Úrskurður yfirskattanefndar

  • Álag vegna síðbúinna framtalsskila

Úrskurður nr. 50/2024

Gjaldár 2022

Lög nr. 90/2003, 108. gr. 1. og 3. mgr.  

Krafa kæranda um niðurfellingu álags vegna síðbúinna framtalsskila var tekin til greina í máli þessu, en hin síðbúnu skil áttu rót sína að rekja til ágalla á nýju tölvukerfi félagsins og vandamála við innleiðingu þess.

Ár 2024, miðvikudaginn 3. apríl, er tekið fyrir mál nr. 23/2024; kæra A ehf., dags. 31. janúar 2024, vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 2022. Í málinu úrskurða Sverrir Örn Björnsson, Þórarinn Egill Þórarinsson og Bjarnveig Eiríksdóttir. Upp er kveðinn svofelldur

 

ú r s k u r ð u r :

I.

Með kæru, dags. 31. janúar 2024, hefur kærandi skotið til yfirskattanefndar úrskurði ríkisskattstjóra, dags. 31. október 2023, vegna skatterindis kæranda til embættisins 13. júní sama ár. Með úrskurðinum féllst ríkisskattstjóri á að leggja skattframtal kæranda árið 2022 til grundvallar álagningu opinberra gjalda gjaldárið 2022 í stað áætlunar að viðbættu 15% álagi á skattstofna vegna síðbúinna framtalsskila, sbr. heimild í 1. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt. Tók ríkisskattstjóri fram að skattframtalið hefði borist embættinu þann 13. júní 2023 og væri litið svo á að með innsendingu þess væri farið fram á að beitt yrði heimild 2. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003 til að byggja álagningu á framtalinu í stað áætlaðra skattstofna. Til stuðnings beitingu álags kom fram að ekki hefði verið sýnt fram á að 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003 ætti við í tilviki félagsins og væru framtalsskilin það síðbúin að efni stæðu ekki til annars en álagsbeitingar samkvæmt 1. mgr. ákvæðisins. Benti ríkisskattstjóri á að skattframtölum kæranda árin 2020 og 2021 hefði verið skilað það seint að áætla hefði þurft skattstofna. Yrði álag á tekjuskattsstofn félagsins því 2.626.542 kr. í skattframtali árið 2022.

Í kæru kæranda til yfirskattanefndar, dags. 31. janúar 2024, er þess krafist að álag á skattstofna samkvæmt skattframtali kæranda árið 2022 verði fellt niður. Þá er gerð krafa um að kæranda verði úrskurðaður málskostnaður til greiðslu úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum. Í kærunni er rakið að við innleiðingu nýs kassa- og fjárhagskerfis í verslanir, lager og vöruhús nokkurra dótturfélaga kæranda síðla árs 2021 hafi komið upp margvíslegar og alvarlegar villur sem leitt hafi til mikilla vandræða í rekstri félaganna, svo sem nánar er tíundað. Hafi innleiðing kerfisins því dregist á langinn og sífelldir hnökrar haft mikil áhrif á starfsemi samstæðunnar. Sá aðili sem leitað hafi verið til upphaflega hafi ekki fyllilega ráðið við verkefnið og síðar hafi komið í ljós að kassakerfið sjálft hafi verið gallað. Hafi reynst nauðsynlegt að leita aðstoðar annarra ráðgjafar- og þjónustufyrirtækja á sviði upplýsingatækni og það hafi ekki verið fyrr en um vorið 2023 sem loks hafi verið búið að greina vandann og komast fyrir áframhaldandi villur í kerfinu. Enn sé þó unnið að leiðréttingu villna og gagna frá eldri árum. Um miðjan júlí hafi verið lögð mikil áhersla á það innan samstæðu kæranda að ljúka vinnu við uppgjör vegna skattskila og ársreiknings, en ekki hafi tekist að ljúka henni fyrir lok júlí 2022 þannig að unnt væri að standa skil á skattframtali innan framtalsfrests. Málið allt hafi haft í för með sér mikið fjárhagslegt tjón fyrir kæranda, m.a. þar sem kostnaður við innleiðingu nýs kerfis hafi margfaldast. Þar sem alvarleg og óviðráðanleg atvik hafi þannig valdið hinum síðbúnu framtalsskilum kæranda, þ.e. alvarlegir ágallar á nýju tölvukerfi og innleiðingu þess, verði að telja skilyrði fyrir niðurfellingu 15% álags í tilviki kæranda. Umræddir ágallar hafi haft í för með sér að ógerlegt hafi verið að bóka bæði tekjur og kostnað í kerfinu þar sem villur í því hafi leitt til þess að upplýsingar hefðu reynst rangar. Er gerð nánari og ítarleg grein fyrir þessu í kærunni. Þá fylgja kærunni gögn, þar með talið afrit tölvupósta, samkomulags kæranda og þjónustuaðila um lok innleiðingar tölvukerfis, kreditreikningur, dags. 31. ágúst 2022, og bréf framkvæmdastjóra þjónustuaðila um innleiðingu viðskiptalausna hjá kæranda og dótturfélögum, dags. 26. janúar 2024.

II.

Með bréfi, dags. 15. febrúar 2024, hefur ríkisskattstjóri lagt fram umsögn í málinu. Í umsögninni kemur fram að í ljósi fram komins rökstuðnings í málinu þyki mega fallast á kröfu kæranda um niðurfellingu 15% álags vegna síðbúinna framtalsskila.

III.

Að virtum fram komnum skýringum og með vísan til umsagnar ríkisskattstjóra í málinu er krafa kæranda um niðurfellingu 15% álags tekin til greina, sbr. 3. mgr. 108. gr. laga nr. 90/2003, um tekjuskatt.

Af hálfu kæranda er gerð krafa um greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992, um yfirskattanefnd, með áorðnum breytingum. Í ákvæði þessu kemur fram að falli úrskurður yfirskattanefndar skattaðila í hag, að hluta eða öllu leyti, geti yfirskattanefnd úrskurðað greiðslu málskostnaðar úr ríkissjóði, að hluta eða öllu leyti, enda hafi skattaðili haft uppi slíka kröfu við meðferð málsins, um sé að ræða kostnað sem eðlilegt var að hann stofnaði til vegna meðferðar málsins og ósanngjarnt væri að hann bæri þann kostnað sjálfur. Ekki verður séð að krafa kæranda um niðurfellingu álags vegna síðbúinna framtalsskila hafi verið lögð fyrir ríkisskattstjóra við meðferð málsins hjá embættinu, en eins og fram er komið fól hinn kærði úrskurður í sér afgreiðslu ríkisskattstjóra á erindi kæranda um að síðbúið skattframtal félagsins árið 2022 yrði lagt til grundvallar álagningu í stað áætlunar, sbr. heimild þá sem ríkisskattstjóra er fengin í 2. mgr. 101. gr. laga nr. 90/2003. Eins og málið ber að og liggur fyrir samkvæmt þessu þykja ekki vera til staðar lagaskilyrði til að ákvarða kæranda málskostnað, sbr. fyrrgreint ákvæði 2. mgr. 8. gr. laga nr. 30/1992 og lið 3.7 í starfsreglum yfirskattanefndar um ákvörðun málskostnaðar frá 21. nóvember 2014 sem birtar eru á vef nefndarinnar. Kröfu þess efnis er því hafnað.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

Krafa kæranda um niðurfellingu 15% álags er tekin til greina. Málskostnaðarkröfu kæranda er hafnað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja