Úrskurður yfirskattanefndar

  • Tekjufallsstyrkur

Úrskurður nr. 196/2021

Lög nr. 118/2020, 4. gr. 1. tölul.  

Kærandi í máli þessu, sem var einkahlutafélag, var dótturfélag X ehf. Kærandi krafðist þess að við mat á tekjufalli félagsins milli ára við ákvörðun tekjufallsstyrks yrði miðað við tekjur beggja félaga, þ.e. kæranda og X ehf., á viðmiðunartímabili á árinu 2019 þar sem kærandi hefði tekið yfir rekstur X ehf., þ.e. rekstur gistiheimilis og ferðaþjónustu, síðla árs 2019. Í úrskurði yfirskattanefndar kom fram að um væri að ræða tvo sjálfstæða lögaðila og rekstraraðila og að í lögum um tekjufallsstyrki væri engum ákvæðum til að dreifa sem gerðu ráð fyrir sameiginlegri umsókn fleiri en eins rekstraraðila þannig að við mat á tekjufalli væri tækt að miða við tekjur fleiri en eins aðila. Var kröfum kæranda hafnað.

Ár 2021, miðvikudaginn 8. desember, er tekið fyrir mál nr. 138/2021; kæra A ehf., dags. 28. júlí 2021, vegna ákvörðunar um tekjufallsstyrk. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Þórarinn Egill Þórarinsson. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 28. júlí 2021, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar ákvörðun ríkisskattstjóra, dags. 4. maí 2021, að hafna umsókn kæranda um tekjufallsstyrk samkvæmt II. kafla laga nr. 118/2020, um tekjufallsstyrki. Ákvörðun ríkisskattstjóra var tekin í framhaldi af umsókn kæranda, sem mun hafa borist 15. mars 2021, og byggðist höfnun embættisins á því að kærandi uppfyllti ekki skilyrði 1. tölul. 4. gr. laga nr. 118/2020 um a.m.k. 40% tekjufall á tímabilinu 1. apríl til 31. október 2020 vegna heimsfaraldurs kórónuveiru eða ráðstafana stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar. Í ákvörðun sinni vísaði ríkisskattstjóri til þess að í umsókn kæranda kæmi fram að rekstur félagsins hefði verið sameinaður rekstri annars félags, X ehf., í október 2019 undir nafni og kennitölu kæranda. Væri tekið fram í umsókninni að ekki hefði orðið eiginlegt tekjufall í sameinuðu félagi, en ljóst væri að ef félögin tvö hefðu ekki sameinast og starfsemi þeirra hefði verið rekin áfram í tveimur aðskildum félögum þá ættu þau að öllum líkindum rétt á tekjufallsstyrk, enda hefðu þau bæði orðið fyrir a.m.k. 40% tekjufalli sökum efnahagsáhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru. Lét kærandi fylgja með útreikning þess efnis í umsókninni. Í ákvörðun ríkisskattstjóra voru reifuð ákvæði 1. gr., 1. tölul. 3. gr. og 1. tölul. 4. gr. laga nr. 118/2020 og talið að skýra bæri ákvæði laganna á þann hátt að litið væri til atvinnureksturs eins og sama lögaðila, þ.e. heildartekna þess atvinnurekstrar sem viðkomandi lögaðili hefði stundað á sinni kennitölu. Ekki væri sérstakri heimild fyrir að fara í lögum nr. 118/2020 til að meta tekjufall með samanburði á tekjum félags við sameiginlegar tekjur þess og annarra lögaðila á árinu 2019, líkt og krafist væri í umsókn kæranda. Að mati ríkisskattstjóra væri litið svo á að slík heimild hefði þurft að koma fram með skýrum hætti í lögunum. Yrði því að hafna beiðni kæranda.

Í kæru til yfirskattanefndar er þess krafist að hinn kærði úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi og að kæranda verði ákvarðaður tekjufallsstyrkur í samræmi við umsókn félagsins. Í kærunni eru málavextir reifaðir. Kemur fram að kærandi sé dótturfélag X ehf. Rekstri félaganna hafi verið skipt þannig að kærandi hafi rekið veitingaþjónustu en X ehf. gistiþjónustu. Í október 2019 hafi rekstur félaganna verið sameinaður undir nafni kæranda og hafi meginmarkmið með sameiningu rekstrar félaganna verið sá að auka þjónustustig og halda starfsfólki í starfi, en við sameininguna hafi allir starfsmenn X ehf. flust til kæranda. Kærandi telji sig eiga rétt á tekjufallsstyrk á grundvelli 1. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 118/2020, þar sem ríkisskattstjóra beri að líta til tekna að baki tilteknum rekstri þegar tekjufall sé reiknað út, en ekki til tekna sem hafi tilheyrt tiltekinni kennitölu. Þá beri að líta til markmiðsákvæðis laganna, sbr. 2. gr. þeirra, en ef ekki hefði komið til sameiningar á rekstri félaganna, sem m.a. hafi verið gerð með það að markmiði að komast hjá því að segja starfsfólki upp vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, hefðu bæði félögin að öllum líkindum átt rétt á tekjufallsstyrk þar sem tekjufall þeirra hefði numið að minnsta kosti 40%, sem rekja mætti til heimsfaraldursins. Samkvæmt útreikningum kæranda hafi tekjufall beggja félaga numið 43% á tímabilinu 1. apríl til 31. október 2020 miðað við meðaltekjur á sjö mánaða tímabili 2019. Kærandi andmælir rökum ríkisskattstjóra og telur að hvergi í lögskýringargögnum með lögum nr. 118/2020 sé að finna neitt sem kveði á um að umsókn um tekjufallsstyrk skuli einskorðast við einstaka kennitölu. Að mati kæranda verði að túlka lögin á þann hátt að horft sé til hlutfalls tekna milli áranna 2019 og 2020 í einstaka rekstri þrátt fyrir að rekstur hafi síðar sameinast öðrum undir einni kennitölu.

II.

Með bréfi, dags. 20. september 2021, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að úrskurður embættisins verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi, dags. 12. október 2021, hefur kærandi komið á framfæri athugasemdum í tilefni af umsögn ríkisskattstjóra. Er því andmælt að engar málsástæður hafi komið fram sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra. Er þess því krafist að hinn kærði úrskurður verði ógildur.

III.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 118/2020, um tekjufallsstyrki, gilda lög þessi um einstaklinga og lögaðila sem stunda tekjuskattsskyldan atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, hófu starfsemina fyrir 1. apríl 2020 og bera ótakmarkaða skattskyldu hér á landi samkvæmt 1. eða 2. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Er markmið laganna að viðhalda atvinnustigi og efnahagsumsvifum með því að styðja við rekstraraðila sem hafa orðið fyrir tímabundnu tekjufalli vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og aðgerða stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar, sbr. 2. gr. laganna. Í II. kafla laga nr. 118/2020 er fjallað um greiðslu svonefndra tekjufallsstyrkja úr ríkissjóði, en samkvæmt 4. gr. laga þessara á rekstraraðili sem fellur undir lögin rétt á slíkum styrk að uppfylltum skilyrðum sem talin eru upp í þremur töluliðum í lagagreininni.

Samkvæmt 1. tölul. 4. gr. laga nr. 118/2020 er skilyrði fyrir greiðslu tekjufallsstyrks að tekjur rekstraraðila á tímabilinu 1. apríl til 31. október 2020 hafi verið a.m.k. 40% lægri en meðaltekjur hans á sjö mánaða tímabili 2019 og tekjufallið megi rekja til heimsfaraldurs kórónuveiru eða ráðstafana stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar. Hafi rekstraraðili hafið starfsemi eftir 1. apríl 2019 skulu tekjur hans bornar saman við tekjur hans fyrstu sjö heilu almanaksmánuði sem hann starfaði. Hafi hann starfað skemur en sjö heila almanaksmánuði í lok mars 2020 skal umreikna tekjur þann tíma sem hann starfaði til loka mars 2020 í 214 daga viðmiðunartekjur. Við sérstakar aðstæður má nota annað tímabil til viðmiðunar sýni rekstraraðili fram á að það gefi betri mynd af tekjufalli hans en viðmiðunartímabil samkvæmt 1.-3. málsl. ákvæðisins. Samkvæmt orðskýringu í 3. gr. laga nr. 118/2020 er með tekjum átt við skattskyldar tekjur samkvæmt B-lið 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, að frátöldum hagnaði af sölu varanlegra rekstrarfjármuna, sbr. 6. tölul. lagagreinarinnar.

Kærandi í máli þessu rak veitingasölu og verslun að M á árinu 2019. Í kæru til yfirskattanefndar kemur fram að í október sama ár hafi rekstur móðurfélags kæranda, X ehf., sem fólst í starfrækslu gisti- og ferðaþjónustu á sama stað, verið sameinaður rekstri kæranda og hafi starfsmenn fyrrnefnda félagsins þá orðið starfsmenn kæranda. Verður ráðið að starfsemi X ehf. sé eftir þá breytingu eingöngu fólgin í eignarhaldi fasteignar og útleigu hennar til kæranda. Krafa kæranda í málinu lýtur að því að við mat þess, hvort skilyrði 1. tölul. 4. gr. laga nr. 118/2020 um a.m.k. 40% tekjufall milli áranna 2019 og 2020 sé uppfyllt í tilviki kæranda, verði litið til tekna beggja félaganna, þ.e. kæranda og móðurfélagsins X ehf., á sjö mánaða tímabili á árinu 2019, en ekki einungis til tekna kæranda á tímabilinu. Þessu til stuðnings er í kærunni skírskotað til markmiðs laga nr. 118/2020, sbr. 2. gr. laganna, og bent á að ef ekki hefði komið til sameiningar á rekstri kæranda og X ehf. hefðu bæði félögin að öllum líkindum átt rétt á tekjufallsstyrk. Er gerð nánari töluleg grein fyrir þessu í kærunni.

Í málinu er ekki um að ræða samruna kæranda og X ehf. eftir reglum félagaréttar, sbr. XIV. kafla laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög. Liggur og fyrir að bæði félögin hafa með höndum þá starfsemi sem hér að framan greinir, þ.e. kærandi rekstur hótels og ferðaþjónustu og X ehf. eignarhald og útleigu fasteignar. Er því um að ræða tvo sjálfstæða lögaðila og rekstraraðila í skilningi laga nr. 118/2020, sbr. 1. gr. laganna og skilgreiningu í 3. tölul. 3. gr. þeirra, sem hvor um sig getur átt rétt á tekjufallsstyrk að uppfylltum skilyrðum laganna. Í lögum nr. 118/2020 er engum ákvæðum til að dreifa sem gera ráð fyrir sameiginlegri umsókn fleiri en eins rekstraraðila um tekjufallsstyrk þannig að við mat á tekjufalli samkvæmt 1. tölul. 4. gr. laga sé tækt að miða við tekjur fleiri en eins aðila. Að framangreindu athuguðu verður að fallast á með ríkisskattstjóra að skilyrði séu ekki að lögum til að miða mat á tekjufalli kæranda við meðaltekjur beggja félaga, þ.e. kæranda og X ehf., á árinu 2019 áður en til þeirra breytinga á rekstri félaganna kom sem í málinu greinir. Verður því að hafna kröfu kæranda. Samkvæmt þeim úrslitum málsins verður ennfremur að hafna málskostnaðarkröfu kæranda, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja