Úrskurður yfirskattanefndar

  • Vantaldar tekjur
  • Launauppgjöf
  • Málsmeðferð

Úrskurður nr. 223/2021

Gjaldár 2021

Lög nr. 90/2003, 7. gr. A-liður 1. tölul., 95. gr., 96. gr.  

Sú breyting ríkisskattstjóra á skattframtali kæranda, að hækka tilfærð laun frá X ehf., sem varð gjaldþrota á árinu 2020, var ómerkt með því að ríkisskattstjóri gætti þess ekki að gefa kæranda kost á að koma á framfæri skýringum sínum á fjárhæð launanna. Var m.a. bent á að upplýsingum á innsendum launamiða frá X ehf. og í staðgreiðslukerfi skattyfirvalda bæri ekki saman um fjárhæð launa kæranda frá X ehf. á árinu 2020.

 

Ár 2021, miðvikudaginn 22. desember, er tekið fyrir mál nr. 196/2021; kæra A, dags. 10. nóvember 2021, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2021. Í málinu úrskurða Ólafur Ólafsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Kæruefni í máli þessu, sbr. kæru til yfirskattanefndar, dags. 10. nóvember 2021, er ákvörðun ríkisskattstjóra að hækka launatekjur í skattframtali kæranda árið 2021 frá X ehf. úr 1.092.626 kr. í 1.657.682 kr. Leiddi þetta til hækkunar tekna í reit 21 í skattframtalinu úr 2.252.292 kr. í 2.817.348 kr. Af hálfu kæranda er þess krafist að launafjárhæð verði lækkuð og færð til samræmis við skattframtal kæranda sem hann hafi staðið skil á.

II.

Ríkisskattstjóri tilkynnti kæranda um hina kærðu breytingu á skattframtali hans með bréfi, dags. 20. maí 2021, sbr. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Byggði ríkisskattstjóri á því að samkvæmt upplýsingum frá launagreiðanda kæranda næmu laun kæranda hærri fjárhæð en talin væri fram í skattframtali árið 2021. Þar sem ekki yrði annað séð en að um óyggjandi upplýsingar væri að ræða hefði mismunurinn verið færður til tekna. Um skattskyldu vísaði ríkisskattstjóri til 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Þá kom fram að frádráttarbært iðgjald í lífeyrissjóð væri hækkað til samræmis við hækkun launatekna.

Umboðsmaður kæranda mótmælti breytingu ríkisskattstjóra með kæru, dags. 28. maí 2021, á þeim forsendum að launagreiðandi kæranda hefði orðið gjaldþrota í september 2020 og kærandi engin laun fengið greidd fyrir þann mánuð. Meðfylgjandi væri afrit af síðasta launaseðli (ágúst 2020) og hefði verið byggt á launafjárhæð samkvæmt honum við framtalsgerð. Samkvæmt staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra væru laun kæranda 1.177.580 kr. Launaupplýsingar frá skiptastjóra þrotabús launagreiðanda væru ekki réttar, en svo virtist sem hann hefði ekki verið með réttar upplýsingar í höndum.

Í tilefni kæru beindi ríkisskattstjóri því til kæranda með bréfi, dags. 23. september 2021, að leggja fram yfirlit launareiknings þar sem allar greiðslur frá launagreiðanda kæranda kæmu fram svo og að lögð yrði fram staðfesting frá Ábyrgðasjóði launa eða stéttarfélagi ef um væri að ræða ógreidd laun sem væru til innheimtu. Af hálfu kæranda var þessu bréfi ríkisskattstjóra ekki svarað og synjaði ríkisskattstjóri kærunni við svo búið með vísan til svarleysis kæranda, sbr. kæruúrskurð, dags. 2. nóvember 2021.

III.

Í kæru, dags. 10. nóvember 2021, greinir frá því að ekki hafi verið unnt að afla þeirra gagna sem ríkisskattstjóri hafi óskað eftir í bréfi, dags. 23. september 2021, innan svarfrests. Launagreiðandi kæranda hafi orðið gjaldþrota síðari hluta september 2020 og hafi kærandi ekki fengið greidd laun fyrir þann mánuð. Við framtalsgerð hafi verið byggt á upplýsingum í launaseðli kæranda fyrir ágúst 2020 þar sem samtala launa hafi verið tilgreind 1.092.626 kr. Launagreiðslur frá launagreiðandanum hafi ekki verið forskráðar í skattframtali.

Með kröfulýsingu í þrotabú launagreiðandans 10. nóvember 2020 hafi m.a. verið gerð krafa um ógreidd laun fyrir september 2020 auk annarra krafna.

IV.

Með bréfi, dags. 7. desember 2021, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn um kæruna. Ríkisskattstjóri tekur fram að með hliðsjón af þeim lagarökum er búi að baki 12. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sé rétt að vísa kærunni til ríkisskattstjóra til uppkvaðningar nýs úrskurðar. Er bent á að kærandi hafi nú lagt fram ný gögn og rökstuðning í málinu.

V.

Ágreiningsefni máls þessa er sú ákvörðun ríkisskattstjóra að hækka launatekjur kæranda í reit 21 í skattframtali árið 2021 frá X ehf. úr 1.092.626 kr. í 1.657.682 kr. Hvorki í tilkynningu ríkisskattstjóra, dags. 20. maí 2021, né í kæruúrskurði hans, dags. 2. nóvember 2021, þar sem ákvörðunin var látin standa óhögguð, kemur óyggjandi fram hvaða gögn voru að baki þessari breytingu ríkisskattstjóra, en ráðið verður að ríkisskattstjóri hafi byggt á launamiða frá þrotabúi umrædds einkahlutafélags. Eins og fram er komið fór ríkisskattstjóri með hina kærðu breytingu eftir 3. málsl. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Þar er mælt svo fyrir að ríkisskattstjóri geti leiðrétt fjárhæðir einstakra liða ef þeir eru í ósamræmi við gildandi lög og fyrirmæli skattyfirvalda, svo og einstaka liði framtals ef telja má að óyggjandi upplýsingar séu fyrir hendi, en gera skuli skattaðila viðvart um slíkar breytingar. Þessa heimild ríkisskattstjóra ber að skýra með hliðsjón af 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, um skyldu stjórnvalds til að sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því, og 13. gr. sömu laga um rétt aðila stjórnsýslumáls til að tjá sig um efni þess áður en stjórnvald tekur ákvörðun í því, enda liggi ekki fyrir í gögnum málsins afstaða hans eða slíkt sé augljóslega óþarft. Eins og fram er komið mun ríkisskattstjóri hafa byggt hina kærðu hækkun launa í skattframtali kæranda árið 2021 á launauppgjöf launagreiðanda sem gerð var samkvæmt þeirri lagaskyldu sem kveðið er á um í 1. mgr. 92. gr. laga nr. 90/2003. Af gögnum málsins verður á hinn bóginn ráðið að upplýsingum á innsendum launamiða umrædds launagreiðanda kæranda og upplýsingum í staðgreiðslukerfi skattyfirvalda bar ekki saman um fjárhæð launa kæranda frá honum árið 2020. Eins og málið lá fyrir ríkisskattstjóra samkvæmt þessu verður ekki talið að málið hafi verið nægjanlega upplýst áður en ríkisskattstjóri ákvað hina kærðu breytingu með tilkynningu sinni, dags. 20. maí 2021, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003 og rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, auk þess sem gefa varð kæranda kost á að neyta andmælaréttar síns, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003 og 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt þessu voru ekki skilyrði til þess að ríkisskattstjóri færi með umrædda breytingu eftir 3. málsl. 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/2003, heldur bar honum að fylgja ákvæðum 1. og 3. mgr. 96. gr. sömu laga teldi hann ástæðu til að hagga við skattskilum kæranda að þessu leyti.

Að framangreindu virtu þykir verða að ómerkja hina kærðu breytingu ríkisskattstjóra og byggja að svo stöddu á skattframtali kæranda árið 2021 óbreyttu að því er varðar launafjárhæð í reit 21 sem verður 2.252.292 kr. Jafnframt lækkar frádráttur í reit 162 úr 112.694 kr. í 90.091 kr. Með úrskurði þessum er engin efnisafstaða tekin til ágreiningsefnisins.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hin kærða breyting ríkisskattstjóra er felld úr gildi.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja