir atvikum með umreikningi til loka mars 2020, sbr. 1. tölul. 4. gr. frumvarpsins. Þá var sömuleiðis gert að skilyrði í frumvarpinu að tekjur umsækjanda á rekstrarárinu 2019 næðu tilteknu lágmarki, sbr. 2. tölul. 4. gr. þess. Síðastnefnt ákvæði frumvarpsins var fellt brott í meðförum Alþingis með þeim rökum, sbr. nefndarálit efnahags- og viðskiptanefndar, að tilgangur þess væri orðinn hverfandi í ljósi annarra breytinga á frumvarpinu auk þess sem ákvæðið gæti flækt framkvæmd að óþörfu, einkum í tilviki rekstraraðila sem ekki hefðu verið starfandi allt rekstrarárið 2019. Að þessu athuguðu og með skírskotun til fyrrgreindra athugasemda í nefndaráliti verður að skýra ákvæði 4. málsl. 1. tölul. 4. gr. laga nr. 118/2020 svo að það feli í sér heimild við sérstakar aðstæður til að byggja ákvörðun tekjufallsstyrks á samanburði við tekjur á styttra tímabili frá ársbyrjun 2019 til marsloka 2020 en leiðir af reglum 1.-3. málsl. sama töluliðar.

Kærandi hefur rekið gistiheimili frá árinu 2000. Í bréfi kæranda til ríkisskattstjóra, dags. 22. febrúar 2021, kemur fram að í kjölfar eigendaskipta að kæranda hafi nýir eigendur ákveðið að umbreyta rekstrinum og hefja byggingu nýs hótels á lóð félagsins. Hafi rekstri gistiheimilis verið hætt á árinu 2018 og framkvæmdir við byggingu nýs hótels hafist um sumarið 2019. Fyrir liggur í málinu að engar tekjur féllu til í starfsemi kæranda á árinu 2019. Í bréfi kæranda greinir að hið nýja hótel hafi loks opnað um vorið 2020, en vegna áhrifa heimsfaraldurs hafi kærandi þurft að segja upp öllu starfsfólki 1. maí sama ár. Einu rekstrartekjur félagsins á árinu 2020, um ... milljónir króna, séu til komnar vegna verkefnis fyrir X síðla árs.

Kröfur kæranda lúta að því að við ákvörðun tekjufallsstyrks félagsins verði miðað við áætlaðar tekjur af rekstri á tímabilinu 3. febrúar til 31. mars 2020 og þær umreiknaðar í 214 daga viðmiðunartekjur, sbr. 4. málsl. 1. tölul. 4. gr. laga nr. 118/2020, enda sé um að ræða sérstakar aðstæður í skilningi þess ákvæðis. Mun sú áætlun taka mið af rekstrartekjum ársins 2020, þ.e. fyrrgreindum tekjum sem féllu til vegna verkefnis síðla þess árs. Þótt fallist yrði á með kæranda að umrætt ákvæði ætti við í tilviki félagsins verður ekki framhjá því litið að hvorki í ákvæðinu sjálfu né öðrum ákvæðum laga nr. 118/2020 er að finna neina heimild til þess að miða tekjufall rekstraraðila við slíka áætlun tekna sem byggt er á af hálfu kæranda. Samkvæmt orðskýringu í 6. tölul. 3. gr. laga nr. 118/2020 eru tekjur samkvæmt lögunum skilgreindar sem svo að um sé að ræða skattskyldar tekjur samkvæmt B-lið 7. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003, að frátöldum hagnaði af sölu varanlegra rekstrarfjármuna. Þá getur ekki að lögum komið til viðmiðunar við eldri tímabil en frá ársbyrjun 2019 til marsloka 2020 við ákvörðun tekjufallsstyrks, sbr. framangreinda umfjöllun um skýringu á ákvæði 4. málsl. 1. tölul. 4. gr. laga nr. 118/2020. Með vísan til framanritaðs verður að hafna kröfum kæranda í máli þessu. Samkvæmt þeim úrslitum málsins verður og að hafna málskostnaðarkröfu kæranda, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja