Úrskurður yfirskattanefndar

  • Bifreiðahlunnindi
  • Skattmat
  • Málsmeðferð

Úrskurður nr. 22/2022

Gjaldár 2017-2020

Lög nr. 90/2003, 7. gr. A-liður 1. tölul., 96. gr., 118. gr.   Lög nr. 37/1993, 10. gr.   Skattmat fyrir tekjuárin 2016-2019.  

Í máli þessu var ágreiningur um ákvörðun bifreiðahlunninda vegna afnota kæranda, sem var fyrirsvarsmaður X ehf. og eigandi alls hlutafjár í félaginu, af bifreið í eigu X ehf. Ekki var talið að kæranda hefði með framlagningu gagna um akstursskráningu tekist að sýna fram á að allur akstur bifreiðarinnar hefði verið í þágu X ehf. Þótti draga verulega úr þýðingu þeirrar skráningar að ekki hefðu verið lögð fram nein frekari gögn í málinu til staðfestingar á einstökum ferðum og tilefni þeirra. Taldi yfirskattanefnd að byggja yrði á því að kærandi hefði haft umráð bifreiðarinnar utan vinnutíma, enda hefði ekkert komið fram um að kærandi hefði verið bundinn sérstökum takmörkunum varðandi afnot bifreiðarinnar og ekki annað ráðið en að hann hefði sjálfur haft ákvörðunarvald um afnot sín af bifreiðinni í einstökum tilfellum. Var kröfum kæranda hafnað.

Ár 2022, mánudaginn 28. febrúar, er tekið fyrir mál nr. 169/2021; kæra A, dags. 23. september 2021, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárin 2017, 2018, 2019 og 2020. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 23. september 2021, sbr. rökstuðning í bréfi, dags. 6. október 2021, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 24. júní 2021, um endurákvörðun áður álagðra opinberra gjalda kæranda gjaldárin 2017, 2018, 2019 og 2020. Kæruefnið er sú ákvörðun ríkisskattstjóra samkvæmt úrskurðinum að færa kæranda til tekna skattskyld bifreiðahlunnindi að fjárhæð 1.965.600 kr. í skattframtali árið 2017, 2.177.280 kr. í skattframtali árið 2018, 1.959.552 kr. í skattframtali árið 2019 og 1.763.596 kr. í skattframtali árið 2020 vegna meintra ótakmarkaðra einkaafnota kæranda af bifreið af gerðinni Toyota Land Cruiser á árunum 2016 til og með 2019, en bifreið þessi var í eigu einkahlutafélags kæranda, X ehf. Bætti ríkisskattstjóri 25% álagi á hækkun skattstofna kæranda sem af breytingunum leiddi bæði gjaldárin, sbr. 2. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Af hálfu kæranda er þess krafist að hinn kærði úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi. Þá er gerð krafa um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum.

II.

Helstu málavextir eru þeir að á þeim tíma sem málið varðar var kærandi eigandi alls hlutafjár í X ehf. Þá var kærandi skráður stjórnarmaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi félagsins. Einkahlutafélagið var á árunum 2016 til og með 2019 eigandi bifreiðar af gerðinni Toyota Land Cruiser.

Með fyrirspurnarbréfi til X ehf., dags. 28. apríl 2020, sbr. 94. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, óskaði ríkisskattstjóri eftir skýringum og gögnum frá félaginu þar sem embættið væri með til skoðunar réttmæti reiknaðra bifreiðahlunninda, en félagið hefði ekki skilað neinum bifreiðahlunnindamiða vegna áranna 2014 til og með 2018 þrátt fyrir að hafa verið eigandi Toyota Land Cruiser bifreiðar. Í svarbréfi X ehf., dags. 2. júlí 2020, kom fram að félagið hefði svarað sams konar fyrirspurn ríkisskattstjóra varðandi sömu bifreið á árinu 2015 og að ekkert hefði breyst síðan þá. Bifreiðin hefði verið geymd fyrir utan vinnustaðinn og eingöngu verið nýtt í þágu rekstrarins. Sendi ríkisskattstjóri félaginu fyrirspurn að nýju með bréfi, dags. 22. september 2020, með því að annmarkar hefðu verið á fyrri fyrirspurn embættisins. Í bréfinu fór ríkisskattstjóri fram á að látnar yrðu í té upplýsingar um notkun á bifreið félagsins á árunum 2015, 2016, 2017 og 2018. Þyrftu að koma fram upplýsingar um það hverjir hefðu haft bifreiðina til umráða og hver þau umráð hefðu verið. Jafnframt óskaði ríkisskattstjóri eftir upplýsingum um það hvort félagið hefði lagt bann við einkaafnotum starfsmanna á téðri bifreið. Ef félagið hefði lagt bann við einkaafnotum starfsmanna væri óskað eftir upplýsingum um það hver hefði lagt bannið á og hvernig eftirliti hefði verið háttað. Bréfi þessu var ekki svarað af hálfu félagsins.

Með bréfi til kæranda, dags. 2. desember 2020, greindi ríkisskattstjóri frá því að svo virtist sem kærandi hefði haft sjálfdæmi um afnot bifreiðar X ehf. og yrði því ekki annað séð en að X ehf. hefði borið að reikna kæranda full bifreiðahlunnindi vegna umráðanna. Gerði ríkisskattstjóri grein fyrir útreikningi bifreiðahlunninda. Þá óskaði ríkisskattstjóri eftir upplýsingum um hvort kærandi hefði staðið straum af rekstrarkostnaði bifreiðarinnar og tók fram að hlunnindi myndu þá lækka um 6% af verði bifreiðarinnar.

Í svarbréfi kæranda, dags. 10. desember 2020, var fundið að framsetningu fyrirspurnarbréfs ríkisskattstjóra, en ríkisskattstjóri hefði fremur verið að lýsa skoðun sinni en spyrjast fyrir. Var ítrekað að engum einkaafnotum af bifreiðinni hefði verið fyrir að fara. Þörf væri á umtalsverðum akstri í rekstri X ehf. en bifreiðin hefði verið geymd á starfsstöð félagsins og væri það ófrávíkjanleg regla. Kærandi væri meðvitaður um þær reglur um notkun bifreiða sem ríkisskattstjóri hefði lýst í bréfi sínu og væri kæranda mikið í mun að fara eftir þeim. Með bréfinu fylgdi afrit af skjali úr töflureikni þar sem gerð var grein fyrir notkun bifreiðarinnar. Var tekið fram að gögnin væru í samræmi við þær kröfur sem gerðar hefðu verið í sambærilegum tilfellum. Var vísað til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 131/2014 í þessu sambandi.

Með bréfi, dags. 1. febrúar 2021, boðaði ríkisskattstjóri kæranda endurákvörðun opinberra gjalda gjaldárin 2017, 2018, 2019 og 2020, sbr. 4. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003, þar sem m.a. væri fyrirhugað að færa kæranda til tekna skattskyld bifreiðahlunnindi með tilteknum fjárhæðum í skattframtölum áranna 2017, 2018, 2019 og 2020, sbr. 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, vegna fullra umráða kæranda yfir bifreið X ehf. á árunum 2016 til og með 2019. Með bréfi, dags. 17. febrúar 2021, gerði kærandi athugasemdir við fyrirhugaða endurákvörðun ríkisskattstjóra. Í bréfinu var því m.a. haldið fram að málið byggði á röngum forsendum.  

Með bréfi, dags. 7. apríl 2020, afturkallaði ríkisskattstjóri fyrra boðunarbréf embættisins og boðaði kæranda endurákvörðun opinberra gjalda hans gjaldárin 2017, 2018, 2019 og 2020 að nýju. Í bréfinu kom fram að ekki yrði annað séð en að X ehf. hefði borið að reikna kæranda bifreiðahlunnindi að fjárhæð 1.965.600 kr. vegna ársins 2016, 2.177.280 kr. vegna ársins 2017, 1.959.552 kr. vegna ársins 2018 og 1.763.596 kr. vegna ársins 2019, vegna umráða kæranda yfir Toyota Land Cruiser bifreið félagsins. Engar athugasemdir voru gerðar af hálfu kæranda í tilefni af þessu bréfi ríkisskattstjóra.

Með úrskurði um endurákvörðun, dags. 24. júní 2021, hratt ríkisskattstjóri hinum boðuðu breytingum í framkvæmd, sbr. 5. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003. Í úrskurðinum gerði ríkisskattstjóri grein fyrir málavöxtum og lagagrundvelli málsins. Rakti ríkisskattstjóri í því sambandi ákvæði 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003 og reglur um skattmat vegna tekna manna tekjuárin 2016, 2017, 2018 og 2019, sbr. auglýsingar nr. 1202/2015, 1260/2016, 1162/2017 og 1141/2018 í B-deild Stjórnartíðinda. Í úrskurðinum gerði ríkisskattstjóri grein fyrir bifreiðaeign kæranda og fjölskyldu hans, en kærandi hefði verið eigandi að Toyota bifreið frá 14. ágúst 2013 til 30. janúar 2018 þegar dóttir hans hefði keypt bílinn af honum. Tók ríkisskattstjóri fram að framlögð akstursyfirlit væru ekki studd neinum gögnum. Þeim fylgdu ekki gögn er sýndu fram á réttmæti þess aksturs sem gerð hefði verið grein fyrir, s.s. afrit af eldsneytiskaupum félagsins á þeim tíma og á þeim stöðum sem getið væri um á yfirlitinu, t.a.m. í tilgreindum langferðum út á land. Þá hefði bifreiðinni ekkert verið ekið þess á milli samkvæmt yfirlitinu. Fylgdi ekki staðfesting á tilefni einstakra ferða eins og þeim væri lýst í yfirlitinu eða notkunarleysi bifreiðarinnar. Þætti trúverðugleiki þess því ekki vera það mikill að það útilokaði akstur kæranda í eigin þágu. Þá hefði kærandi ekki sýnt fram á að hann hefði verið bundinn einhverjum takmörkunum varðandi afnot bifreiðarinnar utan vinnutíma en ekki yrði annað ráðið en að kærandi hefði sjálfur haft ákvörðunarvald um afnot bifreiðarinnar í einstökum tilvikum sem eigandi og stjórnarformaður félagsins. Færði ríkisskattstjóri kæranda því til tekna skattskyld bifreiðahlunnindi að fjárhæð 1.965.600 kr. gjaldárið 2017, 2.177.280 kr. gjaldárið 2018, 1.959.552 kr. gjaldárið 2019 og 1.763.596 kr. gjaldárið 2020, sbr. 1. mgr. 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003.

III.

Í kafla I hér að framan er greint frá kröfugerð í kæru til yfirskattanefndar, dags. 10. september 2021, sbr. rökstuðning í bréfi, dags. 6. október 2021. Í kærunni eru málavextir raktir. Þá eru gerðar athugasemdir við fyrirspurnarbréf ríkisskattstjóra frá 2. desember 2020. Í bréfinu hafi ríkisskattstjóri í löngu máli gert grein fyrir þeim reglum sem gildi um bifreiðahlunnindi og afstöðu embættisins til ætlaðra bifreiðahlunninda kæranda og skattlagningar þeirra. Hafi þetta verið gert án þess að séð yrði að verið væri sérstaklega að biðja kæranda um einhver gögn eða að raunverulega væri verið að óska einhvers rökstuðnings af hálfu kæranda. Þrátt fyrir þetta hafi kærandi sent ríkisskattstjóra akstursskýrslur er sýni nákvæmlega alla notkun bifreiðarinnar sem og tilefni ferða. Verði bréf ríkisskattstjóra því ekki skilið á annan veg en að ríkisskattstjóri hafi verið að lýsa því sem embættið hefði í hyggju fremur en að verið væri að afla gagna og rannsaka málið. Þá hafi framlögðum akstursskýrslum verið hafnað sem ótrúverðugum þar sem hin og þessi gögn hafi ekki fylgt. Þyki kæranda þessi afgreiðsla ríkisskattstjóra vægast sagt undarleg, þ.e. að byggja á því að ekki hafi verið lögð fram gögn sem ríkisskattstjóri hafi ekki óskað eftir að yrðu lögð fram. Ekki hafi verið ástæða til að svara fyrirspurnarbréfi ríkisskattstjóra, enda hafi rök kæranda legið fyrir í andmælabréfi frá 17. febrúar 2021 og ekki hafi verið kallað eftir frekari gögnum af hálfu ríkisskattstjóra í fyrirspurnarbréfinu. Hafi afstaða ríkisskattstjóra legið fyrir frá upphafi og málið ekki rannsakað eins og lög geri ráð fyrir, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þegar af þessari ástæðu beri að fella úrskurð ríkisskattstjóra úr gildi.

Að öðru leyti byggir kærandi á því að engum einkaafnotum hafi verið fyrir að fara af bifreiðinni og því engin skattskyld hlunnindi til staðar. Lagðar hafi verið fram akstursskýrslur sem sýni akstur bifreiðarinnar. Þá hafi geymslustaður bifreiðarinnar verið á starfsstöð félagsins sem sé ekki sami staður og heimili kæranda. Gerð hafi verið grein fyrir öllum akstri bifreiðarinnar sem hafi án undantekninga verið í þágu félagsins, en kærandi hafi verið meðvitaður um að sérhver einkaafnot myndu leiða til þess að honum yrðu reiknuð full hlunnindi. Afstaða ríkisskattstjóra sé hins vegar sú að afnot skipti ekki máli þannig að eigi félag fólks- eða jeppabifreið sem líkleg og heppileg sé til einkanota beri að reikna hlunnindi séu stjórnunar- og eignatengsl með ákveðnum hætti. Slík afstaða eigi sér þó ekki stoð í reglum um bifreiðahlunnindi. Þá geri ríkisskattstjóri lítið úr framlögðum gögnum og byggi afstöðu sína um ótrúverðugleika þeirra á ósvaraverðum dylgjum um bifreiða- og hjólhýsaeign að öðru leyti þrátt fyrir að sérstaklega hafi verið tekið fram í úrskurði yfirskattanefndar nr. 131/2014 að bifreiðaeign kæranda málsins hefði ekki þýðingu við úrslausn þess. Engin tilraun sé gerð til að skoða málið eins og það liggi raunverulega fyrir. Telur kærandi að í afstöðu ríkisskattstjóra felist hroki og að ekki sé hægt að treysta ríkisskattstjóra þegar að skattamálum komi.

Í kærunni er því næst vikið að nauðsyn þess að matsreglur ríkisskattstjóra um hlunnindi séu skýrar. Telur kærandi að ekki beri að leggja sama skilning í texta skattmatsreglna ríkisskattstjóra og embættið geri sjálft, en ríkisskattstjóri virðist leggja upp úr einhverjum óskrifuðum reglum og túlkun þeirra þvert á texta skattmatsreglnanna. Þá sé hvergi vikið að því hvaða gögn teljist viðeigandi við sönnunarfærslu þess að ekki hafi verið um einkaafnot að ræða. Hingað til hafi verið nægilegt að leggja fram akstursskýrslur með skýringum um tilefni ferða. Vísar kærandi til úrskurðar yfirskattanefndar nr. 131/2014 í þessu sambandi. Ríkisskattstjóri hafi hins vegar ekki vikið að þessu. Þá sé ljóst að uppfylla þurfi tvö skilyrði samkvæmt skattmatsreglunum, þ.e. að viðkomandi þurfi að hafa full og ótakmörkuð umráð yfir bifreið og að hún sé látin í té til einkanota. Ekki nægi að annað skilyrðið sé uppfyllt en ríkisskattstjóri rugli saman umráðum og einkanotum í málflutningi sínum. Kærandi hafi ekki haft umrædda bifreið til einkanota og því ekki skilyrði til skattlagningar í málinu. Er tekið fram að fyrir liggi akstursskýrslur og að kílómetrastaða bifreiðarinnar stemmi við opinbera skráningu hennar hjá ökutækjaskrá.

Í niðurlagi kærunnar er gerð grein fyrir kostnaði kæranda af rekstri málsins fyrir yfirskattanefnd og tekið fram að reikningur verði sendur nefndinni þegar hann hafi verið gerður.

IV.

Með bréfi, dags. 12. nóvember 2021, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn sína í málinu og krafist þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafi ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefi tilefni til breytinga á ákvörðun ríkisskattstjóra.

Með bréfi, dags. 1. desember 2021, hefur kærandi komið á framfæri athugasemdum sínum vegna umsagnar ríkisskattstjóra og áréttað kröfur. Í bréfinu er farið fram á að yfirskattanefnd svari til um ákveðið misræmi og skort á leiðbeiningum sem umboðsmaður kæranda telur vera í málum af þessu tagi. Bendir umboðsmaður kæranda í þessu sambandi á úrskurð yfirskattanefndar nr. 160/2021, sem kveðinn hafi verið upp eftir að umboðsmaður kæranda sendi kæru í máli kæranda til yfirskattanefndar, og úrskurð yfirskattanefndar nr. 131/2014, en umboðsmaður kæranda telur ákveðið misræmi vera í þeim kröfum sem gerðar séu í úrskurðum þessum, svo sem umboðsmaður kæranda rekur nánar í bréfinu.

V.

Kæra í máli þessu varðar skattlagningu bifreiðahlunninda kæranda gjaldárin 2017, 2018, 2019 og 2020 vegna ætlaðra einkanota hans af bifreið af gerðinni Toyota Land Cruiser, en bifreið þessi var í eigu félags kæranda, X ehf., á greindum árum. Fram er komið í málinu að kærandi var á þeim tíma er málið varðar eini hluthafi og framkvæmdastjóri félagsins. Kærandi tilfærði ekki skattskyld bifreiðahlunnindi vegna bifreiðarinnar í skattframtölum sínum þau ár sem málið tekur til, enda var og er viðhorf kæranda að engum einkaafnotum af bifreiðinni hafi verið fyrir að fara. Með hinum kærða úrskurði færði ríkisskattstjóri kæranda til tekna í skattframtölum hans árin 2017, 2018, 2019 og 2020 skattskyld bifreiðahlunnindi að fjárhæð 1.965.600 kr. fyrsta árið, 2.177.280 kr. annað árið, 1.959.552 kr. þriðja árið og 1.763.596 kr. fjórða árið á þeim grundvelli að kærandi hefði haft full og ótakmörkuð umráð yfir bifreiðinni á greindum tíma, sbr. reglur ríkisskattstjóra um skattmat vegna tekna manna tekjuárin 2016, 2017, 2018 og 2019, sem ríkisskattstjóri vísaði til. Af hálfu kæranda er þess krafist að úrskurður ríkisskattstjóra verði felldur úr gildi, enda hafi umrædd bifreið alfarið verið notuð í þágu rekstrar X ehf. og ekki staðið kæranda til einkanota að neinu leyti.

Í 1. tölul. A-liðar 7. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt, er mælt fyrir um skattskyldu endurgjalds fyrir hvers konar vinnu, starf eða þjónustu, sem innt er af hendi fyrir annan aðila. Eru í ákvæðinu nefnd í dæmaskyni ýmis konar laun svo og „fatnaður, fæði, húsnæði, risnufé, verkfærapeningar, ökutækjastyrkir, flutningspeningar og aðrar hliðstæðar greiðslur, fríðindi og hlunnindi, svo og framlög og gjafir sem sýnilega eru gefnar sem kaupauki“. Tekið er fram að hvorki skipti máli „hver tekur við greiðslu né í hvaða gjaldmiðli goldið er, hvort sem það er í reiðufé, fríðu, hlunnindum eða vinnuskiptum“. Samkvæmt þessu teljast ekki einungis beinar fjárgreiðslur til skattskyldra tekna sem laun fyrir vinnu, heldur einnig hvers konar fríðindi eða hlunnindi sem launamenn njóta í starfi. Undir skattskyld hlunnindi launamanna samkvæmt ákvæði þessu falla endurgjaldslaus afnot launamanns af bifreið í eigu atvinnurekanda, svonefnd bifreiðahlunnindi. Af eðli hlunninda leiðir að meta verður þau til verðs. Samkvæmt 118. gr. laga nr. 90/2003, sbr. 21. gr. laga nr. 128/2009, skal ríkisskattstjóri, að fenginni staðfestingu ráðherra, gefa út reglur um mat á hlunnindum, sbr. 7. gr. laga nr. 90/2003, og öðrum tekjum og frádrætti sem meta þarf til verðs samkvæmt lögunum. Um útgáfu ríkisskattstjóra á matsreglum samkvæmt áðurgildandi ákvæði 116. gr. laga nr. 75/1981 er fjallað m.a. í úrskurði yfirskattanefndar nr. 664/1997 og vísast í þann úrskurð um almenn atriði um ákvörðun bifreiðahlunninda. Kveðið er á um mat bifreiðahlunninda í lið 2.3 í reglum ríkisskattstjóra um skattmat vegna tekna manna tekjuárin 2016, 2017, 2018 og 2019, sbr. reglur nr. 1202/2015, 1260/2016, 1162/2017 og 1141/2018 sem birtar voru í B-deild Stjórnartíðinda.

Með bréfi til X ehf., dags. 28. apríl 2020, fór ríkisskattsstjóri m.a. fram á skýringar og gögn varðandi notkun bifreiðar félagsins á árunum 2016, 2017, 2018 og 2019, sbr. 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003. Í svarbréfi félagsins, dags. 2. júlí 2020, var vísað til þess að félaginu hefði borist sams konar fyrirspurn um bifreiðina vegna ársins 2015 sem hefði verið svarað. Ritaði ríkisskattstjóri félaginu annað bréf, dags. 22. september 2020, þar sem óskað var upplýsinga um notkun umræddrar bifreiðar, en því bréfi var ekki svarað af hálfu kæranda. Í bréfi til kæranda, dags. 2. desember 2020, gerði ríkisskattstjóri grein fyrir reglum um bifreiðahlunnindi og sýn embættisins á mál kæranda, þ.e. að ekki yrði annað séð en að kærandi hefði haft sjálfdæmi um afnot bifreiðar X ehf. og því bæri að reikna kæranda full bifreiðahlunnindi vegna umráða yfir henni. Var bréfi þessu svarað með bréfi umboðsmanns kæranda, dags. 10. desember 2020.

Taka má að nokkru leyti undir athugasemdir kæranda varðandi framsetningu bréfs ríkisskattstjóra til kæranda, dags. 2. desember 2020, en bréfið ber þess fremur keim að vera boðunarbréf þar sem kæranda er tilkynnt um fyrirhugaðar breytingar á opinberum gjöldum hans en að vera fyrirspurnarbréf, svo sem yfirskrift bréfsins gefur til kynna. Tekið skal fram að í niðurlagi bréfsins er þó óskað eftir upplýsingum frá kæranda um hvort hann hafi staðið straum af rekstrarkostnaði bifreiðarinnar sem hefði áhrif á ákvörðun bifreiðahlunninda. Þrátt fyrir að þessi bragur sé á bréfinu verður ekki talið að ríkisskattstjóri hafi í bréfi þessu með óyggjandi hætti látið í ljós endanlega afstöðu sína til álitaefnisins, enda er tekið fram að ekki hafi verið lögð fram gögn í málinu um að akstur bifreiðarinnar hefði að öllu leyti verið í þágu félagsins. Verður að ætla að kæranda, sem eina eiganda, fyrirsvarsmanni og starfsmanni X ehf., og þar með talið móttakanda bréfa ríkisskattstjóra til félagsins, hafi af þessu mátt vera ljóst hvernig í pottinn var búið, en kæranda voru í framhaldi af þessu send tvö boðunarbréf (þar sem hið fyrra var síðar afturkallað) þar sem kæranda var gefinn kostur á að koma að frekari skýringum og gögnum áður en ákvörðun yrði tekin í málinu. Samkvæmt þessu verður ekki talið að ríkisskattstjóri hafi vanrækt rannsóknarskyldu í máli kæranda, sbr. ákvæði 1. mgr. 96. gr. laga nr. 90/2003 og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, eða að kæranda hafi með þessu móti verið torveldað að nýta lögbundinn andmælarétt sinn. Er kröfu um ómerkingu úrskurðarins af þessum sökum því hafnað.

Kærandi er eini eigandi og fyrirsvarsmaður X ehf. Að því athuguðu og þar sem engar upplýsingar hafa komið fram um annað verður að byggja á því að bifreið félagsins hafi verið í umsjá kæranda sjálfs á þeim árum sem málið tekur til. Við slíkar aðstæður þykir verða að gera nokkuð ríkar kröfur til þess að kærandi leiði í ljós með gögnum, t.d. varðandi nýtingu bifreiðar í þágu rekstrar, eða sýni skýrlega fram á með öðrum hætti að hann hafi ekki þau umráð yfir bifreið launagreiðanda að þau verði metin honum til skattskyldra tekna eftir reglum um bifreiðahlunnindi miðað við full umráð. Tekið skal fram að miðað við aðstæður í málinu veltur úrlausn þess á því hvort eigin notum kæranda af umræddri bifreið hafi verið fyrir að fara, enda ber að ákvarða bifreiðahlunnindi miðað við ótakmörkuð afnot, þ.e. full umráð, verði niðurstaðan sú, sbr. fyrrgreindar skattmatsreglur.

Til stuðnings þeirri staðhæfingu sinni að bifreiðin hafi alfarið verið notuð í þágu rekstrar X ehf. hefur kærandi vísað til skráningar í akstursskýrslum þar sem færður hafi verið akstur í þágu félagsins. Auk ekinna kílómetra er í skýrslum þessum tiltekið hvert var ekið, eins og t.d. „Y-bær.-Rvík.-Y-bær.“, og tilefni aksturs. Eru skýringar á aksturstilefnum þó oftar en ekki með almennum hætti, svo sem „Hitta á B“, „Skoða báta og hitta á menn“, „Kvótasala“, „P-Kvótahugleiðingar“ og „Sýslum.“, eða með tilvísun til tiltekins númers (skipa) eins og „Skoða ...“, „Verðmat ...“, „Söluskoðun ...“ og „Kaups. Kvóti af ...“. Eru jafnan tilgreindar nokkrar færslur í mánuði sem eru flestar akstur milli landshluta, en einnig má finna í yfirlitinu ferðir á Suðurnesjum. Suma mánuði er um óverulegan akstur að ræða, t.d. í mars, apríl og ágúst 2018 og apríl 2019. Taka verður undir með ríkisskattstjóra að það dregur verulega úr þýðingu þessarar akstursskráningar kæranda að hann hefur ekki lagt fram nein frekari gögn í málinu til staðfestingar á einstökum ferðum og tilefni þeirra. Eins og rakið er í kafla II hér að framan taldi ríkisskattstjóri þá staðreynd draga úr trúverðugleika akstursskráningar kæranda, sbr. boðunarbréf embættisins, dags. 7. apríl 2021. Verður að telja að vefenging ríkisskattstjóra hafi gefið kæranda ærið tilefni til framlagningar frekari gagna um aksturinn og einstök aksturstilefni, en í boðunarbréfi ríkisskattstjóra var í því sambandi sérstaklega bent á gögn um eldsneytiskaup vegna bifreiðarinnar og gögn um rekstrarleg tilefni, svo sem tölvupósta. Gat ríkisskattstjóri þess að notkunarleysi bifreiðarinnar á tilgreindum tímabilum samkvæmt akstursskýrslum mætti styðja gögnum um eldsneytiskaup. Miðað við fram komnar skýringar kæranda á mikilli notkun bifreiðarinnar í þágu X ehf., sem út af fyrir sig er ekki ástæða til að draga í efa, verður að ætla að kæranda séu tiltæk slík gögn til stuðnings fram komnum skýringum. Að framangreindu virtu verður ekki talið að kæranda hafi tekist með framlagðri akstursskýrslu að sýna fram á að allur akstur bifreiðarinnar hafi verið í þágu einkahlutafélagsins.

Vegna athugasemda í bréfi kæranda til yfirskattanefndar, dags. 1. desember 2021, þar sem sérstaklega er vikið að úrskurði yfirskattanefndar nr. 160/2021 og sá úrskurður borinn saman við úrskurð nefndarinnar nr. 131/2014, en bæði málin lutu að ákvörðun bifreiðahlunninda og hvort sýnt hefði verið fram á að allur akstur viðkomandi bifreiða hefði verið í þágu launagreiðanda, skal tekið fram að ekki er unnt að fallast á með kæranda að mismunandi kröfur séu gerðar til sönnunarfærslu í úrskurðum þessum. Þvert á móti verður ekki annað séð en að samræmis gæti að því leyti í úrskurðunum, en ávallt hlýtur að ráðast að nokkru af atvikum hverju sinni hvaða kröfur verði gerðar til framlagningar gagna af hendi gjaldenda, svo sem úrskurðirnir þykja raunar bera með sér. Í báðum tilvikum var um að ræða eigendur og fyrirsvarsmenn viðkomandi félaga sem sjálfir voru taldir hafa ákvörðunarvald um afnot sín af bifreiðum félaganna í einstökum tilfellum.

Hvað sem líður skýringum kæranda á notkun bifreiðar X ehf. í þágu félagsins verður samkvæmt framansögðu byggt á því að kærandi hafi haft umráð bifreiðarinnar utan vinnutíma, enda hefur ekkert komið fram um að kærandi hafi verið bundinn sérstökum takmörkunum varðandi afnot af bifreiðinni utan vinnutíma og ekki verður annað ráðið en að í raun hafi kærandi sjálfur haft ákvörðunarvald um afnot sín af bifreiðinni í einstökum tilfellum. Að því leyti sem kærandi byggir á því að notkun bifreiðarinnar skipti máli en ekki umráðin sem slík skal vísað til dóms Hæstaréttar Íslands frá 10. febrúar 2000 í málinu nr. 356/1999, sbr. ennfremur dóm réttarins frá 24. september 2015 í málinu nr. 49/2015, en í hinum fyrrnefnda dómi er m.a. tekið fram að með skattlagningu bifreiðahlunninda launamanns, sem talinn er njóta ótakmarkaðra afnota af bifreið, sé verið að skattleggja umráðin sem slík og skipti ekki máli í því sambandi hversu mikið launþeginn nýtir sér umráðaréttinn. Þá er sérstaklega tekið fram í lið 2.3 í fyrrgreindum skattmatsreglum ríkisskattstjóra fyrir greind tekjuár að meta skuli full og ótakmörkuð umráð starfsmanns af bifreið launagreiðanda til tekna án tillits til notkunar hans á bifreiðinni.

Samkvæmt framansögðu verður niðurstaðan sú, að virtum aðstæðum og atvikum að öðru leyti, að miðað verður við að kærandi hafi haft umráð bifreiðar X ehf. utan vinnutíma á árunum 2016, 2017, 2018 og 2019. Í samræmi við þetta ber að ákvarða skattskyld bifreiðahlunnindi kæranda gjaldárin 2017, 2018, 2019 og 2020 vegna afnota af bifreiðinni í eigu félags kæranda, X ehf., eftir reglum um full og ótakmörkuð umráð í skilningi framangreindra skattmatsreglna. Með vísan til þess og þar sem enginn ágreiningur er um fjárhæð bifreiðahlunninda, sem leiðir af framangreindum reglum, er kröfu kæranda um niðurfellingu á hinum tekjufærðu bifreiðahlunnindum hafnað.

Kærandi hefur gert kröfu um að honum verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, sbr. 4. gr. laga nr. 96/1998, um breyting á þeim lögum. Samkvæmt úrslitum málsins eru ekki lagaskilyrði til að úrskurða kæranda málskostnað. Kröfu þess efnis er því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Kröfum kæranda í máli þessu er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja