Úrskurður yfirskattanefndar

  • Álag vegna staðgreiðsluskila
  • Greiðslufrestur
  • Málsmeðferð

Úrskurður nr. 13/2022

Staðgreiðsla 2020

Lög nr. 45/1987, 28. gr. 6. mgr., bráðabirgðaákvæði VII (brl. nr. 25/2020, 2. gr.)   Lög nr. 37/1993, 22. gr.  

Kærandi, sem var einkahlutafélag, sótti um frestun á skilum greiðslna vegna staðgreiðslu af launum greiðslutímabilin mars, apríl og maí 2020, en var á árinu 2021 ákvarðað álag vegna vangreiddrar staðgreiðslu umrædd greiðslutímabil. Krafa kæranda um niðurfellingu álags var tekin til greina með úrskurði yfirskattanefndar, m.a. þar sem verulegir annmarkar þóttu vera á rökstuðningi ríkisskattstjóra í málinu.

 

 

Ár 2022, miðvikudaginn 2. febrúar, er tekið fyrir mál nr. 160/2021; kæra A ehf., dags. 26. ágúst 2021, vegna ákvörðunar staðgreiðslu opinberra gjalda árið 2020. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Anna Dóra Helgadóttir og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 26. ágúst 2021, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 15. júní 2021. Kæruefnið er sú ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt úrskurðinum að hafna beiðni kæranda um niðurfellingu álags vegna síðbúinna skila á staðgreiðslu opinberra gjalda. Af hálfu kæranda er þess krafist að álag verði fellt niður á grundvelli 6. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Þá er þess krafist að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

II.

Helstu málavextir eru þeir að með erindi til ríkisskattstjóra, dags. 18. maí 2021, fór kærandi fram á að álag á staðgreiðslu opinberra gjalda vegna greiðslutímabilanna mars, apríl og maí 2020 yrði fellt niður með vísan til 6. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda. Í erindinu kom fram að kærandi hefði nýtt sér úrræði stjórnvalda varðandi frestun á greiðslu staðgreiðslu og tryggingagjalds á tímabilinu mars-maí 2020 sem hluta af Covid-19 aðgerðum stjórnvalda. Hefði kærandi gert greiðslusamkomulag við ríkisskattstjóra 13. janúar 2021, en hinar frestuðu greiðslur hefðu verið á eindaga 15. sama mánaðar. Um væri að ræða greiðslur að fjárhæð um 50 milljónir króna. Kærandi hefði staðið við greiðslur eftir samkomulaginu og greiðslur því aldrei farið í vanskil. Á þessum tíma hefði kæranda verið tjáð að vextir féllu á greiðslusamkomulagið en félagið ekki verið upplýst um að jafnframt kæmi til ákvörðunar álags. Hefði kærandi vitað að á höfuðstólinn yrði lagt álag að fjárhæð 4 milljónir króna hefði kærandi leitað annarra úrræða hjá viðskiptabanka félagsins. Ekki væru gerðar neinar athugasemdir við greiðslu vaxta, en kærandi gæti ekki fallist á að reiknað væri álag á staðgreiðslu. Það gæti ekki talist sanngjarnt þegar haft væri í huga hvers eðlis málið væri. Var vísað til 6. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987 og tekið fram að þær aðstæður sem hefðu verið fyrir hendi á árinu 2020 væru gildar ástæður til endurskoðunar. Færi því kærandi fram á að álag yrði bakfært.

Með úrskurði, dags. 15. júní 2021, hafnaði ríkisskattstjóri beiðni kæranda um niðurfellingu álags. Í úrskurðinum rakti ríkisskattstjóri ákvæði 1. og 2. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987 um álag á vanskilafé. Fella mætti niður álag ef launagreiðandi færði gildar ástæður sér til afsökunar og mæti ríkisskattstjóri það í hverju einstöku tilviki hvað telja skyldi gildar ástæður í því sambandi, sbr. 6. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987. Að mati ríkisskattstjóra yrði eigi á það fallist að tilvik kæranda hefði borið að með þeim hætti að ómögulegt eða illgerlegt hefði verið að sjá svo um að tilskilin greiðsla yrði innt af hendi innan settra tímamarka. Eindagi í staðgreiðslu væri 15. hvers mánaðar, en eftir eindaga birtist krafa í heimabanka og væri hún þá með álögðum kostnaði. Kærandi teldist því ekki hafa fært fram gildar ástæður sér til afsökunar, sbr. 6. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987. Var beiðni kæranda um niðurfellingu álags vegna skila á staðgreiðslu fyrir greiðslutímabilin mars, apríl og maí 2021 því hafnað.

III.

Í kafla I hér að framan er greint frá kröfugerð kæranda í kæru til yfirskattanefndar, dags. 26. ágúst 2021. Í kærunni eru málavextir raktir. Krafa kæranda um niðurfellingu álags er byggð á 6. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987. Í kærunni er vísað til þess að kærandi hafi ávallt staðið skil á greiðslum skatta og gjalda til tollstjóra og reki ekki minni til þess að greiðslufall hafi orðið hjá félaginu. Fjárhæð álags auk dráttarvaxta sé svo há að hún skipti kæranda verulegu máli. Um sé að ræða refsikennt álag og beri því að horfa til réttlætingarástæðna. Sé augljóst að engin sjónarmið sem almennt búi að baki refsiheimildum eigi við. Kærandi hafi ávallt staðið skil á sköttum og óvenjulegar ástæður séu einar þess valdandi að greiðsla hafi misfarist. Kærandi hafi því fært gildar og fullnægjandi ástæður sér til afsökunar fyrir greiðslufalli. Kærandi hafi gert greiðslusamkomulag við ríkisskattstjóra 13. janúar 2021, þ.e. áður en eindagi á frestuðum greiðslum staðgreiðslu og tryggingagjalds á tímabilinu mars-maí 2020 rann út þann 15. janúar sama ár. Kærandi hafi staðið við allar greiðslur samkvæmt samkomulaginu. Við undirritun samkomulagsins hafi kæranda verið tjáð að við greiðslur bættust 11% vextir, en félagið ekki verið upplýst um aðrar greiðslur eða viðurlög. Þegar leiðréttingarskýrsla virðisaukaskatts kæranda vegna ársins 2020 hafi verið afgreidd hafi kæranda verið ákvarðað álag á vangreidda staðgreiðslu að fjárhæð um 4 milljónir króna og sú fjárhæð verið dregin frá inneign samkvæmt skýrslunni. Rík leiðbeiningarskylda hvíli á stjórnvöldum og hafi ríkisskattstjóra verið í lófa lagið að upplýsa kæranda um allan kostnað við greiðslusamkomulagið. Við ákvarðanir sínar þurfi stjórnvöld að fylgja almennri meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Þá beri að líta til markmiða þeirra aðgerða stjórnvalda sem ráðist hafi verið í vegna heimsfaraldursins, þ.e. að aðstoða alla þá launagreiðendur sem hafi átt í tímabundnum rekstrarörðugleikum vegna tekjufalls. Hafi ríkisskattstjóri sjálfur gengið enn lengra í því augnamiði og bjóði nú upp á jafna greiðsludreifingu til alls 48 mánaða, sbr. lög nr. 36/2021, í stað þriggja mánaða eins og kæranda hafi staðið til boða í janúar 2021. Í niðurlagi kærunnar er málskostnaðarkrafa kæranda áréttuð.

IV.

Með bréfi, dags. 12. október 2021, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu og krafist þess að úrskurður embættisins verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi, dags. 29. október 2021, hefur kærandi komið á framfæri athugasemdum vegna umsagnar ríkisskattstjóra og áréttað áður fram komin rök og sjónarmið félagsins í málinu.

V.

Samkvæmt 1. mgr. 20. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, skal launagreiðandi ótilkvaddur greiða mánaðarlega það fé sem hann hefur haldið eftir eða bar að halda eftir á greiðslutímabilum næstliðins mánaðar samkvæmt ákvæðum 15.-17. gr. laganna. Í 3. mgr. 20. gr. laga nr. 45/1987 er mælt svo fyrir að gjalddagi greiðslu samkvæmt 1. mgr. greinarinnar sé 1. hvers mánaðar og eindagi 14 dögum síðar. Þá er boðið að launagreiðandi skuli sæta álagi samkvæmt 28. gr. laganna hafi hann eigi greitt á eindaga. Í 28. gr. laga nr. 45/1987 er fjallað um álag á vanskilafé í staðgreiðslu og beitingu þess. Í 1. mgr. greinarinnar er tekið fram að séu greiðslur launagreiðanda samkvæmt 20. gr. ekki inntar af hendi á tilskildum tíma skuli hann sæta álagi til viðbótar upphæð skilafjárins, eða til viðbótar því skilafé sem honum bar að standa skil á. Sama gildi ef skilagrein hefur ekki verið skilað eða henni verið ábótavant og greiðsluskyld fjárhæð því verið áætluð, sbr. 21. gr., nema launagreiðandi hafi greitt fyrir eindaga upphæð er svarar til áætlunar. Í 2. mgr. 28. gr. eru síðan ákvæði um álag á vanskilafé. Samkvæmt 6. mgr. greinarinnar má fella niður álag samkvæmt 2. mgr. ef launagreiðandi færir gildar ástæður sér til afsökunar og metur ríkisskattstjóri það í hverju einstöku tilviki hvað telja skuli gildar ástæður í þessu sambandi.

Með lögum nr. 25/2020, um breytingu á ýmsum lögum til að mæta efnahagslegum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru, var nýju ákvæði til bráðabirgða, sem varð ákvæði til bráðabirgða VII, bætt við lög nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda, sbr. 2. gr. laga nr. 25/2020. Í 1. mgr. bráðabirgðaákvæðisins kemur fram að þrátt fyrir ákvæði 20. gr. laga nr. 45/1987 sé launagreiðendum, sem eiga við verulega rekstrarörðugleika að stríða á árinu 2020 vegna skyndilegs og ófyrirséðs tekjufalls sem leiðir af almennum samdrætti innan lands og á heimsvísu, heimilt að sækja um frestun á skilum á allt að þremur greiðslum af afdreginni staðgreiðslu af launum samkvæmt 1. og 2. tölul. 5. gr., sem séu á gjalddaga 1. apríl 2020 til og með 1. desember 2020. Gjalddagi og eindagi þeirra greiðslna sem frestað sé að uppfylltum skilyrðum þessa ákvæðis sé 15. janúar 2021. Í ákvæðinu er nánar fjallað um skilyrði slíkrar frestunar og tekið fram að umsókn launagreiðanda um frestun skuli hafa borist í síðasta lagi á eindaga viðkomandi greiðslutímabils samkvæmt 20. gr. laga nr. 45/1987, sbr. 2.-4. mgr. ákvæðisins. Kemur m.a. fram í 4. mgr. að almenn afgreiðsla á greiðslufrestun sæti síðari endurskoðun og feli því ekki í sér staðfestingu á því að skilyrði hennar hafi á afgreiðsludegi verið uppfyllt. Leiði síðari skoðun í ljós að skilyrði frestunar hafi ekki verið til staðar skuli launagreiðandi sæta álagi til viðbótar upphæð skilafjárins samkvæmt 28. gr. í samræmi við upphaflega gjalddaga og eindaga hvers greiðslutímabils sem greiðslu var frestað fyrir, sbr. 5. mgr. bráðabirgðaákvæðis VII. Þá kemur fram í 6. mgr. ákvæðisins að verði launagreiðandi sem frestað hefur greiðslum til eindaga 15. janúar 2021 samkvæmt 1. mgr. fyrir miklu tekjufalli á rekstrarárinu 2020 samanborið við fyrra rekstrarár geti hann óskað eftir auknum fresti og dreifingu þessara greiðslna fram til 15. dags mánaðanna júní, júlí og ágúst 2021. Ósk um aukinn frest og greiðsludreifingu skuli launagreiðandinn beina til Skattsins fyrir 15. janúar 2021, sem við afgreiðslu umsóknar skuli m.a. líta til virðisaukaskattsskila umsækjanda á árinu 2020 og umfangs starfseminnar að öðru leyti.

Samkvæmt því sem fram kemur í gögnum málsins óskaði kærandi í apríl 2020 eftir frestun á greiðslu staðgreiðslu af launum vegna greiðslutímabilanna mars, apríl og maí 2020 á grundvelli bráðabirgðaákvæðis VII í lögum nr. 45/1987, sbr. 2. gr. laga nr. 25/2020. Er rakið í kæru að fyrir eindaga greiðslunnar 15. janúar 2021 hafi kærandi óskað eftir auknum fresti og dreifingu greiðslna og hafi verið fallist á þá umleitan með gerð samkomulags 13. janúar 2021, sbr. „greiðsluáætlun“, dags. þann dag, sem er meðal gagna málsins. Í áætlun þessari kemur fram að hún taki til greiðslna að fjárhæð alls 50.794.523 kr. sem inna beri af hendi 1. febrúar, 1. mars, 1. apríl, 1. maí, 1. júní og 1. júlí 2021 með greiðslu á 4.000.000 kr. í hvert sinn og lokagreiðslu að fjárhæð 26.794.523 kr. þann 1. ágúst 2021. Í kæru kemur fram að í kjölfar afgreiðslu ríkisskattstjóra á leiðréttingarskýrslu virðisaukaskatts kæranda fyrir árið 2020 hafi komið í ljós að kæranda hefði verið ákvarðað álag samkvæmt 28. gr. laga nr. 45/1987 á staðgreiðslu vegna þeirra greiðslutímabila sem um ræðir. Hafi fjárhæð álagsins numið 4.035.962 kr. og inneign virðisaukaskatts samkvæmt leiðréttingarskýrslu verið skuldajafnað á móti álaginu.

Leggja verður til grundvallar samkvæmt því sem hér að framan greinir og gögnum málsins að öðru leyti að umsókn kæranda um frestun á staðgreiðslu vegna mars, apríl og maí 2020 á grundvelli bráðabirgðaákvæðis VII í lögum nr. 45/1987 hafi ekki verið hafnað af hálfu ríkisskattstjóra við almenna afgreiðslu umsóknarinnar og ekki sætt endurskoðun síðar, enda hefur ekkert komið fram þess efnis í málinu. Um afdrif þess erindis sem kærandi mun hafa borið upp við ríkisskattstjóra í ársbyrjun 2021 er óljósara, enda er ekkert að því vikið hvorki í úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 15. júní 2021, né í umsögn embættisins í málinu. Í hinum kærða úrskurði er raunar ekkert vikið að málsatvikum að þessu leyti heldur alfarið látið sitja við að taka orðrétt upp hluta erindis kæranda frá 18. maí 2021 án nokkurrar sjálfstæðrar umfjöllunar. Þá hefur rökstuðningur úrskurðarins einungis að geyma umfjöllun á almennum nótum um niðurfellingarheimild 6. mgr. 28. gr. laga nr. 45/1987 án þess að neitt sé hugað að fyrrgreindum bráðabirgðaákvæðum VII sömu laga og þýðingu þeirra fyrir beitingu álags í tilviki kæranda, m.a. með tilliti til upphafsdags álags og fjárhæðar þess, sbr. 5. og 6. mgr. bráðabirgðaákvæðisins. Verður því ekki talið að rökstuðningur úrskurðarins uppfylli þær kröfur sem fram koma í 1. og 2. mgr. 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 þar sem greinir að í rökstuðningi skuli vísa til þeirra réttarreglna sem ákvörðun stjórnvalds sé byggð á og rekja upplýsingar um þau málsatvik sem höfðu verulega þýðingu við úrlausn málsins.

Vegna fyrrgreindra annmarka á rökstuðningi hins kærða úrskurðar ríkisskattstjóra, sem telja verður verulega eins og atvikum er háttað, og að virtum fram komnum skýringum kæranda þykir bera að taka kröfu kæranda um niðurfellingu álags til greina. Ríkisskattstjóri annast um gjaldabreytingar sem leiða af framangreindri niðurstöðu, sbr. 18. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 8. gr. laga nr. 123/2014, um breyting á þeim lögum, og 1. gr. reglugerðar nr. 1146/2014, um gjaldabreytingar á grundvelli laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd.

Af hálfu kæranda er gerð krafa um að félaginu verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998 og 6. gr. laga nr. 69/2021, um breyting á þeim lögum. Í ákvæði þessu kemur fram að falli úrskurður yfirskattanefndar skattaðila í hag, að hluta eða öllu leyti, geti yfirskattanefnd úrskurðað greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði, að hluta eða öllu leyti, enda hafi skattaðili haft uppi slíka kröfu við meðferð málsins, um sé að ræða kostnað sem eðlilegt var að hann stofnaði til vegna meðferðar málsins og ósanngjarnt væri að hann bæri þann kostnað sjálfur. Af hálfu kæranda hafa engin gögn verið lögð fram um útlagðan kostnað félagsins af meðferð málsins þrátt fyrir ábendingu þar að lútandi í bréfi yfirskattanefndar, dags. 31. ágúst 2021, þar sem móttaka kærunnar var staðfest. Með vísan til framanritaðs, sbr. og starfsreglur yfirskattanefndar um ákvörðun málskostnaðar frá 21. nóvember 2014, er málskostnaðarkröfu kæranda hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Hið kærða álag fellur niður. Málskostnaðarkröfu kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja